Tuesday, October 29, 2013

38. ÖRLÍTIÐ UM ANDSTÆÐINGA ÍSLANDS Í UMSPILINU


Nú líður óðum að umspilsleikjum Íslands og Króatíu um laust sæti á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu næsta sumar og ljóst að spennan eykst með hverjum deginum sem líður. Leikirnir fara fram dagana 15. og 19. nóvember, eins og allir vita, og Íslendingar biðja til almættisins um að Laugardalsvöllurinn verði ekki eitt allsherjar klakastykki fyrrnefnda leikdaginn.


Reyndar hefur KSÍ tekist að steindrepa niður alla stemmningu í kringum leikinn, með miðasöluleikriti sínu sem angar af spillingafnyk og lygum, þar sem framkvæmdarstjórinn sjálfur virðist vera fremstur í flokki. Það er eins og KSÍ haldi að íslenskur almenningur sé upp til hópa bara fífl. Í raun hlýtur það að vera krafa hins almenna íslenska knattspyrnuáhugamanns að öll stjórn KSÍ segi af sér hið snarasta og láti ekki sjá sig nálægt fótboltavellinum í framtíðinni. Við höfum ekkert við svona drulludela að gera við forystu knattspyrnunnar á Íslandi.

En það er önnur saga...

Íslenska liðið er aðeins tveimur leikjum frá því að spila á HM í fyrsta skipti og einhver benti meira að segja réttilega á að liðið væri ekki nema níu leikjum frá því að verða heimsmeistarar í knattspyrnu! Það er því er um að gera að skoða aðeins nokkrar staðreyndir um landslið Króatíu.

Króatía er eitt af fyrrum lýðveldum Júgóslavíu og er hluti af Balkanskaganum við Adríahaf en landið varð sjálfstætt ríki árið 1991. Ísland varð fyrst allra þjóða til að viðurkenna sjálfstæði landsins en ólíklegt verður að teljast að það hjálpi okkur þessum leikjum í baráttunni um sæti á HM. Króatía er um það bil helmingi minna en Ísland að flatarmáli en íbúarnir þar eru rúmlega þrettán sinnum fleiri eða um 4,3 milljónir.


Lið frá þessum löndum hafa ekki verið mikið að mætast í gegnum tíðina og landslið þjóðanna hafa t.a.m. aðeins tvisvar sinnum mæst í A-landsleik á knattspyrnuvellinum. Það gerðist í undankeppni HM 2006, þar sem Króatar unnu á sínum heimavelli 4-0 í mars 2005 og þeir sigruðu líka á Laugardalsvellinum í september sama ár með 3 mörkum gegn 1. Mark íslenska liðsins þá gerði Eiður Smári Guðjohnsen.
 
 
Króatíska liðið hefur verið í töluverðri lægð að undanförnu og eru nýbúnir að skipta um þjálfara. Nico Kovac hefur tekið við liðinu og bróðir hans Robert verður honum til aðstoðar en þeir spiluðu báðir leikinn í Reykjavík 2005 og Nico fyrri leikinn í Zagreb þar sem hann skoraði reyndar tvö mörk. Persónulega hef ég reyndar ekki verið sérstaklega mikið inn í króatískum fótbolta en vegna ákveðinna tenginga við Tottenham get ég nefnt nokkra af leikmönnum Króata sem spilað hafa með liðinu. Allir þekkja auðvitað Luka Modric hjá Real Madrid en hann spilaði í fjögur ár með mínum mönnum í Spurs. Hann er líklega þekktasti leikmaður liðsins um þessar mundir en meðal annara króatískra leikmanna, sem spiluðu fyrir Tottenham, má nefna þá Nico Kranjcar, Vedran Corluka og markvörðinn Stipe Pletikosa.


