Friday, March 18, 2016

103. ÁSGEIR SIGURVINSSON KLÆÐIST BÚNINGI BAYERN MÜNCHEN Í FYRSTA SINN?

Þann 17. júní árið 1981 var spilaður knattspyrnuleikur á Laugardalsvellinum, eins og reyndar gengur og gerist, en þar áttust við Valur og stjörnum prýtt úrvalslið sem Ásgeir Sigurvinsson stjórnaði. Ásgeir ætlaði reyndar sjálfur einnig að spila með þessu stjörnuliði en meiddist í bikarúrslitaleik Standard Liege og Lokeren í Belgíu nokkrum dögum áður. Um 11.000 manns mættu á völlinn þennan Þjóðhátíðardag en tilefni leiksins mátti rekja til 70 ára afmælis Vals þetta ár. Hér fyrir neðan má einmitt sjá þetta stjörnulið en leiknum lauk með sigri Vals 14-13 eftir vítaspyrnukeppni þar sem staðan var 2-2 eftir venjulegan leiktíma.


Aftari röð frá vinstri; Ásgeir Sigurvinsson, Halldór Einarsson, James Bett, J. Dardean, Z. Clueso, Magnús Bergs, Teitur Þórðarson, Atli Eðvaldsson, Albert Guðmundsson og Baldvin Jónsson. Neðri röð frá vinstri; Sigurður Dagsson, Janus Guðlaugsson, B. Hellman, Simon Tahamata, Arnór Guðjohnsen, Ólafur Sigurvinsson, Karl Þórðarson og T. Claesen.

Bikarúrslitaleikurinn í Belgíu var hins vegar síðasti leikur Ásgeirs með Standard áður en hann gekk í raðir Bayern München í Þýskalandi og hér fyrir neðan má sjá úrklippu úr Morgunblaðinu föstudaginn 19. júní þar sem kappinn klæddist búningi Bayern í fyrsta sinn.


Úrklippa þessi hékk lengi vel uppi við hjá Helga bróður, gulnuð og tætt af aðdáun á hetjunni, og er kannski enn til í fórum hans. Mogginn hreykti sér af því að birta fyrstu myndina af Ásgeiri Sigurvinssyni í Búningi Bayern Munchen en þrátt fyrir stöðuga viðveru úrklippunnar fyrir augum okkar, sem hana sáu daglega, yfirsást okkur illilega að ekki var um eiginlegan búning Bayern að ræða. Nei, Ásgeir klæðist þarna HENSON eftirlíkingu sem Halldór Einarsson sjálfur hefur væntanlega gaukað að honum í auglýsingaskini eftir að hafa klætt upp stjörnuliðið með sama merki. Merkilegt alveg...

No comments:

Post a Comment