Nú er orðið ljóst að íslenska landsliðið í knattspyrnu er ekki nema einum leik frá því að komast í umspil um laust sæti á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu næsta sumar. Það er ekki nema einn leikur eftir hjá liðinu í riðlinum en hann er gegn Norðmönnum í Osló á þriðjudaginn kemur. Sigur í þeim leik tryggir okkur sæti í umspilinu en hugsanlega getur tap einnig komið okkur áfram ef Slovenía tapar á sama tíma fyrir Sviss á útivelli. En þetta vita auðvitað allir. Það sem við þurfum hins vegar aðallega að spá í núna er það að reyna að klára leikinn gegn Noregi sómasamlega og vera ekkert að rembast við að þurfa að treysta á einhverja aðra en okkur sjálfa.
Ísland og Noregur hafa verið að mætast nokkuð reglulega í gegnum tíðina, síðan þjóðirnar hófu að sparka bolta á alþjóðlegum vettvangi, og er leikurinn á þriðjudaginn hvorki meira né minna en 32. viðureign þeirra frá upphafi. Leikjum landsliða þjóðanna hefur reyndar farið nokkuð fækkandi á undanförnum áratugum en Ísland hefur þó ekki mætt neinni þjóð jafn oft á knattspyrnuvellinum og Noregi. Ísland vann síðustu viðureignina, með tveimur mörkum gegn engu, í fyrra en í þau skipti sem þjóðirnar hafa mæst á undanförnum árum hafa leikirnir verið í nokkru jafnvægi. Í tilefni leiksins á þriðjudaginn er kannski við hæfi að kíkja aðeins á frækinn sigur Íslands á Noregi á Laugardalsvellinum þann 20. júlí árið 1970.
Þetta var 12. viðureign þjóðanna og Ísland hafði aðeins unnið Noreg tvisvar sinnum frá því fyrsti leikurinn fór fram árið 1947, fyrst á Melavellinum árið 1954 og síðan í sögufrægum leik í undankeppni Ólympíuleikanna árið 1959.
Um leikinn árið 1970 hefur oft og mikið verið rætt og ritað um og hann jafnan dreginn fram í sviðsljósið á tyllidögum. Oftast er hann þá ræddur í tengslum við frammistöðu Hermanns heitins Gunnarssonar sem átti stórleik. Sjálfur var ég ekki nema rétt tæplega árs gamall og man því eðlilega ekki mikið eftir leiknum en hann hefur oft rekið á fjörur mínar, í gegnum tíðina, í ýmsum annálum tengdum knattspyrnu. Tumi var auðvitað langt frá því að vera kominn í heiminn og mamma hans var líklega ekki einu sinni orðin að hugmynd þegar leikurinn fór fram.
En tvennt er þó sem aldrei er minnst á í seinni tíma annálum í tengslum við þennan leik. Hið fyrra er að leikurinn fór fram á Laugardalsvellinum í þvílíku, hávaða norðanroki að varla var stætt á vellinum og hafði það klárlega áhrif á frammistöðu norska liðsins. Norðmennirnir höfðu aldrei kynnst öðrum eins aðstæðum og fannst vart boðlegt að spila fótbolta í slíkum vindi.
Hitt atriðið snerist um það að fyrir leikinn var boðið upp á "skemmtiatriði" sem var algjört nýmæli í íslenskri knattspyrnusögu. Jú, áður en Ísland - Noregur hófst var boðið upp á kvennaknattspyrnu!
Sem betur fer hefur mikið breyst, bæði hjá almenningi og fjölmiðlum, hvað varðar viðhorf gagnvart kvenfólki sem spilar knattspyrnu á þessum rúmlega 43 árum. Auðvitað hafa gæðin aukist gríðarlega en það er samt engin ástæða til að fjalla um kvennaknattspyrnu með jafn frumstæðum og niðurlægjandi undirtón og gert var þarna árið 1970. Það var eins og verið væri að fjalla um geimverur!
Þessi forleikur fékk svo sem ekki mikla umfjöllun eftir á, enda sigur Íslands á Noregi miklu fréttavænna, en eitthvað var þó minnst á tilþrif kvennanna og sú sem skoraði sigurmarkið fékk meira að segja mynd af sér í einu blaðanna án þess þó að vera nafngreind.
Þarna mættust sem sagt úrvalslið kvenna frá Reykjavík og Keflavík í 2x10 mínútna leik og þær fyrrnefndu sigruðu með einu marki gegn engu. Samkvæmt samtíma heimildum var dómarinn kvenmaður (það er svo sem engin ástæða að nefna það en oftast eru þær bara kallaðar konur!) úr Kópavogi og var sérstaklega tekið fram að hún hefði alvöru dómararéttindi! Sú bókaði einn "kvenleikmannanna" í leiknum fyrir að láta kappið hlaupa með sig í gönur en að öðru leyti fór leikurinn vel fram.
Í Morgunblaðinu var sagt; "Upphafið var fyrsti kvennaleikur, sem hér hefur verið háður, og áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir dömulegum tilburðum á knattspyrnuvellinum."
En aðeins að leiknum við Norðmennina. Lið Íslands var skipað sömu leikmönnum og gert höfðu jafntefli við Dani á Laugardalsvellinum hálfum mánuði áður en mynd af því liði má sjá hér fyrir neðan.
Eins og áður er getið lét vindurinn heilmikið á sér kræla og hann lék til dæmis stórt hlutverk á meðan að Lúðrasveitin Svanur dundaði sér við að spila þjóðsöngva landanna fyrir leikinn. Áhorfendur kepptust spenntir við að fylgjast með nótnablöðum og einkennishúfum þeirra Svana fjúka út um allan Laugardalsvöllinn án þess að lúðunum fipast hið minnsta við spilamennskuna.
