Friday, April 26, 2013

13. FÓTBOLTAFÉLAGIÐ FALUR

 
Megum til með að minnast á stórkostlegar hollenskar teiknimyndasögur, sem komu út á íslensku seint á áttunda áratug síðustu aldar og fjölluðu um leiki og störf fótboltafélagsins Fals. Bækurnar sem komu út hér á landi voru alls þrjár talsins en ungur nemi, Ólafur Garðarsson, sá um að snara sögunum yfir á íslensku fyrir Örn & Örlyg. Ólafur þessi lagði síðar stund á lögfræði en löngu seinna gerðist hann umboðsmaður margra af bestu knattspyrnumönnum Íslands og því má kannski segja að sú reynsla sem hann öðlaðist með þýðingu á Fals-bókunum hafi komið honum að góðum notum við sölur á leikmönnum seinna.


Höfundur þessa bóka heitir Toon van Driel en upphaflega hugmyndin að sögunum kom frá grínistanum John le Noble. Fyrstu þrjár bækurnar komu út árið 1978 en frá árinu 1973 höfðu fyrst birst reglulega, í dagblaðinu Algemeen Dagblad, brandarar um Fal (á frummálinu FC Knudde).


Eins og áður segir komu þrjár af þessum myndasögum út á gullaldartímabili teiknimyndasagna á Íslandi og voru það þrjár fyrstu sögurnar í þessum flokki en í heildina eru þær víst orðnar vel á fjórða tug talsins í dag. Fótboltafélagið Falur, Falur í Argentínu og Falur á Íslandi hétu þessar þrjár bækur og þóttu með eindæmum fyndnar og vitlausar en reyndar um leið alveg óskiljanlega illa teiknaðar. Sögurnar þrjár hafa verið ófáanlegar hér á landi í mörg ár en þær eru gríðarlega eftirsóttar af íslenskum aðdáendum sem muna enn eftir uppátækjum liðsmanna fótboltafélagsins.


Stjörnur liðsins voru af margvíslegum toga og hetjur eins og Fauti fantur, Marínó-Marínó Sólbrendó og Baldvin Veitvel voru á meðal mikilvægustu leikmanna liðsins. Fauti fantur þótti nokkuð harðfylginn á velli, eins og nafnið bendir svolítið til og var almennt ekki beint talað um hann sem skarpasta hnífinn í skúffunni en það átti reyndar við um flesta aðra leikmenn Fals. Aðeins Baldvin Veitvel taldist "gáfaður", enda var hann heili liðsins.


Marínó-Marínó Sólbrendó var keyptur frá Suður Amerísku liði (eins og nafnið gefur til kynna) en eina markmið hans á vellinum virtist hafa verið að passa upp á hárgreiðsluna sína. Hann hefur því verið langt á undan sinni samtíð og eflaust fyrirmynd margra kunnra knattspyrnumanna sem seinna komu fram á sjónarsviðið.


Sem aðra leikmenn liðsins má nefna fyrirliðann Berta, Dagsson markvörð og tvíburana Jóa ljón og Sela en Falsliðið var einnig svo vel búið að hafa til aðstoðar sálfræðinginn dr. Sigmund Svefnþurfi, st. bernharðshundinn Snata (hans hlutverk í bókunum var reyndar svolítið óráðið) og svo auðvitað kínverjann Lín Pí-anó sem annaðist þvottinn á búningunum.
 
Falur á Íslandi var ansi frjálsleg á köflum og farið með ýmsar íslenskar "staðreyndir" á undarlegan hátt en um leið má alveg viðurkenna að glöggt sé gests augað. Þar er til að mynda minnst á að Íslendingar eigi svo mikið af heitu vatni (hverirnir) að þeir geti sprautað því upp í loftið að vild en einnig er nefnt að verðbólgan sé 800% (bókin er teiknuð á miklum verðbólgutímum) og öllum sé sama!


Í þeirri bók var leikmönnum Fals ráðlagt, af þjálfara liðsins, að búa sig vel undir ferðina til Íslands og eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan tóku liðsmenn þeim ábendingum nokkuð alvarlega.


Í bókinni Falur í Argentínu var liðið sent á HM í fótbolta (1978) í fjarveru hollenska landsliðsins og auðvitað unnu þeir keppnina þar. Fyrir mótið var þjálfarinn reyndar gagnrýndur harðlega fyrir hvað hann þótti linur.


Við bendum öllum á að verða sér úti um eintök af þessum bókum því það er margt vitlausara sem hægt er að eyða tíma sínum í. Sjálfsagt má finna eitt og eitt eintak í hinum og þessum geymslum og háaloftum landsmanna en annars má eflaust einnig, með smá þolinmæði, finna gömul og slitin eintök í Kolportinu eða Góða hirðinum - bestu bókabúðinni í bænum. Góða skemmtun!

