
Nú líður óðum að umspilsleikjum Íslands og Króatíu um laust sæti á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu næsta sumar og ljóst að spennan eykst með hverjum deginum sem líður. Leikirnir fara fram dagana 15. og 19. nóvember, eins og allir vita, og Íslendingar biðja til almættisins um að Laugardalsvöllurinn verði ekki eitt allsherjar klakastykki fyrrnefnda leikdaginn.
Reyndar hefur KSÍ tekist að steindrepa niður alla stemmningu í kringum leikinn, með miðasöluleikriti sínu sem angar af spillingafnyk og lygum, þar sem framkvæmdarstjórinn sjálfur virðist vera fremstur í flokki. Það er eins og KSÍ haldi að íslenskur almenningur sé upp til hópa bara fífl. Í raun hlýtur það að vera krafa hins almenna íslenska knattspyrnuáhugamanns að öll stjórn KSÍ segi af sér hið snarasta og láti ekki sjá sig nálægt fótboltavellinum í framtíðinni. Við höfum ekkert við svona drulludela að gera við forystu knattspyrnunnar á Íslandi.
En það er önnur saga...
Íslenska liðið er aðeins tveimur leikjum frá því að spila á HM í fyrsta skipti og einhver benti meira að segja réttilega á að liðið væri ekki nema níu leikjum frá því að verða heimsmeistarar í knattspyrnu! Það er því er um að gera að skoða aðeins nokkrar staðreyndir um landslið Króatíu.
Króatía er eitt af fyrrum lýðveldum Júgóslavíu og er hluti af Balkanskaganum við Adríahaf en landið varð sjálfstætt ríki árið 1991. Ísland varð fyrst allra þjóða til að viðurkenna sjálfstæði landsins en ólíklegt verður að teljast að það hjálpi okkur þessum leikjum í baráttunni um sæti á HM. Króatía er um það bil helmingi minna en Ísland að flatarmáli en íbúarnir þar eru rúmlega þrettán sinnum fleiri eða um 4,3 milljónir.
Lið frá þessum löndum hafa ekki verið mikið að mætast í gegnum tíðina og landslið þjóðanna hafa t.a.m. aðeins tvisvar sinnum mæst í A-landsleik á knattspyrnuvellinum. Það gerðist í undankeppni HM 2006, þar sem Króatar unnu á sínum heimavelli 4-0 í mars 2005 og þeir sigruðu líka á Laugardalsvellinum í september sama ár með 3 mörkum gegn 1. Mark íslenska liðsins þá gerði Eiður Smári Guðjohnsen.
Króatíska liðið hefur verið í töluverðri lægð að undanförnu og eru nýbúnir að skipta um þjálfara. Nico Kovac hefur tekið við liðinu og bróðir hans Robert verður honum til aðstoðar en þeir spiluðu báðir leikinn í Reykjavík 2005 og Nico fyrri leikinn í Zagreb þar sem hann skoraði reyndar tvö mörk. Persónulega hef ég reyndar ekki verið sérstaklega mikið inn í króatískum fótbolta en vegna ákveðinna tenginga við Tottenham get ég nefnt nokkra af leikmönnum Króata sem spilað hafa með liðinu. Allir þekkja auðvitað Luka Modric hjá Real Madrid en hann spilaði í fjögur ár með mínum mönnum í Spurs. Hann er líklega þekktasti leikmaður liðsins um þessar mundir en meðal annara króatískra leikmanna, sem spiluðu fyrir Tottenham, má nefna þá Nico Kranjcar, Vedran Corluka og markvörðinn Stipe Pletikosa.
