Friday, March 7, 2014

73. VIÐUREIGNIR WALES OG ÍSLANDS Í GEGNUM ÁRIN

Æfingaleikur gegn Wales, í Cardiff, í fyrrakvöld þar sem Gareth Bale sýndi af hverju hann er af mörgum talinn einn af bestu fótboltamönnum í heiminum í dag. Eins og flestir sjálfsagt vita lauk leiknum með 3-1 tapi Íslands gegn heimamönnum og Bale var auðvitað aðalmunurinn á milli liðanna. En þjóðirnar voru ekki að mætast í fyrsta sinn á knattspyrnuvellinum.


Landsleikjum við Wales í fótbolta fylgir alltaf svolítil sæluvíma fyrir íslenska knattspyrnuunnendur, þótt ekki sé víst að yngri kynslóðir átti sig á þeirri ánægju sem leikjunum fylgir. Welska liðið hefur reyndar aldrei þótt neitt sérstaklega sterkt á heimsmælikvarða og hefur til að mynda aðeins einu sinni komist á lokakeppni HM (1958) en engu að síður hafa viðureignir þjóðanna úr fyrndinni skilið eftir sig fáeinar góðar minningar sem eru löngu orðnar hluti af íslensku knattspyrnusögunni. Og hmmmm... reyndar líka alveg verri minningar.

Fyrsti landsleikur Íslands og Wales fór fram á Laugardalsvellinum, mánudagskvöldið 15. ágúst árið 1966 en þá kom áhugamannalið Wales í heimsókn og spilaði vináttuleik við okkar menn. Í byrjunarliði Íslands voru aðeins þrír leikmenn sem áttu landsleik að baki og til að mynda lék hinn 19 ára Hermann Gunnarsson þarna sinn fyrsta leik fyrir þjóðina. Það voru því átta nýliðar í byrjunarliði Íslands í þessum leik.

 
Val liðsins var nokkuð gagnrýnt af fjölmiðlum en menn voru þrátt fyrir það, sumir hverjir, nokkuð bjartsýnir á góð úrslit. Enda fór svo að um 5-6000 áhorfendur fóru nokkuð sáttir heim eftir 3-3 jafntefli við Bretana. Þeir Jón Jóhannsson, Ellert B. Schram (víti) og Hemmi Gunn skoruðu mörk Íslands en leikmaður sem er ýmist nefndur Regan, Ragan, Rigan, Rogan eða Ralan, af íslensku blöðunum, skoraði hins vegar öll mörk Walesverjanna.


Mark Jóns kom með hörkuskoti af um 25 metra færi en Hermann skoraði jöfnunarmark Íslands á lokasekúndunum með fallegu vinstri fótar skoti eftir einleik.


Næst mættust þjóðirnar í undankeppni HM '82 og fór fyrri leikurinn fram á Laugardalsvellinum þann 2. júní 1980. Íslenskir knattspyrnuáhugamenn voru mjög bjartsýnir fyrir þennan fyrsta leik sinn í riðlinum og voru margir búnir að bóka sigur fyrirfram en það fór heldur betur á aðra leið. Walesverjarnir, sem flestir voru þekktir leikmenn í ensku 1. deildinni (þeirri efstu þá) léku sér að íslenska liðinu eins og köttur að mús, að viðstöddum rúmlega 10.000 áhorfendum, og sigruðu með fjórum mörkum gegn engu. Ian Walsh 2, David Giles og Brian Flynn skoruðu mörk Wales.


Seinni leikur liðanna fór fram á Wetch Field í Wales, að viðstöddum um 20.000 áhorfendum, þann 14. október 1981 og segjast verður eins og er að lengi vel var sá leikur einn af hápunktum íslenskrar knattspyrnusögu. Ekki gætti mikillar bjartsýni hjá íslenska liðinu fyrir leikinn en Walesverjarnir léku hins vegar á alls oddi og Micky Thomas og Joey Jones létu mynda sig með apagrímur í dagblaðinu Daily Star - þar sem þeir sögðust ætla að gera Íslendinga að öpum. Þessi hrokafulla framkoma fór ekki vel í íslenska liðið og Atli Eðvaldsson lét reyndar hafa eftir sér að Micky Thomas þyrfti ekki grímu - hann væri svo ljótur fyrir!


Og ekki stóð heldur á bjartsýninni hjá öðrum welskum fjölmiðlum sem kepptust við að gera lítið úr íslenska liðinu.