Thursday, April 18, 2013

12. VETURINN HANS PÉTURS PÉTURSSONAR

Alltaf gaman að sjá þegar ungir íslenskir knattspyrnumenn slá í gegn og vekja athygli á erlendri grundu. Nú er Alfreð Finnbogason farinn að spila í alvöru deild og er virkilega að sýna þessa dagana hvað í honum býr með SC Heerenveen í Hollandi. Á þessari stundu er hann búinn að skora 23 mörk fyrir liðið í deildinni og er þar með búinn að jafna þann fjölda marka sem íslenskur leikmaður hefur skorað á einu keppnistímabili. Enn er aðeins miður apríl og því nokkrar umferðir eftir af tímabilinu og því góðar líkur á að Alfreð skori fleiri en þau 23 mörk sem Pétur Pétursson skoraði tímabilið 1979-80 í sömu deild. Í lok mars hafði Alfreð komist upp fyrir mörkin 21 sem Atli Eðvaldsson skoraði í þýsku Bundesligunni veturinn 1982-83 en þeir Arnor Guðjohnsen og Teitur Þórðarson skoruðu báðir 19 mörk, í Belgíu og Frakklandi, á níunda áratug síðustu aldar. Það er því orðið nokkuð langt um liðið síðan íslenskir knattspyrnumenn hafa verið svo mikið á skotskónum fyrir sín félög á erlendri grundu.

En best að skoða aðeins Pétur Pétursson og þá fyrst og fremst veturinn sem hann skoraði mörkin sín 23 fyrir Feyenoord.

 
Pétur var aðeins 19 ára gamall þegar hann gerði samning við hollenska stórveldið Feyenoord frá Rotterdam, í október 1978, eftir að hafa orðið markahæstur leikmanna 1. deildarinnar á Íslandi með 19 mörk en sumarið áður hafði hann einnig orðið markakóngur en þá með 16 mörk. Strax fyrsta veturinn sinn í atvinnumennskunni náði hann að verða byrjunarliðsmaður hjá Feyenoord og fór fljótlega að skora nokkuð reglulega fyrir liðið. Þannig náði hann að skora 12 mörk fyrir félagið í 22 leikjum. Næsta tímabil sló hann síðan verulega í gegn.


Fyrsti leikur tímabilsins var á heimavelli gegn Zwolle þann 19. ágúst 1979 og þar skoraði Pétur mark um miðjan seinni hálfleikinn í 2-0 sigri. Hann átti reyndar einnig stóran þátt í hinu markinu en þá skaut hann boltanum í varnarmann Zwolle sem fékk markið skráð sem sjálfsmark. Þremur dögum seinna skoraði hann bæði mörk Feyenoord á útivelli gegn NEC. Í fyrra markinu vippaði hann yfir markvörðinn, einn á móti einum, snemma leiks en seinna markið skoraði hann tveimur mínútum fyrir leikslok. Þann 26. ágúst skoraði hann mark eftir fyrirgjöf, í 2-2 jafntefli á útivelli gegn PSV Eindhoven og 2. september skoraði hann mark liðs síns í 1-1 jafntefli við MVV Maastricht. Viku seinna gerði Feyenoord 2-2 jafntefli við Den Haag á útivelli og þar skoraði Pétur bæði mörkin.


Þann 16. september unnu Pétur og félagar lið Sparta 3-1 á heimavelli en þar átti Pétur sannkallaðan stórleik og skoraði eitt mark. Næstu helgi á eftir spilaði Feyenoord við Excelsior á útivelli og sigraði 0-2 og enn skoraði Pétur. Næst var Ajax tekið í kennslustund í Rotterdam 4-0, að viðstöddum um 65 þúsund áhorfendum, og þar skoraði Pétur eitt markanna eftir að hafa komist einn á móti markverði. Forráðmenn Feyenoord sögðu að þeir hefðu auðveldlega getað selt 300 þúsund miða á leikinn!


Næst var komið að útileik gegn NAC þann 6. október. Þar var staðan 2-2, þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum, og dómarinn flautaði leikinn af eftir að annar línuvarðanna hafði fengið matardisk í höfuðið! Þá hafði Pétur þegar skorað bæði mörk Feyenoord. Löngu seinna var ákveðið að afgangurinn af leiknum (27 mínútur) skyldi leikinn fyrir tómum áhorfendabekkjum og þá skoraði NAC sigurmarkið beint úr aukaspyrnu og unnu því 3-2. Með þessum tveimur mörkum hafði Pétur skorað 12 mörk, í fyrstu 9 leikjunum í röð, í deildinni. Þá var komið að 1-1 heimaleik gegn Go Ahead Eagles og hollenskir fréttamiðlar tóku það sérstaklega fram að Pétur hefði ekki skorað í leiknum! 28. október vannst útileikur gegn Vitesse 1-3 og þar skoraði Pétur eitt mark.