Og svo hófst leikurinn. Norðmennirnir kusu að byrja undan gríðarsterkum vindinum en í byrjun var leikurinn í nokkru jafnvægi og liðin skiptust á að fá nokkur góð færi. Til að mynda átti Ásgeir Elíasson skot sem sleikti utanverða stöngina og Norðmenn áttu sambærilegt skot í þverslána. Þrátt fyrir það vörpuðu hinir tæplega 6000 áhorfendur í Laugardalnum öndinni léttar þegar ljóst varð að Norðmenn væru ekki með neitt svakalegt yfirburðarlið til að komast yfir, undan rokinu, fyrir leikhlé.
Seinni hálfleikinn hóf Noregur síðan af miklum krafti á móti rokinu og áhorfendum leyst ekki á blikuna til að byrja með en smán saman náði íslenska liðið yfirhöndinni og um leið tók að lægja nokkuð hratt. Á 61. mínútu dró til tíðinda þegar Hermann Gunnarsson skoraði fallegt mark eftir laglegan undirbúning Eyleifs Hafsteinssonar.
Norska liðið brást strax við með því að snúa vörn í sókn og fengu ágætt færi til að skora og jafna metin en íslenska liðið brunaði síðan aftur í hina áttina undan vindinum og aftur sendi Hemmi Gunn tuðruna í netið. Í þetta sinn kom markið eftir sendingu frá Matthíasi Hallgrímssyni og þarna liðu ekki nema tæplega tvær mínútur á milli marka. Laugardalsvöllurinn ætlaði hreinlega að rifna af hamingju.
Í kjölfar seinna marksins gáfust Norðmennirnir hreinlega upp og íslenska liðið fékk fullt af færum til að bæta við marki. Hermann átti þarna sinn stærsta landsleik á sínum ferli og aðeins munaði einhverjum millimetrum að hann næði að tryggja þrennuna á 81. mínútu. Þá átti hann hörkuskot sem hafnaði í annarri stöng norska marksins og rúllaði síðan eftir línunni í hina stöngina en þar sem vindinn hafði lægt verulega, þegar langt var liðið á leikinn, fór boltinn ekki inn fyrir línuna. Ef vindurinn hefði enn verið hinn sami hefði boltinn hreinlega fokið í netið!
Fínn sigur á Norðmönnum í júlí 1970 og vonandi er líka eitthvað sambærilegt að fara að gerast á þriðjudaginn. Það væri ansi gaman að sjá Ísland komast í umspil fyrir HM þó að hverfandi líkur séu á að komast lengra en það.
ÁFRAM ÍSLAND!
Eins og áður er getið lét vindurinn heilmikið á sér kræla og hann lék til dæmis stórt hlutverk á meðan að Lúðrasveitin Svanur dundaði sér við að spila þjóðsöngva landanna fyrir leikinn. Áhorfendur kepptust spenntir við að fylgjast með nótnablöðum og einkennishúfum þeirra Svana fjúka út um allan Laugardalsvöllinn án þess að lúðunum fipast hið minnsta við spilamennskuna.
Og svo hófst leikurinn. Norðmennirnir kusu að byrja undan gríðarsterkum vindinum en í byrjun var leikurinn í nokkru jafnvægi og liðin skiptust á að fá nokkur góð færi. Til að mynda átti Ásgeir Elíasson skot sem sleikti utanverða stöngina og Norðmenn áttu sambærilegt skot í þverslána. Þrátt fyrir það vörpuðu hinir tæplega 6000 áhorfendur í Laugardalnum öndinni léttar þegar ljóst varð að Norðmenn væru ekki með neitt svakalegt yfirburðarlið til að komast yfir, undan rokinu, fyrir leikhlé.
Seinni hálfleikinn hóf Noregur síðan af miklum krafti á móti rokinu og áhorfendum leyst ekki á blikuna til að byrja með en smán saman náði íslenska liðið yfirhöndinni og um leið tók að lægja nokkuð hratt. Á 61. mínútu dró til tíðinda þegar Hermann Gunnarsson skoraði fallegt mark eftir laglegan undirbúning Eyleifs Hafsteinssonar.
Norska liðið brást strax við með því að snúa vörn í sókn og fengu ágætt færi til að skora og jafna metin en íslenska liðið brunaði síðan aftur í hina áttina undan vindinum og aftur sendi Hemmi Gunn tuðruna í netið. Í þetta sinn kom markið eftir sendingu frá Matthíasi Hallgrímssyni og þarna liðu ekki nema tæplega tvær mínútur á milli marka. Laugardalsvöllurinn ætlaði hreinlega að rifna af hamingju.
Í kjölfar seinna marksins gáfust Norðmennirnir hreinlega upp og íslenska liðið fékk fullt af færum til að bæta við marki. Hermann átti þarna sinn stærsta landsleik á sínum ferli og aðeins munaði einhverjum millimetrum að hann næði að tryggja þrennuna á 81. mínútu. Þá átti hann hörkuskot sem hafnaði í annarri stöng norska marksins og rúllaði síðan eftir línunni í hina stöngina en þar sem vindinn hafði lægt verulega, þegar langt var liðið á leikinn, fór boltinn ekki inn fyrir línuna. Ef vindurinn hefði enn verið hinn sami hefði boltinn hreinlega fokið í netið!
Fínn sigur á Norðmönnum í júlí 1970 og vonandi er líka eitthvað sambærilegt að fara að gerast á þriðjudaginn. Það væri ansi gaman að sjá Ísland komast í umspil fyrir HM þó að hverfandi líkur séu á að komast lengra en það.
ÁFRAM ÍSLAND!
No comments:
Post a Comment