Thursday, July 11, 2013

16. N1-MÓTIÐ Á AKUREYRI

Vorum að koma af hinu margrómaða knattspyrnumóti KA á Akureyri, sem að öllu jöfnu er kallað N1-mótið af fagmönnum, en þar leiða saman hesta sína ungir fótboltakappar úr 5. flokki karla. Tumi var fulltrúi fjölskyldunnar á mótinu (enda sá eini okkar sem hefur til þess réttan aldur, hæfileika og þroska) og óhætt er að segja að kappinn hafi staðið sig vonum framar. Hann er nú á fyrra ári í 5. flokki Þróttar, hefur æft vel á undanförnum misserum og tekið miklum framförum á síðustu mánuðum.
 
Tumi spilaði með liði Þróttar númer 5 á mótinu en þeir enduðu að lokum í 6. sæti hinnar svokölluðu frönsku deildar, eftir mikla dramatík, en í þeirri deild voru 16 lið skráð til leiks og leikið í tveimur riðlum. Auk Tuma voru þeir Egill Jón, Sævar Þór, Björn Orri, Jónas Ingi, Högni Gunnar, Sveinn Búi, Tómas Gauti og Böðvar Eysteinn í liðinu en þeir Sævar og Sveinn Búi skiptust á að sinna markvarðastörfum liðsins á mótinu. Sveinn Búi var síðan fyrirliði liðsins.
 
 
Mótið hófst á miðvikudeginum 3. júlí og fyrsti leikur liðsins, gegn Fjölni, byrjaði eiginlega strax eftir að strákarnir voru búnir að koma sér fyrir í Lundarskóla þar sem þeir gistu.
 
 
Fyrirfram var vitað að Fjölnismenn yrðu erfiðir við að etja og það reyndar kom á daginn. Fjölnir unnu leikinn með tveimur mörkum gegn engu en miðað við gang hans hefðu úrslitin getað farið á hvorn veginn sem var. Það eina sem Fjölnir gerði betur í þessum leik var það að skora. Þróttur var einfaldlega óheppnir að þessu sinni en það eru víst mörkin sem gilda.
 
Seinni leikurinn, þennan fyrsta mótsdag, var síðan gegn Aftureldingu en í þeim leik sýndu Þróttarar hvað í þá var spunnið. Að þessu sinni var engin spurning um hverjir væri betri og leikurinn endaði með 6-1 sigri okkar manna. Þarna hafði mesta sviðsskrekknum greinilega verið hrist úr hópnum og ferðarykinu og stirðleikanum eftir bílferðina norður pakkað ofan í tösku í bili. Og að sjálfsögðu var vel fagnað eftir þennan sigur eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.


Böddi var atkvæðamestur Þróttara gegn Aftureldingu og var allt í öllu í framlínunni. Hann skoraði þrjú marka liðsins en auðvitað verð ég líka að geta þess að félagarnir Tumi og Björn Orri skoruðu sitt markið hvor. Hmmmm... og að sjálfsögðu voru þeir ákaflega glaðir og sælir með það eftir leikinn, eins og sjá má hér að neðan, en það er hins vegar erfitt að greina hvað Tómas er að upplifa þarna fyrir aftan þá.

 
Það lítur helst út fyrir að hann sé að kljást við erfiðan kálfakrampa, lífhimnustíflu eða jafnvel væga skoska háfjallaveiki :)

Fyrsti leikur fimmtudagsins hófst síðan stundvíslega klukkan tíu að staðartíma og að þessu sinni voru andstæðingarnir ættaðir frá Seltjarnarnesi, sem er eiginlega næstum því eyja rétt fyrir vestan Reykjavík! Hér fyrir neðan má sjá leikmenn liðanna ganga inn á völlinn fyrir leik.


Okkar strákar komust yfir í þessum leik og þar var sjálfur Egill Jón að verki  en hann var ekkert að tvínóna við verkið og skoraði stórglæsilegt mark í þverslána og inn. Egill var reyndar ansi hittinn á tréverkið á mótinu því að minnsta kosti tvisvar sinnum þrumaði hann boltanum í þverslána, hjá andstæðingunum í leikjum sínum, beint úr aukaspyrnum.


Alla vega... Gróttumenn náðu síðan að jafna og leiknum lauk því með jafntefli 1-1.


Næsti leikur Þróttar var gegn ÍR-ingum. Það er skemmst frá því að segja að þeir Breiðhyltingar voru töluvert betri aðilinn í þessum leik og snemma í síðari hálfleik var staðan orðin 4-0 þeim í vil. Það var eins og Þróttur væri einfaldlega ekki mættir til leiks og liðið bar óþarflega mikla virðingu fyrir andstæðingunum.


Okkar menn vöknuðu þá aðeins til lífsins og Böddi (hver annar?) tók sig til og skoraði tvö mörk á um það bil þremur mínútum. Þróttur sótti stíft það sem eftir var leiks en nær komst liðið ekki til að jafna og leiknum lauk því með sigri ÍR 4-2.


Aðeins vantaði smá herslumun til að skora þriðja markið og þá er næsta víst að Breiðholtsstórveldið hefði farið á taugum og okkar lið hefði jafnað. Alveg pottþétt sko.

Annars verður að taka það fram að ÍR-ingar enduðu að lokum í 3. sæti frönsku deildarinnar þannig að þarna voru greinilega engir aukvisar á ferð.