Í næstu tveimur leikjum tók kappinn því rólega og skoraði ekki í jafnteflum gegn Haarlem og AZ67 en svo skoraði hann tvö mörk á heimavelli gegn Utrecht - annað þeirra úr vítaspyrnu. Aftur skoraði hann úr víti sem hann fiskaði sjálfur, í byrjun desember, í 5-1 sigri á Willem ll en síðan var komið að sögulegu tapi gegn Roda 1-0. Þetta var fyrsta tap Feyenoord í deildinni síðan 23. september 1978 og því í rauninni fyrsta skiptið sem Pétur tapaði deildarleik með liðinu síðan hann gekk til liðs við það haustið áður. 16. desember gerði Feyenoord jafntefli 1-1 við Twente og þar náði Pétur ekki að skora áður en hann skrapp í jólafrí heim til Íslands.


Pétur skoraði 17. mark sitt í deildinni í fyrsta leik eftir jól í 0-2 sigri á Zwolle á útivelli og viku seinna skoraði hann sigurmark Feyenoord, 2-1 gegn NEC Nijmegen, úr vítaspyrnu. Næsti leikur var gegn PSV Eindhoven á heimavelli og hann tapaðist á furðulegan hátt 0-3. Feyenoord sótti allan leikinn og fékk t.a.m. 21 hornspyrnu á móti 2 en PSV skoraði öll mörkin í leiknum! Í 2-1 sigri á Den Haag skoraði Pétur fyrra markið úr víti og hann skoraði einnig mark Feyenoord í 1-2 tapi gegn MVV Maastricht um miðjan febrúar. Þá var komið að 6 leikja tímabili þar sem Pétur náði ekkert að skora. Liðinu vegnaði ekki mjög vel á þeim tíma og vann aðeins einn af þessum 6 leikjum en gerði þó þrjú jafntefli. 7. apríl náði hann loksins að skora mark með skalla gegn Haarlem og helgina á eftir skoraði hann fallegt mark í 3-1 heimasigri á AZ67. 20. apríl skoraði Pétur glæsilegt mark í 1-1 jafntefli við Utrecht en það var jafnframt 23ja og síðasta mark Péturs þennan vetur. Hann var veikur í næsta leik á eftir gegn Willem ll en náði ekki að skora í þeim tveimur leikjum sem eftir voru tímabilsins.

Um vorið 1980 spilaði Feyenoord síðan til úrslita um hollenska bikarinn við Ajax og sigruðu í leiknum með þremur mörkum gegn einu. Pétur var þar í stóru hlutverki og skoraði tvö marka síns liðs. Við Tumi eigum örugglega eftir að skrifa eitthvað um þann leik síðar.

Friday, April 12, 2013

11. SMÁ SVEKKELSI

 
Horfðum saman, stjúpfeðgarnir, á leik Basel og Tottenham í 8 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi, enda báðir svolítið tengdir liðunum hvor á sinn hátt. Tumi auðvitað hálf svissneskur og hefur t.a.m. tvisvar sinnum séð leik á St. Jakob leikvanginum í Basel, þó hann sé ekki nema ellefu ára gamall en ég sjálfur er vitanlega annálaður Tottenham aðdáandi sem fylgt hef liðinu síðan árið 1979. Þá var ég tíu ára. Annars urðu engir alvarlegir árekstrar okkar á milli við að horfa á leikinn enda er Tumi líka orðinn heilmikill aðdáandi Tottenham. Hann á Tottenham treyju og ég sjálfur á einnig Basel treyju. Þessum treyjum eigum við báðir mömmu hans að þakka!


Alltaf leiðinlegt að falla út úr keppnum og þá sérstaklega þegar að svona langt er komið og eflaust margir farnir að sjá úrslitaleikinn sjálfan fyrir sér í hillingum. Sérstaklega er það auðvitað svekkjandi eftir að vera búnir að vinna upp forskot Svisslendinganna og eiga enn góða möguleika á sigri í framlengingu. Sá möguleiki hvarf þó eiginlega á því augnabliki sem Verthongen fékk á sig rauða spjaldið. Maður var ánægður með að liðið skyldi þrauka framlenginguna manni færri en um leið líka svekkjandi að ná að klára hana en tapa samt í vító.

