Friday, May 10, 2013

14. BOLTINN FARINN AÐ RÚLLA

Þá er 102. Íslandsmótið í fótbolta hafið og sparkunnendur landsins gleðjast af svo miklum innileik að eftir er tekið. Í gegnum tíðina hefur ýmislegt skemmtilegt (og reyndar einnig margt frekar leiðinlegt) gerst í tengslum við Íslandsmótið og reglulega gerast sögulegir atburðir í fótboltanum sem gleymast seint. Hvert skorað mark, hver einustu úrslit og hver mínúta verða öll sjálfkrafa að tölulegum staðreyndum sem seinna má síðan lesa úr heildarstöðuna hverju sinni. En hver sjálfstæður leikur hefur líka sinn sjarma. Í hverjum einasta fótboltaleik gerist eitthvað sem minnast má með öðrum hætti en í tölulegum staðreyndum og þær minningar gera fótboltann einmitt svo skemmtilegan, hvort sem um er að ræða fallegt mark, vafasaman vítaspyrnudóm eða einhverja óvænta uppákomu sem kryddar leikinn. Auðvitað eru líka til hundleiðinlegir leikir sem enginn nennir að ræða og þá dugar alveg að muna einungis eftir úrslitunum.

Best að rifja aðeins upp fáeinar staðreyndir um Íslandsmótið í knattspyrnu í tilefni dagsins.

Pétur Jón Hoffmann Magnússon úr Fram skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins þann 28. júní árið 1912 að viðstöddum um 500 áhorfendum. Til að átta sig á hversu langt er liðið frá þessum merkisatburði má benda á, fólki til viðmiðunar, að farþegaskipið Titanic sökk aðeins tveimur og hálfum mánuði áður! Litlum sögum fer af því með hvaða hætti markið var skorað, enda faglegir íþróttafréttamenn af frekar skornum skammti á þessum árum, en meira lagt upp úr því að lýsa búningum liðsmanna samkvæmt þeirra tíma heimildum.


Fyrsti erlendi leikmaðurinn til að spila á Íslandsmótinu í knattspyrnu var að öllum líkindum hinn norski (gat verið!) Helge Torvö sem lék með Akureyringum sumarið 1932. Þrátt fyrir þá staðreynd að Helge þessi hafi helst verið kunnur norðan heiða fyrir skíðakennslu þá bar hann af öðrum leikmönnum liðs síns.


Sumarið 1944 deildu fjórir leikmenn Íslandsmótsins með sér markakóngstitli tímabilsins. Það var í sjálfu sér ekki neitt sérstaklega í frásögu færandi nema fyrir þá staðreynd að þessir markahæstu menn skoruðu hvorki meira né minna en heil tvö mörk hver. Þrír þeirra léku með Val. Aðeins voru skoruð 16 mörk á mótinu þetta ár en reyndar hætti ÍR þátttöku eftir að hafa tapað sínum fyrsta leik gegn Fram með átta mörkum gegn engu. Þau mörk voru eðlilega ekki talin með.


Skagamenn urðu að hætta þátttöku á miðju Íslandsmóti, sumarið 1948, vegna þess að meirihluti leikmanna liðsins voru á síld! Leiða má líkum að því að liðsmenn hafi róið með kútter Haraldi en upp frá þessu varð Akranes að sjávarplássi og Kátir voru karlar varð að þjóðsöng Skagamanna. Þessi útúrdúr kom þó ekki í veg fyrir að þeir urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn árið 1951 og hófu þar með sitt fyrsta gullaldartímabil af nokkrum.


Og svo var nú það...