Undirbúningur landsliðsins okkar fyrir EM í sumar er nú að komast aftur á skrið og framundan er vináttuleikur Íslands gegn Danmörku annað kvöld en við vorum eitthvað búnir að hita upp fyrir þann leik með vel völdum landsleikjum. Hér má einmitt sjá það.
En hryðjuverkin í Brüssel í vikunni fá okkur til að staldra aðeins við og af gefnu tilefni ætlum við því að rifja aðeins upp gamla leiki Íslands gegn Belgíu. Það er nefnilega ótrúlega margt sem hægt er að finna á Internetinu ef maður nennir að leita.
Hér er sem sagt um að ræða link á belgíska síðu þar sem þrír leikir Íslands og Belgíu eru rifjaðir upp undir fyrirsögninni; Rode Duivels verloren nog nooit tegen IJsland. Á okkar ylhýra útleggst það eitthvað á þessa leið; Rauðu Djöflarnir (s.s. belgíska landsliðið) tapaði aldrei fyrir Íslandi. Um er að ræða smávægileg umfjöllun um þrjá leiki þar sem sjá má gömul myndbönd af viðureignum þjóðanna og sjálfsagt langt um liðið síðan íslenskir áhugamenn um knattspyrnu hafa litið augum þessi myndbrot. Flestir hafa þó líklega aldrei séð þetta.
Byrjað er á að rifja upp HM leik þjóðanna í Brüssel, laugardaginn 3. september árið 1977. Belgar sigruðu í þessum leik með fjórum mörkum gegn engu og íslenska liðið þótti ekki spila vel í þessum leik, utan Ásgeirs Sigurvinssonar sem var sá eini sem var í sama gæðaflokki og leikmenn belgíska liðsins. Hann átti til að mynda þrumuskot í þverslána.
Lið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum; Árni Stefánsson, Ólafur Sigurvinsson, Gísli Torfason, Marteinn Geirsson, Janus Guðlaugsson, Hörður Hilmarsson, Atli Eðvaldsson, Guðgeir Leifsson, Ásgeir Elíasson, Matthías Hallgrímsson og Ásgeir Sigurvinsson. Guðmundur Þorbjörnsson kom inn á sem varamaður í þessum leik.
Næst er það Ísland - Belgía í Reykjavík þann 8. september árið 1974. Þennan leik unnu Belgarnir með tveimur mörkum gegn engu og margir vildu meina að sá sigur hafi ekki verið sanngjarnt. Myndbandið af þessum leik er um 20 mínútna langt og inn í það eru fléttuð viðtöl við þjálfara og leikmenn belgíska liðsins.
Íslenska liðið var þannig skipað í þessum leik; Þorsteinn Ólafsson, Gísli Torfason, Jón Pétursson, Marteinn Geirsson, Jóhannes Eðvaldsson, Karl Hermannsson, Guðgeir Leifsson, Grétar Magnússon, Ásgeir Elíasson, Ásgeir Sigurvinsson og Teitur Þórðarson. Inn á sem varamaður kom Matthías Hallgrímsson.
Og að síðustu eru sýndar myndir úr leik liðanna fyrir undankeppni HM 58 sem fór fram miðvikudaginn 5. júní árið 1957. Þetta var reyndar ansi ójafn leikur sem endaði með 8-3 sigri heimamanna en staðan í leikhléi var hvorki meira né minna en 7-1! Þórður Þórðarson gerði tvö marka Íslands og Ríkharður Jónsson eitt.
Það var einmitt í þessum leik sem tveir leikmenn belgíska liðsins tóku víti saman, eins og löngu er orðið frægt.
Lið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum; Björgvin Hermannsson, Gunnar Leósson, Jón Leósson, Sveinn Teitsson, Kristinn Gunnlaugsson, Guðjón Finnbogason, Dagbjartur Grímsson, Ríkharður Jónsson, Þórður Þórðarson, Halldór Halldórsson og Þórður Jónsson.
Leiðinlegt að geta ekki sett myndböndin beint hér inn á BOLTABULL en það er um að gera að tékka á þessari síðu og skoða þessi myndbönd.
ÁFRAM BELGÍA!
No comments:
Post a Comment