Allir þessir leikmenn spiluðu eitthvað með króatíska liðinu í undankeppninni en bakvörðurinn Corluka var orðinn ansi hægur hjá Spurs fyrir ca. þremur árum, ef ég man rétt, og spilaði ekki mikið með liðinu undir það síðasta. Hann hefur hins vegar verið tiltölulega fastamaður hjá Lokomotiv Moskva undanfarið. Pletikosa man ég aldrei eftir að hafa séð í aðalliðsleik hjá Spurs en hann spilar núna með rússneska félaginu FC Rostov. Niko Kranjcar leikur hins vegar núna með QPR í næst efstu deild í Englandi. Þegar Eiður Smári spilaði sem lánsmaður hjá Tottenham, veturinn 2009/10, náði hann einmitt að æfa og leika með þessum leikmönnum. Hann ætti því að þekkja eitthvað til getu þeirra þó að þrjú ár séu liðin.


Alla vega... Það er ansi hætt við að róðurinn verði þungur fyrir íslenska liðið í þessum leikjum. Þó að Króatíu hafi ekki gengið sem best að undanförnu eru þeir þrátt fyrir allt í 18. sætinu á heimslistanum eftir að hafa fallið niður um átta sæti frá listanum þar á undan. Ísland er hins vegar í því 46. eftir að hafa hækkað sig um átta sæti. Til samanburðar má geta þess að Slóvenía er í 30. sæti heimslistans og Sviss í því 7 en þær þjóðir voru með okkur í riðli í undankeppninni. Þá hefur Króatía góða reynslu af stórmótum og hafa verið fastagestir á þeim. Þeir tóku þátt í lokakeppni EM árin 1996, 2004, 2008 og 2012 og voru einnig á HM 1998, 2002 og 2006. Besta árangri sínum náðum þeir á HM í Frakklandi árið 1998, þar sem þeir náðu 3. sætinu og á EM 2008 höfnuðu þeir í 5. sæti.

Það er alla vega ljóst að róðurinn verður erfiður fyrir íslenska landsliðið en vonandi nær liðið að sýna sínar bestu hliðar og komast á HM í fyrsta skipti.

ÁFRAM ÍSLAND!

Friday, October 25, 2013

37. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Komið að enska bolta helgarinnar og sérfræðingar okkar eru að springa af visku sinni. Annars er Tumi enn efstur eftir síðustu umferð og hefur nú 55 stig, Helgi er annar með 45 og Garðar er þriðji með 42.
 
En hér koma leikir helgarinnar og spádómar sérfræðinganna;
 
CRYSTAL PALACE - ARSENAL
Tumi: 0-3
Garðar: 0-2 CP er búið að tapa fimm leikjum í deildinni í röð og fer því miður ekkert að vinna ars.
Helgi: 1-4 Giroud og Carloza í fantaformi með tvö hvor en Ramsey leggur upp þrjú af þeim.
 
ASTON VILLA - EVERTON
Tumi: 1-2
Garðar: 1-1 Þetta er voðalega eitthvað leiðinlega jafnteflislegur leikur.
Helgi: 1-2 Erfiður leikur en Mirallallallas og Lukakukualalalaku tryggja strumpunum sigur.  
 
LIVERPOOL - WBA
Tumi: 2-0
Garðar: 2-1 WBA eiga eftir að naga sig í handakrikana fyrir að gleyma að spila fótbolta en Lifrungar bíta frá sér og skíta í lófana
Helgi: 2-0 Til hvers að ferðast með Wow þegar þú getur flogið með SAS?
 
MAN UTD - STOKE
Tumi: 2-0
Garðar: 2-0 Andi Pulis svífur enn yfir Stoke og Rain Wooney heldur áfram að skora.
Helgi: 1-0 Botnslagur en júnæted á bullandi siglingu og vinna sinn annan leik í röð. Sigurmarkið sjálfsmark þar Rain Wooney skýtur í slána, í varnarmann, þaðan í stöngina og svo lekur boltinn í rassinn á Huth á markteignum og í gegnum klobbann á markverðinum.
 
