Friday, February 12, 2016

98. MÍNIR MENN

Enska Úrvalsdeildin í knattspyrnu er búin að vera í sérstæðari kantinum í vetur en það má að mestu leyti þakka óvæntu spútnik liði Leicester og Claudio Ranieri þjálfara þess. Lið, eins og Man Utd og Chelsea, sem verið hafa í toppbaráttunni á undanförnum árum eru miklu lélegri en áður og stuðningsmenn þeirra liða hér á landi hafa verið duglegir við að fullyrða að deildin sé lélegri fyrir vikið. Það er þó alrangt. Öll deildin verður ekkert lakari þótt tvö eða þrjú ágæt lið eigi slakt tímabil. Það koma alltaf önnur lið í stað þeirra á toppnum. Þrjú af fjórum enskum liðum fóru til dæmis áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar en það er sambærilegt við spænsku deildina og varla telst það lélegt.
Úrvalsdeildin í vetur er ekki eingöngu sérstök fyrir góða frammistöðu Leicester heldur er hún búin að vera óvenjulega jöfn og spennandi. Margir eru búnir að vera með yfirlýsingar um hvenær blaðran springi hjá liðinu og fæstir hafa enn minnstu trú á að það hampi titlinum. Leicester er reyndar núna komið með fimm stiga forskot á toppnum þegar heilar 13 umferðir eru eftir en það eru enn 39 stig á lið eftir í pottinum sem þýðir að það er einnig nóg eftir af leikjum til að misstíga sig. Blaðran getur því auðveldlega enn sprungið. Það gildir reyndar um öll liðin í deildinni. En staðan á toppnum er nákvæmlega svona í augnablikinu:
  1. Leicester        25  15  8  2  47-27  53
  2. Tottenham     25  13  9  3  45-19  48
  3. Arsenal          25  14  6  5  39-22  48
  4. Man City        25  14  5  6  47-26  47
  5. Man Utd         25  11  8  6  32-22  41
Topp 4 liðin virðast ætla að tryggja sér Meistaradeildarsætin í tíma og eyða frekar orkunni, í síðustu umferðunum, við að berjast um sjálfan titilinn. Síðustu árin hafa í mesta lagi verið tvö til þrjú lið að slást um sjálft efsta sætið en næstu fjögur - fimm lið hafa verið að berjast um þau eitt eða tvö Meistaradeildarsæti sem hafa verið á lausu. Toppbaráttan er því stórskemmtileg og flestir eru væntanlega fegnir því að ekki skuli vera eitthvert eitt yfirburðarlið sem er búið að klára deildina um jólin eins og raunin er til dæmis í Frakklandi. Þar er Paris St. Germain með svo mikla yfirburði að Monaco, sem er í öðru sæti deildarinnar, er stigalega séð jafn nálægt toppsætinu og Toulouse sem eru næstneðstir!

Sjálfur hefur maður auðvitað verið alveg í skýjunum yfir breyttu umhverfi í enska boltanum. Ekki einungis vegna slaks gengis Man Utd, Chelsea og Liverpool, heldur hafa mínir menn í Tottenham verið að blómstra á ekki á ósvipaðan hátt og Leicester. Liðið hefur á undanförnum árum verið að berjast við að hanga á topp fjórum og verið ýmist inni eða úti í Meistaradeildinni og meira að segja fjórða sætið hefur jafnvel ekki einu sinni dugað til að komast þar inn. Stjórn félagsins hefur verið að skipta um stjóra í brúnni nánast eftir vindátt og fæstir hafa þeir fengið tíma eða almennilegt tækifæri til að sýna hvað í þá er spunnið. Því fylgir auðvitað endalaust rót á leikmannahópnum, ný leikskipulög og áherslur, almennt rótleysi og pirringur meðal áhangenda og síðast en ekki síst þessi óhjákvæmilega nauðsyn á að þurfa að byrja allt frá grunni. Allt þetta hefur áhrif.



