Saturday, December 15, 2012

3. AÐEINS UM OKKUR


Snillingarnir hennar mömmu!
Það er kannski rétt að segja aðeins frá okkur aðstandendunum sem höldum utan um þessa síðu. Við heitum Tumi og Garðar og erum stjúpfeðgar en fótboltamamman á heimilinu sýnir verkefni okkar fullan skilning og eldar reglulega fyrir okkur góðan kvöldmat. Þannig stuðlar hún að hollu líferni okkar sem, eins og auðvitað allir vita, er ákaflega mikilvægt fyrir alla þá er vilja tuða á netmiðlum um fótbolta á heilbrigðan og eðlilegan hátt. Við spörkum reglulega í hvorn annan niðrá velli, horfum töluvert á leiki saman í sjónvarpinu eða á Netinu og spilum Fótboltaspilið með morgunmatnum um helgar og þá iðulega með frekar besserwissku ívafi. Við erum auðvitað báðir forfallnir fótboltafíklar en erum samt tiltölulega heilbrigðir að flestu öðru leyti.

Tumi eins og hann gerist
bestur
Tumi heitir sko fullu nafni Benjamín Tumi Bergsveinsson og er hvorki meira né minna en 10 ára gamall. Hann er afburða fróður um knattspyrnu og tæknilega séð er hann eiginlega gangandi alfræðibók um fótbolta.  Hugsanlega má þó líta á að vefur Wikipedia sé lítillega fullkomnari en það er þá eingöngu vegna hve margir koma að honum. Tumi veit skónúmerið hjá Domenico Berardi sem spilar með Sassuolo í Seríu B á Ítalíu, getur sagt til um hvað Neymar lék margar mínútur með 6. flokki  Santos og svo veit hann meira að segja hvar HM 2026 verður haldið - jafnvel þó það sé ekki einu sinni komið til umræðu hjá FIFA.  Tumi æfir og spilar sjálfur með 5. flokki Þróttar (í karlaflokki) og er hörkuduglegur varnarmaður. Hann hefur ágæta tækni og spilar vel frá sér boltanum og á það jafnvel til að bregða sér í sóknina til að klína eins og einum og einum bolta upp í sammann. Það gerir hann þá helst gegn ÍBV. Hann heldur með Chelsea í enska boltanum, finnst Messi allt í læ en Neymar betri og á FIFA13 í PlayStation. Tumi er í Langholtsskóla, stefnir á doktorsnám í innanfótaspyrnum, er bindindismaður á vín og tóbak, ógiftur og barnlaus.


Og svo Garðar greyið!
Garðar er hins vegar fullu nafni Jónsson og er aðeins eldri en Tumi (annað væri nú óeðlilegt fyrir stjúppabba) og er því eðli máli samkvæmt í sambúð með móður Tuma! Hann veit ekkert mjög mikið um fótbolta en er ágætlega nothæfur við að segja frá því sem Tumi vill hafa á síðunni. Sökum langvarandi og ólæknandi óminnisleysis, frá dögum Enska boltanum á laugardögum hjá Bjarna Fel, veit hann þó hverjir Paul Mariner, Gary Shaw og Mike Hazard voru (og sjálfsagt eru) en gæti líklega ekki fyrir sitt litla líf sagt hverjir urðu Íslandsmeistarar í fótbolta árið 2012. Oft þykist hann samt vita meira um knattspyrnu en hann í raun gerir. Sjálfur (er hann álfur!) spilaði Garðar líka aðeins fótbolta í gamla daga og þótti nokkuð liðtækur með boltann en samt var hann alltaf betri án hans! Garðar hefur haldið með Tottenham í þeim enska í á fjórða tug ára, á fullan kassa af úrklippum af Ásgeiri Sigurvinssyni og á bæði fótboltatreyju frá Fortuna Dusseldorf og Færeyska landsliðinu.

No comments:

Post a Comment