Tuesday, July 8, 2014

94. N1-MÓTIÐ Á AKUREYRI

Búið að vera mikið að gera hjá okkur að undanförnu við að fylgjast með HM í fótbolta en þó ekki svo mikið að við gleymdum að skella okkur á N1 mótið víðfræga á Akureyri. Tumi er nú á seinna ári í 5. flokki og því síðasti séns fyrir hann að skella sér til Akureyris en hann stóð sig alveg feykilega vel líkt og á sama móti í fyrra.

Hann spilaði með F-liði Þróttar í frönsku deildinni á áðurnefndu móti og óhætt er að segja að lið hans hafi staðið sig vel þar. Veðrið var reyndar ekki alveg eins og best verður á kosið en eftir fjögurra daga vosbúð og kulda norðan heiða, spilaði liðið um þriðja sætið (af 18 liðum) í frönsku deildinni og vann þann leik.
 
Mótið byrjaði þó ekki vel hjá Tuma og félögum hans en fyrsti leikurinn á miðvikudeginum var á móti Val og sá leikur tapaðist með þremur mörkum gegn einu. Eftir á að hyggja má draga líkur að því að sá leikur hafi tapast af þeirri einu ástæðu að hópurinn var að hittast og spila sem lið í allra fyrsta skipti. Leikmenn liðsins voru ekki búnir að læra inn á hvern annan og hvernig best væri að pressa andstæðingana þannig að þær næðu ekki að sækja almennilega. En það lagaðist strax í næsta leik sem var á móti ÍBV en þar sigruðu Þróttarar með fimm mörkum gegn einu.


Fimmtudagurinn byrjaði á góðum 3-1 sigri á Njarðvík, næst var komið að 4-2 sigri á Völsungi frá Húsavík og deginum lauk með 5-1 sigri á liði Breiðabliks 1. Þarna var liðið komið á góðan skrið í frönsku deildinni og enn þrír leikir eftir í riðlakeppninni.

Á föstudeginum var fyrsti leikurinn gegn Dalvík/KV og hann vannst með þremur mörkum gegn engu. Þá var komið að því að spila gegn FH og enn unnu okkar menn og nú með sex mörkum gegn tveimur. Síðasti leikur riðlakeppninnar var svo gegn HK og hann vannst með tveimur mörkum gegn einu. Það var því ljóst að okkar menn myndu spila til úrslita gegn ÍR um 3. sætið í frönsku deildinni á laugardeginum. Valur og Þróttur enduðu reyndar bæði með 21 stig í efsta sæti riðilsins en Valsmenn voru með betri markatölu og léku því úrslitaleikinn.

Eins og áður sagði var veðrið ekkert sérlega spennandi mótsdagana en á laugardagsmorguninn var ekki nema 6 stiga hiti, grenjandi rigning og fjallstopparnir í nágrenninu voru hvorki meira né minna en snjóhvítir. Grasvellirnir voru orðnir svo blautir og tættir að ákveðið var að færa alla leiki laugardagsins yfir á gervigrasið.


Leikurinn um 3. sætið fór vel af stað hjá okkar mönnum og eftir að staðan var orðin 4-0 í hálfleik reiknuðu líklega flestir með að afgangurinn af leiknum yrði aðeins formsatriði. En það var öðru nær. ÍR minnkaði muninn í 4-3 og þannig endaði síðan leikurinn. F-lið Þróttar unnu því til bronsverðlauna í frönsku deildinni og náðu í raun besta árangri liða Þróttar á öllu N1-mótinu.


Hér er liðið en þeir eru, frá efri röð til vinstri: Kristófer, Eyjólfur, Steinar, Jóel, Jens Ingi og Tumi. Neðri röð frá vinstri: Anton, Aggi, Jónas og Guðjón.

Liðið spilaði því 9 leiki og tapaði aðeins fyrsta leiknum gegn Val, eftir það komu 8 sigurleikir í röð. Samtals skoraði liðið 33 mörk og fékk á sig 14 en Eyjólfur var duglegastur að skora og setti 14 mörk.

Tumi stóð sig líka virkilega vel og skoraði sjö mörk en auk þess átti hann tvö sláarskot, lagði upp nokkur mörk og átti næstsíðustu snertinguna í tveimur sjálfsmörkum andstæðinganna. Ég vil reyndar meina að annað þeirra (beint úr hornspyrnu) hefði farið inn án aðstoðar varnarmanns hins liðsins. Við mamma hans vorum virkilega stolt af kútnum og sjálfur má hann vel við una.

Systir Tuma, Móey, gisti með okkur mömmu hans á hótelinu á meðan á mótinu stóð og af því tilefni fá þau hér vídeó af sér. Það er samt eiginlega aðallega fyrir ömmu þeirra í Sviss.