Thursday, April 28, 2016

106. ENN UM TOTTENHAM

Nú er farið að styttast ískyggilega í lok keppnistímabilsins á Englandi og líkurnar á að Leicester City hampi Englandsmeistaratitlinum veturinn 2015-16 verða varla mikið meiri. Liðið hefur náð að halda forskoti sínu á toppnum með reyndar aðeins misjafnlega miklum mun en helstu keppinautar þeirra hafa verið að missa af lestinni undanfarnar vikur - nema Tottenham. Mínir menn í Spurs hafa hangið aftan í Leicester síðustu vikurnar en eftir að hafa verið fimm stigum á eftir meistaraefnunum í þó nokkurn tíma, þá er bilið nú orðið sjö stig. Og aðeins þrír leikir eftir. Margir vilja meina að Leicester eigi ívíð erfiðari leiki eftir en það skiptir litlu máli núna. Allt eru þetta þó úrslitaleikir og hver einustu mistök geta verið dýrkeypt. Eitt dauðafæri sem ekki nýtist getur breytt unnum leik í jafntefli eða jafnvel tap og við það tapast tvö til þrjú stig. Leicester hefur enn þrjú tækifæri til að tapa öllum síðustu leikjunum en því miður gildir það víst sama um Tottenham.



Þó svo að Tottenham nái ekki að vinna deildina að þessu sinni þá hefur spilamennska og árangur liðsins í vetur verið algjörlega til fyrirmyndar. Margir vilja meina að liðið hafi spilað besta og skemmtilegasta fótboltann í vetur og sé þar af leiðandi besta liðið á Englandi í dag en það er reyndar ekki svo. Besta liðið endar með flest stig í lok tímabilsins og eins og stendur er það lið Leicester. Í lok tímabilsins er aldrei spurt sérstaklega um hvaða lið skoraði flest mörk, fékk á sig fæst, átti markahæsta leikmanninn, átti flest stangarskot og svo framvegis. Sigurvegarinn í lok mótsins verður alltaf það lið sem endar með flest stig. Þannig er líklegt að fjöldi jafntefla Tottenham í vetur eigi eftir að verða liðinu dýrkeypt þegar uppi er staðið. Einstaka leikur tapast líka oft á ósanngjarnan hátt. Lið getur verið með boltann 70% af leiknum, átt þrjú stangarskot, brennt af vítum eða öðrum dauðafærum en það eru alltaf mörkin sem telja. Það fæst ekkert fyrir stangarskotin eða færin sem ekki nýtast. Man Utd vann deildina oft með endalausum 1-0 sigrum í hundleiðinlegum leikjum og Leicester hafa einmitt einnig verið duglegir við það á undanförnum vikum.

En það má ekki taka það af Leicester að liðið á fyllilega skilið þá stöðu sem liðið er í og það er gaman að sjá Ranieri og félaga á toppnum fyrst Tottenham nær ekki titlinum. Og þó að 1-0 sigrar Leicester séu ekki skemmtilegir þá er liðið með ólíkt skemmtilegri stjóra en Man Utd var með á árum áður og reyndar enn. Ranieri er augljóslega toppmaður að öllu leiki.



Annars er best að kíkja aðeins á tölfræðilega yfirburði Tottenham í vetur - svona til gamans. Þannig getur maður í lok tímabilsins alltaf huggað sig við það að þó að Leicester hafi unnið deildina þá var Tottenham samt skemmtilegra!
  • Tottenham hefur skorað næstflest mörk (65) í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Tottenham hefur fengið á sig fæst mörk (26) í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Og þar af leiðandi er Tottenham auðvitað með besta markahlutfallið (39 í plús) í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur átt flest skot á markið í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur fengið flest færi í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur skorað flest mörk (18) úr föstum leikatriðum í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
Þetta eru þær tölfræðilegu staðreyndir þar sem Tottenham er með efstum liðum á lista og skipta alla jafna töluverðu máli. En liðið er líka að skora hátt á öðrum vettvöngum og eftirfarandi punktar gefa bara vísbendingu um hvernig framhaldið gæti orðið. Liðið mun örugglega halda áfram að banka á toppbaráttudyrnar ef sami mannskapur og stjóri fá frið til að gera eitthvað skemmtilegt.
  • Tottenham er með yngsta byrjunarliðið í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Harry Kane hefur skorað flest mörk (25) allra leikmanna í Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Dele Alli var kjörinn besti ungi leikmaðurinn í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Cristian Eriksen hefur hlaupið mest af öllum miðjumönnum ensku deildarinnar í vetur - að meðaltali 12,2 km í hverjum leik.
  • Cristian Eriksen hefur lagt upp næstflest mörk af öllum leikmönnum ensku Úrvalsdeildarinnar í vetur.
  • Dele Alli hefur lagt upp flest mörk (7) fyrir einn mann (Harry Kane) af leikmönnum ensku deildarinnar í vetur.
  • Enginn varnarmaður í ensku Úrvalsdeildinni hefur brotið sjaldnar af sér (alls 9 sinnum) heldur en Toby Alderweireld í vetur. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið dæmd á hann aukaspyrna í tæplega 700 mínútur.
  • Tottenham hefur tapað næstfæstum leikjum (4) af öllum liðum Úrvalsdeildarinnar í vetur og öllum með minnsta mun - 0-1, 0-1, 0-1 og 1-2.
  • Flestir leikir Tottenham í röð í vetur án taps voru 12 leikir. Liðið vann 6 leiki í röð í janúar og febrúar en það tímabil var þó ekki innan þessa 12 leikja taplausa ramma.
  • Tottenham á fjóra leikmenn í liði ársins í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
Maður bara skilur ekki af hverju Tottenham Hotspur er ekki löngu búið að tryggja sér sigur í ensku Úrvalsdeildinni veturinn 2015-16. En í það minnsta er árangurinn frábær þrátt fyrir allt. Meistaradeildarsætið er orðið nokkuð víst næsta vetur og framtíðin er björt hjá mínum mönnum.

ÁFRAM TOTTENHAM!

No comments:

Post a Comment