Nú styttist óðum í EM og Knattspyrnusamband Ísland kappkostar við að leggja lokafrágang á undirbúning íslenska liðsins fyrir sumarið. Öll sú vinna kostar mikla fjármuni og skipulagningu en eitt af mikilvægustu atriðum þess undirbúnings snýst um að finna hentuga mótherja í æfingaleikjum fyrir mótið og er nú loksins búið að klára það verkefni endanlega. Nú þegar hafa reyndar verið spilaðir tveir landsleikir, gegn Finnlandi og Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, þar sem "minni spámenn" íslenska liðsins fengu að spreyta sig og auka þannig möguleika sína á að komast í lokahópinn. Enn eru þó áætlaðir fimm æfingaleikir í viðbót og nú er loksins búið að negla þá alla niður með andstæðingum og leikdögum. Þessir leikir eru eftirfarandi:
31. janúar, Bandaríkin - Ísland
24. mars, Danmörk - Ísland
29. mars, Grikkland - Ísland
1. júní, Noregur - Ísland
6. júní, Ísland - Liechtenstein
Samkvæmt þessu fær landsliðið því einn kærkominn kveðjuleik á heimavelli stuttu fyrir EM og andstæðingarnir á Laugardalsvellinum það mánudagskvöld verður stjörnum prýtt lið Liechtenstein. Kannski ekki öflugasti mótherjinn en sennilega er leikurinn helst hugsaður sem létt æfing þar sem möguleiki á stórsigri gæti aukið sjálfstraust liðsins áður en til Frakklands verður haldið. Þetta er þekkt undirbúningsaðferð hjá bestu landsliðum Evrópu rétt fyrir lokakeppni EM og HM til að byggja upp sjálfstraust. Alla vega verður frekar óvenjulegt að sjá a.m.k. 10.000 áhorfendur á Laugardalsvelli gegn Liechtenstein!
Hinir fjórir andstæðingar Íslands fyrir EM teljast allir vera alvöru landslið þótt þeir séu ekki endilega mjög ofarlega á Heimslistanum. Bandaríkjamenn eru 32. sæti listans, Grikkir í 41., Danir í 42 og Norðmenn í 54. sæti. Ísland er í því 36. en Liechtenstein eru í 165. sæti Heimslistans.
Þessir æfinga- eða vináttuleikir eru ekki endilega mjög áhugaverðir, fyrir utan það að vera mikilvægur undirbúningur fyrir mótið, en reyndar verður að viðurkennast að leikurinn við Danmörku gæti orðið athyglisverður. Það verður að segjast eins og er að ekki hafa væntingarnar verið miklar gegn Dönum í gegnum tíðina þó stundum hafi þær bjartsýnisraddir heyrst að nú sé loksins komið að því að sigra þá. Það hefur þó aldrei gerst. Þessar þjóðir hafa mæst 23svar sinnum á knattspyrnuvellinum frá því að Íslendingar spiluðu sinn fyrsta landsleik á Melavellinum í júlí árið 1946 en þá sigruðu Danir einmitt með þremur mörkum gegn engu. Fjórum sinnum hefur okkur tekist að ná jafntefli gegn þeim (þrír þeirra fóru 0-0) en versta tapið er auðvitað hið nafntogaða 14-2 tap, í ansi ójöfnum leik, á Idrætsparken í Kaupmannahöfn árið 1967.
Kannski rétt að eiga umfjöllun um þann fræga leik inni.
Samanlögð markatala þjóðanna í innbyrðis viðureignum er 13-71 Dönum í hag og að meðaltali höfum við því fengið á okkur rúmlega þrjú mörk í leik gegn þeim. Síðasta markið sem Ísland skoraði gegn Danmörku var á Laugardalsvelli í september árið 2000 og síðan hafa þjóðirnar mæst fimm sinnum án þess að Ísland hafi skorað mark eða í heilar 530 mínútur. Á sama tíma hafa Danirnir skorað 16 mörk hjá okkur. Eyjólfur Sverrisson skoraði sem sagt síðasta markið (árið 2000) sem Ísland skoraði á móti Dönum en næsta mark þar á undan skoraði Matthías Hallgrímsson í október árið 1974!
Best að rifja upp fáeina Danaleiki til viðbótar...
Ísland og Danmörk hófu að mætast á knattspyrnuvellinum á nokkurra ára fresti eftir fyrstu viðureign þjóðanna í Reykjavík árið 1946. Iðulega sigraði danska liðið tiltölulega örugglega en reynsluleysi Íslands (sem aðeins spilaði einn til tvo leiki á ári í mesta lagi á þessum árum) og frumstæðar áhugamannaaðstæður komu í veg fyrir framfarir.