CHELSEA - MAN CITY
Tumi: 1-1
Garðar: 1-1 Þetta getur bara ekki endað öðruvísi.
Helgi: 3-1 Torres skorar ekki en Oscar, Mata og Lampard skora fyrir Chelsea, varnarmaðurinn með kókdósarfarið á enninu svarar fyrir sjittí í lokin.
 
TOTTENHAM - HULL
Tumi: 2-0
Garðar: 2-0 Auðvelt hjá okkar mönnum sem nota unglingaliðið og Soldado skorar fyrir Spurs.
Helgi: 2-1 Tigers komast yfir á fjórðu mínútu en eins og oft áður vinnur tott'nam heppnissigur.


Tuesday, October 22, 2013

36. ÁSGEIR ROTAR DÓMARA

Það eru ekki margir sem komast upp með að rota dómara í knattspyrnuleik, án þess að hljóta refsingu fyrir, en Eyjamaðurinn knái Ásgeir Sigurvinsson náði þó þeim merkilega áfanga þann 2. nóvember árið 1977. Hmmm... já, það er reyndar sama dag og pabbi varð fertugur!
 
 
Lið Ásgeirs, Stardard Liege, var þá að spila á heimavelli við gríska félagið AEK Athena (liðið sem Eiður Smári fótbrotnaði með) í Evrópukeppni félagsliða en fyrri leiknum hafði lokið með 2-2 jafntefli liðanna í Grikklandi. Þar hafði Ásgeir einmitt skorað annað marka Standard en í seinni leiknum tók hann hins vegar upp á því að rota svissneska dómarann Walter Hungerbuehler.
 
 
Verknaðurinn var að sjálfsögðu algjört óviljaverk en AP-fréttastofan greindi frá því í fréttaskeyti að hann hefði verið eftirminnilegasta atvik leiksins.
 
Ásgeir lýsti sjálfur atvikinu í bók Sigmundar Ó. Steinarssonar og Guðjóns Róberts Ágústssonar, Ásgeir Sigurvinsson - Knattspyrnuævintýri Eyjapeyjans; "Já, það er ekki á hverjum degi sem knattspyrnumaður rotar dómara, án þess að fá að sjá rauða spjaldið. Ég vissi ekki af dómaranum, sem stóð fyrir aftan mig, þegar há sending kom fram völlinn. Ég sneri mér snöggt við og setti á fullt á eftir knettinum. Ég vissi ekki fyrri til en ennið á mér söng á kollinum á honum, þannig að hann steinlá."
 
 
Hungerbuehler lá steinrotaður á vellinum í fáeinar mínútur og raknaði ekki úr rotinu fyrr en læknar liðanna og annar línuvarðanna höfðu gefið honum súrefni úr kút. Ásgeir varð hins vegar ekki meint af atvikinu en hvergi kemur fram hvort dómarinn hafi getað haldið störfum sínum á vellinum áfram.
 
 
Það er kannski rétt að geta þess að leiknum lauk með sigri Standard 4-1.


Thursday, October 17, 2013

35. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Aftur kominn að enskum bolta, eftir reyndar óvenju ánægjulegt landsleikjahlé, og komið að sérfræðingum Boltabulls að tippa á leiki helgarinnar. Enn er Tumi efstur og er nú með 48 stig, Helgi er kominn með 39 og Garðar hefur 31 stig.

En hér koma leikir umferðarinnar:

NEWCASTLE - LIVERPOOL
Tumi: 0-2 Sturridge og Suarez með mörkin.
Garðar: 1-2 Frönsk knattspyrna er í lægð um þessar mundir.
Helgi: 1-2 Newcastle er mikið í mun að bæta fyrir 0-6 tapið á þessum velli í vor og mæta dýrvitlausir, SAS skora fyrir LFC.

MAN UTD - SOUTHAMPTON
Tumi: 2-1 Rooney og van Persie skora fyrir United en Lambert fyrir Southampton.
Garðar: 1-1 Dýrlingarnir eru á bullandi flugi og Man jú eru ekki á flugi.
Helgi: 1-0 Óvæntur heimasigur á old toilet.