Síðasti leikur fimmtudagsins var síðan gegn Fimleikafélagi Hafnarfjarðar en þar fóru okkar menn algjörlega á kostum og sigruðu 4-0. Böddi var enn einu sinni á skotskónum og skoraði tvö marka liðsins en því miður hefur háaldrað minni ritara þessa pistils eitthvað riðlast, því hann getur ekki með nokkru móti munað hver skoraði hin tvö mörk Þróttara í leiknum. Ef svo vildi til að einhver fróður lesandi hefði haldbærar upplýsingar um það, má hinn sami gjarnan koma þeim fróðleik á framfæri hið fyrsta.


Á föstudeginum voru svo spilaðir tveir síðustu leikir Þróttar í riðlinum en fyrri viðureignin var gegn Breiðabliki úr Kópavogi (sem er úti á landi) og var það fyrirfram talinn nokkuð erfiður leikur. Okkar menn voru heldur sterkari til að byrja með og snemma leiks skoruðu Blikar eiginlega hálfgert sjálfsmark, eftir hornspyrnu Jónasar, þannig að staðan þótti bara nokkuð vænleg. Og það er ekki hægt að skilja við fyrri hálfleikinn gegn Breiðablik án þess að minnast á þrumuskot okkar manns Tuma, af löngu færi, sem markvörður þeirra grænu varði með miklum tilþrifum. Frábær tilþrif hjá báðum aðilum og örlítið lélegri markvörður hefði líklega aldrei varið þetta skot.


Breiðablik náði síðan að jafna 1-1 seint í leiknum og eftir viðureignina var ljóst að Þróttur yrði að vinna síðasta leikinn, gegn Fram, til að eiga möguleika á að leika um 5. - 6. sæti í frönsku deildinni.


Okkar menn mættu því dýrvitlausir (í jákvæðri merkingu auðvitað) í síðasta leikinn í riðlinum og ekkert annað en sigur kom til greina. Það hafðist, því Tómas skoraði sigurmark Þróttar frekar seint í leiknum en hann hefði auðveldlega getað skorað þrjú mörk ef hann hefði verið örlítið einbeittari. Í staðinn lét hann eitt mark duga en hélt þjálfurum og foreldrum virkilega á tánum við að naga neglur sínar og annað lauslegt. Tómasi var að sjálfsögðu vel hampað í leikslok.

 
Þegar leikjum riðlakeppninnar var loksins lokið, þennan föstudag, var orðið ljóst að Þróttur hafði lent í 4. sæti riðilsins en reyndar með jafnmörg stig (9) og nákvæmlega sömu markatölu (15-9) og Fjölnir í 3. sætinu en þar sem þeir Grafarvogsmenn höfðu unnið innbyrðisviðureignina (2-0) þá urðu þeir ofar í riðlinum. Fyrri leikur laugardagsins var því gegn Keflavík og ef hann ynnist myndi Þróttur spila um 5. - 6. sætið í frönsku deildinni. Tap myndi þýða leik um 7. - 8. sætið.


Tumi okkar var algjörlega á því að láta þetta tækifæri ekki úr höndum sleppa og fór á kostum í leiknum. Snemma leiks brá hann á það ráð að skjóta boltanum í höndina á einum varnarmanna Keflvíkinga til að fá vítaspyrnu og ískaldur smellti hann síðan sjálfur tuðrunni í hornið hjá markverðinu eins og hann hefði aldrei gert neitt annað um ævina. Hér sjáið þið það!


Skömmu seinna skoraði hann annað mark og að þessu sinni með fallegu viðstöðulausu skoti utan úr teignum. Björn Orri og Böddi skoruðu síðan einnig sitt hvort markið og Suðurnesjamenn laumuðu reyndar líka einu á milli, þannig að um miðjan seinni hálfleikinn var staðan orðin 4-1 okkar mönnum í vil. Þá ákváðu Þróttarar að slaka aðeins á og hleypa smá spennu í leikinn en sem betur fer náðu Keflvíkingar aðeins að skora tvö mörk í viðbót og leikurinn endaði því 4-3.

Sigurinn dugði því til að leika um 5. - 6. sæti í frönsku deildinni og aftur voru það Fjölnismenn sem etja þurfti kappi við. Þróttur átti harm að hefna gegn Fjölni eftir tap fyrir þeim í fyrsta leik mótsins og okkar menn mættu einbeittir til leiks eins og sjá má. Sveinn Búi, Sævar, Egill, Böddi, Högni, Tómas, Björn Orri, Tumsi og Jónas.


Þróttur komst í 1-0 og það er skemmst frá því að segja að hmmmm... ég man ekki hver skoraði þetta mikilvæga mark :( EN Fjölnir jafnaði metin og þar sem 1-1 jafntefli dugir skammt, í úrslitaleik um sæti á N1-móti, þá þurfti að grípa til miskunnarlausrar vítaspyrnukeppnar.

Þróttur byrjaði í vítakeppninni og spennan var orðin hreint óbærileg... en Björn Orri tók upp á því, af einhverri ástæðu, að þruma tuðrunni í þverslána!

 
Fjölnir skoraði síðan úr sinni spyrnu og þá var næst komið að Sveini Búa. Hann var gríðarlega einbeittur en því miður dugði það ekki til og hann skaut naumlega framhjá markinu...


Fjölnir skoraði síðan aftur og þá var ljóst að ekki þurfti að taka fleiri spyrnur.

6. sætið varð því hlutskipti okkar manna af 16 liðum í frönsku deildinni og líklega má liðið bara vel við una. Allir voru ánægðir með skemmtilegt mót og hlakka bara til að mæta aftur til Akureyris að ári liðnu.

Kannski rétt að taka það fram að hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær stærri.

Og eitt flott vídeó frá mótinu í restina EN hvar eru Þróttararnir í myndbandinu...?