Wednesday, July 6, 2016

111. FIMMTI Í EM. FRAKKLAND - ÍSLAND

Það fór ekki svo að Ísland yrði að ævilöngu atriði á EM í fótbolta en ansi er maður nú samt ánægður með árangurinn. Leikurinn við firnasterka Frakka tapaðist þó óþarflega stórt en snemma varð ljóst að franska liðið hafði farið vel yfir leik íslensku strákanna. Dagsskipunin var augljóslega að bíða aðeins og leyfa íslenska liðinu að koma framar á völlinn þar sem auðveldara yrði að sækja hratt á þá í fáliðaðri vörninni. 8 liða úrslit er stórkostlegur árangur og ólíklegt að það verði toppað í náinni framtíð hjá íslenska liðinu.


Liðið er komið heim og fékk að sjálfsögðu höfðinglegar móttökur við heimkomuna og heimildir herma að á á þriðja tug þúsunda manns hafi mætt á Arnarhól til að fagna hetjunum.


Næsta mál er að koma sér í gírinn fyrir undankeppni HM 2018 og þar má búast við enn erfiðari undankeppni en var fyrir EM. Ísland, Úkraína, Króatía, Tyrkland, Finnland og Kósóvó er í okkar riðli (I riðli) og fjögur af liðunum sex spiluðu á EM í sumar. Það eitt segir ansi margt um styrkleika I riðilsins og möguleika okkar á að komast upp úr honum. Til samanburðar er til dæmis bara eitt lið sem var á EM í H riðli. Veit að það er ekki vinsælt að segja það en líkurnar á að komast á HM í Rússlandi eru hverfandi litlar. Það sem gæti þó hugsanlega hjálpað okkur er að í útileikjunum gegn Úkraínu og Króatíu mega ekki vera neinir áhorfendur. En það er annað mál.

ÁFRAM ÍSLAND!

Wednesday, June 29, 2016

110. FJÓRÐI Í EM. ENGLAND - ÍSLAND


Jæja! Enn er íslenska landsliðið að koma á óvart og hafa nú eignast aðdáendur um alla Evrópu í tonnatali eftir frábæran sigur á Englendingum, sem breska pressan er búin að vera að dunda sér við að slátra síðan dómarinn flautaði leikinn af. 2-1 urðu lokatölur leiksins og íslenska þjóðin er að rifna af stolti yfir árangri landsliðsins sem nú þegar hefur farið fram úr öllum okkar villtustu draumum.


Ísland er því komið í 8 liða úrslit á EM og er enn taplaust á sínu fyrsta stórmóti. Reyndar má nefna þá staðreynd að héðan í frá getur landsliðið ekki tapað nema einum leik á mótinu og á meira að segja möguleika á að fara taplaust í gegnum EM. Tæknilega er Ísland því aðeins þremur leikjum frá því að verða Evrópumeistari í knattspyrnu 2016.


En næsti mótherji er ekki heldur af lakara taginu og reyndar eru öll lið sem eftir eru gríðarlega sterk. Frakkland er andstæðingur Íslands í 8 liða úrslitum og þar er ljóst að um virkilega erfiðan leik verður að ræða. Besti leikur Íslands á mótinu fram til þessa var leikurinn gegn Englandi og ljóst er að liðið getur enn spilað mun betur og bætt sig. Það er reyndar engan veginn hægt að segja að íslenska landsliðið hafi átt slakan leik á EM, enda taplaust í fjórum leikjum, en enn hefur maður það á tilfinningunni að liðið hafi enn ekki sýnt sitt besta þó úrslitin fram að þessu séu bara frábær. Eitthvað segir manni að enn eigi Ísland eitthvað inni.

Alla vega, hvernig sem fer gegn Frökkum þá er ljóst að íslenska landsliðið er loksins komið endanlega á knattspyrnukortið í Evrópu og það verður virkilega gaman að sjá hvar Ísland verður statt á næsta styrkleikalista FIFA sem gefinn verður út eftir EM.

ÁFRAM ÍSLAND!