ARSENAL - NORWICH
Tumi: 3-0 Giroud skorar fyrir Arsenal og Özil leggur upp ef hann spilar.
Garðar: 3-1 Búningarnir hjá Norwich eru óvenju ljótir þetta tímabilið og því falla þeir í vor með sæmd og skömm.
Helgi: 4-0 Frekar auðveldur Özil-laus svefnpokasigur, Giroud með tvennu.

CHELSEA - CARDIFF
Tumi: 2-0 Oscar skorar í þessum leik.
Garðar: 2-1 Aron Einar skorar fyrir þá welsku.
Helgi: 2-1 Örþreyttur chel$ea-liðar merja Veilsverjana.

WEST HAM - MAN CITY
Tumi: 0-3 Aguero skorar að minnsta kosti eitt fyrir City.
Garðar: 1-2 Óvenjulega erfiður leikur að tippa á og vona að bæði liðin tapi.
Helgi: 1-1 City enn að misstíga sig.

ASTON VILLA - TOTTENHAM
Tumi: 0-2
Garðar: 1-2 Sigur hjá mínum mönnum og enn skorar Soldado.
Helgi: 1-2 Botnslagur en Paulinho skorar tvö í seinni hálfleik.
 

Sunday, October 13, 2013

34. HEMMI GUNN OG KVENNAKNATTSPYRNA

Nú er orðið ljóst að íslenska landsliðið í knattspyrnu er ekki nema einum leik frá því að komast í umspil um laust sæti á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu næsta sumar. Það er ekki nema einn leikur eftir hjá liðinu í riðlinum en hann er gegn Norðmönnum í Osló á þriðjudaginn kemur. Sigur í þeim leik tryggir okkur sæti í umspilinu en hugsanlega getur tap einnig komið okkur áfram ef Slovenía tapar á sama tíma fyrir Sviss á útivelli. En þetta vita auðvitað allir. Það sem við þurfum hins vegar aðallega að spá í núna er það að reyna að klára leikinn gegn Noregi sómasamlega og vera ekkert að rembast við að þurfa að treysta á einhverja aðra en okkur sjálfa.
 
 
Ísland og Noregur hafa verið að mætast nokkuð reglulega í gegnum tíðina, síðan þjóðirnar hófu að sparka bolta á alþjóðlegum vettvangi, og er leikurinn á þriðjudaginn hvorki meira né minna en 32. viðureign þeirra frá upphafi. Leikjum landsliða þjóðanna hefur reyndar farið nokkuð fækkandi á undanförnum áratugum en Ísland hefur þó ekki mætt neinni þjóð jafn oft á knattspyrnuvellinum og Noregi. Ísland vann síðustu viðureignina, með tveimur mörkum gegn engu, í fyrra en í þau skipti sem þjóðirnar hafa mæst á undanförnum árum hafa leikirnir verið í nokkru jafnvægi. Í tilefni leiksins á þriðjudaginn er kannski við hæfi að kíkja aðeins á frækinn sigur Íslands á Noregi á Laugardalsvellinum þann 20. júlí árið 1970.
 
Þetta var 12. viðureign þjóðanna og Ísland hafði aðeins unnið Noreg tvisvar sinnum frá því fyrsti leikurinn fór fram árið 1947, fyrst á Melavellinum árið 1954 og síðan í sögufrægum leik í undankeppni Ólympíuleikanna árið 1959.
 
Um leikinn árið 1970 hefur oft og mikið verið rætt og ritað um og hann jafnan dreginn fram í sviðsljósið á tyllidögum. Oftast er hann þá ræddur í tengslum við frammistöðu Hermanns heitins Gunnarssonar sem átti stórleik. Sjálfur var ég ekki nema rétt tæplega árs gamall og man því eðlilega ekki mikið eftir leiknum en hann hefur oft rekið á fjörur mínar, í gegnum tíðina, í ýmsum annálum tengdum knattspyrnu. Tumi var auðvitað langt frá því að vera kominn í heiminn og mamma hans var líklega ekki einu sinni orðin að hugmynd þegar leikurinn fór fram.
 