Vítaspyrnukeppni er alltaf svolítið happdrætti og getur þróast á alla vegu. Flestir eru sammála um að betra sé að byrja að skjóta í vító og til eru um það bil 473 atriði sem geta haft áhrif á þróun vítaspyrnukeppna. Sumir kalla þau atriði afsakanir. Ég ætla að láta duga að benda á að mitt lið hefur ekki fengið eina einustu vítaspyrnu á tímabilinu og því fullkomlega eðlilegt að tapa í slíkri keppni. Leikmenn Tottenham er einfaldlega ekki vanir að skora úr vítaspyrnum. Einhver spekingur sagði líka að vítaspyrnur væru léleg mörk og ég tek heils hugar undir það.

Núna höldum við Tumi auðvitað með Basel það sem eftir er keppninnar og vonandi vinna þeir úrslitaleikinn með svona sirka sjö marka mun.

 

Friday, April 5, 2013

10. AÐEINS UM FYRSTA HM LEIK ÍSLANDS ÁRIÐ 1958

Margt af meintu knattspyrnuáhugafólki landsins er himinlifandi þessa dagana yfir frammistöðu fótboltalandsliðsins í undankeppni HM og væntingastuðull almennings nálgast ískyggilega efri mörk, eins og jafnan þegar vel gengur. En þótt vel gangi í augnablikinu er undankeppnin þó ekki nema hálfnuð og því enn nægur tími til að fá engin stig úr þeim fimm leikjum sem eftir eru í keppninni. Af eðlislægri jarðbindni (hmmm... s.s. dregið af því að vera jarðbundinn!) leggjum við Tumi okkur alla fram um að gerast ekki úr hófi bjartsýnir og stillum okkar væntingum í hóf með tilliti til íbúafjölda klakans, vallaaðstæðna, lengd keppnistímabilsins á Íslandi og síðast en ekki síst, almennra gæða íslenskrar knattspyrnu. Styrkleikalisti FIFA segir auðvitað líka heilmikið um raunverulega stöðu Íslands í heimi knattspyrnunnar, þótt oftar en ekki séu margir sérfræðinganna auðvitað á því að ekkert sé að marka þann lista. Þeir sem skora hæst í væntingunum finnst mörgum jafnvel fullkomlega eðlilegt að gera kröfur um sigur á Dönum, Frökkum, Þjóðverjum, Hollendingum eða Tékkum og lið eins og Færeyjar, Kýpur, Möltu og Luxemburg eigi að sigra með fimm til tíu mörkum. Þó eru síðast töldu löndin öll á svipuðum slóðum og Ísland á heimslistanum. Þannig eru kröfurnar eða væntingarnar oftast í engu samræmi við raunveruleikann.
 
Staða íslenska liðsins í undanriðli Heimsmeistarakeppninnar gefur þó reyndar alveg tilefni til bjartsýni. Liðið er með 9 stig þegar seinni helmingur mótsins hefst aftur í júní og sjaldan höfum við átt jafn marga góða og unga knattspyrnumenn á sama tíma. Margir þessa leikmanna spila með sterkum atvinnumannaliðum, aðrir með miðlungsliðum en tiltölulega fáir eru að spila í gæðalítilli Pepsi-deildinni hér uppi á Íslandi. Auk þess höfum við loksins fengið þjálfara með þann metnað og reynslu sem til þarf til að ná árangri. Stefnan hlýtur því að vera sú að halda áfram að hala jafnt og þétt inn þeim stigum sem eðlilegt er að óska eftir og sjá svo til. Það er aldrei að vita nema góð úrslit og heppni fleyti liðinu áfram í umspil og svo má spyrja að leikslokum.

 
Ísland hefur ekki oft verið í þeirri stöðu að eiga möguleika á að komast á lokamót í knattspyrnu og auðvitað aldrei komist alveg alla leið. Liðið hefur tekið þátt í öllum undankeppnum HM og EM síðan um miðjan sjöunda áratuginn en þar áður höfðum við aðeins tvisvar sinnum, í sitt hvorri keppninni, freistast til að reyna okkur á meðal þeirra bestu. Fyrst fyrir HM 58 í Svíþjóð og síðan fyrir EM 64 á Spáni. Frammistaða Íslands í þeim undankeppnum hefur vafalaust sannfært forsvarsmenn KSÍ um að við stæðum öðrum þjóðum þá enn of langt að baki til að réttlæta kostnaðasamt framhald á frekari þátttöku. Næst var því ekki reynt fyrir sér fyrr en í undankeppni HM 74 í Þýskalandi og EM 76 í Júgóslavíu.
 