Sunday, June 26, 2016

109. ÞRIÐJI Í EM. ÍSLAND - AUSTURRÍKI


Það er óhætt að segja að íslenska landsliðið hafi komið skemmtilega á óvart í lokaleik riðlakeppni EM þar sem liðið tók upp á þeim ósköpum að vinna Austurríkismenn með tveimur mörkum gegn einu. Þar með er Ísland komið í 16 liða úrslit og gerði það með hreinum glæsibrag þótt ekki séu líklega allir jafn hrifnir af þeim fótbolta sem liðið hafði fram að færa. Dramatíkin sem boðið var upp á var í algjörum sérflokki og ólíklegt að endurtekning verði á slíkri gleðiframmistöðu í náinni framtíð. Ísland endaði í öðru sæti F-riðils en var raunar með jafn mörg stig og Ungverjar, sem urðu efstir, en með lakari markatölu. Portúgalar urðu svo í þriðja sætinu með nægilega góðan árangur þar til að komast einnig áfram í 16 liða úrslitin. Frábær árangur hjá íslenska liðinu og líklega fáir sem áttu von á að sjá liðið komast í 16 liða úrslit og hvað þá taplaust.

En hér má sjá lokastöðu F-riðilsins:
  1. Ungverjaland 3  1  2  0  6-4  5
  2. Ísland             3  1  2  0  4-3  5
  3. Portúgal         3  0  3  0  4-4  3
  4. Austurríki      3  0  1  2  1-4  1
Og þessir skoruðu mörk Íslands í riðlakeppninni:

Birkir Bjarnason
Gylfi Þór Sigurðsson
Jón Daði Böðvarsson
Arnór Ingvi Traustason



En næst er sem sagt komið að 16 liða úrslitunum og þar verður svo sannarlega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Framundan er nefnilega leikur Íslands gegn hálfu Tottenham liðinu, sem svona í daglegu tali er reyndar yfirleitt nefnt landslið Englands. Þarna er auðvitað dæmigerður bardagi Davíðs gegn Golíat og flestir líklega búnir að mynda sér fyrirfram skoðun um úrslit þessa leiks en það má alltaf láta sig dreyma. Í það minnsta ætla líklega flestir Íslendingar að njóta draumsins á meðan honum stendur.
ÁFRAM ÍSLAND!

Tuesday, June 21, 2016

108. ANNAR Í EM. ÍSLAND - UNGVERJALAND


Öðrum leik Íslandssögunnar á EM lokið og frammistaða dagsins var alls ekki svo slæm þó margir hefðu eflaust vilja sjá aðrar lokatölur. 1-1 varð niðurstaðan gegn Ungverjum en leiksins verður helst minnst fyrir leiðinlegan endi þar sem jöfnunarmark Ungverjanna kom á lokamínútunum. Tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar þar sem sumir töluðu um 1-1 sigur í fyrsta leiknum gegn Portúgölum og 1-1 tap gegn Ungverjum í öðrum leiknum. Þannig má segja að frammistaða liðsins fram til þessa sé á pari og 140 milljónir hafa bæst í kassann hjá KSÍ.

Árangur Íslands á EM fram til þessa er auðvitað algjörlega frábær og sú staðreynd að liðið er taplaust eftir fyrstu tvo leikina í riðlakeppninni er gjörsamlega framar öllum vonum. Auðvitað eru samt alltaf einhverjir sem gera óeðlilegar kröfur og vilja alltaf meira.


Það eina sem hafa ætti einhverjar áhyggjur af, á þessum tímapunkti, er hvort að liðið sé sprungið á limminu eftir þá miklu vinnu sem menn hafa lagt í varnarvinnuna fram til þessa. Breidd hópsins er ekki mikil og það hefur verið gríðarleg keyrsla á sama kjarnanum í fyrstu tveimur leikjunum þar sem mikil orka hefur farið í að verjast. Þannig hefur kannski líka svolítið gleymst að sækja. Menn hafa einmitt talað um hve mikilvægt sé að halda boltanum betur þannig að menn fái aðeins tækifæri til að slaka á inn á milli. Vonandi tekst það betur í síðasta leiknum gegn Austurríki þó að ekki megi heldur slaka of mikið á þessari vörn sem gefist hefur svo vel. Það má heldur ekki gleymast að andstæðingurinn gerir lítið á meðan íslenska liðið er með boltann. Þannig er það líka vörn. Leikurinn er algjör úrslitaleikur og vonandi bara sá fyrsti af nokkrum á næstu dögum. ÁFRAM ÍSLAND!

