Sunday, January 13, 2013

7. GLÆSILEG FÓTBOLTAMYND

Flestir þeir sem komnir eru á miðjan aldur, og kannski aðeins undir því, kannast við teiknimyndahetjuna Viggó viðutan sem gefnar voru út nokkrar bækur með á seinni hluta síðustu aldar. Viggó var líklega kunnastur fyrir vafasöm uppátæki sín á ritstjórnarskrifstofunni þar sem hann "vann" en í frítíma sínum átti hann það til að grípa í markvarðahanskana og sýna snilli sína á milli stanganna með félögum sínum í litlu áhugamannaliði. Stundum fengu lesendur smjörþefinn af tilþrifum hans þar á vellinum en óhætt er að segja að hann hafi iðulega farið ótroðnar slóðir við markvörsluna. Gott ef hann var ekki einhvern tímann rekinn af leikvelli fyrir að fela markið (reyndar óvart) í gufumekki, eftir að hafa verið að hita upp fiskisúpu á vellinum!

Fyrir utan uppátæki sín á skrifstofunni eyddi hann einnig stórum hluta vinnudags síns við svefn og við þau tækifæri sköpuðust aðstæður til að láta sig dreyma um ýmislegt framandlegt. Myndin hér fyrir neðan sýnir einmitt hluta af þeim dagdraumum sem Viggó lét dreyma um.
Ekkert smá slor þetta mark og í textanum skýrir íþróttafréttamaðurinn samviskulega frá því að Viggó sé besti knattspyrnumaður Evrópu.

Belgíski snillingurinn Franquin teiknaði þessar myndasögur (hann skapaði einnig Sval og Val) og á því heiðurinn af þessari snilldarmynd sem við megum til með að láta fylgja með Boltabulli dagsins.

No comments:

Post a Comment