Monday, December 10, 2012

2. HUNDUR Á HM

Strax komnir í færslu númer tvö í Boltabullinu okkar og það er bara alls ekkert svo illa af sér vikið fyrir menn á okkar aldri.
 
Jimmy Greaves er vinstra megin á myndinni
 Alla vega... hér er myndband frá HM í Chile, árið 1962, þar sem Brasilía og England mættust í 8-liða úrslitunum keppninnar. Þessi lönd voru auðvitað á meðal þeirra bestu í heiminum á þessum árum og Brasilíumenn unnu mótið í þetta sinn og höfðu reyndar einnig unnið keppnina á undan í Svíþjóð árið 1958. Englendingar sigruðu svo á heimavelli í sitt eina skipti árið 1966 en Brasilíumenn endurheimtu titilinn á sínum heimavelli árið 1970 og það lið er af mörgum talið eitt besta knattspyrnulið sögunnar.

Leikur liðanna árið 1962 var nokkuð spennandi, enda höfðu bæði löndin á að skipa mörgum frábærum leikmönnum. Pelé var reyndar meira og minna meiddur alla keppnina í Chile og spilaði lítið þar en í staðinn fékk Garrincha sitt tækifæri til að sýna hæfileika sína fyrir Brasilíu. Hann skoraði til dæmis tvö af mörkum sinna manna í leiknum sem Brasilíumenn unnu með þremur mörkum gegn einu. Hjá Englendingunum voru einnig margar kempur sem áttu seinna eftir að sýna betur hvað í þá var spunnið og má þar helst nefna þá Bobbyana Charlton og Moore og Tottenham goðsögnina Jimmy Greaves en hann sýndi einstaka knattspyrnuhæfileika í leiknum eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.

 
Ef vel er gáð sést hvar Greaves hristir á sér hendurnar eftir viðskipti sín við hundinn og lengi vel voru einhverjar vangaveltur um að kvikindið hefði pissað á snillinginn. Ef svo er, má fastlega reikna með að þetta sé í eina skiptið í sögu Heimsmeistaramótsins þar sem leikmaður einhvers liðsins spilar angandi af hundahlandi. Eða að minnsta kosti í 8-liða úrslitum keppninnar!

No comments:

Post a Comment