Friday, April 5, 2013

10. AÐEINS UM FYRSTA HM LEIK ÍSLANDS ÁRIÐ 1958

Margt af meintu knattspyrnuáhugafólki landsins er himinlifandi þessa dagana yfir frammistöðu fótboltalandsliðsins í undankeppni HM og væntingastuðull almennings nálgast ískyggilega efri mörk, eins og jafnan þegar vel gengur. En þótt vel gangi í augnablikinu er undankeppnin þó ekki nema hálfnuð og því enn nægur tími til að fá engin stig úr þeim fimm leikjum sem eftir eru í keppninni. Af eðlislægri jarðbindni (hmmm... s.s. dregið af því að vera jarðbundinn!) leggjum við Tumi okkur alla fram um að gerast ekki úr hófi bjartsýnir og stillum okkar væntingum í hóf með tilliti til íbúafjölda klakans, vallaaðstæðna, lengd keppnistímabilsins á Íslandi og síðast en ekki síst, almennra gæða íslenskrar knattspyrnu. Styrkleikalisti FIFA segir auðvitað líka heilmikið um raunverulega stöðu Íslands í heimi knattspyrnunnar, þótt oftar en ekki séu margir sérfræðinganna auðvitað á því að ekkert sé að marka þann lista. Þeir sem skora hæst í væntingunum finnst mörgum jafnvel fullkomlega eðlilegt að gera kröfur um sigur á Dönum, Frökkum, Þjóðverjum, Hollendingum eða Tékkum og lið eins og Færeyjar, Kýpur, Möltu og Luxemburg eigi að sigra með fimm til tíu mörkum. Þó eru síðast töldu löndin öll á svipuðum slóðum og Ísland á heimslistanum. Þannig eru kröfurnar eða væntingarnar oftast í engu samræmi við raunveruleikann.
 
Staða íslenska liðsins í undanriðli Heimsmeistarakeppninnar gefur þó reyndar alveg tilefni til bjartsýni. Liðið er með 9 stig þegar seinni helmingur mótsins hefst aftur í júní og sjaldan höfum við átt jafn marga góða og unga knattspyrnumenn á sama tíma. Margir þessa leikmanna spila með sterkum atvinnumannaliðum, aðrir með miðlungsliðum en tiltölulega fáir eru að spila í gæðalítilli Pepsi-deildinni hér uppi á Íslandi. Auk þess höfum við loksins fengið þjálfara með þann metnað og reynslu sem til þarf til að ná árangri. Stefnan hlýtur því að vera sú að halda áfram að hala jafnt og þétt inn þeim stigum sem eðlilegt er að óska eftir og sjá svo til. Það er aldrei að vita nema góð úrslit og heppni fleyti liðinu áfram í umspil og svo má spyrja að leikslokum.

 
Ísland hefur ekki oft verið í þeirri stöðu að eiga möguleika á að komast á lokamót í knattspyrnu og auðvitað aldrei komist alveg alla leið. Liðið hefur tekið þátt í öllum undankeppnum HM og EM síðan um miðjan sjöunda áratuginn en þar áður höfðum við aðeins tvisvar sinnum, í sitt hvorri keppninni, freistast til að reyna okkur á meðal þeirra bestu. Fyrst fyrir HM 58 í Svíþjóð og síðan fyrir EM 64 á Spáni. Frammistaða Íslands í þeim undankeppnum hefur vafalaust sannfært forsvarsmenn KSÍ um að við stæðum öðrum þjóðum þá enn of langt að baki til að réttlæta kostnaðasamt framhald á frekari þátttöku. Næst var því ekki reynt fyrir sér fyrr en í undankeppni HM 74 í Þýskalandi og EM 76 í Júgóslavíu.
 
Það er vel við hæfi að rifja aðeins upp fyrsta HM leikinn, í fyrstu HM undankeppnina sem Ísland tók þátt í en það var, eins og áður segir, fyrir HM 58 í Svíþjóð þar sem Pelé gerði Brasilíumenn að heimsmeisturum aðeins 17 ára gamall.

