Thursday, August 29, 2013

21. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Enski boltinn kominn aðeins af stað eftir að liðin eru búin að dunda sér við að jafna sig eftir sumarpásuna og við, sérfræðingarnir á Boltabulli, erum líka búnir að hrista af okkur byrjunarhrollinn. Leikir síðustu helgar fóru að mestu eftir bókinni en reyndar ruglaði leikur Cardiff og Man City sérfræðingana töluvert í ríminu því Manchester liðið tók upp á þeim ósköpum að vinna ekki viðureignina. Nýji þátttakandinn hélt í við hina sérfræðingana og fékk 7 stig eins og Tumi en Garðar fékk flest stig umferðarinnar eða 8 alls.

Eftir tvær fyrstu umferðirnar er Tumi efstur með 17 stig, Garðar í öðru sæti með 12 stig og lestina rekur síðan nýliðinn Helgi með 7 stig. Það er því ljóst að baráttan í vetur verður æsispennandi og líklegt að úrslitin ráðast ekki fyrr en á síðustu andarblikum keppnistímabilsins í maí.
 
En leikirnir sex í næstu umferð eru eftirfarandi:
 
MAN CITY – HULL
Tumi: 3-0
Garðar: 3-1 Frekar auðvelt hjá City en Húll setur eitt.
Helgi: 6-0 Sjittí kemur til baka eftir niðurlæginguna um síðustu helgi og étur nýliðana með húðum & hárum.
 
CARDIFF – EVERTON
Tumi: 1-1
Garðar: 1-0 Cardiff vinnur 1-0 með marki frá einhverjum einum leikmanna liðsins.
Helgi: 1-1 Kardiffíngar fylgja sigrinum á city eftir með 1-1 jafntebbli við liðið sem ég man ekki hvað heitir. Campbell skorar aftur.
 
NEWCASTLE – FULHAM
Tumi: 0-1
Garðar: 2-1 Röndótta liðið í KR búningunum vinnur fúlmennin frá London.
Helgi: 0-1 Berbi skorar á fjórðu mínútu og þar við situr, Paybabaeyobaya neitar að leika í röndóttu.
 
WEST HAM - STOKE
Tumi: 2-0
Garðar: 0-0 Vá, hvað þetta verður leiðinlegur leikur.
Helgi: 2-1 Joe Cole setur eitt allavega en leikurinn fer 2-1.
 
LIVERPOOL – MAN UTD
Tumi: 1-1
Garðar: 0-0 Þetta er pottþétt hundleiðinlegt steindautt jafntefli.
Helgi: 3-0 Því miður er ég ekkert alltof bjartsýnn og spái því 3-0, Henderson, Gerrard og Sturridge með mörkin.
 
ARSENAL - TOTTENHAM
Tumi: 1-1
Garðar: 1-3 Tottenham vinnur þetta pottþétt og Soldado skorar.
Helgi: 1-1 Derbyjafntefli, þrjú rauð spjöld, átta gul, tvö víti og hellirigning.


Sunday, August 25, 2013

20. ÍSLENSKU LANDSLIÐSBÚNINGARNIR

Íslenska knattspyrnulandsliðið okkar hefur verið að standa sig nokkuð vel á síðustu misserum, miðað við fremur dapurt gengi undanfarinn áratug, en í augnablikinu er liðið í harðri baráttu um möguleika á umspilssæti fyrir HM 2014 í Brasilíu. En það hefur ekki alltaf verið þannig. Í gegnum tíðina hafa verið sæmilegar hæðir á köflum en reyndar töluvert oftar dýpri lægðir á víxl. Lágpunktur íslensks knattspyrnulandsliðs í gegnum tíðina er án nokkurs vafa 3-0 tap liðsins gegn stórliði Liechtensteins á útivelli, þann 17. október árið 2007. 14-2 tapið gegn Dönum í ágúst 1967 var lengi vel botninn hjá landsliðinu en þó að þær hrikalegu tölur gleymist íslenskum knattspyrnuunnendum seint þá hlýtur Liechtenstein leikurinn að vera toppurinn á botninum.


