Þá er lokið fyrstu umferðinni í enska boltanum og við sérfræðingar Boltabulls fórum hamförum í spám okkar um síðustu helgi. Óvænt úrslit í leikjum Liverpool, Man Utd og Arsenal höfðu reyndar klárlega áhrif á frammistöðu okkar en Tumi lét það þó ekki trufla sína einbeitningu og fékk miklu meira af stigum en Garðar. Hann fékk fullt hús stiga fyrir leik Liverpool og Stoke, á meðan Garðar þurfti að sætta sig við ekki neitt. Hvorugur sérfræðinganna fékk stig fyrir leik Arsenal og Aston Villa. Tumi fékk 1 stig fyrir Swansea - Man U en Garðar ekkert. Tottenham - Crystal Palace gaf Tuma 2 stig en Garðari 1. Tumi fékk aftur 3 stig fyrir Chelsea - Hull á meðan Garðar fékk 2 stig og í mánudagsleiknum fengu báðir aðilar 1 stig hvor.
Eftir fyrstu 6 leikina er Tumi því á toppnum með 10 stig og Garðar með 4 en veturinn er auðvitað bara rétt að byrja og enn er nóg eftir af stigum í pottinum.
Ein lítilsháttar breyting verður nú á tilhögun keppninnar en sökun gríðarlegs áhuga eins utanaðkomandi aðila, höfum við aðstandendur Boltabulls ákveðið að leyfa Helga Jónssyni að spreyta sig gegn sérfræðingum síðunnar. Er ekki að efa að þátttaka hans eigi eftir að hleypa léttu lífi í keppnina, sökun almennrar vanþekkingar og fákunnáttu, en líklega munu þó spádómarnir í heildina verða lakari fyrir vikið að gæðum. Helgi hefur keppnina nú í 2. umferðinni og mun því verða af þeim stigum sem uppá var boðíð í 1. umferð en ekki stendur til að hleypa fleirum keppendum að.
Kannski rétt að kynna nýjasta sérfræðinginn aðeins til sögunnar.
Kannski rétt að kynna nýjasta sérfræðinginn aðeins til sögunnar.
Helgi Jónsson er tæplega fimmtugur að aldri, starfar sem sölumaður bómullafylltra tuskulunda og hafnaði í öðru sæti á Rangæingamóti unglinga í skák veturinn 1983. Hann er giftur dóttur Munda frá Ytri Skógum undir Eyjafjöllum, átti kúluvarpskúlu (kvenna) á sínum yngri árum og er einlægur aðdáandi litla liðsins í rauðu búningunum frá Everton borg. Helgi er kennari að mennt en hætti kennslu af launaástæðum. Hann hefur þó verið duglegur að kenna ýmsum um lélegan árangur sinna manna í enska boltanum á undanförnum árum. Uppáhaldsleikmennirnir hans eru David Johnson og Mark Lawrenson og hann er diggur fylgismaður Exeter sem þó er líklega ekki til lengur. Hann fór einu sinni í skíðaferðalag til Akureyris, tekur stundum í golfspaða og munnhörpu en hefur að öðru leyti engan áhuga á íþróttum. Helgi er eldri bróðir Garðars en rétt er að taka fram að sú staðreynd mun ekki hafa nein áhrif á árangur hans í spekingaspánni - síður en svo!
En leikir umferðarinnar að þessu sinni eru eftirfarandi:
FULHAM - ARSENAL
Tumi: 1-3
Garðar: 1-2 Arsenal vaknar til lífsins en dagar Wengers eru taldir - á þessu eða næsta ári.
Helgi: 1-4 Ars hrista af sér tapið síðan um síðustu helgi, einhver nýr framherji skorar allavega eitt mark fyrir þá en gamla brýnið Damian Duff skorar fyrsta mark leiksins í rokinu á Craven Cottage.
EVERTON - WBA
Tumi: 2-0
Garðar: 1-1 Voða jafnteflislegt eitthvað. Örugglega hundleiðinlegur leikur.
Helgi: 1-1 Jelavic skorar fyrir bláa liðið en Anelka jafnar fyrir WBA - en þá er hann líka búinn að skora fyrir 74 lið á Englandi.
ASTON VILLA - LIVERPOOL
Tumi: 1-2
Garðar: 0-1 Því miður held ég að Liverpool taki þetta. Ég hef enga trú á Aston Villa þó þeir hafi unnið Arsenal um síðustu helgi.
Helgi: 1-3 Benteke hamrar eitt inn á þriðju mínútu en Coutinho, Sturridge og Toure tryggja þrjú stig minna manna.
TOTTENHAM - SWANSEA
Tumi: 2-0
Garðar: 2-1 Skyldusigur hjá mínum mönnum og Soldado skorar aftur.
Helgi: 1-0 Paulinho slysast til að skora sigurmarkið eftir að hafa fengið boltann í báðar hendurnar, á 97. mínútu leiksins - algjör heppnissigur.
CARDIFF - MAN CITY
Tumi: 0-4
Garðar: 0-3 Ansi hræddur um erfiðan vetur hjá Cardiffingum.
Helgi: 0-6 Walesverjarnir eiga ekki sjens - Silva, Agüera (2), Dzeko, Zabaleta og Negredo með mörkin.
MAN UTD - CHELSEA
Tumi: 1-1
Garðar: 1-1 Held að það séu dæmigerð og eðlileg úrslit. Hef ekki trú á að Cantona skori í þessum leik.
Helgi: 0-1 Frank Lampard með skot af tuttugu og sjö metrunum með viðkomu í varnarmanni.
Þess má líka geta að undirritaður þótti æði efnilegur í þeirri mætu íþrótt - bókatennis
ReplyDeleteÞað eru víst hverfandi líkur á að Anelka skori í þessum leik
ReplyDelete