Allir þessir leikmenn spiluðu eitthvað með króatíska liðinu í undankeppninni en bakvörðurinn Corluka var orðinn ansi hægur hjá Spurs fyrir ca. þremur árum, ef ég man rétt, og spilaði ekki mikið með liðinu undir það síðasta. Hann hefur hins vegar verið tiltölulega fastamaður hjá Lokomotiv Moskva undanfarið. Pletikosa man ég aldrei eftir að hafa séð í aðalliðsleik hjá Spurs en hann spilar núna með rússneska félaginu FC Rostov. Niko Kranjcar leikur hins vegar núna með QPR í næst efstu deild í Englandi. Þegar Eiður Smári spilaði sem lánsmaður hjá Tottenham, veturinn 2009/10, náði hann einmitt að æfa og leika með þessum leikmönnum. Hann ætti því að þekkja eitthvað til getu þeirra þó að þrjú ár séu liðin.
Alla vega... Það er ansi hætt við að róðurinn verði þungur fyrir íslenska liðið í þessum leikjum. Þó að Króatíu hafi ekki gengið sem best að undanförnu eru þeir þrátt fyrir allt í 18. sætinu á heimslistanum eftir að hafa fallið niður um átta sæti frá listanum þar á undan. Ísland er hins vegar í því 46. eftir að hafa hækkað sig um átta sæti. Til samanburðar má geta þess að Slóvenía er í 30. sæti heimslistans og Sviss í því 7 en þær þjóðir voru með okkur í riðli í undankeppninni. Þá hefur Króatía góða reynslu af stórmótum og hafa verið fastagestir á þeim. Þeir tóku þátt í lokakeppni EM árin 1996, 2004, 2008 og 2012 og voru einnig á HM 1998, 2002 og 2006. Besta árangri sínum náðum þeir á HM í Frakklandi árið 1998, þar sem þeir náðu 3. sætinu og á EM 2008 höfnuðu þeir í 5. sæti.
Það er alla vega ljóst að róðurinn verður erfiður fyrir íslenska landsliðið en vonandi nær liðið að sýna sínar bestu hliðar og komast á HM í fyrsta skipti.
ÁFRAM ÍSLAND!
Allir þessir leikmenn spiluðu eitthvað með króatíska liðinu í undankeppninni en bakvörðurinn Corluka var orðinn ansi hægur hjá Spurs fyrir ca. þremur árum, ef ég man rétt, og spilaði ekki mikið með liðinu undir það síðasta. Hann hefur hins vegar verið tiltölulega fastamaður hjá Lokomotiv Moskva undanfarið. Pletikosa man ég aldrei eftir að hafa séð í aðalliðsleik hjá Spurs en hann spilar núna með rússneska félaginu FC Rostov. Niko Kranjcar leikur hins vegar núna með QPR í næst efstu deild í Englandi. Þegar Eiður Smári spilaði sem lánsmaður hjá Tottenham, veturinn 2009/10, náði hann einmitt að æfa og leika með þessum leikmönnum. Hann ætti því að þekkja eitthvað til getu þeirra þó að þrjú ár séu liðin.
Alla vega... Það er ansi hætt við að róðurinn verði þungur fyrir íslenska liðið í þessum leikjum. Þó að Króatíu hafi ekki gengið sem best að undanförnu eru þeir þrátt fyrir allt í 18. sætinu á heimslistanum eftir að hafa fallið niður um átta sæti frá listanum þar á undan. Ísland er hins vegar í því 46. eftir að hafa hækkað sig um átta sæti. Til samanburðar má geta þess að Slóvenía er í 30. sæti heimslistans og Sviss í því 7 en þær þjóðir voru með okkur í riðli í undankeppninni. Þá hefur Króatía góða reynslu af stórmótum og hafa verið fastagestir á þeim. Þeir tóku þátt í lokakeppni EM árin 1996, 2004, 2008 og 2012 og voru einnig á HM 1998, 2002 og 2006. Besta árangri sínum náðum þeir á HM í Frakklandi árið 1998, þar sem þeir náðu 3. sætinu og á EM 2008 höfnuðu þeir í 5. sæti.
Það er alla vega ljóst að róðurinn verður erfiður fyrir íslenska landsliðið en vonandi nær liðið að sýna sínar bestu hliðar og komast á HM í fyrsta skipti.
ÁFRAM ÍSLAND!