En það var ekki ætlunin að rakka misdapran árangur íslenska knattspyrnulandsliðsins niður í svaðið. Gæði liðsins fara auðvitað eftir þeim gæðum sem leikmenn liðsins og þjálfarar hafa að geyma hverju sinni og er ósköp lítið við því að gera, nema auðvitað að bölva liðinu, fara í fýlu og nenna ekki á völlinn. Liðið verður auðvitað aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn.
 
Öðru máli gegnir hins vegar um búninga íslenska landsliðsins. Ég fullyrði að Ísland spilar í ljótustu búningum í heimi! Þetta er eitthvað sem auðveldlega mætti laga og bæta en af einhverjum undarlegum ástæðum hefur stjórnendum KSÍ, á undanförnum ca tveimur áratugum, tekist að velja tegund og samsetningu landsliðsbúningsins af alveg einstöku smekkleysi. Ég hef alltaf á tilfinningunni að búningarnir séu afgangar af lagerum, einhverra óþekktra framleiðenda, frá níunda áratug síðustu aldar og að gerður hafi verið 50 ára samningur sem alveg útlokað virðist vera að rifta. Hvað í andskotanum er þetta Errea?


Er það ekki sundfatnaður eða eitthvað svoleiðis? Íslenska fótboltalandsliðið er eina knattspyrnuliðið í heiminum sem ég veit að spila í Errea. Og þá auðvitað um leið, eina knattspyrnuliðið sem ég veit um sem spilar í sundfatnaði!

 
Íslenska landsliðið hefur ekki spilað í flottum búningum síðan sumarið 1991 þegar liðið vann m.a. Tyrki með fimm mörkum gegn einu. Þá lék landliðið í Adidas og höfðu reyndar spilað í þeirri tegund síðan árið 1977. Adidas búningarnir voru alltaf flottir og reyndar alveg sérstaklega þessir með hvítu ermunum á árunum 1981-2 en búningar liðsins á Adidas árunum voru alltaf alveg einstaklega stílhreinir, einfaldir og flottir.


Og svo var líka alltaf miklu smekklegra að hafa stuttbuxurnar hvítar.

 
Í gamla daga var ekkert verið að flækja hlutina með einhverju aukadrasli eins og þessum umferðarönglum eða hvað þetta á að vera. Vá, hvað þetta er ljótt!
 
 
Verstir af öllu voru þó líklega þessir með ískristöllunum!


Hættum að eyða fjármunum KSÍ í þennan endalausa flottræfilshátt sem einkennt hefur reksturinn undanfarin ár en förum í staðinn að kaupa almennilega búninga handa liðinu okkar. Ég er viss um að árangur liðsins myndi batna til mikilla muna á stuttum tíma og leikmenn landsliðsins þurfa ekki lengur að skammast sín fyrir hvernig þeir eru klæddir þegar þeir koma fram fyrir hönd þjóðar sinnar. Þeir gætu þá loksins farið að einbeita sér aðeins að því að spila fótbolta. ÁFRAM ÍSLAND!

Thursday, August 22, 2013

19. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Þá er lokið fyrstu umferðinni í enska boltanum og við sérfræðingar Boltabulls fórum hamförum í spám okkar um síðustu helgi. Óvænt úrslit í leikjum Liverpool, Man Utd og Arsenal höfðu reyndar klárlega áhrif á frammistöðu okkar en Tumi lét það þó ekki trufla sína einbeitningu og fékk miklu meira af stigum en Garðar. Hann fékk fullt hús stiga fyrir leik Liverpool og Stoke, á meðan Garðar þurfti að sætta sig við ekki neitt. Hvorugur sérfræðinganna fékk stig fyrir leik Arsenal og Aston Villa. Tumi fékk 1 stig fyrir Swansea - Man U en Garðar ekkert. Tottenham - Crystal Palace gaf Tuma 2 stig en Garðari 1. Tumi fékk aftur 3 stig fyrir Chelsea - Hull á meðan Garðar fékk 2 stig og í mánudagsleiknum fengu báðir aðilar 1 stig hvor.
Eftir fyrstu 6 leikina er Tumi því á toppnum með 10 stig og Garðar með 4 en veturinn er auðvitað bara rétt að byrja og enn er nóg eftir af stigum í pottinum.
 
