Horfðum saman, stjúpfeðgarnir, á leik Basel og Tottenham í 8 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi, enda báðir svolítið tengdir liðunum hvor á sinn hátt. Tumi auðvitað hálf svissneskur og hefur t.a.m. tvisvar sinnum séð leik á St. Jakob leikvanginum í Basel, þó hann sé ekki nema ellefu ára gamall en ég sjálfur er vitanlega annálaður Tottenham aðdáandi sem fylgt hef liðinu síðan árið 1979. Þá var ég tíu ára. Annars urðu engir alvarlegir árekstrar okkar á milli við að horfa á leikinn enda er Tumi líka orðinn heilmikill aðdáandi Tottenham. Hann á Tottenham treyju og ég sjálfur á einnig Basel treyju. Þessum treyjum eigum við báðir mömmu hans að þakka!
Alltaf leiðinlegt að falla út úr keppnum og þá sérstaklega þegar að svona langt er komið og eflaust margir farnir að sjá úrslitaleikinn sjálfan fyrir sér í hillingum. Sérstaklega er það auðvitað svekkjandi eftir að vera búnir að vinna upp forskot Svisslendinganna og eiga enn góða möguleika á sigri í framlengingu. Sá möguleiki hvarf þó eiginlega á því augnabliki sem Verthongen fékk á sig rauða spjaldið. Maður var ánægður með að liðið skyldi þrauka framlenginguna manni færri en um leið líka svekkjandi að ná að klára hana en tapa samt í vító.
Vítaspyrnukeppni er alltaf svolítið happdrætti og getur þróast á alla vegu. Flestir eru sammála um að betra sé að byrja að skjóta í vító og til eru um það bil 473 atriði sem geta haft áhrif á þróun vítaspyrnukeppna. Sumir kalla þau atriði afsakanir. Ég ætla að láta duga að benda á að mitt lið hefur ekki fengið eina einustu vítaspyrnu á tímabilinu og því fullkomlega eðlilegt að tapa í slíkri keppni. Leikmenn Tottenham er einfaldlega ekki vanir að skora úr vítaspyrnum. Einhver spekingur sagði líka að vítaspyrnur væru léleg mörk og ég tek heils hugar undir það.
No comments:
Post a Comment