Jæja! Enn er íslenska landsliðið að koma á óvart og hafa nú eignast aðdáendur um alla Evrópu í tonnatali eftir frábæran sigur á Englendingum, sem breska pressan er búin að vera að dunda sér við að slátra síðan dómarinn flautaði leikinn af. 2-1 urðu lokatölur leiksins og íslenska þjóðin er að rifna af stolti yfir árangri landsliðsins sem nú þegar hefur farið fram úr öllum okkar villtustu draumum.
Ísland er því komið í 8 liða úrslit á EM og er enn taplaust á sínu fyrsta stórmóti. Reyndar má nefna þá staðreynd að héðan í frá getur landsliðið ekki tapað nema einum leik á mótinu og á meira að segja möguleika á að fara taplaust í gegnum EM. Tæknilega er Ísland því aðeins þremur leikjum frá því að verða Evrópumeistari í knattspyrnu 2016.
En næsti mótherji er ekki heldur af lakara taginu og reyndar eru öll lið sem eftir eru gríðarlega sterk. Frakkland er andstæðingur Íslands í 8 liða úrslitum og þar er ljóst að um virkilega erfiðan leik verður að ræða. Besti leikur Íslands á mótinu fram til þessa var leikurinn gegn Englandi og ljóst er að liðið getur enn spilað mun betur og bætt sig. Það er reyndar engan veginn hægt að segja að íslenska landsliðið hafi átt slakan leik á EM, enda taplaust í fjórum leikjum, en enn hefur maður það á tilfinningunni að liðið hafi enn ekki sýnt sitt besta þó úrslitin fram að þessu séu bara frábær. Eitthvað segir manni að enn eigi Ísland eitthvað inni.
Alla vega, hvernig sem fer gegn Frökkum þá er ljóst að íslenska landsliðið er loksins komið endanlega á knattspyrnukortið í Evrópu og það verður virkilega gaman að sjá hvar Ísland verður statt á næsta styrkleikalista FIFA sem gefinn verður út eftir EM.
ÁFRAM ÍSLAND!
ÁFRAM ÍSLAND!