Það er náttúrulega ekki hjá því komist að birta eftirfarandi vídeo sem nú hafa verið gerð aðgengileg á YouTube. Nefnilega frægur leikur Wales og Íslands sem fram fór á Wetch Field í Swansea þann 14. október árið 1981. Áður hefur verið minnst á þennan leik í gamalli færslu hér.
Myndbönd af leiknum eru í tveimur hlutum - fyrst fyrri hálfleikur...
Og svo sá seinni...
Það er mjög gaman að horfa á þennan leik tæplega 35 árum eftir að hann var spilaður og ekki bara að bera hann saman við nútíma knattspyrnu eins og hún er spiluð í dag, heldur líka að rifja upp einstaka leikmenn íslenska (og reyndar líka welska) liðsins. Ég var aðeins 12 ára þegar þessi leikur fór fram og man auðvitað vel eftir honum enda þá eitt stærsta afrek íslenskrar knattspyrnusögu. Á þessum árum tíðkaðist það ekki að sýna landleiki Íslands í beinni sjónvarpsútsendingu heldur þurfti maður að láta sér lynda að hlusta á hann í beinni útvarpslýsingu á einu útvarpsstöðinni sem í boði var á Íslandi á þessum tíma - Rás 1. Í minningunni man ég einhverra hluta vegna lýsingu Hemma heitins Gunn, seinni part þessa miðvikudags, á leiðinni austur fyrir fjall í gömlum Willis jeppa en sama hvað ég reyni þá finn ég ekki þann lið í útvarpsdagskránni þennan dag. Hlýtur að vera misminni.
Leikmenn íslenska liðsins stóðu sig flestir nokkuð vel í þessum leik og það er mjög nostalgíst að horfa á þessar gömlu hetjur birtast manni aftur á skjánum um 30 árum eftir að þeir lögðu skóna á hilluna frægu. Miðað við nútíma knattspyrnu virðist þetta welska lið nú ekkert sérstaklega sterkt á að horfa en afrek íslenska liðsins var engu að síðu gott. Ásgeir Sigurvinsson bar af á vellinum. Leikur hans var auðvitað ekki alveg hnökralaus en í þessum leik sér maður samt vel hversu góður leikmaður hann var. Arnór Guðjohnsen var þarna aðeins tvítugur að aldri og stóð sig einnig mjög vel en þeir leikmenn sem komu mér eiginlega mest á óvart í þessum leik voru þeir Marteinn Geirsson, Örn Óskarsson og Janus Guðlaugsson. Auðvitað man ég vel eftir þessum leikmönnum en einhverra hluta vegna sá maður þá aldrei með réttum augum vegna þess að á þessum aldri hafði maður svo mikla tilhneigingu til að horfa bara á stjörnurnar Ásgeir og Arnór spila. Slökustu leikmenn Íslands í þessum leik fannst mér hins vegar þeir Viðar Halldórs og Atli Eðvaldsson en sá síðarnefndi sást eiginlega ekki í leiknum, sem var mjög óvenjulegt fyrir hann. Undir lok leiksins kom 19 ára Walesverji inn á sem varamaður en breytti engu um gang hans. Þessi leikmaður hét Ian Rush.
En endilega kíkið á leikinn og góða skemmtun...
No comments:
Post a Comment