Thursday, March 24, 2016

105. JOHAN CRUYFF 1947-2016


Þá er Johan Cruyff fallinn frá og smám saman hverfa þeir á vit forfeðra sinna, stærstu knattspyrnusnillingar sögunnar, einn af öðrum. George Best, Eusobio, Di Stefano og Puskas og núna Cruyff. Þetta segir okkur bara hvað við eldumst.

Johan Cruyff lék a.m.k. tvisvar gegn íslenska landsliðinu en ég minnist þess þó ekki að hann hafi komið hingað til lands til að spila. Hér má þó sjá hann skora mark gegn Íslandi þann 29. ágúst árið 1973 á De Adelaarhorst í Deventer.


Leiknum lauk með 8-1 sigri hollenska liðsins og Cruyff skorar hér annað af tveimur mörkum sínum í leiknum gegn Diðriki Ólafssyni. Líklega er þetta Einar Gunnarsson við hlið Cruyff sem reynir að verjast.

Og til heiðurs kappanum skulum við einnig sjá myndband af honum með fallegum tilþrifum. Ef vel er að gáð má sjá Cruyff einmitt skora mark gegn Íslandi, árið 1973, eftir ca. 1 mínútu og 38 sekúndur í myndbandinu og annað örstuttu seinna í sama leik.

Wednesday, March 23, 2016

104. NOKKRIR LANDSLEIKIR GEGN BELGÍU

Undirbúningur landsliðsins okkar fyrir EM í sumar er nú að komast aftur á skrið og framundan er vináttuleikur Íslands gegn Danmörku annað kvöld en við vorum eitthvað búnir að hita upp fyrir þann leik með vel völdum landsleikjum. Hér má einmitt sjá það.


En hryðjuverkin í Brüssel í vikunni fá okkur til að staldra aðeins við og af gefnu tilefni ætlum við því að rifja aðeins upp gamla leiki Íslands gegn Belgíu. Það er nefnilega ótrúlega margt sem hægt er að finna á Internetinu ef maður nennir að leita.

Hér er sem sagt um að ræða link á belgíska síðu þar sem þrír leikir Íslands og Belgíu eru rifjaðir upp undir fyrirsögninni; Rode Duivels verloren nog nooit tegen IJsland. Á okkar ylhýra útleggst það eitthvað á þessa leið; Rauðu Djöflarnir (s.s. belgíska landsliðið) tapaði aldrei fyrir Íslandi. Um er að ræða smávægileg umfjöllun um þrjá leiki þar sem sjá má gömul myndbönd af viðureignum þjóðanna og sjálfsagt langt um liðið síðan íslenskir áhugamenn um knattspyrnu hafa litið augum þessi myndbrot. Flestir hafa þó líklega aldrei séð þetta.


Byrjað er á að rifja upp HM leik þjóðanna í Brüssel, laugardaginn 3. september árið 1977. Belgar sigruðu í þessum leik með fjórum mörkum gegn engu og íslenska liðið þótti ekki spila vel í þessum leik, utan Ásgeirs Sigurvinssonar sem var sá eini sem var í sama gæðaflokki og leikmenn belgíska liðsins. Hann átti til að mynda þrumuskot í þverslána.


Lið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum; Árni Stefánsson, Ólafur Sigurvinsson, Gísli Torfason, Marteinn Geirsson, Janus Guðlaugsson, Hörður Hilmarsson, Atli Eðvaldsson, Guðgeir Leifsson, Ásgeir Elíasson, Matthías Hallgrímsson og Ásgeir Sigurvinsson. Guðmundur Þorbjörnsson kom inn á sem varamaður í þessum leik.

Næst er það Ísland - Belgía í Reykjavík þann 8. september árið 1974. Þennan leik unnu Belgarnir með tveimur mörkum gegn engu og margir vildu meina að sá sigur hafi ekki verið sanngjarnt. Myndbandið af þessum leik er um 20 mínútna langt og inn í það eru fléttuð viðtöl við þjálfara og leikmenn belgíska liðsins.


Íslenska liðið var þannig skipað í þessum leik; Þorsteinn Ólafsson, Gísli Torfason, Jón Pétursson, Marteinn Geirsson, Jóhannes Eðvaldsson, Karl Hermannsson, Guðgeir Leifsson, Grétar Magnússon, Ásgeir Elíasson, Ásgeir Sigurvinsson og Teitur Þórðarson. Inn á sem varamaður kom Matthías Hallgrímsson.

