Friday, February 26, 2016

101. AÐEINS UM ENGLANDSMEISTARATITLASKORT TOTTENHAM HOTSPUR

Það er svo gaman að vera Tottenham maður þessa dagana að maður er eiginlega meira og minna flögrandi um á notalegu skýi, dag sem nótt, um þessar mundir. Enda er liðið í dauðafæri um að geta barist um Englandsmeistaratitilinn alla leið það sem eftir er tímabilsins. Sumir hlutlausir aðilar eru jafnvel farnir að vera svo bjartsýnir að spá þeim titlinum. Um helgina eigum við heimaleik við Swansea, síðan er útileikur gegn West Ham í miðri viku og svo er risaslagur á móti Arsenal á White Hart Lane um aðra helgi. Ef þessir þrír leikir fara allir á sem bestu hugsanlegu vegu (9 stig) þá verður ansi gaman að ímynda sér framhaldið. Allt er þetta þó undir okkar eigin mönnum komið og snýst auðvitað einnig um að okkar helstu andstæðingar misstígi sig. Ókei, ég veit að enn eru þrír mánuðir eftir af tímabilinu og einar 12 umferðir enn óspilaðar en er á meðan er.

Best að rifja aðeins upp árangur Tottenham í deildinni síðustu áratugina. Tottenham er eitt af aðeins sjö liðum Úrvalsdeildarinnar sem hafa verið með frá stofnun hennar tímabilið 1992-93. Hin sex liðin eru; Arsenal, Aston Villa (þeir fara líklega niður í vor), Chelsea, Everton, Liverpool og Man Utd. Tvisvar sinnum hefur Spurs endað í fjórða sæti deildarinnar og fimm sinnum í því fimmta en liðið hefur aldrei náð að vinna ensku Úrvalsdeildina. Reyndar eru aðeins fimm lið sem það hafa gert frá stofnun hennar fyrir 23 árum.

En það var líka líf fyrir ensku Úrvalsdeildina og baráttan um deildartitilinn hafði verið til í rúm 100 ár áður en Úrvalsdeildin kom til sögunnar. Enska deildarkeppnin hóf göngu sína haustið 1888 og Tottenham hóf keppni í 2. deild hennar árið 1908. Liðið komst upp í 1. deildina strax árið eftir og hefur að mestu verið í efstu deild síðan. Spurs hefur tvisvar unnið Englandsmeistaratitilinn og í fyrra skiptið sem það gerðist, tímabilið 1950-51, fögnuðu þeir sigri í deildinni strax í kjölfar þess að hafa unnið 2. deildina vorið á undan. Liðið varð efst með 60 stig en Man Utd var með 56 í öðru sæti og Blackpool með 50 stig í því þriðja. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að á þessum árum var tveggja stiga reglan auðvitað enn í gangi.



Keppnistímabilið 1960-61 vann Tottenham síðan deildina í annað sinn og afrekaði það þá einnig að verða fyrsta enska félagið til að vinna tvöfalt á 20. öldinni - þ.e. deildina og enska bikarinn - FA Cup. Liðið vann einmitt Leicester í úrslitum bikarsins með tveimur mörkum gegn engu. Í deildinni hlaut Tottenham 66 stig, Sheffield Wednesday varð í öðru með 58 og Wolves í því þriðja með 57 en þess má geta að Spurs skoraði 115 mörk í leikjunum 42. Margir vilja meina að þetta hafi verið eitt albesta knattspyrnulið Bretlandseyja fram til þess tíma og var Tottenham jafnvel kallað lið aldarinnar.



Margir Íslendingar hófu að styðja Tottenham á þessum árum enda úrslit enska boltans og fréttir af honum birtar reglulega í íslensku dagblöðunum. Gaman að geta þess að samkvæmt fljótlegri könnun var fyrst minnst á knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur í íslensku dagblaði þann 6. júní árið 1934 en þá var sagt frá lokastöðu ensku 1. deildarinnar um vorið í Morgunblaðinu. Íslenskar getraunir hófu starfsemi sína á 6. áratugnum með leikjum úr dönsku og sænsku deildunum en voru svo með enska boltann yfir vetrartímann og þeir öðluðust strax mikilla vinsælda hér á landi. Og eftir að Keflavík drógst gegn Tottenham í Evrópukeppni félagsliða haustið 1971 byrjuðu margir Íslendingar að styðja liðið. Ég stefni einmitt að því að fjalla ítarlega hér um leiki Keflavíkur og Tottenham í haust þegar 45 ár verða liðin frá drætti þeirra í Evrópukeppninni.


