Friday, January 31, 2014

65. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Og í enn eitt skiptið ætla sérfræðingar Boltabulls að setja sig í fræðigírinn og greina frá helstu skoðunum sínum varðandi leiki næstu helgar. Síðasta helgi gaf frekar fá stig í pott fræðimannannanna en Garðar varð þó efstur með 6 stig á meðan Tumi og Helgi fengu 5. Enn er Tumi efstur í heildarpakkanum og hefur nú 137 stig, Garðar hefur 127 og Helgi er með 114.

En hérna kemur helgarumferðin...

EVERTON - ASTON VILLA
Tumi: 2-0
Helgi: 3-1 Litla liðið í Liverpool reynir að gleyma 4-0 tapinu gegn stóra liðinu í Liverpool á meðan Villingar eru enn í skýjunum eftir sigurinn á sínum litla bróður.
Garðar: 3-1 Þetta verður frekar ansi létt hjá bláa liðinu.

STOKE - MAN UTD
Tumi: 0-1 Mata með markið hérna.
Helgi: 0-2 RvP (afsakið) lætur Mata mata sig á stoðsendingum.
Garðar: 1-2 Mu er ekkert að fara að rústa leiðinlegasta liði deildarinnar þó þeir hafi fengið einhvern nýjan leikmann í vikunni.

HULL - TOTTENHAM
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Erfður leikur en Spur nær að knýja fram sigur og verða með +/- markatölu í deildinni.
Garðar: 0-2 Mínir menn fara ekkert að tapa fyrir Hull.

WBA - LIVERPOOL
Tumi: 0-3 Súares með tvö.
Helgi: 0-3 Sturridge verður í öðru sæti markahæstu manna ásamt Aguero eftir þennan leik.
Garðar: 1-3 Einstaklega ósanngjarnt í þessum leik. YLSD!

ARSENAL - CRYSTAL PALACE
Tumi: 3-0
Helgi: 5-0 Ars kvittar fyrir klúðrið gegn Southampton.
Garðar: 4-0 Alltof létt.

MAN CITY - CHELSEA
Tumi: 1-1
Helgi: 3-0 Einfaldlega langbesta liðið.
Garðar: 3-1 City veður yfir allt á skítugum skónum í vetur.

Sunday, January 26, 2014

64. KR - LIVERPOOL 1964

Lið KR varð Íslandsmeistari í knattspyrnu sumar 1963 og í kjölfarið varð tekin sú ákvörðun hjá félaginu að liðið tæki þátt í Evrópukeppni meistaraliða haustið eftir - fyrst íslenskra liða. Næsta haust eru því 50 ár liðin.

Nokkur eftirvænting ríkti hjá KR-ingum um þessa frumraun Íslendinga á Evrópumótum og mikil spenna myndaðist um væntanlega mótherja í keppninni. 31 lið höfðu tilkynnt þátttöku og helstu óskir KR snerust um það að þurfa ekki að ferðast til austantjalds landanna. Til landsins bárust á móti þær fréttir að dönsku meistararnir í B1909 óskuðu helst eftir að mæta KR, þar sem þeir töldu sig eiga bestu möguleikana gegn þeim andstæðingum, en auk þess væri ferðalag til Íslands ævintýri líkast.
 
 
Þann 8. júlí árið 1964 var síðan dregið í 1. umferð og upp úr hattinum drógust ensku meistarnir í Liverpool. Íslenskir áhugamenn um ensku knattspyrnuna urðu himinlifandi yfir þessum happadrætti og fljótlega var samið um að fyrri leikur liðanna færi fram í Reykjavik en sá síðari í Liverpool. Reyndar kom Liverpool fyrr upp úr hattinum og hefði því átt að eiga sinn heimaleik á undan en enska liðið samþykkti að skipta leikdögunum vegna hinna séríslensku aðstæðna hér á haustin. Liverpool var einnig að hefja sína fyrstu þátttöku á Evrópumótunum og á Bretlandseyjum ríkti nokkur bjartsýni um auðvelda frumraun liðsins.