Wednesday, June 15, 2016

107. FYRSTI Í EM. PORTUGAL - ÍSLAND


Það er víst alveg óhætt að segja að frumraun Íslands á lokakeppni EM í fótbolta hafi ekki verið neitt sérstaklega amaleg. Jafntefli gegn Portúgal og Ronaldo fór að grenja af því að hann fékk ekki að gera allt sem hann langaði.

En gjaldkeri KSÍ hlýtur líka að vera ánægður með stigið því að þetta jafntefli tryggir sambandinu 70 milljónir aukalega í kassann. Enn eru a.m.k. tveir leikir eftir og sigur gegn Ungverjum á laugardaginn gæti fært KSÍ 140 milljónir í viðbót en það er sú upphæð sem landsliðin fá fyrir hvern sigur á EM. Og ef Ísland kemst í 16 liða úrslit fær sambandið að auki 210 milljónir í verðlaun og 350 milljónir fyrir að komast í 8 liða úrslitin. Reyndar var rúmlega einn milljarður í boði fyrir að tryggja sér sæti á mótinu en það er önnur saga. 

Nú er bara að halda áfram að njóta keppninnar í Frakklandi og gera allt sem hægt er til að vinna næsta leik á mótinu gegn Ungverjalandi. ÁFRAM ÍSLAND!


Thursday, April 28, 2016

106. ENN UM TOTTENHAM

Nú er farið að styttast ískyggilega í lok keppnistímabilsins á Englandi og líkurnar á að Leicester City hampi Englandsmeistaratitlinum veturinn 2015-16 verða varla mikið meiri. Liðið hefur náð að halda forskoti sínu á toppnum með reyndar aðeins misjafnlega miklum mun en helstu keppinautar þeirra hafa verið að missa af lestinni undanfarnar vikur - nema Tottenham. Mínir menn í Spurs hafa hangið aftan í Leicester síðustu vikurnar en eftir að hafa verið fimm stigum á eftir meistaraefnunum í þó nokkurn tíma, þá er bilið nú orðið sjö stig. Og aðeins þrír leikir eftir. Margir vilja meina að Leicester eigi ívíð erfiðari leiki eftir en það skiptir litlu máli núna. Allt eru þetta þó úrslitaleikir og hver einustu mistök geta verið dýrkeypt. Eitt dauðafæri sem ekki nýtist getur breytt unnum leik í jafntefli eða jafnvel tap og við það tapast tvö til þrjú stig. Leicester hefur enn þrjú tækifæri til að tapa öllum síðustu leikjunum en því miður gildir það víst sama um Tottenham.



Þó svo að Tottenham nái ekki að vinna deildina að þessu sinni þá hefur spilamennska og árangur liðsins í vetur verið algjörlega til fyrirmyndar. Margir vilja meina að liðið hafi spilað besta og skemmtilegasta fótboltann í vetur og sé þar af leiðandi besta liðið á Englandi í dag en það er reyndar ekki svo. Besta liðið endar með flest stig í lok tímabilsins og eins og stendur er það lið Leicester. Í lok tímabilsins er aldrei spurt sérstaklega um hvaða lið skoraði flest mörk, fékk á sig fæst, átti markahæsta leikmanninn, átti flest stangarskot og svo framvegis. Sigurvegarinn í lok mótsins verður alltaf það lið sem endar með flest stig. Þannig er líklegt að fjöldi jafntefla Tottenham í vetur eigi eftir að verða liðinu dýrkeypt þegar uppi er staðið. Einstaka leikur tapast líka oft á ósanngjarnan hátt. Lið getur verið með boltann 70% af leiknum, átt þrjú stangarskot, brennt af vítum eða öðrum dauðafærum en það eru alltaf mörkin sem telja. Það fæst ekkert fyrir stangarskotin eða færin sem ekki nýtast. Man Utd vann deildina oft með endalausum 1-0 sigrum í hundleiðinlegum leikjum og Leicester hafa einmitt einnig verið duglegir við það á undanförnum vikum.

En það má ekki taka það af Leicester að liðið á fyllilega skilið þá stöðu sem liðið er í og það er gaman að sjá Ranieri og félaga á toppnum fyrst Tottenham nær ekki titlinum. Og þó að 1-0 sigrar Leicester séu ekki skemmtilegir þá er liðið með ólíkt skemmtilegri stjóra en Man Utd var með á árum áður og reyndar enn. Ranieri er augljóslega toppmaður að öllu leiki.