 
En tvennt er þó sem aldrei er minnst á í seinni tíma annálum í tengslum við þennan leik. Hið fyrra er að leikurinn fór fram á Laugardalsvellinum í þvílíku, hávaða norðanroki að varla var stætt á vellinum og hafði það klárlega áhrif á frammistöðu norska liðsins. Norðmennirnir höfðu aldrei kynnst öðrum eins aðstæðum og fannst vart boðlegt að spila fótbolta í slíkum vindi.
 
Hitt atriðið snerist um það að fyrir leikinn var boðið upp á "skemmtiatriði" sem var algjört nýmæli í íslenskri knattspyrnusögu. Jú, áður en Ísland - Noregur hófst var boðið upp á kvennaknattspyrnu!
 
 
Sem betur fer hefur mikið breyst, bæði hjá almenningi og fjölmiðlum, hvað varðar viðhorf gagnvart kvenfólki sem spilar knattspyrnu á þessum rúmlega 43 árum. Auðvitað hafa gæðin aukist gríðarlega en það er samt engin ástæða til að fjalla um kvennaknattspyrnu með jafn frumstæðum og niðurlægjandi undirtón og gert var þarna árið 1970. Það var eins og verið væri að fjalla um geimverur!
 
 
Þessi forleikur fékk svo sem ekki mikla umfjöllun eftir á, enda sigur Íslands á Noregi miklu fréttavænna, en eitthvað var þó minnst á tilþrif kvennanna og sú sem skoraði sigurmarkið fékk meira að segja mynd af sér í einu blaðanna án þess þó að vera nafngreind.
 
 
Þarna mættust sem sagt úrvalslið kvenna frá Reykjavík og Keflavík í 2x10 mínútna leik og þær fyrrnefndu sigruðu með einu marki gegn engu. Samkvæmt samtíma heimildum var dómarinn kvenmaður (það er svo sem engin ástæða að nefna það en oftast eru þær bara kallaðar konur!) úr Kópavogi og var sérstaklega tekið fram að hún hefði alvöru dómararéttindi! Sú bókaði einn "kvenleikmannanna" í leiknum fyrir að láta kappið hlaupa með sig í gönur en að öðru leyti fór leikurinn vel fram.
 
 
Í Morgunblaðinu var sagt; "Upphafið var fyrsti kvennaleikur, sem hér hefur verið háður, og áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir dömulegum tilburðum á knattspyrnuvellinum."

En aðeins að leiknum við Norðmennina. Lið Íslands var skipað sömu leikmönnum og gert höfðu jafntefli við Dani á Laugardalsvellinum hálfum mánuði áður en mynd af því liði má sjá hér fyrir neðan.


Eins og áður er getið lét vindurinn heilmikið á sér kræla og hann lék til dæmis stórt hlutverk á meðan að Lúðrasveitin Svanur dundaði sér við að spila þjóðsöngva landanna fyrir leikinn. Áhorfendur kepptust spenntir við að fylgjast með nótnablöðum og einkennishúfum þeirra Svana fjúka út um allan Laugardalsvöllinn án þess að lúðunum fipast hið minnsta við spilamennskuna.

Og svo hófst leikurinn. Norðmennirnir kusu að byrja undan gríðarsterkum vindinum en í byrjun var leikurinn í nokkru jafnvægi og liðin skiptust á að fá nokkur góð færi. Til að mynda átti Ásgeir Elíasson skot  sem sleikti utanverða stöngina og Norðmenn áttu sambærilegt skot í þverslána. Þrátt fyrir það vörpuðu hinir tæplega 6000 áhorfendur í Laugardalnum öndinni léttar þegar ljóst varð að Norðmenn væru ekki með neitt svakalegt yfirburðarlið til að komast yfir, undan rokinu, fyrir leikhlé.