Í Sunday Mirror birtist létt grein eftir blaðamanninn Sam Leitch um hina íslensku andstæðinga Liverpool og þar sagði hann meðal annars; "Hinir gamansömu knattspyrnuáhugamenn í Liverpool ímynda sér vafalaust að meistarar þeirra í ensku deildarkeppninni hafi annað hvort hreppt, að mótherjum í 1. umferð Evrópubikarkeppninnar, búnt af skinnklæddum eskimóum eða skipsfarm af víkingum í ránsferð." Leitch sagði að sér hefði verið greint frá því að stjarna liðsins héti Ellert Scram og að sá hefði sagt; "Ég veit allt um Liverpool og Bill Shankly en ég veit að þeir vita ekkert um okkur." Leitch sagði einnig að hann hefði verið spurður frá Íslandi hvort hann reiknaði með að einhverjir áhorfendur kæmu á Anfield til að sjá Íslendingana og hann svaraði; "Þið gætuð sent hingað 11 seli og samt yrði uppselt á Mersey bökkum."

Breskir fjölmiðlar sýndu leikjum KR og Liverpool mikinn áhuga og stuttu fyrir leikinn í Reykjavík komu hingað sjónvarpstökulið frá BBC og tóku upp efni fyrir þáttinn Tonight Show. Í þættinum voru viðtöl við nokkra leikmenn og forráðmenn KR og sýndar myndir frá leikskipulagsfundum og æfingum liðsins.

Þess má líka geta að þegar Liverpool liðið kom til landsins tóku flugmenn Loftleiðavélarinnar Skýfaxa heilmikið útsýnisflug yfir Surtsey, sem enn gaus með miklum látum, og leikmenn liðsins áttu ekki orð yfir þeim ósköpum sem þar fóru fram.


Íslenskir blaðamenn króuðu ensku atvinnumennina af við komuna til landsins og spurðu þá spjörunum úr. Þeir voru meðal annars spurðir um líf sitt sem atvinnumanna og ólíkt því sem gerist í dag þá voru leikmennirnir ófeimnir við að ræða launamál sín. Þeir væru afar ánægðir með kjör sín hjá félaginu og upplýstu viðstadda um að árstekjur þeirra næmu um 3000 pundum. Í mánaðarlaun gera það líklega um rúmlega 48.000 íslenskar krónur!


Leikurinn sjálfur fór fram á Laugardalsvellinum, mánudagskvöldið 17. ágúst og þrátt fyrir svolítinn norðan hroll létu rúmlega 10.000 áhorfendur sjá sig á vellinum.


Fljótlega eftir að leikurinn hófst varð ljóst að hann myndi þróast eins og flestir höfðu reiknað með. Liverpool liðið tók strax öll völd á vellinum og það voru ekki nema tvær mínútur liðnar af leiknum þegar Gordon Wallace skoraði fyrsta markið.


Og þetta fyrsta mark má einnig sjá á þessari mynd hér fyrir neðan.

 
Lítið meira gerðist reyndar í þessum fyrri hálfleik nema það að Liverpool var nánast alveg með boltann fyrsta hálftímann og KR-ingarnir voru hlaupandi á eftir þeim í endalausum eltingarleik. Staðan var því aðeins 0-1 þegar norski dómarinn flautaði til tepásu og íslenskir áhorfendur voru skiljanlega alveg himinlifandi með stöðuna í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var öllu fjörugri og líkt og í byrjun leiks liðu ekki nema tvær mínútur áður en enska liðið var búið að bæta við marki. Þar var að verki Roger Hunt sem skoraði af stuttu færi.


