Öðrum leik Íslandssögunnar á EM lokið og frammistaða dagsins var alls ekki svo slæm þó margir hefðu eflaust vilja sjá aðrar lokatölur. 1-1 varð niðurstaðan gegn Ungverjum en leiksins verður helst minnst fyrir leiðinlegan endi þar sem jöfnunarmark Ungverjanna kom á lokamínútunum. Tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar þar sem sumir töluðu um 1-1 sigur í fyrsta leiknum gegn Portúgölum og 1-1 tap gegn Ungverjum í öðrum leiknum. Þannig má segja að frammistaða liðsins fram til þessa sé á pari og 140 milljónir hafa bæst í kassann hjá KSÍ.
Árangur Íslands á EM fram til þessa er auðvitað algjörlega frábær og sú staðreynd að liðið er taplaust eftir fyrstu tvo leikina í riðlakeppninni er gjörsamlega framar öllum vonum. Auðvitað eru samt alltaf einhverjir sem gera óeðlilegar kröfur og vilja alltaf meira.
Það eina sem hafa ætti einhverjar áhyggjur af, á þessum tímapunkti, er hvort að liðið sé sprungið á limminu eftir þá miklu vinnu sem menn hafa lagt í varnarvinnuna fram til þessa. Breidd hópsins er ekki mikil og það hefur verið gríðarleg keyrsla á sama kjarnanum í fyrstu tveimur leikjunum þar sem mikil orka hefur farið í að verjast. Þannig hefur kannski líka svolítið gleymst að sækja. Menn hafa einmitt talað um hve mikilvægt sé að halda boltanum betur þannig að menn fái aðeins tækifæri til að slaka á inn á milli. Vonandi tekst það betur í síðasta leiknum gegn Austurríki þó að ekki megi heldur slaka of mikið á þessari vörn sem gefist hefur svo vel. Það má heldur ekki gleymast að andstæðingurinn gerir lítið á meðan íslenska liðið er með boltann. Þannig er það líka vörn. Leikurinn er algjör úrslitaleikur og vonandi bara sá fyrsti af nokkrum á næstu dögum. ÁFRAM ÍSLAND!
No comments:
Post a Comment