 
KSÍ hélt upp á 10 ára afmæli sitt í mars árið 1957 og líklega má að einhverju leyti rekja þau tímamót til þess að ákveðið var að send lið til þátttöku í undankeppnina fyrir HM í Svíþjóð árið eftir. Sú staðreynd einnig að keppnin fór fram í Svíþjóð hefur eflaust hvatt forráðamenn sambandsins til þátttöku enda í sjálfu sér ekki tiltakanlega langt ferðalag fyrir bláfátækt knattspyrnusambandið ef svo ólíklega vildi til að íslenska liðið næði á lokakeppnina. Ísland drógst gegn tveimur sterkum knattspyrnuþjóðum, Belgíu (þeir voru á þessum árum kallaðir Rauðu djöflarnir) og Frakklandi en báðar þær þjóðir höfðu verið á Heimsmeistaramótinu í Sviss árið 1954. Árið 1957 var ferðakostnaður frá Íslandi mikill og var því samið við mótherjana um að spilað yrði við báðar þjóðirnar í sömu ferðinni, fyrst við Frakka í Nantes þann 2. júní og síðan við Belgíu í Brüssel 5. júní.
 
 
Fyrir leikinn voru Frakkarnir nokkuð uggandi um sinn hag, enda höfðu þeir litlar upplýsingar um íslenska liðið. Það eina sem þeir þekktu til íslenskra knattspyrnumanna var Albert Guðmundsson en hann hafði gert garðinn frægan hjá Nancy, Racing Club de Paris og Nizza nokkru áður. Albert var ekki í íslenska liðinu og því töldu Frakkarnir að það hlyti að vera firnasterkt fyrst ekki væru not fyrir svo frábæran knattspyrnumann. Jón Magnússon gjaldkeri KSÍ sendi Morgunblaðinu skeyti daginn fyrir leikinn við Frakkland og í niðurlagi þess sagði hann m.a.: Leikur Frakka og Íslendinga hefst kl. 3 eftir staðartíma. Leiknum verður útvarpað um allar franskar stöðvar. Dómari er brezkur. Góðviðri er nú daginn fyrir leikinn og öllum líður vel. - Jón Magnússon.

 
Leikurinn var ekkert sérstaklega jafn og fljótlega var ljóst hvert stefndi. Staðan í hálfleik var 5-0 franska liðinu í vil og áhorfendur, sem voru rúmlega 21 þús., vörpuðu öndinni léttar. Þrjú af þessum fimm mörkum voru einkar klaufaleg og í síðari hálfleiknum bættu heimamenn þremur mörkum við og lauk leiknum því með 8-0 sigri Frakka. Íslenska liðið var illa undirbúið, átti litla möguleika gegn sterkum Frökkum og lá í nauðvörn nánast allan leikinn. Þeir fengu þó tvö færi í leiknum en í annað skiptið bjargaði franskur varnarmaður með hjólhestaspyrnu í línu eftir skot frá Skagamanninum Þórði Jónssyni og í hitt skiptið varði markvörðurinn skot frá bróður hans, Ríkharði.


Célestin Oliver, Roger Piantoni og Jean Vincent skoruðu tvö mörk hver fyrir Frakkana en þeir René Dereuddre og Said Brahimi sáu um afganginn. Just Fontaine, markaskorarinn mikli, lék ekki á móti Íslendingum í leikjunum tveimur í undankeppninni en hann sló heldur betur í gegn á Heimsmeistaramótinu með því að skora þar 13 mörk. Enginn annar leikmaður hefur skorað fleiri mörk á einni HM. Þess má geta að alls skoraði Fontaine 30 mörk í 21 leik fyrir Frakkland.


En annars var íslenska liðið þannig skipað í leiknum; Helgi Daníelsson, Halldór Halldórsson, Sveinn Teitsson, Gunnar Guðmannsson, Ríkharður Jónsson, Guðjón Finnbogason, Kristinn Gunnlaugsson, Þórður Þórðarson, Dagbjartur Grímsson, Þórður Jónsson og Ólafur Gíslason. Þjálfari Íslands var Skotinn Alexander Weir.


Hér eru meira að segja tvö af mörkum Frakkanna á YouTube...


Og fleiri myndir úr leiknum...

 
 

No comments:

Post a Comment