Stuttu seinna fengu KR-ingar sitt besta færi í leiknum þegar Ellert Schram átti skalla eitthvað í áttina að markinu eftir hornspyrnu en Ronnie Moran, sem löngu seinna tók að sér forfallaframkvæmdastjórnun hjá liðinu, skallaði boltann frá. Stórfengleg tilþrif eins og sjá má.


Ekki leið langur tími þar til Liverpool skoraði þriðja markið og þar var að verki Phil Chisnall en í dagblöðum eftir leikinn var þess getið að markið hefði komið eftir hroðalega varnarvinnu heimamanna. Eftir þetta gerði KR lítið annað en að reyna að verjast eftir bestu getu en það var reyndar það sama og þeir voru búnir að vera að gera allan leikinn fram að þessu. Þeir Wallace og Hunt skoruðu báðir aftur og leikurinn endaði því með 0-5 sigri ensku meistaranna.


Eftir leikinn ætlaði markvörður Liverpool að kenna framherjum KR um ef hann fengi kvef og Bill Shankly hrósaði KR sérstaklega fyrir drengilegan leik, góðan aðbúnað og völl. Seinna um kvöldið mættu bæði liðin síðan á Naustið til að njóta næringaríkrar máltíðar eftir leikinn. Þar rétt náðu leikmenn Liverpool að slafra í sig súpuskál í forrétt áður en Shankly rak allt lið sitt í rúmið upp á hótel. KR liðið naut því afgangsins af matnum án gestanna en í staðinn skemmti línuvörðurinn Borgesen hópnum með norskum dægurlagasöng og lék undir á píanó. Dómarinn Johan Riseth var hins vegar hinn fúlasti og sagði að leikurinn hefði verið leiðinlegur.


Seinni leikur liðanna fór svo fram á heimavelli Liverpool, Anfield Road, mánudaginn 14. september og þar litu svipuð úrslit dagsins ljós. Heimamönnum hafði gengið fremur brösuglega í byrjun tímabilsins á Englandi þetta haust en samt létu rúmlega 32.596 áhorfendur sig hafa það að mæta á völlinn, til að sjá íslensku harðfiskana spila fótbolta. Þulur vallarins bauð íslenska liðið velkomið á Anfield og svo tóku breskir loðbítlar við að kyrja God save the Queen í flóðljósunum en það voru aðstæður sem enginn leikmaður KR hafði áður kynnst.


Liverpool liðið hóf fljótlega mikla skothríð á mark KR en Heimir Guðjónsson markvörður varði nokkrum sinnum meistaralega strax á upphafsmínútum leiksins auk þess sem varnarmenn hans björguðu líka a.m.k. tvisvar sinnum á marklínunni. Á 14. mínútu skoraði hins vegar bakvörðurinn Gerry Byrne og stuttu seinna bætti Ian St. John öðru marki við.


Yfirburðir heimamanna voru skelfilegir og það kom því áhorfendum í opna skjöldu þegar Gunnar Felixson tók upp á því, algjörlega gegn gangi leiksins, að skora fyrir KR á 36. mínútu. Liverpool 2 - KR 1 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Sko, það er meira að segja til mynd af því!

 
Síðari hálfleikurinn spilaðist á svipaðan hátt og sá fyrri og leikurinn fór nánast allur fram á vallarhelmingi gestanna þar sem KR-ingar röðuðu sér upp við vítateiginn. Það kom ekki í veg fyrir að Liverpool skoraði fjögur mörk á rúmlega tuttugu mínútum og leikurinn endaði með 6-1 sigri heimamanna.


Í leikslok klöppuðu áhorfendur lengi fyrir áhugamönnunum frá Íslandi og leikmenn Liverpool létu það eftir sér að standa heiðursvörð fyrir KR-ingum og klappa fyrir þeim er þeir gengu af velli. "Reykjavík, Reykjavík, Reykjavík..." ómaði um völlinn á meðan.