Þriðjudaginn 18. ágúst árið 1959 mættust þjóðirnar á Idrætsparken, í sinni sjöundu viðureign, að viðstöddum rúmlega 26.000 áhorfendum og þar kom íslenska liðið nokkuð á óvart. Leiknum lauk með jafntefli 1-1 en Skagamaðurinn Sveinn Teitsson kom Íslandi yfir eftir um hálftíma leik með viðstöðulausu skoti eftir sendingu frá Þórólfi Beck. Danska liðið jafnaði metin þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum en þar var að verki Henning Enoksen eftir mistök í íslensku vörninni. Annars var danska liðið töluvert betra í þessum leik en baráttumikill varnarleikur Íslands og markvarsla Helga Daníelssonar komu í veg fyrir tap.
Íslenska liðið var þannig skipað: Helgi Daníelsson, Hreiðar Ársælsson, Árni Njálsson, Garðar Árnason, Hörður Felixson, Sveinn Teitsson, Örn Steinsen, Ríkharður Jónsson, Þórólfur Beck, Sveinn Jónsson og Þórður Jónsson.
Og fleiri Danaleikir...
Árið 1972 mættust þjóðirnar á Laugardalsvellinum, nánar tiltekið mánudaginn 3. júlí, og slæmur varnarleikur íslenska liðsins var aðall þessa leiks. Reyndar verður að segjast eins og er að liðið leit alveg þokkalega út í fyrri hálfleiknum og sjaldan hefur íslenska landsliðið haft úr jafn miklu að moða gegn Dönum í einum hálfleik.
Sú hátíðlega stund þegar þjóðsöngvar landanna voru fluttir í upphafi hans breyttist reyndar í hálfgerðan skrípaleik á nokkrum sekúndum. Knattspyrnusambandið hafði, á einhvern hátt, náð að klúðra þessari heilögu athöfn með afskaplega einkennilegri útgáfu af þjóðsöng dönsku þjóðarinnar en aldrei þessu vant voru þjóðsöngvar þjóðanna leiknir af hljómplötum. Heimildum ber reyndar ekki alveg saman um hvernig klúðrið æxlaðist en einhvers staðar var talað um að hraði danska þjóðsöngsins hefði aukist um helming í miðjum klíðum. Í öðrum heimildum er minnst á einhverja jazz-útgáfu eða jafnvel dægurlag eða að syrpa af sjómannalögum hefði verið spiluð undir vandræðalegum augngotum um 9000 áhorfenda. Enn aðrar sagnir herma að partur úr 9. sinfóníu Beethovens hafi fengið að hljóma um Laugardalinn í stað Der er et yndigt land.
Alla vega... Leikurinn byrjaði með miklu fjöri á báða bóga og þegar Jack Hansen skoraði fyrsta markið eftir 23 mínútur, með diggri aðstoð íslensku varnarinnar, hafði íslenska liðið þegar fengið tvö dauðafæri auk annara ágætis tækifæra. Hermann Gunnarsson var í aðalhlutverki í sókninni en gekk ekki heill til skógar og þurfti að yfirgefa völlinn snemma leiks. Stuttu eftir danska markið jafnaði Guðgeir Leifsson metið með einhvers konar óviljamarki og eftir rúman hálftíma komst Ísland yfir með marki Eyleifs Hafsteinssonar. Allt leit þetta bara vel út á þeim tíma en danska liðið náði þó að jafna metin strax 2-2 með marki nýliðans Allan Simonsen. Og þannig var staðan í leikhléi.
Á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiksins fór hins vegar gjafmildi íslensku varnarmannanna upp úr öllu valdi og þeir Kjeld Bæk og Allan Simonsen þökkuðu fyrir sig með sitt hvoru markinu. Eftir það átti íslenska liðið enga möguleika og Heino Hansen bætti við fimmta markinu nokkrum mínútum fyrir leikslok og enn voru varnarmenn Íslendinga sofandi þó að þeir gæfu ekki Dönunum boltann beint í það skiptið. Fjórum af fimm mörkum danska liðsins mátti því skrifa beint á íslensku varnarmennina en þó var Sigurður Dagsson markvörður líklega besti maður liðsins.
Allan Simonsen skoraði því tvö mörk þarna í sínum fyrsta landsleik og fékk mikið hrós en hann átti seinna eftir að verða kjörinn knattspyrnumaður Evrópu. Annar nýliði, hinn 16 ára gamli Ásgeir Sigurvinsson, kom inn á sem varamaður hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik og stóð sig mjög vel. En annars var liðið þannig skipað: Sigurður Dagsson, Jóhannes Atlason, Ólafur Sigurvinsson, Einar Gunnarsson, Guðni Kjartansson,Marteinn Geirsson, Guðgeir Leifsson, Eyleifur Hafsteinsson, Teitur Þórðarson, Hermann Gunnarsson og Elmar Geirsson en inn á sem varamenn komu Eyjamennirnir Ásgeir Sigurvinsson og Tómas Pálsson.
