Tuesday, October 22, 2013

36. ÁSGEIR ROTAR DÓMARA

Það eru ekki margir sem komast upp með að rota dómara í knattspyrnuleik, án þess að hljóta refsingu fyrir, en Eyjamaðurinn knái Ásgeir Sigurvinsson náði þó þeim merkilega áfanga þann 2. nóvember árið 1977. Hmmm... já, það er reyndar sama dag og pabbi varð fertugur!
 
 
Lið Ásgeirs, Stardard Liege, var þá að spila á heimavelli við gríska félagið AEK Athena (liðið sem Eiður Smári fótbrotnaði með) í Evrópukeppni félagsliða en fyrri leiknum hafði lokið með 2-2 jafntefli liðanna í Grikklandi. Þar hafði Ásgeir einmitt skorað annað marka Standard en í seinni leiknum tók hann hins vegar upp á því að rota svissneska dómarann Walter Hungerbuehler.
 
 
Verknaðurinn var að sjálfsögðu algjört óviljaverk en AP-fréttastofan greindi frá því í fréttaskeyti að hann hefði verið eftirminnilegasta atvik leiksins.
 
Ásgeir lýsti sjálfur atvikinu í bók Sigmundar Ó. Steinarssonar og Guðjóns Róberts Ágústssonar, Ásgeir Sigurvinsson - Knattspyrnuævintýri Eyjapeyjans; "Já, það er ekki á hverjum degi sem knattspyrnumaður rotar dómara, án þess að fá að sjá rauða spjaldið. Ég vissi ekki af dómaranum, sem stóð fyrir aftan mig, þegar há sending kom fram völlinn. Ég sneri mér snöggt við og setti á fullt á eftir knettinum. Ég vissi ekki fyrri til en ennið á mér söng á kollinum á honum, þannig að hann steinlá."
 
 
Hungerbuehler lá steinrotaður á vellinum í fáeinar mínútur og raknaði ekki úr rotinu fyrr en læknar liðanna og annar línuvarðanna höfðu gefið honum súrefni úr kút. Ásgeir varð hins vegar ekki meint af atvikinu en hvergi kemur fram hvort dómarinn hafi getað haldið störfum sínum á vellinum áfram.
 
 
Það er kannski rétt að geta þess að leiknum lauk með sigri Standard 4-1.


No comments:

Post a Comment