Og að síðustu eru sýndar myndir úr leik liðanna fyrir undankeppni HM 58 sem fór fram miðvikudaginn 5. júní árið 1957. Þetta var reyndar ansi ójafn leikur sem endaði með 8-3 sigri heimamanna en staðan í leikhléi var hvorki meira né minna en 7-1! Þórður Þórðarson gerði tvö marka Íslands og Ríkharður Jónsson eitt.


Það var einmitt í þessum leik sem tveir leikmenn belgíska liðsins tóku víti saman, eins og löngu er orðið frægt.

Lið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum; Björgvin Hermannsson, Gunnar Leósson, Jón Leósson, Sveinn Teitsson, Kristinn Gunnlaugsson, Guðjón Finnbogason, Dagbjartur Grímsson, Ríkharður Jónsson, Þórður Þórðarson, Halldór Halldórsson og Þórður Jónsson.

Leiðinlegt að geta ekki sett myndböndin beint hér inn á BOLTABULL en það er um að gera að tékka á þessari síðu og skoða þessi myndbönd.

ÁFRAM BELGÍA!

Friday, March 18, 2016

103. ÁSGEIR SIGURVINSSON KLÆÐIST BÚNINGI BAYERN MÜNCHEN Í FYRSTA SINN?

Þann 17. júní árið 1981 var spilaður knattspyrnuleikur á Laugardalsvellinum, eins og reyndar gengur og gerist, en þar áttust við Valur og stjörnum prýtt úrvalslið sem Ásgeir Sigurvinsson stjórnaði. Ásgeir ætlaði reyndar sjálfur einnig að spila með þessu stjörnuliði en meiddist í bikarúrslitaleik Standard Liege og Lokeren í Belgíu nokkrum dögum áður. Um 11.000 manns mættu á völlinn þennan Þjóðhátíðardag en tilefni leiksins mátti rekja til 70 ára afmælis Vals þetta ár. Hér fyrir neðan má einmitt sjá þetta stjörnulið en leiknum lauk með sigri Vals 14-13 eftir vítaspyrnukeppni þar sem staðan var 2-2 eftir venjulegan leiktíma.


Aftari röð frá vinstri; Ásgeir Sigurvinsson, Halldór Einarsson, James Bett, J. Dardean, Z. Clueso, Magnús Bergs, Teitur Þórðarson, Atli Eðvaldsson, Albert Guðmundsson og Baldvin Jónsson. Neðri röð frá vinstri; Sigurður Dagsson, Janus Guðlaugsson, B. Hellman, Simon Tahamata, Arnór Guðjohnsen, Ólafur Sigurvinsson, Karl Þórðarson og T. Claesen.

Bikarúrslitaleikurinn í Belgíu var hins vegar síðasti leikur Ásgeirs með Standard áður en hann gekk í raðir Bayern München í Þýskalandi og hér fyrir neðan má sjá úrklippu úr Morgunblaðinu föstudaginn 19. júní þar sem kappinn klæddist búningi Bayern í fyrsta sinn.


Úrklippa þessi hékk lengi vel uppi við hjá Helga bróður, gulnuð og tætt af aðdáun á hetjunni, og er kannski enn til í fórum hans. Mogginn hreykti sér af því að birta fyrstu myndina af Ásgeiri Sigurvinssyni í Búningi Bayern Munchen en þrátt fyrir stöðuga viðveru úrklippunnar fyrir augum okkar, sem hana sáu daglega, yfirsást okkur illilega að ekki var um eiginlegan búning Bayern að ræða. Nei, Ásgeir klæðist þarna HENSON eftirlíkingu sem Halldór Einarsson sjálfur hefur væntanlega gaukað að honum í auglýsingaskini eftir að hafa klætt upp stjörnuliðið með sama merki. Merkilegt alveg...

Thursday, March 3, 2016

102. NÝJI LANDSLIÐSBÚÐINGURINN

Nú er loksins búið að opinbera nýja EM búning íslenska landsliðsins í knattspyrnu og segjast verður eins og er að þegar ég hélt að hlutirnir geti ekki versnað þá... ja þá einmitt versna þeir. Landsliðið hefur náð nýjum hæðum í ósmekklegheitum og Ísland á eftir að verða að athlægi á EM í sumar. 


Ég fullyrði að nýji landsliðsbúninguriinn er svo ljótur, að hann er alveg ljótur! Þ.e. mér finnst búningurinn svo innilega ljótur að hann gæti ekki verið ljótari og þó er úr mörgum ljótum landsliðsbúningum að velja.

Og ekki orð um það meir...