Welska liðið komst yfir á 20. mínútu, með marki Robbie James, eftir að hafa sótt linnulaust frá byrjun  leiksins en rétt fyrir lok fyrri hálfleiks biluðu flóðljósin á vellinum tvisvar sinnum og leikmenn þurftu að bíða, í niðamyrkri inni í klefa, á meðan reynt var að lappa upp á þau. Í seinna skiptið í rúmlega 40 mínútur og Walesversk lúðrasveit hafði ofan af fyrir áhorfendum í myrkrinu á meðan.


Strax í byrjun seinni hálfleiks jafnaði hins vegar Ásgeir Sigurvinsson með laglegri hælspyrnu sem sló Walesverjana illilega út af laginu. Þeir hófu stórsókn og Alan Curtis skoraði annað mark þeirra á 53. mínútu og nú átti svo sannarlega að valta yfir litla liðið. Íslensku strákarnir tvíefldist hins vegar við mótlætið og aftur skoraði Ásgeir Sigurvinsson og nú með þrumuskoti á 61. mínútu. Hann fagnaði ekki einu sinni markinu almennilega en lét andstæðingana heyra það með því að minna þá á hverjir væru nú apar. Þannig lauk leiknum og Ásgeir þótti algjör yfirburðarmaður á vellinum.

 
Jafnteflið við litla Ísland varð þess valdandi að Wales komst ekki á HM og mörkin tvö voru þau einu sem Wales fékk á sig á heimavelli í keppninni. Þeir enduðu í riðlinum með 10 stig eins og Tékkar en með lélegra markahlutfall. Eitt sig í viðbót hefði því dugað.

Ekki var langt að bíða næstu viðureigna Íslendinga við Walesverja því strax í næstu undankeppni, fyrir HM '86, lentu þjóðirnar aftur saman í riðli. Íslenska þjóðin var alls ekki búin að gleyma því virðingaleysi sem sumir leikmenn welska liðsins höfðu sýnt tæpum þremur árum áður og ekki lágu íslensku leikmennirnir sjálfir heldur á liði sínu í hefndarhug sínum. Þann 12. september árið 1984 mættust þjóðirnar, í fyrri leik liðanna í riðlinum, á Laugardalsvellinum að viðstöddum um 11.000 áhorfendum. Fimm af þeim leikmönnum sem voru í byrjunarliðinu í leiknum fræga árið 1981 léku einnig þennan leik og enn fór Ásgeir Sigurvinsson þar fremstur í flokki.

 
Þessi landsleikur var reyndar spilaður við svolítið framandi aðstæður, þar sem lítill eða jafnvel enginn fréttaflutningur af leiknum eða aðdraganda hans var í boði hjá stærstum hluta fjölmiðla. Bókagerðarmenn og prentarar höfðu farið  í verkfall, þann 10. september, sem gerði það að verkum að engin dagblöð komu út og það blaðaleysi stóð yfir í heilar 6 vikur.

Þrátt fyrir takmarkaðar fréttir að undirbúningi leiksins var mæting hjá áhorfendum góð og mikil stemmning. Menn, jafnt áhorfendur sem leikmenn íslenska liðsins, voru augljóslega tilbúnir að leggja sig alla fram gegn Walesverjunum og ljóst að apagrímuskandallinn var fólki enn í fersku minni. Micky Thomas var í byrjunarliði gestanna og áhorfendur sungu hástöfum,"Moooooonkey, go hooome..."


Fyrri hálfleikur var markalaus en á 50. mínútu skoraði Magnús Bergs gullfallegt skallamark eftir hornspyrnu Árna Sveinssonar og það mark tryggði Íslendingum sætan sigur 1-0.


Mikill fögnuður braust út hjá leikmönnum og áhorfendum eftir að dómarinn flautaði til leiksloka og hundruðir áhorfenda hlupu inn á völlinn til að fagna glæstum sigri, með hetjunum sínum, sem hlupu sigurhring um völlinn í tilefni dagsins. Aftur varð því leikur gegn Wales tilefni til tímamóta í íslenskri knattspyrnusögu.


Þann 14. nóvember sama ár mættust þjóðirnar svo aftur á Ninian Park í Wales í seinni leik liðanna og þar höfðu heimamenn betur 2-1. Pétur Pétursson jafnaði metin 1-1 eftir að títtnefndur Mickey Thomas hafði komið heimamönnum yfir en Mark Hughes skoraði sigurmarkið þegar um hálftími var eftir af leiknum.


Hvorki Ásgeir Sigurvinsson né Atli Eðvaldsson gátu spilað þennan leik og munaði auðvitað um minna.

Auk leiksins á miðvikudaginn hafa þjóðirnar mættst tvisvar sinnum í vináttuleikjum (1991 og 2008) og í bæði skiptin höfðu Walesverjar sigur 1-0.

No comments:

Post a Comment