Það er vel við hæfi að rifja aðeins upp fyrsta HM leikinn, í fyrstu HM undankeppnina sem Ísland tók þátt í en það var, eins og áður segir, fyrir HM 58 í Svíþjóð þar sem Pelé gerði Brasilíumenn að heimsmeisturum aðeins 17 ára gamall.

 
KSÍ hélt upp á 10 ára afmæli sitt í mars árið 1957 og líklega má að einhverju leyti rekja þau tímamót til þess að ákveðið var að send lið til þátttöku í undankeppnina fyrir HM í Svíþjóð árið eftir. Sú staðreynd einnig að keppnin fór fram í Svíþjóð hefur eflaust hvatt forráðamenn sambandsins til þátttöku enda í sjálfu sér ekki tiltakanlega langt ferðalag fyrir bláfátækt knattspyrnusambandið ef svo ólíklega vildi til að íslenska liðið næði á lokakeppnina. Ísland drógst gegn tveimur sterkum knattspyrnuþjóðum, Belgíu (þeir voru á þessum árum kallaðir Rauðu djöflarnir) og Frakklandi en báðar þær þjóðir höfðu verið á Heimsmeistaramótinu í Sviss árið 1954. Árið 1957 var ferðakostnaður frá Íslandi mikill og var því samið við mótherjana um að spilað yrði við báðar þjóðirnar í sömu ferðinni, fyrst við Frakka í Nantes þann 2. júní og síðan við Belgíu í Brüssel 5. júní.
 
 
Fyrir leikinn voru Frakkarnir nokkuð uggandi um sinn hag, enda höfðu þeir litlar upplýsingar um íslenska liðið. Það eina sem þeir þekktu til íslenskra knattspyrnumanna var Albert Guðmundsson en hann hafði gert garðinn frægan hjá Nancy, Racing Club de Paris og Nizza nokkru áður. Albert var ekki í íslenska liðinu og því töldu Frakkarnir að það hlyti að vera firnasterkt fyrst ekki væru not fyrir svo frábæran knattspyrnumann. Jón Magnússon gjaldkeri KSÍ sendi Morgunblaðinu skeyti daginn fyrir leikinn við Frakkland og í niðurlagi þess sagði hann m.a.: Leikur Frakka og Íslendinga hefst kl. 3 eftir staðartíma. Leiknum verður útvarpað um allar franskar stöðvar. Dómari er brezkur. Góðviðri er nú daginn fyrir leikinn og öllum líður vel. - Jón Magnússon.

 
Leikurinn var ekkert sérstaklega jafn og fljótlega var ljóst hvert stefndi. Staðan í hálfleik var 5-0 franska liðinu í vil og áhorfendur, sem voru rúmlega 21 þús., vörpuðu öndinni léttar. Þrjú af þessum fimm mörkum voru einkar klaufaleg og í síðari hálfleiknum bættu heimamenn þremur mörkum við og lauk leiknum því með 8-0 sigri Frakka. Íslenska liðið var illa undirbúið, átti litla möguleika gegn sterkum Frökkum og lá í nauðvörn nánast allan leikinn. Þeir fengu þó tvö færi í leiknum en í annað skiptið bjargaði franskur varnarmaður með hjólhestaspyrnu í línu eftir skot frá Skagamanninum Þórði Jónssyni og í hitt skiptið varði markvörðurinn skot frá bróður hans, Ríkharði.


Célestin Oliver, Roger Piantoni og Jean Vincent skoruðu tvö mörk hver fyrir Frakkana en þeir René Dereuddre og Said Brahimi sáu um afganginn. Just Fontaine, markaskorarinn mikli, lék ekki á móti Íslendingum í leikjunum tveimur í undankeppninni en hann sló heldur betur í gegn á Heimsmeistaramótinu með því að skora þar 13 mörk. Enginn annar leikmaður hefur skorað fleiri mörk á einni HM. Þess má geta að alls skoraði Fontaine 30 mörk í 21 leik fyrir Frakkland.


En annars var íslenska liðið þannig skipað í leiknum; Helgi Daníelsson, Halldór Halldórsson, Sveinn Teitsson, Gunnar Guðmannsson, Ríkharður Jónsson, Guðjón Finnbogason, Kristinn Gunnlaugsson, Þórður Þórðarson, Dagbjartur Grímsson, Þórður Jónsson og Ólafur Gíslason. Þjálfari Íslands var Skotinn Alexander Weir.


Hér eru meira að segja tvö af mörkum Frakkanna á YouTube...


Og fleiri myndir úr leiknum...