Við erum enn langminnsta þjóðin sem komist hefur á EM og liðið hefur hvorki reynslu né styrk til að hafa rétt á miklum væntingum. Við megum ekki falla í þá hrokagildru að segjast ætla að vinna þennan riðil. Engar af hinum þjóðunum þremur; Portúgal, Austurríki eða Ungverjaland hafa gefið það út að þær séu eitthvað betri en aðrar eða að þær ætli að vinna þennan riðil. Þar tala allir um erfiðan riðil og af virðingu um andstæðingana (líka Íslendinga) þar sem enginn mótherji er talinn auðveldur. Það er bara þannig og því er enn langt þar til við getum látið okkur dreyma um 16 liða úrslit á EM.
Gaman að segja þó frá því að nákvæmlega þessar þrjár þjóðir voru efstar á óskalista undirritaðs eftir að ljóst varð hvernig styrkleikaflokkarnir röðuðust en sá listi var valinn með tilliti til hugsanlegs möguleika á að hala inn einhverjum stigum. Óskariðillinn var að sjálfsögðu sendur í giskkeppni sem Vífilfell og Fótbolti.net stóðu fyrir og því má reikna með að jólabirgðir af kókverðlaunum verði komin hér í hús fljótlega.
En leikir Íslands á EM 2016 verða því sem hér segir:
- 14. júní. Ísland – Portúgal (Stade Geoffroy-Guichard, Saint Étienne). Fyrsti leikur Íslands í lokakeppni Evrópumóts landsliða frá upphafi er gegn Ronaldo og félögum. Hann hefst klukkan 21:00 þann 14. júní og því má reikna með að ekki verði margir á ferðinni það þriðjudagskvöld.
- 18. júní. Ísland – Ungverjaland (Stade Vélodrome, Marseille). Þessi leikur fer fram laugardaginn 18. júní klukkan 18:00 og sjálfsagt verða þeir fáu Íslendingar sem ekki ætla til Frakklands sjóðheitir á hápunkti þessarar kærkomnu þriggja daga helgar.
- 22. júní. Ísland – Austurríki (Stade de France, Saint-Denis). Miðvikudaginn 22. júní fer svo fram lokaleikur Íslands í riðlinum gegn Austurríkismönnum og hann hefst í kringum kvöldmatarleytið klukkan 18:00. Tilvalið að panta sér pítsu eins og reyndar líka á öllum öðrum leikdögum EM 2016.
Hægt og stígandi nálgast því EM 2016 og fjölmiðlar um alla Evrópu eru löngu byrjaðir að kynna til sögunnar þær þjóðir sem þar munu mætast og gera ýmsar úttektir á þeim. Íslenskir fjölmiðlar eru þar engin undantekning. Landslið okkar er auðvitað með í fyrsta sinn og allir hreinlega að rifna af stolti og hamingju yfir þeim áfanga að vera loksins í keppni á meðal bestu landsliða Evrópu. Enda er það svo að margir erlendir fjölmiðlar hafa lýst yfir undrun sinni á árangri liðsins og því verður eiginlega ekki hjá því komist að hégómagirni landans sé eilítið kitlað á köflum. Það er alltaf gaman að heyra hrós en minnum samt á að slaka á væntingunum.
The Guardian hefur til dæmis í, sinni úttekt, metið styrkleika allra liða mótsins og telja gestgjafa Frakka sigurstranglegasta lið keppninnar en Spánn, Þýskaland, Belgía, Ítalía og England koma þar á eftir að áliti fréttamanna blaðsins. Alls eru 24 þjóðir sem taka þátt í þessari lokakeppni EM og blaðamenn the Guardian meta styrkleika Íslands til að skila liðinu í 13. sætið. Íslenska liðið er þar metið sterkara en til dæmis lið Wales, Rússlands, Sviss, Slóvakíu og Svíþjóðar. Í greininni er liðinu einnig hrósað í hástert en ef tekið er mið af hinum liðunum í riðlinum þá telja þeir Guardian menn að Portúgal lendi í 8. sætinu, Austurríki í því 10. og að Ungverjaland endi í 22. sæti.
BBC hefur einnig birt sína úttekt og þar er íslenska liðinu einnig hrósað auk þess sem nefndar eru helstu ástæður hins góða gengis Íslands á undanförnum árum. Smæð landsins er auðvitað nefnd og miðillinn telur íslenska liðið eiga nokkuð góða möguleika á að komast upp úr riðlinum þótt ekki sé liðið sett á neitt sérstakt sæti.
Það verður gaman að halda áfram að fylgjast með undirbúningi landsliðsins á næstu mánuðum en nú eru aðeins 181 dagur þar til okkar veisla hefst.
ÁFRAM ÍSLAND!
BBC hefur einnig birt sína úttekt og þar er íslenska liðinu einnig hrósað auk þess sem nefndar eru helstu ástæður hins góða gengis Íslands á undanförnum árum. Smæð landsins er auðvitað nefnd og miðillinn telur íslenska liðið eiga nokkuð góða möguleika á að komast upp úr riðlinum þótt ekki sé liðið sett á neitt sérstakt sæti.
Það verður gaman að halda áfram að fylgjast með undirbúningi landsliðsins á næstu mánuðum en nú eru aðeins 181 dagur þar til okkar veisla hefst.
ÁFRAM ÍSLAND!