Seinni hálfleikinn hóf Noregur síðan af miklum krafti á móti rokinu og áhorfendum leyst ekki á blikuna til að byrja með en smán saman náði íslenska liðið yfirhöndinni og um leið tók að lægja nokkuð hratt. Á 61. mínútu dró til tíðinda þegar Hermann Gunnarsson skoraði fallegt mark eftir laglegan undirbúning Eyleifs Hafsteinssonar.


Norska liðið brást strax við með því að snúa vörn í sókn og fengu ágætt færi til að skora og jafna metin en íslenska liðið brunaði síðan aftur í hina áttina undan vindinum og aftur sendi Hemmi Gunn tuðruna í netið. Í þetta sinn kom markið eftir sendingu frá Matthíasi Hallgrímssyni og þarna liðu ekki nema tæplega tvær mínútur á milli marka. Laugardalsvöllurinn ætlaði hreinlega að rifna af hamingju.


Í kjölfar seinna marksins gáfust Norðmennirnir hreinlega upp og íslenska liðið fékk fullt af færum til að bæta við marki. Hermann átti þarna sinn stærsta landsleik á sínum ferli og aðeins munaði einhverjum millimetrum að hann næði að tryggja þrennuna á 81. mínútu. Þá átti hann hörkuskot sem hafnaði í annarri stöng norska marksins og rúllaði síðan eftir línunni í hina stöngina en þar sem vindinn hafði lægt verulega, þegar langt var liðið á leikinn, fór boltinn ekki inn fyrir línuna. Ef vindurinn hefði enn verið hinn sami hefði boltinn hreinlega fokið í netið!


Fínn sigur á Norðmönnum í júlí 1970 og vonandi er líka eitthvað sambærilegt að fara að gerast á þriðjudaginn. Það væri ansi gaman að sjá Ísland komast í umspil fyrir HM þó að hverfandi líkur séu á að komast lengra en það.


ÁFRAM ÍSLAND!

Saturday, October 12, 2013

33. KOLBEINN KAFTEINN


Veit ekki alveg hvort einhver tók eftir því eða hvort það hefur gerst áður í landsleikjum Íslands en þegar Aron Einar fór af velli í seinni hálfleiknum, í gær gegn Kýpur, þá tók Kolbeinn Sigþórsson við fyrirliðabandinu af honum. Það þýðir bara eitt, KOLBEINN KAFTEINN!

Tuesday, October 8, 2013

32. ÁFRAM ÍSLAND!

 
Ísland er rétt handan við hornið við að tryggja sér þátttökusæti í umspili um laust sæti á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Brasilíu á næsta ári. Það er staðreynd að landsliðið á góða möguleika á að komast í umspilið ef vel gengur í lokaleikjunum tveimur sem fram fara nú í kringum næstu helgi en til þess þarf allt að ganga upp. Og þá eru sjálfir umspilsleikirnir auðvitað eftir en þeir eru leiknir heima og að heiman á næstu vikum. Líklega má telja að möguleikarnir þar fari minnkandi en auðvitað er um að gera að láta sig dreyma. Danmörk, Svíþjóð, Króatía, Portúgal, England, Frakkland og jafnvel Spánn eru allt lönd sem við gætum lent á móti og svo fyllsta raunsæis og sanngirnis sé gætt, þá eigum við ansi litla möguleika þar. Við erum bara svo rosalega pínulítil á alþjóðlega fótboltamælikvarða.
 
Það búa ekki nema um 325.000 manns á þessari gróðursnauða eldfjallaskeri úti í miðju norðanverðu Atlandshafinu og í hugum annara íbúa heimsins er það hreinlega á mörkunum að byggilegt sé á eyjunni. Til samanburðar má líka geta þess að til er land sem heitir Bútan (það er stærra en Sviss) og þar búa um tvær og hálf milljónir manna. Ef Bútan kemst einhvern tímann á HM þá tæmum við Tumi viskíflösku saman! Undir öllum eðlilegum kringumstæðum á þetta því hreinlega ekki að vera hægt - Við hljótum að vera að svindla eitthvað! Miðað við óhagstæðrar fámennsku okkar þá er tæknilega jafnmiklar líkur á að Malmö komist á HM.
 