Ein lítilsháttar breyting verður nú á tilhögun keppninnar en sökun gríðarlegs áhuga eins utanaðkomandi aðila, höfum við aðstandendur Boltabulls ákveðið að leyfa Helga Jónssyni að spreyta sig gegn sérfræðingum síðunnar. Er ekki að efa að þátttaka hans eigi eftir að hleypa léttu lífi í keppnina, sökun almennrar vanþekkingar og fákunnáttu, en líklega munu þó spádómarnir í heildina verða lakari fyrir vikið að gæðum. Helgi hefur keppnina nú í 2. umferðinni og mun því verða af þeim stigum sem uppá var boðíð í 1. umferð en ekki stendur til að hleypa fleirum keppendum að.

Kannski rétt að kynna nýjasta sérfræðinginn aðeins til sögunnar.
 
Helgi Jónsson er tæplega fimmtugur að aldri, starfar sem sölumaður bómullafylltra tuskulunda og hafnaði í öðru sæti á Rangæingamóti unglinga í skák veturinn 1983. Hann er giftur dóttur Munda frá Ytri Skógum undir Eyjafjöllum, átti kúluvarpskúlu (kvenna) á sínum yngri árum og er einlægur aðdáandi litla liðsins í rauðu búningunum frá Everton borg. Helgi er kennari að mennt en hætti kennslu af launaástæðum. Hann hefur þó verið duglegur að kenna ýmsum um lélegan árangur sinna manna í enska boltanum á undanförnum árum. Uppáhaldsleikmennirnir hans eru David Johnson og Mark Lawrenson og hann er diggur fylgismaður Exeter sem þó er líklega ekki til lengur. Hann fór einu sinni í skíðaferðalag til Akureyris, tekur stundum í golfspaða og munnhörpu en hefur að öðru leyti engan áhuga á íþróttum. Helgi er eldri bróðir Garðars en rétt er að taka fram að sú staðreynd mun ekki hafa nein áhrif á árangur hans í spekingaspánni - síður en svo!
 
En leikir umferðarinnar að þessu sinni eru eftirfarandi:

FULHAM - ARSENAL
Tumi: 1-3
Garðar: 1-2 Arsenal vaknar til lífsins en dagar Wengers eru taldir - á þessu eða næsta ári.
Helgi: 1-4 Ars hrista af sér tapið síðan um síðustu helgi, einhver nýr framherji skorar allavega eitt mark fyrir þá en gamla brýnið Damian Duff skorar fyrsta mark leiksins í rokinu á Craven Cottage.

EVERTON - WBA
Tumi: 2-0
Garðar: 1-1 Voða jafnteflislegt eitthvað. Örugglega hundleiðinlegur leikur.
Helgi: 1-1 Jelavic skorar fyrir bláa liðið en Anelka jafnar fyrir WBA - en þá er hann líka búinn að skora fyrir 74 lið á Englandi.

ASTON VILLA - LIVERPOOL
Tumi: 1-2
Garðar: 0-1 Því miður held ég að Liverpool taki þetta. Ég hef enga trú á Aston Villa þó þeir hafi unnið Arsenal um síðustu helgi.
Helgi: 1-3 Benteke hamrar eitt inn á þriðju mínútu en Coutinho, Sturridge og Toure tryggja þrjú stig minna manna.