Leikmenn KR voru himinlifandi með allar móttökur og alveg sérstaklega þær vinsældir og athygli sem eiginkonur þeirra hlutu. Þær flugu út með liðinu til Liverpool en nokkrir stuðningsmenn fylltu svo upp í þau sæti sem 80 manna leiguvélin bauð upp á. Ljósmyndarar kepptust við að birta myndir af eiginkonunum í blöðunum og lesendur þeirra voru greinilega ánægðir með þessa fegurðaauknu tilbreytingu. Útlit bresks kvenfólks hafði líklega ekki verið að selja blöðin þeirra fram að þessu og íslenskir fjölmiðlar vöktu auðvitað athygli á mikilvægri landkynningu.

Bæði fyrir og eftir leikinn vöktu leikmenn KR athygli hvar sem þeir fóru. Þeim var til að mynda boðið í virðulega heimsókn til borgarstjóra Liverpool og strax eftir leikinn voru þeir króaðir af og beðnir um eiginhandaráritanir.


Fræg saga er til af þeim KR-ingum úr þessari ferð en henni er gerð góð skil í bókinni "Hverjir eru bestir?" eftir þá Guðjón Inga Eiríksson og Jón Hjaltason. Best að grípa aðeins í hana svona í lok þessarar færslu.

Þegar KR-ingarnir voru í Liverpool gistu þeir á sama hóteli, og reyndar á sömu hæð, og stórhljómsveitin Rolling Stones. Fylgdi hljómsveitinni mikill skari áhorfenda sem hafðist við fyrir utan hótelið í þeirri von að berja goðin augum.
Það var einmitt þá sem einum KR-ingnum, Heimi markverði Guðjónssyni, datt í hug að leika eilítið á þessa æstu aðdáendur. Brá hann fingrum í gegnum hár sitt, labbaði því næst vel úfinn út á svalir og rak upp þetta feikna öskur. Trylltist þá lýðurinn fyrir neðan svo um munaði, enda var í fyrstu talið að þarna væri enginn annar en Mick Jagger, aðalmaðurinn í Rolling Stones, á ferð. Á hæla Heimis kom hins vegar Bjarni nokkur Felixson, lítt stórhljómsveitarlegur á að líta, og sló þá algjörri þögn á mannskapinn, en síðan heyrðist frá einni stúlkunni:
"Oj, It's the footballers!"

Sunday, January 19, 2014

63. JULES RIMET STYTTAN OG PICKLES

Það er HM ár í ár og því um að gera að rifja sem mest upp af þeim merkilegu atburðum sem gerst hafa í tengslum við fyrri heimsmeistarakeppnir í fótbolta á árum áður.


Allir þekkja hina stórglæsilegu og sögufrægu HM styttu sem er stærsti og verðmætasti staki verðlaunabikar sem keppt er um í íþróttum. Bikar þessi var tekinn í notkun fyrir HM 74 en árið 1970 unnu Brasilíumenn fyrri bikarinn til eignar eftir að hafa sigrað HM í þriðja sinn. Þessi núverandi verðlaunagripur er eftir ítalska myndhöggvarann Silvio Gazzaniga en hann sigraði í samkeppni FIFA um nýjan bikar þar sem 53 tillögur frá 7 löndum bitust um sigurinn. Styttan er 36,5 cm á hæð, vegur 5 kg og er úr 18 karata (75%) gulli. Hún er hol að innan, sem er kannski eins gott, vegna þess að ef kvikindið væri massíf og úr skíragulli myndi hún vega um 70-80 kg! Það væri líklega frekar skondið að sjá fyrirliða sigurvegaranna vera að reyna að rogast, örþreyttir eftir 90 mínútna leik, við að lyfta 80 kg gullklump á loft!