 
Fámennasta þjóð veraldar til að komast á HM, fram til þessa, var Trinidad & Tobago en íbúar landsins voru aðeins um 1,1 milljón manns þegar landslið þeirra komst á HM 2006 í Þýskalandi. Liðið stóð sig reyndar alveg þokkalega, þrátt fyrir að vera talið lakasta lið keppninnar, og gerði til dæmis jafntefli við Svíþjóð en tapaði fyrir Englendingum og Paraguay og komst ekki áfram. Næst fámennasta þjóðin til að komast á HM var Slóvenía árið 2010 (rúmlega 2 milljónir) en þeir eru, eins og auðvitað allir vita, að berjast við Ísland um þetta lausa umspilssæti.
 
 
Í það minnsta... ef það er einhvern tímann ástæða til styðja við bakið á fótboltalandsliðinu okkar og senda því góða strauma, þá er það núna.
 
ÁFRAM ÍSLAND!

Thursday, October 3, 2013

31. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Loksins að koma helgi aftur og þá er auðvitað að sjálfsögðu komið að spám sérfræðinga Boltabulls. Enn er Tumi efstur sérfræðinganna en eitthvað hefur Helgi nú saxað á forskot hans því munurinn á þeim er núna aðeins 6 stig í stað 8 í síðustu viku. Annars hljóta úrslit síðustu helgar að hafa verið einstaklega óvænt því að Garðar fékk ekki eitt einasta stig í síðustu umferð. Og reyndar gott betur því hann hefur ekki fengið stig úr sjö leikjum í röð!
 
En hér eru spár sérfræðinganna fyrir 7. umferð:
 
MAN CITY - EVERTON
Tumi: 3-1
Garðar: 2-1 Held að Joe Corrigan verði í markinu í staðinn fyrir Joe Hart.
Helgi: 1-1 Tek sjensinn og spái jafntebbbli, strumparnir á hörkusiglingu og sjittí með allt niðrumsig.
 
LIVERPOOL - CRYSTAL PALACE
Tumi: 3-0
Garðar: 1-0 Held að Crystal Palace vinni en spái samt Liverpul sigri. Súares bítur sennilega boltann í netið.
Helgi: 4-0 Þrenna Suarez og Sturridge með eitt.
 
SUNDERLAND - MAN UTD
Tumi: 1-2
Garðar: 0-2 Sá reyndar einhvers staðar að Moyes hefði eytt 11 árum í að reyna að koma Everton uppfyrir Manjú og það væri loksins orðið að veruleika.
Helgi: 1-2 Gollrir og félagar merja Sunderland sem kemst þó yfir með marki Larssons, RvP og Shrek skora fyrir mu.
 
NORWICH - CHELSEA
Tumi: 0-2
Garðar: 1-2 Kanarífuglarnir ráða ekki við blámennina.
Helgi: 1-2 Krísa hjá Móra en þeir sleppa fyrir horn, Oscar með bæði.
 
WBA - ARSENAL
Tumi: 0-3
Garðar: 0-3 Skynsemin segir mér að WBA vinnur en ég er vanur að taka áhættur í lífinu.
Helgi: 0-4 hitnar undir Steve Clark en Özil leggur upp þrjú og skorar eitt, Giroud með tvö.
 
TOTTENHAM - WEST HAM
Tumi: 2-0
Garðar: 2-0 Öruggur sigur okkar manna og Soldado skorar.
Helgi: 1-0 Lundúnasigur þar sem Paulinho páfagaukur skorar með hendinni.

Wednesday, October 2, 2013

30. GAMALT & GOTT

Hér eru tvær gamlar eitís gosdrykkjaauglýsingar frá Kók og Pepsi tengdar fótbolta en þessar kunnuglegu auglýsingar tröllriðu íslensku sjónvarpi á tímum einokunar Ríkisins.