Nú er FH í þeirri óvenjulegu stöðu, að vera að banka á dyrnar í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu og eru í rauninni aðeins tveimur leikjum frá því markmiði. Ekkert íslenskt lið hefur áður verið í þessari óíslensku aðstöðu og í rauninni var FH á tímabili einnig í góðu færi við að komast inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar - sem hefði auðvitað verið enn meira afrek. Leikir liðsins gegn Genk frá Belgíu eru lokahindrunin í Evrópubaráttu FH þetta árið og ef vel gengur yrði það ekki aðeins frábær fjárhagslegur ávinningur fyrir félagið, heldur einnig kærkomin viðbót við hið stutta keppnistímabil á Íslandi. Genk er ekki stórlið á evrópskan mælikvarða en engir aukvisar heldur og líklega voru Hafnfirðingar heppnir að fá þessa andstæðinga í keppninni. Í það minnsta er möguleikinn alveg til staðar. Ef allt gengur að óskum fengju knattspyrnuáhugamenn landsins tækifæri til að halda loksins með íslensku liði í Evrópukeppni fram eftir vetri og ný viðmið og markmið yrðu byggð upp fyrir Íslenska knattspyrnu í framtíðinni. FH er auðvitað ekki komið í Evrópudeildina en möguleikinn er vissulega til staðar og ef óskirnar rætast má reikna með að Íslendingar fylgist með (líklega í fyrsta skipti) Evrópudeildinni í knattspyrnu af miklum áhuga.
Held að ég verði samt að segja að það sé svolítill söknuður frá því í gamla daga þegar engin undankeppni var fyrir þau lið sem tóku þátt í Evrópumótunum í knattspyrnu. Þá var Meistaradeildin ekki til í þeirri mynd sem hún er í dag, heldur hét hún einfaldlega Evrópukeppni meistaraliða og öll meistaralið hvers lands tóku þátt frá byrjun. Þannig gátu íslensku liðin auðveldlega mætt stærstu liðum Evrópu strax í fyrstu umferð og Barcelona og Real Madrid voru fastir gestir hérna á klakanum. Lið eins og Tottenham, Aston Villa, Liverpool, HSV, Borussia Mönchengladbach, Torino, Juventus, Aberdeen og Monaco voru hérna einnig, ásamt fleirum, en auðvitað komu líka minni og óþekktari lið hingað.
En eins og áður sagði voru þessi stórlið stundum að koma hingað til lands á árum áður og litlu íslensku liðin voru jafnvel að ná þessum fínu úrslitum öðru hvoru gegn heimsþekktum knattspyrnuliðum. Hmmm... reyndar verður líka að taka fram að oftar en ekki biðu íslensku liðin einnig afhroð og þá þurfti stundum ekki einu sinni neitt verulega sterkan andstæðing í þann gjörning. Síðla sumars biðu bæði stjórnarmenn íslensku félaganna sem og aðrir knattspyrnuáhugamenn í ofvæni eftir fréttum af drætti þeirra liða sem unnið höfðu sér þátttökurétt um haustið og stundum var heppnin með liðunum og stundum ekki. Skipta mátti væntingunum um dráttinn í þrjá flokka. Í þann fyrsta drógust þau lið sem öll félögin dreymdu um að mæta en þetta voru stórliðin í Evrópu, frá Spáni, Ítalíu eða Englandi. Í annan flokkinn mátti setja nágrannaliðin frá Norðurlöndunum eða minni félögin á Bretlandseyjum en gegn þeim var jafnvel möguleiki á að slá út úr keppninni og fá þannig annan séns á að mæta stórliði. Oft gátu það verið fjárhagslega þægilegur kostur og jafnvel hugsað sem smá frí fyrir hópinn í leiðinni eftir sumarlangt keppnistímabil hér uppi á Íslandi. Þriðji möguleikinn var hins vegar að lenda á móti óþekktu austur-Evrópsku liði með tilheyrandi löngu og fokdýru martraðarferðalagi sem gat sett fjárhag knattspyrnudeilda íslensku liðanna í stórhættu.
Vonandi tekst Fimleikafélaginu að komast almennilega á kortið í Evrópuboltanum með þátttöku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur. Fjárhagslegi þátturinn er allt annar í dag en var á árum áður og tekjurnar sem koma frá UEFA í dag breyta öllu. Það reiknar auðvitað enginn með að liðið myndi gera miklar rósir en verðlaunin eru lengra keppnistímabil með alvöru leikjum gegn þekktum, sterkum liðum. FH - Tottenham, FH - Sevilla, FH - Udinese eða FH - Feyenoord eru allt leikir sem gætu komið upp í riðlakeppninni fram að áramótum og gætu fyllt Laugardalsvöllinn. ÁFRAM FIMLEIKAFÉLAGIÐ!
No comments:
Post a Comment