Árangur Tottenham í ensku 1. deildinni eftir að liðið vann titilinn vorið 1961 var misjafn á næstu áratugum. Spurs var oftast með bestu liðum árin á eftir, lenti til dæmis í 2. sæti 1962-63, og þrisvar sinnum í 3. sæti en botninum var náð vorið 1977 þegar liðið féll niður í 2. deild. Tottenham fór reyndar upp strax vorið á eftir og hefur verið í efstu deild síðan. 1981-82 og 1982-83 hafnaði liðið í fjórða sæti deildarinnar en þrisvar á 9. áratug síðustu aldar afrekaði Tottenham síðan að lenda í 3. sæti. Keppnistímabilin 1984-85, 1986-87 og 1989-90 eru því bestu ár Spurs síðan þeir komu síðast upp úr næstefstu deild og um leið bestu tímabil sem ég sjálfur hef upplifað með liðinu sem stuðningsmaður.

En þó Englandsmeistaratitillinn hafi látið svolítið standa á sér hjá Tottenham þá hefur liðið síður en svo verið titlalaust í gegnum tíðina. Rúmlega 20 aðrir titlar bera vitni um það og hvorki meira né minna en 8 þeirra síðan að ég hóf að styðja liðið fyrir 37 árum. Englandsmeistaratitillinn hefur þó enn ekki látið á sér kræla á þeim tíma en kannski er bara óvænt komið að því núna...

Friday, February 19, 2016

100. ÍSLENSKAR AÐSTÆÐUR

Einhverjir voru að hneykslast á myndbandi sem birtist á fréttamiðlum um daginn þar sem leikmenn 3. flokks Fjölnis og Fram voru að spila leik á Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu. Á myndbandinu má sjá unga og spræka menn spila sinn leik á snævi þöktu gervigrasinu við Egilshöll og svolítilli snjókomu. 


Sumir voru að hneykslast á aðstæðunum og vildu meina að þær væru ekki boðlegar, hættulegar, ólöglegar og ég veit ekki hvað og hvað. Veit ekki alveg hvað menn eru að fara með þessu væli. Auðvitað voru þessar aðstæður ekki góðar en það hafa allir gott af því að kynnast aðeins einhverju öðru heldur en bara rennisléttu gervigrasi og logni inni í upphituðu knattspyrnuhúsi að vetrarlagi. Tökum frekar ofan fyrir þessum guttum að væla ekki yfir aðstæðunum eða að heimta að leiknum yrði frestað.


Flest lið úti á landi þurfa að æfa og spila við sambærilegar aðstæður og áður en knattspyrnuhallirnar risu þurftu öll félög (líka á höfuðborgarsvæðinu) að spila við þessar aðstæður. Og þá er ég bara að tala um veðrið. Það var ekki alltaf spennandi að æfa eða spila æfingaleiki á gegnfrosnum og holóttum malarvöllum í febrúar eða mars. Og lítið skánaði það þegar nær dró vori og malarvellirnir urðu að rennblautu forarsvaði. Fáir vældu yfir því eða spáðu í hvort það væri hetjuskapur eða karlmannlegt að spila við þessar aðstæður. Þetta var einfaldlega veruleikinn og það eina sem í boði var. Eins íslenskt og hægt var...

Friday, February 12, 2016

99. ÍSLAND - WALES 1981

Það er náttúrulega ekki hjá því komist að birta eftirfarandi vídeo sem nú hafa verið gerð aðgengileg á YouTube. Nefnilega frægur leikur Wales og Íslands sem fram fór á Wetch Field í Swansea þann 14. október árið 1981. Áður hefur verið minnst á þennan leik í gamalli færslu hér.

Myndbönd af leiknum eru í tveimur hlutum - fyrst fyrri hálfleikur...


Og svo sá seinni...


Það er mjög gaman að horfa á þennan leik tæplega 35 árum eftir að hann var spilaður og ekki bara að bera hann saman við nútíma knattspyrnu eins og hún er spiluð í dag, heldur líka að rifja upp einstaka leikmenn íslenska (og reyndar líka welska) liðsins. Ég var aðeins 12 ára þegar þessi leikur fór fram og man auðvitað vel eftir honum enda þá eitt stærsta afrek íslenskrar knattspyrnusögu. Á þessum árum tíðkaðist það ekki að sýna landleiki Íslands í beinni sjónvarpsútsendingu heldur þurfti maður að láta sér lynda að hlusta á hann í beinni útvarpslýsingu á einu útvarpsstöðinni sem í boði var á Íslandi á þessum tíma - Rás 1. Í minningunni man ég einhverra hluta vegna lýsingu Hemma heitins Gunn, seinni part þessa miðvikudags, á leiðinni austur fyrir fjall í gömlum Willis jeppa en sama hvað ég reyni þá finn ég ekki þann lið í útvarpsdagskránni þennan dag. Hlýtur að vera misminni.