TOTTENHAM - SWANSEA
Tumi: 2-0
Garðar: 2-1 Skyldusigur hjá mínum mönnum og Soldado skorar aftur.
Helgi: 1-0 Paulinho slysast til að skora sigurmarkið eftir að hafa fengið boltann í báðar hendurnar, á 97. mínútu leiksins - algjör heppnissigur.

CARDIFF - MAN CITY
Tumi: 0-4
Garðar: 0-3 Ansi hræddur um erfiðan vetur hjá Cardiffingum.
Helgi: 0-6 Walesverjarnir eiga ekki sjens - Silva, Agüera (2), Dzeko, Zabaleta og Negredo með mörkin.

MAN UTD - CHELSEA
Tumi: 1-1
Garðar: 1-1 Held að það séu dæmigerð og eðlileg úrslit. Hef ekki trú á að Cantona skori í þessum leik.
Helgi: 0-1 Frank Lampard með skot af tuttugu og sjö metrunum með viðkomu í varnarmanni.

18. ÁFRAM FIMLEIKAFÉLAGIÐ


Nú er FH í þeirri óvenjulegu stöðu, að vera að banka á dyrnar í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu og eru í rauninni aðeins tveimur leikjum frá því markmiði. Ekkert íslenskt lið hefur áður verið í þessari óíslensku aðstöðu og í rauninni var FH á tímabili einnig í góðu færi við að komast inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar - sem hefði auðvitað verið enn meira afrek. Leikir liðsins gegn Genk frá Belgíu eru lokahindrunin í Evrópubaráttu FH þetta árið og ef vel gengur yrði það ekki aðeins frábær fjárhagslegur ávinningur fyrir félagið, heldur einnig kærkomin viðbót við hið stutta keppnistímabil á Íslandi. Genk er ekki stórlið á evrópskan mælikvarða en engir aukvisar heldur og líklega voru Hafnfirðingar heppnir að fá þessa andstæðinga í keppninni. Í það minnsta er möguleikinn alveg til staðar. Ef allt gengur að óskum fengju knattspyrnuáhugamenn landsins tækifæri til að halda loksins með íslensku liði í Evrópukeppni fram eftir vetri og ný viðmið og markmið yrðu byggð upp fyrir Íslenska knattspyrnu í framtíðinni. FH er auðvitað ekki komið í Evrópudeildina en möguleikinn er vissulega til staðar og ef óskirnar rætast má reikna með að Íslendingar fylgist með (líklega í fyrsta skipti) Evrópudeildinni í knattspyrnu af miklum áhuga.


Held að ég verði samt að segja að það sé svolítill söknuður frá því í gamla daga þegar engin undankeppni var fyrir þau lið sem tóku þátt í Evrópumótunum í knattspyrnu. Þá var Meistaradeildin ekki til í þeirri mynd sem hún er í dag, heldur hét hún einfaldlega Evrópukeppni meistaraliða og öll meistaralið hvers lands tóku þátt frá byrjun. Þannig gátu íslensku liðin auðveldlega mætt stærstu liðum Evrópu strax í fyrstu umferð og Barcelona og Real Madrid voru fastir gestir hérna á klakanum. Lið eins og Tottenham, Aston Villa, Liverpool, HSV, Borussia Mönchengladbach, Torino, Juventus, Aberdeen og Monaco voru hérna einnig, ásamt fleirum, en auðvitað komu líka minni og óþekktari lið hingað.

