Megum alveg til með að birta hérna eina skemmtilega mynd af tveimur frábærum fótboltamönnum. Þeir Michel Platini (1982-87) og Diego Maradona (1984-91) spiluðu báðir á sama tíma á Ítalíu og unnu báðir Ítalíumeistaratitilinn tvisvar sinnum með liðum sínum.
Og úr því að við erum farnir að fjalla aðeins um Maradona þá er alveg tilvalið að birta líka mynd af þeim Pelé, frá þeim tíma er þeir voru enn vinir og gátu talað saman án þess að hreyta einhverjum ónotum í hvorn annan. Hérna fyrir neðan má sjá þá raula saman Piparkökusönginn á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en því miður fylgir ekki hljóðdæmi með.
Flestir þeir sem komnir eru á miðjan aldur, og kannski aðeins undir því, kannast við teiknimyndahetjuna Viggó viðutan sem gefnar voru út nokkrar bækur með á seinni hluta síðustu aldar. Viggó var líklega kunnastur fyrir vafasöm uppátæki sín á ritstjórnarskrifstofunni þar sem hann "vann" en í frítíma sínum átti hann það til að grípa í markvarðahanskana og sýna snilli sína á milli stanganna með félögum sínum í litlu áhugamannaliði. Stundum fengu lesendur smjörþefinn af tilþrifum hans þar á vellinum en óhætt er að segja að hann hafi iðulega farið ótroðnar slóðir við markvörsluna. Gott ef hann var ekki einhvern tímann rekinn af leikvelli fyrir að fela markið (reyndar óvart) í gufumekki, eftir að hafa verið að hita upp fiskisúpu á vellinum! Fyrir utan uppátæki sín á skrifstofunni eyddi hann einnig stórum hluta vinnudags síns við svefn og við þau tækifæri sköpuðust aðstæður til að láta sig dreyma um ýmislegt framandlegt. Myndin hér fyrir neðan sýnir einmitt hluta af þeim dagdraumum sem Viggó lét dreyma um.
Ekkert smá slor þetta mark og í textanum skýrir íþróttafréttamaðurinn samviskulega frá því að Viggó sé besti knattspyrnumaður Evrópu.
Belgíski snillingurinn Franquin teiknaði þessar myndasögur (hann skapaði einnig Sval og Val) og á því heiðurinn af þessari snilldarmynd sem við megum til með að láta fylgja með Boltabulli dagsins.
Leikur hollenska félagsins
Feyernoord og KR, í Evrópukeppni Meistaraliða haustið 1969, fer seint í
sögubækurnar utan hins geysistóra taps Íslandsmeistaranna fyrir hollenska
liðinu en Feyernoord hafði fáheyrða yfirburði í leiknum og sigruðu með
tólf mörkum gegn tveimur. Þetta tap KR-inganna varð að stærsta ósigri félagsins
fram til þess tíma og það met stendur reyndar enn. KR hafði svo sem ekki riðið
feitum hesti frá viðureignum sínum í Evrópukeppnunum, frá því þeir spiluðu sinn
fyrsta leik gegn Liverpool haustið 1964, en tveimur árum fyrir afhroðið gegn
Feyernoord hafði liðið einnig tapað fyrir skoska liðinu Aberdeen með tíu mörkum
gegn engu. Úrslit liðsins í Evrópukeppnunum á þessum árum virtust því lítið erindi eiga við knattspyrnu en minntu þeim mun meira á ójafna og tilþrifalitla handboltaleiki. KR-ingar voru því ekki beint að slá í gegn í Evrópu á þessum árum. Reyndar
verður að taka það fram að lið Feyernoord var geysilega sterkt á þessum tíma og
sigraði keppnina vorið eftir, þegar þeir unnu Glasgow Celtic 2-1 í
úrslitaleiknum á San Siro á Ítalíu, auk þess sem þeir unnu einnig Heimsmeistarakeppni félagsliða
sumarið 1970.
Eins og svo oft á þessum árum var bág fjárhagsstaða
litlu áhugamannaliðanna frá Íslandi þess valdandi að heimaleikur liðsins var seldur
út, þ.e. báðir leikir liðanna voru spilaðir í Rotterdam og Hollendingarnir
greiddu KR-ingunum í staðinn einhverja upphæð sem dugði þeim fyrir flugfari,
uppihaldi og sjálfsagt einhverju smávægilegu fleiru. Þeir Bjarni Felixson og Björgvin Schram höfðu farið til Hollands nokkrum vikum áður og samið við félagið um fyrirkomulagið. Þessar fjárhæðir breyttu
engu fyrir stóru atvinnumannaliðin í Evrópu en auðveldaði litlu
áhugamannaliðunum þátttöku í keppnunum og komu sjálfsagt í mörgum tilfellum í
veg fyrir stór fjárhagsleg tjón þeirra eða jafnvel gjaldþrot. Þetta
fyrirkomulag hentaði vel fyrir minnstu liðin í Evrópukeppnunum, sem höfðu ekki
mikið fé á milli handanna, en seinna tók UEFA fyrir slíka sölumennsku og
bannaði með öllu. Hinn svokallaði "heimaleikur" KR í Rotterdam endaði því með þessum hræðilegum tölum en seinni leikurinn, sem fram fór á sama stað hálfum mánuði seinna var því í rauninni heimaleikur Feyernoord. Sá leikur tapaðist með "aðeins" fjórum mörkum gegn engu og þótti bara nokkuð vel sloppið eftir fyrri viðureignina.