Leikmenn íslenska liðsins stóðu sig flestir nokkuð vel í þessum leik og það er mjög nostalgíst að horfa á þessar gömlu hetjur birtast manni aftur á skjánum um 30 árum eftir að þeir lögðu skóna á hilluna frægu. Miðað við nútíma knattspyrnu virðist þetta welska lið nú ekkert sérstaklega sterkt á að horfa en afrek íslenska liðsins var engu að síðu gott. Ásgeir Sigurvinsson bar af á vellinum. Leikur hans var auðvitað ekki alveg hnökralaus en í þessum leik sér maður samt vel hversu góður leikmaður hann var. Arnór Guðjohnsen var þarna aðeins tvítugur að aldri og stóð sig einnig mjög vel en þeir leikmenn sem komu mér eiginlega mest á óvart í þessum leik voru þeir Marteinn Geirsson, Örn Óskarsson og Janus Guðlaugsson. Auðvitað man ég vel eftir þessum leikmönnum en einhverra hluta vegna sá maður þá aldrei með réttum augum vegna þess að á þessum aldri hafði maður svo mikla tilhneigingu til að horfa bara á stjörnurnar Ásgeir og Arnór spila. Slökustu leikmenn Íslands í þessum leik fannst mér hins vegar þeir Viðar Halldórs og Atli Eðvaldsson en sá síðarnefndi sást eiginlega ekki í leiknum, sem var mjög óvenjulegt fyrir hann. Undir lok leiksins kom 19 ára Walesverji inn á sem varamaður en breytti engu um gang hans. Þessi leikmaður hét Ian Rush.

En endilega kíkið á leikinn og góða skemmtun...

98. MÍNIR MENN

Enska Úrvalsdeildin í knattspyrnu er búin að vera í sérstæðari kantinum í vetur en það má að mestu leyti þakka óvæntu spútnik liði Leicester og Claudio Ranieri þjálfara þess. Lið, eins og Man Utd og Chelsea, sem verið hafa í toppbaráttunni á undanförnum árum eru miklu lélegri en áður og stuðningsmenn þeirra liða hér á landi hafa verið duglegir við að fullyrða að deildin sé lélegri fyrir vikið. Það er þó alrangt. Öll deildin verður ekkert lakari þótt tvö eða þrjú ágæt lið eigi slakt tímabil. Það koma alltaf önnur lið í stað þeirra á toppnum. Þrjú af fjórum enskum liðum fóru til dæmis áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar en það er sambærilegt við spænsku deildina og varla telst það lélegt.
Úrvalsdeildin í vetur er ekki eingöngu sérstök fyrir góða frammistöðu Leicester heldur er hún búin að vera óvenjulega jöfn og spennandi. Margir eru búnir að vera með yfirlýsingar um hvenær blaðran springi hjá liðinu og fæstir hafa enn minnstu trú á að það hampi titlinum. Leicester er reyndar núna komið með fimm stiga forskot á toppnum þegar heilar 13 umferðir eru eftir en það eru enn 39 stig á lið eftir í pottinum sem þýðir að það er einnig nóg eftir af leikjum til að misstíga sig. Blaðran getur því auðveldlega enn sprungið. Það gildir reyndar um öll liðin í deildinni. En staðan á toppnum er nákvæmlega svona í augnablikinu:
  1. Leicester        25  15  8  2  47-27  53
  2. Tottenham     25  13  9  3  45-19  48
  3. Arsenal          25  14  6  5  39-22  48
  4. Man City        25  14  5  6  47-26  47
  5. Man Utd         25  11  8  6  32-22  41
Topp 4 liðin virðast ætla að tryggja sér Meistaradeildarsætin í tíma og eyða frekar orkunni, í síðustu umferðunum, við að berjast um sjálfan titilinn. Síðustu árin hafa í mesta lagi verið tvö til þrjú lið að slást um sjálft efsta sætið en næstu fjögur - fimm lið hafa verið að berjast um þau eitt eða tvö Meistaradeildarsæti sem hafa verið á lausu. Toppbaráttan er því stórskemmtileg og flestir eru væntanlega fegnir því að ekki skuli vera eitthvert eitt yfirburðarlið sem er búið að klára deildina um jólin eins og raunin er til dæmis í Frakklandi. Þar er Paris St. Germain með svo mikla yfirburði að Monaco, sem er í öðru sæti deildarinnar, er stigalega séð jafn nálægt toppsætinu og Toulouse sem eru næstneðstir!

