Thursday, April 18, 2013

12. VETURINN HANS PÉTURS PÉTURSSONAR

Alltaf gaman að sjá þegar ungir íslenskir knattspyrnumenn slá í gegn og vekja athygli á erlendri grundu. Nú er Alfreð Finnbogason farinn að spila í alvöru deild og er virkilega að sýna þessa dagana hvað í honum býr með SC Heerenveen í Hollandi. Á þessari stundu er hann búinn að skora 23 mörk fyrir liðið í deildinni og er þar með búinn að jafna þann fjölda marka sem íslenskur leikmaður hefur skorað á einu keppnistímabili. Enn er aðeins miður apríl og því nokkrar umferðir eftir af tímabilinu og því góðar líkur á að Alfreð skori fleiri en þau 23 mörk sem Pétur Pétursson skoraði tímabilið 1979-80 í sömu deild. Í lok mars hafði Alfreð komist upp fyrir mörkin 21 sem Atli Eðvaldsson skoraði í þýsku Bundesligunni veturinn 1982-83 en þeir Arnor Guðjohnsen og Teitur Þórðarson skoruðu báðir 19 mörk, í Belgíu og Frakklandi, á níunda áratug síðustu aldar. Það er því orðið nokkuð langt um liðið síðan íslenskir knattspyrnumenn hafa verið svo mikið á skotskónum fyrir sín félög á erlendri grundu.

En best að skoða aðeins Pétur Pétursson og þá fyrst og fremst veturinn sem hann skoraði mörkin sín 23 fyrir Feyenoord.

 
Pétur var aðeins 19 ára gamall þegar hann gerði samning við hollenska stórveldið Feyenoord frá Rotterdam, í október 1978, eftir að hafa orðið markahæstur leikmanna 1. deildarinnar á Íslandi með 19 mörk en sumarið áður hafði hann einnig orðið markakóngur en þá með 16 mörk. Strax fyrsta veturinn sinn í atvinnumennskunni náði hann að verða byrjunarliðsmaður hjá Feyenoord og fór fljótlega að skora nokkuð reglulega fyrir liðið. Þannig náði hann að skora 12 mörk fyrir félagið í 22 leikjum. Næsta tímabil sló hann síðan verulega í gegn.


Fyrsti leikur tímabilsins var á heimavelli gegn Zwolle þann 19. ágúst 1979 og þar skoraði Pétur mark um miðjan seinni hálfleikinn í 2-0 sigri. Hann átti reyndar einnig stóran þátt í hinu markinu en þá skaut hann boltanum í varnarmann Zwolle sem fékk markið skráð sem sjálfsmark. Þremur dögum seinna skoraði hann bæði mörk Feyenoord á útivelli gegn NEC. Í fyrra markinu vippaði hann yfir markvörðinn, einn á móti einum, snemma leiks en seinna markið skoraði hann tveimur mínútum fyrir leikslok. Þann 26. ágúst skoraði hann mark eftir fyrirgjöf, í 2-2 jafntefli á útivelli gegn PSV Eindhoven og 2. september skoraði hann mark liðs síns í 1-1 jafntefli við MVV Maastricht. Viku seinna gerði Feyenoord 2-2 jafntefli við Den Haag á útivelli og þar skoraði Pétur bæði mörkin.


Þann 16. september unnu Pétur og félagar lið Sparta 3-1 á heimavelli en þar átti Pétur sannkallaðan stórleik og skoraði eitt mark. Næstu helgi á eftir spilaði Feyenoord við Excelsior á útivelli og sigraði 0-2 og enn skoraði Pétur. Næst var Ajax tekið í kennslustund í Rotterdam 4-0, að viðstöddum um 65 þúsund áhorfendum, og þar skoraði Pétur eitt markanna eftir að hafa komist einn á móti markverði. Forráðmenn Feyenoord sögðu að þeir hefðu auðveldlega getað selt 300 þúsund miða á leikinn!


Næst var komið að útileik gegn NAC þann 6. október. Þar var staðan 2-2, þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum, og dómarinn flautaði leikinn af eftir að annar línuvarðanna hafði fengið matardisk í höfuðið! Þá hafði Pétur þegar skorað bæði mörk Feyenoord. Löngu seinna var ákveðið að afgangurinn af leiknum (27 mínútur) skyldi leikinn fyrir tómum áhorfendabekkjum og þá skoraði NAC sigurmarkið beint úr aukaspyrnu og unnu því 3-2. Með þessum tveimur mörkum hafði Pétur skorað 12 mörk, í fyrstu 9 leikjunum í röð, í deildinni. Þá var komið að 1-1 heimaleik gegn Go Ahead Eagles og hollenskir fréttamiðlar tóku það sérstaklega fram að Pétur hefði ekki skorað í leiknum! 28. október vannst útileikur gegn Vitesse 1-3 og þar skoraði Pétur eitt mark.


Í næstu tveimur leikjum tók kappinn því rólega og skoraði ekki í jafnteflum gegn Haarlem og AZ67 en svo skoraði hann tvö mörk á heimavelli gegn Utrecht - annað þeirra úr vítaspyrnu. Aftur skoraði hann úr víti sem hann fiskaði sjálfur, í byrjun desember, í 5-1 sigri á Willem ll en síðan var komið að sögulegu tapi gegn Roda 1-0. Þetta var fyrsta tap Feyenoord í deildinni síðan 23. september 1978 og því í rauninni fyrsta skiptið sem Pétur tapaði deildarleik með liðinu síðan hann gekk til liðs við það haustið áður. 16. desember gerði Feyenoord jafntefli 1-1 við Twente og þar náði Pétur ekki að skora áður en hann skrapp í jólafrí heim til Íslands.


Pétur skoraði 17. mark sitt í deildinni í fyrsta leik eftir jól í 0-2 sigri á Zwolle á útivelli og viku seinna skoraði hann sigurmark Feyenoord, 2-1 gegn NEC Nijmegen, úr vítaspyrnu. Næsti leikur var gegn PSV Eindhoven á heimavelli og hann tapaðist á furðulegan hátt 0-3. Feyenoord sótti allan leikinn og fékk t.a.m. 21 hornspyrnu á móti 2 en PSV skoraði öll mörkin í leiknum! Í 2-1 sigri á Den Haag skoraði Pétur fyrra markið úr víti og hann skoraði einnig mark Feyenoord í 1-2 tapi gegn MVV Maastricht um miðjan febrúar. Þá var komið að 6 leikja tímabili þar sem Pétur náði ekkert að skora. Liðinu vegnaði ekki mjög vel á þeim tíma og vann aðeins einn af þessum 6 leikjum en gerði þó þrjú jafntefli. 7. apríl náði hann loksins að skora mark með skalla gegn Haarlem og helgina á eftir skoraði hann fallegt mark í 3-1 heimasigri á AZ67. 20. apríl skoraði Pétur glæsilegt mark í 1-1 jafntefli við Utrecht en það var jafnframt 23ja og síðasta mark Péturs þennan vetur. Hann var veikur í næsta leik á eftir gegn Willem ll en náði ekki að skora í þeim tveimur leikjum sem eftir voru tímabilsins.

Um vorið 1980 spilaði Feyenoord síðan til úrslita um hollenska bikarinn við Ajax og sigruðu í leiknum með þremur mörkum gegn einu. Pétur var þar í stóru hlutverki og skoraði tvö marka síns liðs. Við Tumi eigum örugglega eftir að skrifa eitthvað um þann leik síðar.

No comments:

Post a Comment