En eitthvað er öðruvísi núna. Mauricio Pochettino (sökun tíðra stjóraskipta var ég lengi vel ekkert að nenna að muna einu sinni hvað hann heitir) virðist hafa fundið þá réttu formúlu sem stjórn félgsins og eigandi sætta sig við og á meðan starf hans er ekki í hættu og þar af leiðandi engin pressa er auðvitað miklu þægilegra og betra að vinna og stjórna. Spurs er að blómstra undir hans stjórn og staða liðsins í öðru sæti deildarinnar er engin tilviljun. Tottenham ER raunverulega að berjast um enska Úrvalsdeildartitilinn. Það er langt síðan liðið hefur verið á þessum stað í deildinni á þessum tíma vetrar en í byrjun árs 2012 man ég þó eftir að Tottenham hafi verið í þriðja sætinu að reyna að hanga aftan í Manchester liðunum. Þá endaði liðið að lokum í 4. sætinu, 20 stigum á eftir Manchester liðunum og 1 stigi á eftir erkifjendunum í Arsenal en missti af réttinum á Meistaradeildarsætinu vegna þess að Chelsea (sem endaði í 6. sæti) hirti þá dollu og fékk því sjálfkrafa það sæti. Vá, hvað maður varð illur!


Lið Tottenham hefur haft fullt fram að færa til að réttlæta þessa stöðu. Liðið hefur vaxið jafnt og þétt í vetur og í rauninni hefur verið jafn og góður stígandi í liðinu alveg frá því að Pochettino tók við því. Auðvitað þurfti hann að aðlaga Tottenham að þeim leikstíl sem hann vildi sjá liðið spila, versla nýja leikmenn sem honum fannst henta þeim stíl og svo þurfti hann auðvitað að losa sig við þá leikmenn sem hann taldi sig ekki hafa not fyrir. Mórallinn virðist hafa verið tekinn föstum tökum og allir virðast vera ánægðir hjá félaginu. Liðið er það yngsta í deildinni og framtíðin er ótrúlega björt. Liðið fékk hinn 19 ára Dele Alli frá Milton Keynes og hann er að spila eins og engill. Harry Kane fór hægt af stað en hefur verið að raða inn mörkum jafnt og þétt síðan í lok október. Christian Eriksen, Eric Dier og Moussa Dembele hafa allir leikið mjög vel og vörnin með þá Jan Vertonghen og Toby Alderweireld taka allt. Og svo er Hugo Lloris fyrirliði auðvitað besti markvörðurinn í deildinni.



Spurs fór frekar rólega af stað í haust og tapaði fyrsta leik sínum í deildinni þannig að það tók smá tíma að átta sig á því hvað í liðinu bjó. Næstu þrír leikir fóru jafntefli en smán saman fóru stigin að safnast saman. Liðið lék 14 deildarleiki í röð án taps fram til 13. desember en þá kom heimskulegur ósigur á heimavelli gegn Newcastle. Þrír sigrar í næstu fjórum leikjum færðu liðið enn upp töfluna en þá kom tapleikur gegn toppliði Leicester. Í sjálfu sér engin skömm af því en samt óþarfi því okkar menn voru betri og tapið má alveg skrifa á reynsluleysi. Síðan þá hefur Spurs unnið alla þá fjóra leiki sem liðið hefur spilað og situr nú sem fyrr segir í öðru sætinu. Liðið hefur fengið á sig fæst mörk í vetur og margir vilja meina að vörnin sé sú sterkasta í deildinni. Í þeim 25 leikjum sem lokið er hefur Tottenham ekki fengið á sig mark í 9 þeirra og er með langbesta markahlutfallið. Þó Spurs hafi aðeins tapað þremur leikjum eru það líklega jafnteflin sem mest hafa skemmt fyrir liðinu í vetur. Níu jafntefli er of mikið fyrir lið í toppbaráttunni og geta orðið blóðug þegar upp er staðið.

Það er svo gaman að skrifa um Tottenham þegar vel gengur að ég ætla að hætta núna og koma með meira seinna...

No comments:

Post a Comment