Sjálfur hefur maður auðvitað verið alveg í skýjunum yfir breyttu umhverfi í enska boltanum. Ekki einungis vegna slaks gengis Man Utd, Chelsea og Liverpool, heldur hafa mínir menn í Tottenham verið að blómstra á ekki á ósvipaðan hátt og Leicester. Liðið hefur á undanförnum árum verið að berjast við að hanga á topp fjórum og verið ýmist inni eða úti í Meistaradeildinni og meira að segja fjórða sætið hefur jafnvel ekki einu sinni dugað til að komast þar inn. Stjórn félagsins hefur verið að skipta um stjóra í brúnni nánast eftir vindátt og fæstir hafa þeir fengið tíma eða almennilegt tækifæri til að sýna hvað í þá er spunnið. Því fylgir auðvitað endalaust rót á leikmannahópnum, ný leikskipulög og áherslur, almennt rótleysi og pirringur meðal áhangenda og síðast en ekki síst þessi óhjákvæmilega nauðsyn á að þurfa að byrja allt frá grunni. Allt þetta hefur áhrif.



En eitthvað er öðruvísi núna. Mauricio Pochettino (sökun tíðra stjóraskipta var ég lengi vel ekkert að nenna að muna einu sinni hvað hann heitir) virðist hafa fundið þá réttu formúlu sem stjórn félgsins og eigandi sætta sig við og á meðan starf hans er ekki í hættu og þar af leiðandi engin pressa er auðvitað miklu þægilegra og betra að vinna og stjórna. Spurs er að blómstra undir hans stjórn og staða liðsins í öðru sæti deildarinnar er engin tilviljun. Tottenham ER raunverulega að berjast um enska Úrvalsdeildartitilinn. Það er langt síðan liðið hefur verið á þessum stað í deildinni á þessum tíma vetrar en í byrjun árs 2012 man ég þó eftir að Tottenham hafi verið í þriðja sætinu að reyna að hanga aftan í Manchester liðunum. Þá endaði liðið að lokum í 4. sætinu, 20 stigum á eftir Manchester liðunum og 1 stigi á eftir erkifjendunum í Arsenal en missti af réttinum á Meistaradeildarsætinu vegna þess að Chelsea (sem endaði í 6. sæti) hirti þá dollu og fékk því sjálfkrafa það sæti. Vá, hvað maður varð illur!


Lið Tottenham hefur haft fullt fram að færa til að réttlæta þessa stöðu. Liðið hefur vaxið jafnt og þétt í vetur og í rauninni hefur verið jafn og góður stígandi í liðinu alveg frá því að Pochettino tók við því. Auðvitað þurfti hann að aðlaga Tottenham að þeim leikstíl sem hann vildi sjá liðið spila, versla nýja leikmenn sem honum fannst henta þeim stíl og svo þurfti hann auðvitað að losa sig við þá leikmenn sem hann taldi sig ekki hafa not fyrir. Mórallinn virðist hafa verið tekinn föstum tökum og allir virðast vera ánægðir hjá félaginu. Liðið er það yngsta í deildinni og framtíðin er ótrúlega björt. Liðið fékk hinn 19 ára Dele Alli frá Milton Keynes og hann er að spila eins og engill. Harry Kane fór hægt af stað en hefur verið að raða inn mörkum jafnt og þétt síðan í lok október. Christian Eriksen, Eric Dier og Moussa Dembele hafa allir leikið mjög vel og vörnin með þá Jan Vertonghen og Toby Alderweireld taka allt. Og svo er Hugo Lloris fyrirliði auðvitað besti markvörðurinn í deildinni.



Spurs fór frekar rólega af stað í haust og tapaði fyrsta leik sínum í deildinni þannig að það tók smá tíma að átta sig á því hvað í liðinu bjó. Næstu þrír leikir fóru jafntefli en smán saman fóru stigin að safnast saman. Liðið lék 14 deildarleiki í röð án taps fram til 13. desember en þá kom heimskulegur ósigur á heimavelli gegn Newcastle. Þrír sigrar í næstu fjórum leikjum færðu liðið enn upp töfluna en þá kom tapleikur gegn toppliði Leicester. Í sjálfu sér engin skömm af því en samt óþarfi því okkar menn voru betri og tapið má alveg skrifa á reynsluleysi. Síðan þá hefur Spurs unnið alla þá fjóra leiki sem liðið hefur spilað og situr nú sem fyrr segir í öðru sætinu. Liðið hefur fengið á sig fæst mörk í vetur og margir vilja meina að vörnin sé sú sterkasta í deildinni. Í þeim 25 leikjum sem lokið er hefur Tottenham ekki fengið á sig mark í 9 þeirra og er með langbesta markahlutfallið. Þó Spurs hafi aðeins tapað þremur leikjum eru það líklega jafnteflin sem mest hafa skemmt fyrir liðinu í vetur. Níu jafntefli er of mikið fyrir lið í toppbaráttunni og geta orðið blóðug þegar upp er staðið.

Það er svo gaman að skrifa um Tottenham þegar vel gengur að ég ætla að hætta núna og koma með meira seinna...