Friday, February 19, 2016

100. ÍSLENSKAR AÐSTÆÐUR

Einhverjir voru að hneykslast á myndbandi sem birtist á fréttamiðlum um daginn þar sem leikmenn 3. flokks Fjölnis og Fram voru að spila leik á Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu. Á myndbandinu má sjá unga og spræka menn spila sinn leik á snævi þöktu gervigrasinu við Egilshöll og svolítilli snjókomu. 


Sumir voru að hneykslast á aðstæðunum og vildu meina að þær væru ekki boðlegar, hættulegar, ólöglegar og ég veit ekki hvað og hvað. Veit ekki alveg hvað menn eru að fara með þessu væli. Auðvitað voru þessar aðstæður ekki góðar en það hafa allir gott af því að kynnast aðeins einhverju öðru heldur en bara rennisléttu gervigrasi og logni inni í upphituðu knattspyrnuhúsi að vetrarlagi. Tökum frekar ofan fyrir þessum guttum að væla ekki yfir aðstæðunum eða að heimta að leiknum yrði frestað.


Flest lið úti á landi þurfa að æfa og spila við sambærilegar aðstæður og áður en knattspyrnuhallirnar risu þurftu öll félög (líka á höfuðborgarsvæðinu) að spila við þessar aðstæður. Og þá er ég bara að tala um veðrið. Það var ekki alltaf spennandi að æfa eða spila æfingaleiki á gegnfrosnum og holóttum malarvöllum í febrúar eða mars. Og lítið skánaði það þegar nær dró vori og malarvellirnir urðu að rennblautu forarsvaði. Fáir vældu yfir því eða spáðu í hvort það væri hetjuskapur eða karlmannlegt að spila við þessar aðstæður. Þetta var einfaldlega veruleikinn og það eina sem í boði var. Eins íslenskt og hægt var...

No comments:

Post a Comment