Annars er best að kíkja aðeins á tölfræðilega yfirburði Tottenham í vetur - svona til gamans. Þannig getur maður í lok tímabilsins alltaf huggað sig við það að þó að Leicester hafi unnið deildina þá var Tottenham samt skemmtilegra!
  • Tottenham hefur skorað næstflest mörk (65) í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Tottenham hefur fengið á sig fæst mörk (26) í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Og þar af leiðandi er Tottenham auðvitað með besta markahlutfallið (39 í plús) í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur átt flest skot á markið í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur fengið flest færi í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur skorað flest mörk (18) úr föstum leikatriðum í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
Þetta eru þær tölfræðilegu staðreyndir þar sem Tottenham er með efstum liðum á lista og skipta alla jafna töluverðu máli. En liðið er líka að skora hátt á öðrum vettvöngum og eftirfarandi punktar gefa bara vísbendingu um hvernig framhaldið gæti orðið. Liðið mun örugglega halda áfram að banka á toppbaráttudyrnar ef sami mannskapur og stjóri fá frið til að gera eitthvað skemmtilegt.
  • Tottenham er með yngsta byrjunarliðið í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Harry Kane hefur skorað flest mörk (25) allra leikmanna í Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Dele Alli var kjörinn besti ungi leikmaðurinn í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Cristian Eriksen hefur hlaupið mest af öllum miðjumönnum ensku deildarinnar í vetur - að meðaltali 12,2 km í hverjum leik.
  • Cristian Eriksen hefur lagt upp næstflest mörk af öllum leikmönnum ensku Úrvalsdeildarinnar í vetur.
  • Dele Alli hefur lagt upp flest mörk (7) fyrir einn mann (Harry Kane) af leikmönnum ensku deildarinnar í vetur.
  • Enginn varnarmaður í ensku Úrvalsdeildinni hefur brotið sjaldnar af sér (alls 9 sinnum) heldur en Toby Alderweireld í vetur. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið dæmd á hann aukaspyrna í tæplega 700 mínútur.
  • Tottenham hefur tapað næstfæstum leikjum (4) af öllum liðum Úrvalsdeildarinnar í vetur og öllum með minnsta mun - 0-1, 0-1, 0-1 og 1-2.
  • Flestir leikir Tottenham í röð í vetur án taps voru 12 leikir. Liðið vann 6 leiki í röð í janúar og febrúar en það tímabil var þó ekki innan þessa 12 leikja taplausa ramma.
  • Tottenham á fjóra leikmenn í liði ársins í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
Maður bara skilur ekki af hverju Tottenham Hotspur er ekki löngu búið að tryggja sér sigur í ensku Úrvalsdeildinni veturinn 2015-16. En í það minnsta er árangurinn frábær þrátt fyrir allt. Meistaradeildarsætið er orðið nokkuð víst næsta vetur og framtíðin er björt hjá mínum mönnum.

ÁFRAM TOTTENHAM!

Thursday, March 24, 2016

105. JOHAN CRUYFF 1947-2016


Þá er Johan Cruyff fallinn frá og smám saman hverfa þeir á vit forfeðra sinna, stærstu knattspyrnusnillingar sögunnar, einn af öðrum. George Best, Eusobio, Di Stefano og Puskas og núna Cruyff. Þetta segir okkur bara hvað við eldumst.

Johan Cruyff lék a.m.k. tvisvar gegn íslenska landsliðinu en ég minnist þess þó ekki að hann hafi komið hingað til lands til að spila. Hér má þó sjá hann skora mark gegn Íslandi þann 29. ágúst árið 1973 á De Adelaarhorst í Deventer.


Leiknum lauk með 8-1 sigri hollenska liðsins og Cruyff skorar hér annað af tveimur mörkum sínum í leiknum gegn Diðriki Ólafssyni. Líklega er þetta Einar Gunnarsson við hlið Cruyff sem reynir að verjast.

Og til heiðurs kappanum skulum við einnig sjá myndband af honum með fallegum tilþrifum. Ef vel er að gáð má sjá Cruyff einmitt skora mark gegn Íslandi, árið 1973, eftir ca. 1 mínútu og 38 sekúndur í myndbandinu og annað örstuttu seinna í sama leik.