Vorum aðeins að skoða í vetur hvernig gamlar knattspyrnuhetjur geta breyst úr grannvöxnum og myndarlegum leikmönnum í gamla og tuskulega kalla á aðeins "fáeinum" árum. En í dag er kannski ekki úr vegi að snúa dæminu aðeins við og sjá hvernig helstu knattspyrnustjórarnir litu út í gamla daga.
Fyrstan skal nefna Alex Ferguson, fyrrverandi Man U stjóra. Hann hefur svolítið elst síðan hann spilaði sem framherji hjá Glasgow Rangers, um tveggja ára skeið, seint á sjöunda áratug síðustu aldar en er samt eiginlega alveg auðþekkjanlegur.
Næstur á blaði er David Moyes sem tók við af Ferguson í sumar. Maðurinn er reyndar ekki nema fimmtugur að aldri og eldri myndin frá því upp úr 1990, er hann spilaði með skoska liðinu Dunfermline, en samt er bara eiginlega ekki hjá því komist að birta þessa mynd. Hann lítur þarna svolítið út eins og 14 ára geimvera.
Þá er komið að Manuel Pellegrini. Á gömlu myndinni sést hann í búningi liðs síns Universidad Chile sem hann spilaði með allan sinn feril og það verður að segjast að maðurinn hefur lítið breyst. Myndin er frá miðjum áttunda áratugnum og þess má til gamans geta að Pellegrini lék 451 leik með félaginu og skoraði í þeim 1 mark.
Arsene Wenger er næstur og á gömlu myndinni sést hann í búningi franska félagsins RC Strasbourg þar sem hann var leikmaður um skeið. Wenger átti litlu gengi að fagna sem atvinnumaður en samkvæmt myndinni hefur hann alla vega haft tíma til að safna hári þarna í kringum 1980. Þetta hefur verið töluvert löngu áður en hann komst í kynni við rennilásavandamálin í svefnpokaúlpunni sinni.

José Mourinho spilaði fáein ár í portúgölsku deildinni og hans fyrsta lið var Rio Ave sem hann lék með upp úr 1980. Hér er hann í búningi liðsins og hefur ósköp lítið breyst utan þess að hárið hefur eitthvað aðeins gránað.
Síðastan, en ekki sístan, verðum við að sýna Harry nokkurn Redknapp sem ungan mann. Hann hefur líklega aldrei talist neitt sérstaklega fríður maður en á gömlu myndinni sést hann í búningi West Ham tímabilið 1970-71. Ekki beint ægifagur á að líta.
No comments:
Post a Comment