Og einn Danaleikur í viðbót...
Þjóðirnar mættust á Laugardalsvellinum, í blíðskaparveðri að viðstöddum rúmlega 8000 áhorfendum, þann 28. júní árið 1978 og þar fengu Íslendingar gott tækifæri til að sigra lélegt lið Dana. Það tókst þó ekki og liðin skildu jöfn í frekar leiðinlegum knattspyrnuleik án þess að skora. Pétur Pétursson spilaði þarna sinn fyrsta landsleik og var af mörgum talinn besti maður vallarins en hann fékk t.a.m. algjört dauðafæri nokkrum mínútum fyrir leikslok sem hann náði þó ekki að klára. Teitur Þórðarson og Atli Eðvaldsson fengu einnig báðir ágætis færi sem ekki nýttust. Danirnir skoruðu reyndar mark í leiknum sem dæmt var af vegna rangstöðu en tekið var sérstaklega fram í öllum fjölmiðlum að línuvörðurinn hefði verið með hugann við eitthvað allt annað. Skoski dómarinn dæmdi markið af upp á sitt einsdæmi en allir á vellinum sáu að Daninn var langt fyrir innan.
Árni Stefánsson markvörður lét hafa eftir sér í leikslok að hann hefði aldrei haft eins lítið að gera í einum landsleik og flestir voru á þeirri skoðun að auðveldur sigur hefði unnist ef Ásgeir Sigurvinsson hefði átt heimangengt.
Danska liðið þótti ekki gott í þessum leik og einhverjum þóttu þeir grófir og tuðgjarnir. Þó voru í því leikmenn, sem voru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og áttu heldur betur eftir að slá í gegn. Frank Arnesen, Sören Lerby og Preben Elkjær Larsen gerðu það virkilega gott með Dönum seinna á sínum ferli og stóðu sig seinna frábærlega með Dönum bæði á Lokakeppnum EM og HM. Sören Lerby þótti bestur dönsku leikmannanna í þessum leik.
Annars var íslenska liðið þannig skipað í þessum leik: Árni Stefánsson, Gísli Torfason, Árni Sveinsson, Jón Pétursson, Jóhannes Eðvaldsson, Karl Þórðarson, Janus Guðlaugsson, Atli Eðvaldsson, Teitur Þórðarson, Guðmundur Þorbjörnsson og Pétur Pétursson. Hörður Hilmarsson kom inn á sem varamaður en á bekknum var einnig rúmlega 17 ára gutti sem hét Arnór Guðjohnsen en hann fékk ekki tækifæri í þessum leik.
Ísland og Danmörk mættust síðast á knattspyrnuvellinum þann 4. júní árið 2011 í undankeppni EM 2012 á Laugardalsvellinum en þetta var svolítið áður en hinn frægi uppgangur landsliðsins hófst. Lars og Heimir tóku ekki við liðinu fyrr en í ársbyrjun 2012 en nokkrir af eldri leikmönnum liðsins í dag léku þennan leik og almennt voru menn lítið spenntir fyrir íslenska liðinu á þessum tíma. Leikurinn fór 0-2 fyrir Danina en fyrri leikinn á Parken unnu þeir einnig en þá með einu marki gegn engu. Þjóðirnar mættust einnig í undankeppni EM 2008 og þá sigruðu Danir 3-0 á Parken og 0-2 í Laugardalnum. Næsti leikur þar á undan hafði tapast 6-0 þannig að almennt virðist ekki hafa verið mikið tilefni til bjartsýni nú seinni ár.
En á Skírdag vorið 2016 er tækifæri til breytinga. Danmörk er andstæðingur sem íslenskt áhugafólk um knattspyrnu hefur látið sig dreyma um að vinna í áratugi en aldrei tekist. Gamla herraþjóðin hefur haft tögl og hagldir í viðureignum þjóðanna frá upphafi og þrátt fyrir að oft hafi væntingar um annað, eru þær jafnan skotnar niður með skelli. Í því felst líklega helst þessi rómantík sem fylgir Danaleikjunum.
Það reiknar auðvitað enginn með að Ísland sé að fara að bæta mikið úr markatölunni 13-71 í þessum eina leik og ekki breytist tölfræðin (4 jafntefli og 19 töp) neitt verulega þó Íslandi tækist loksins að sigra einn leik gegn þeim. En hins vegar væri það afskaplega gott og gaman fyrir þjóðarsálina að fá eins og einn sigur - þó það væri ekki nema 1-0.
Eða... kannski er þetta bara enn einn vonbrigðaleikurinn gegn Dönum þegar væntingarnar eru sem mestar...
En... ÁFRAM ÍSLAND!