En alla vega, Feyernoord hafði eins og gefur að skilja fáheyrða
yfirburði í leiknum og skoruðu fyrsta markið strax á 3. mínútu og áður
en yfir lauk höfðu þeir raðað inn heilum sjö mörkum fyrir leikhlé. KR-ingarnir
gerðu hvað þeir gátu til að reyna að koma í veg fyrir frekari markasúpu og skiptu
til að mynda um markvörð í hálfleik en þær aðgerðir breyttu litlu um gang
leiksins. Feyernoord hægðu reyndar aðeins á ferðinni, enda löngu komnir áfram í
2. umferð, en skoruðu samt tíunda mark sitt þegar um það bil kortér var eftir. En þá var komið að Baldvini Baldvinssyni. Hann skoraði tvö mörk á
sjö mínútum og minnkaði muninn í 10-2 og skyndilega var leikurinn orðinn hnífjafn og æsispennandi! Eða þannig. Hollendingarnir voru sjálfsagt örskammt frá því að brotna niður en með gríðarlegum karakter héldu þeir út leikinn. Þeir náðu að skora síðustu mörkin en leikurinn endaði eins og áður sagði með 12-2 sigri
Feyernoord. Í umsögn Alþýðublaðsins um leikinn var sérstaklega tekið fram að KR-ingar hefðu ekki leikið á neinn hátt lakar en venjulega og að hinir u.þ.b. 55.000 áhorfendur á leiknum í Rotterdam hefðu varla haft undan við að telja mörkin sem hrúguðust inn. KR-ingarnir voru því þeirri stund fegnastir þegar írski flautuleikarinn blés leikinn af.
Fæstir leikmenn liðsins höfðu leikið áður við jafn frábærar aðstæður og þeir voru einnig í stökustu vandræðum með breidd vallarins í Rotterdam sem var tíu metrum breiðari en Laugardalsvöllurinn sem var stærsti völlur landsins. Hjá KR var Þórólfur Beck vant við látinn en að öðru leyti var liðið skipað sínum sterkustu mönnum gegn gríðarlega öflugu liði Feyernoord. Guðmundur markvörður var ekki óvanur því að fá á sig mikið af mörkum á þessum árum en auk þess að fá á sig þessi sjö mörk í fyrri hálfleiknum gegn Feyernoord, þá lék hann líka 0-10 leikinn gegn Aberdeen árið 1967 og einnig í 14-2 tapinu ægilega gegn Dönum sama ár.
Lið KR var annars þannig skipað í leiknum: 1. Guðmundur Pétursson (13. Magnús Guðmundsson), 2. Ársæll Kjartansson, 3. Björn Árnason, 4. Þórður Jónsson, 5. Ellert B. Schram, 6. Halldór Björnsson, 7. Gunnar Felixson, 8. Eyleifur Hafsteinsson, 9. Baldvin Baldvinsson, 10. Ólafur Lárusson og 11. Sigurþór Jakobsson.
Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leiknum, sem fram fór á Feyernoord Stadium í Rottendam þann 17. september árið 1969. Eins og áður segir var þetta heimaleikur KR og þeir léku því í sínum hefðbundnu Newcastle búningum en Feyernoord spiluðu leikinn í grænu og hvítu útibúningum sínum. Í seinni leiknum spiluðu Hollendingarnir aftur í sömu búningum en KR-ingarnir léku í það skiptið í hvítum treyjum og buxum en bláum sokkum.
Hjá Hollendingunum var Ruud Geels atkvæðamestur og skoraði fjögur marka síns liðs en hann hafði komið inn á sem varamaður á 35. mínútu leiksins. Baldvin Baldvinsson skoraði hins vegar bæði mörk KR, eins og áður er getið, en fyrra mark hans þótti nokkuð merkilegt. Eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir ofan var þetta fínt mark hjá Baldvini en hollenskur blaðaljósmyndari sem staddur var á leiknum náði hins vegar alveg einstaklega vel heppnaðri mynd af markinu. Ljósmyndin af tilþrifum Baldvins var svo vel tímasett að markið leit út fyrir að hafa verið miklu fallegra en það var í raun og veru og lengi vel hékk þessi mynd því uppi innrömmuð, á skrifstofum aðalstöðva Feyernoord.
Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir úr leiknum en hægt er að smella á þær til að fá þær stærri.