Það er óhætt að segja að íslenska landsliðið hafi komið skemmtilega á óvart í lokaleik riðlakeppni EM þar sem liðið tók upp á þeim ósköpum að vinna Austurríkismenn með tveimur mörkum gegn einu. Þar með er Ísland komið í 16 liða úrslit og gerði það með hreinum glæsibrag þótt ekki séu líklega allir jafn hrifnir af þeim fótbolta sem liðið hafði fram að færa. Dramatíkin sem boðið var upp á var í algjörum sérflokki og ólíklegt að endurtekning verði á slíkri gleðiframmistöðu í náinni framtíð. Ísland endaði í öðru sæti F-riðils en var raunar með jafn mörg stig og Ungverjar, sem urðu efstir, en með lakari markatölu. Portúgalar urðu svo í þriðja sætinu með nægilega góðan árangur þar til að komast einnig áfram í 16 liða úrslitin. Frábær árangur hjá íslenska liðinu og líklega fáir sem áttu von á að sjá liðið komast í 16 liða úrslit og hvað þá taplaust.
En hér má sjá lokastöðu F-riðilsins:
- Ungverjaland 3 1 2 0 6-4 5
- Ísland 3 1 2 0 4-3 5
- Portúgal 3 0 3 0 4-4 3
- Austurríki 3 0 1 2 1-4 1
Birkir Bjarnason
Gylfi Þór Sigurðsson
Jón Daði Böðvarsson
Arnór Ingvi Traustason
En næst er sem sagt komið að 16 liða úrslitunum og þar verður svo sannarlega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Framundan er nefnilega leikur Íslands gegn hálfu Tottenham liðinu, sem svona í daglegu tali er reyndar yfirleitt nefnt landslið Englands. Þarna er auðvitað dæmigerður bardagi Davíðs gegn Golíat og flestir líklega búnir að mynda sér fyrirfram skoðun um úrslit þessa leiks en það má alltaf láta sig dreyma. Í það minnsta ætla líklega flestir Íslendingar að njóta draumsins á meðan honum stendur.
ÁFRAM ÍSLAND!
ÁFRAM ÍSLAND!
No comments:
Post a Comment