 
Þegar járntjaldið féll smám saman, undir lok níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda, fjölgaði aðildarlöndum UEFA skyndilega um heilan helling þegar ný ríki urðu til í austur-Evrópu og fljótlega varð ljóst að ekki yrði hjá því komist að breyta fyrirkomulagi Evrópukeppnanna með einhverju hætti. Í raun var þetta það sama og gerðist með Eurovision. Breyta varð þessum vinsælu keppnum til að koma að öllum þeim þjóðum sem vera vildu með. Undan gömlu Sovétríkjunum og Júgóslavíu einum spruttu allt í einu fram hátt í 20 lönd og setja varð takmarkanir á þann fjölda liða sem taka vildu þátt. Þetta var gert með því að setja af stað undankeppni hjá þeim liðum sem þóttu lakari og þeim síðan gefinn kostur á að vinna sig upp í aðalkeppnina þar sem stærstu lið Evrópu voru. Tímabilið 1992/93 hóf því Meistaradeildin göngu sína og strax varð ljóst að litlu "áhugamannaliðin" frá Íslandi áttu sáralitla möguleika á að komast í þá stóru keppni og þar með hættu íslensku liðin auðvitað líka alveg að dragast á móti stóru liðunum í fyrstu umferðunum.


En eins og áður sagði voru þessi stórlið stundum að koma hingað til lands á árum áður og litlu íslensku liðin voru jafnvel að ná þessum fínu úrslitum öðru hvoru gegn heimsþekktum knattspyrnuliðum. Hmmm... reyndar verður líka að taka fram að oftar en ekki biðu íslensku liðin einnig afhroð og þá þurfti stundum ekki einu sinni neitt verulega sterkan andstæðing í þann gjörning. Síðla sumars biðu bæði stjórnarmenn íslensku félaganna sem og aðrir knattspyrnuáhugamenn í ofvæni eftir fréttum af drætti þeirra liða sem unnið höfðu sér þátttökurétt um haustið og stundum var heppnin með liðunum og stundum ekki. Skipta mátti væntingunum um dráttinn í þrjá flokka. Í þann fyrsta drógust þau lið sem öll félögin dreymdu um að mæta en þetta voru stórliðin í Evrópu, frá Spáni, Ítalíu eða Englandi. Í annan flokkinn mátti setja nágrannaliðin frá Norðurlöndunum eða minni félögin á Bretlandseyjum en gegn þeim var jafnvel möguleiki á að slá út úr keppninni og fá þannig annan séns á að mæta stórliði. Oft gátu það verið fjárhagslega þægilegur kostur og jafnvel hugsað sem smá frí fyrir hópinn í leiðinni eftir sumarlangt keppnistímabil hér uppi á Íslandi. Þriðji möguleikinn var hins vegar að lenda á móti óþekktu austur-Evrópsku liði með tilheyrandi löngu og fokdýru martraðarferðalagi sem gat sett fjárhag knattspyrnudeilda íslensku liðanna í stórhættu.


Vonandi tekst Fimleikafélaginu að komast almennilega á kortið í Evrópuboltanum með þátttöku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur. Fjárhagslegi þátturinn er allt annar í dag en var á árum áður og tekjurnar sem koma frá UEFA í dag breyta öllu. Það reiknar auðvitað enginn með að liðið myndi gera miklar rósir en verðlaunin eru lengra keppnistímabil með alvöru leikjum gegn þekktum, sterkum liðum. FH - Tottenham, FH - Sevilla, FH - Udinese eða FH - Feyenoord eru allt leikir sem gætu komið upp í riðlakeppninni fram að áramótum og gætu fyllt Laugardalsvöllinn. ÁFRAM FIMLEIKAFÉLAGIÐ!

Friday, August 16, 2013

17. ENSKI BOLTINN FARINN AF STAÐ

Nú er enski boltinn loksins að rúlla af stað aftur, eftir alveg óþolandi langt sumarfrí, og í tilefni þess ætlum við (knattspyrnusérfræðingar Boltabulls) að sinna ensku Úrvalsdeildinni í vetur af okkar bestu hugsanlegu getu. Við Tumi ætlum sem sagt ekki bara að fjalla aðeins um helstu leiki hverrar umferðar, heldur ætlum við einnig að spá um 6 áhugaverðustu leikina hverju sinni. Í vor sjáum við svo hvor okkar hefur betur. Hmmm... það eru engin verðlaun í boði nema auðvitað bara heiðurinn.
 
Í stuttu máli höfum við það þannig, að við veljum í sameiningu sex áhugaverða leiki til að spá í um hverja helgi, giskum á endanleg úrslit leikjanna í tölum og segjum (í ca. tveimur til þremur setningum) frá helstu tilfinningu okkar varðandi þessa leiki ef við nennum. Við einbeitum okkur bara að Úrvalsdeildinni, þannig að þegar ensku bikarkeppnirnar eru í gangi eða landsleikjahlé þá tökum við okkur einnig pásu. Helstu reglurnar eru þannig:
  • Tippað er á sex leiki um hverja helgi og eingöngu á leiki úr ensku Úrvalsdeildinni.
  • Keppendur spá um úrslit leikjanna með tölum og geta mest fengið 3 stig fyrir hvern leik eða 18 stig í hverri umferð. Eitt sig fæst fyrir hvert rétt tákn (1X2) og svo fæst eitt aukastig fyrir hvora markatölu. Ekki fæst stig fyrir markatölu EF rétt lið hefur ekki sigrað. Dæmi: Leikur Arsenal - Liverpool fer 2-1 fyrir Arsenal, keppandi spáði 3-1 fyrir Arsenal og fær því 2 stig - 1 stig fyrir að spá Arsenal sigri og 1 stig fyrir markatölu Liverpool. Ef keppandi hefði spáð jafntefli 1-1 eða 1-2 fyrir Liverpool hefði hann ekki fengið neitt stig.
  • Sá keppandi sem endar með fleiri samanlögð stig í lok vetrar, sigrar.
  • Ef fleiri en einn keppandi enda með jafn mörg stig í vor, sigrar sá sem náði fleiri þrennum (3 stig). Ef enn er jafnt þá eru það tvennurnar (2 stig) sem gilda. Og ef þá er enn jafnt eða ójafnt, sigrar sá sem er framar í stafrófinu og er með nafn sem byrjar á "G"!
Og auðvitað höfum við útbúið sérstakt skilti fyrir spámennina ógurlegu.
 
 
En í fyrstu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar þetta haust eru nokkrir áhugaverðir leikir og hér fyrir neðan sjáum við fyrstu leikina sem við sérfræðingarnir ætlum að spá í. Best að vinda sér bara beint í leikina og megi sá betri sigra - eða lenda í öðru sæti!
 
LIVERPOOL - STOKE
TUMI: 1-0 fyrir Liverpool.
GARÐAR: Held að þetta fari jafntefli 0-0. Tony Pulis er hættur hjá Stoke og þeir gætu því tekið upp á því að fara að spila fótbolta en líklega dugar það ekki á útivelli.
 
ARSENAL - ASTON VILLA
TUMI: Held að Arsenal vinni 2-0.
GARÐAR: Því miður fer þetta 3-1 fyrir Arsenal, því Aston Villa getur ekki neitt.
 
SWANSEA - MAN UTD
TUMI: 0-1 fyrir Man U og van Persie skorar.
GARÐAR: Spái óvæntum úrslitum í Wales. 3-1 fyrir Swansea og fyrsta tímabil David Moyes hjá Man U verður erfitt.
 
CRYSTAL PALACE - TOTTENHAM
TUMI: Tottenham vinnur þetta 0-2.
GARÐAR: 1-3 fyrir mínum mönnum og Soldago með tvö í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik.
 
CHELSEA - HULL
TUMI: 2-0 fyrir Chelsea.
GARÐAR: Held að þetta verði frekar létt hjá Chelsea, 4-0 og Torres með tvö.
 
MAN CITY - NEWCASTLE
TUMI: City vinnur þennan leik 2-1.
GARÐAR: Man City vinnur þetta 3-1.