En fyrsti HM bikarinn á sér nokkuð merkilega sögu. Hann var oftast nefndur Jules Rimet bikarinn, eftir fyrrum formanni FIFA og upphafsmanni Heimsmeistarakeppninnar, en í raun hét bikarinn "Victory." Jules Rimet bikarinn var hannaður af listamanninum Abel Lafleur en hann var 35 cm á hæð (og þá erum við auðvitað að tala um bikarinn en ekki Lefleur) og um 4 kg að þyngd. Bikarinn var fyrsti verðlaunagripur HM og var því tekinn í notkun árið 1930 en var síðast hampað af Brasilíumönnum á HM 70 eins og áður segir. Uruguay vann fyrsta Heimsmeistaramótið árið 1930 en næstu tvær keppnir, árið 1934 og 1938 sigruðu Ítalir.


Ítalir voru því handhafar heimsmeistaratitilsins og voru með Jules Rimet bikarinn í sinni vörslu þegar Seinni heimstyrjöldin skall á. Bikarinn var geymdur í bankahólfi í Róm í byrjun stríðsins haustið 1939 en forseti ítalska knattspyrnusambandsins og varaforseti FIFA tók ekki neina áhættu og fór með Jules Rimet bikarinn í felur. Þetta gerði hann til að koma í veg fyrir að Nasistar næðu styttunni í sína vörslu og myndu bræða hana niður í gullstangir. Eftir að Heimsstyrjöldinni lauk upplýsti hann að Jules Rimet bikarinn hefði verið geymdur í skókassa undir rúmi sínu öll stríðsárin.


En fyrir HM 66 í Englandi var bikarnum hins vegar stolið. Þann 20. mars árið 1966 hvarf Jules Rimet bikarinn úr HM sýningarglugga í Westminster Central Hall í London. Enska knattspyrnusambandið (FA - Football Association) hafði fengið bikarinn til varðveislu, strax í janúar 1966, fyrir HM og var gert ráð fyrir að hann væri geymdur í höfuðstöðvum FA á nokkrum kynningaviðburðum. 19. mars fengu félagasamtökin Stanley Gibbons gripinn lánaðan fyrir sýningarglugga á frímerkjasýningu og leyfi fékkst gegn þeim skilyrðum að bikarinn yrði tryggður fyrir um 30.000 pund og að tvöfaldur vörður yrði um hann allan sólarhringinn. Jules Rimet styttan vakti strax gríðarlega mikla athygli í glugganum, á meðal almennings, en það breytti því ekki að bikarinn var horfinn morguninn eftir.


Scotland Yard tók málið strax í sínar hendur og fljótlega barst krafa um lausnargjald upp á 15.000 pund en um leið hótanir um að ef ekki yrði við kröfum ræningjanna yrði styttan eyðilögð og brædd. Eftir nokkur samskipti við bófana var eitthvað af lausnargjaldinu komið til skila en styttan kom ekki fram fyrr en átta dögum seinna þegar að hundurinn Pickles fann hana. Eigandi Pickles, David Corbett, var þá að leggja af stað í göngu með hundinn við heimili sitt í Beulah Hill í Suður London þegar Pickles fann styttuna innpakkaða í dagblað undir lárviðarrunna við hús þeirra.


Pickles varð samstundis heimsfrægur og birtist í fjölmiðlum um víða veröld. Hann varð gríðarlega vinsæll, kom fram í blöðum og sjónvarpi og fékk meira að segja einhver kvikmyndahlutverk. Hann fékk 6000 pund í verðlaunafé og auk þess sérstakan verðlaunapening sem sleginn var sérstaklega í tilefni afreksins.


Eftir úrslitaleik Heimsmeistaramótsins í London var haldin heljarinnar veisla í Royal Garden, þar sem Pickles var sérstakur boðsgestur í samkvæminu ásamt eiganda sínum en nýkrýndir heimsmeistarar Englendinga voru heiðursgestir. Fyrir utan fögnuðu tugir þúsunda aðdáenda heimsmeistaratitlinum og allt ætlaði um koll að keyra þegar fyrirliðinn Bobby Moore kom út á svalir veislusalarins með Pickles undir annari hendinni en Jules Rimet styttuna í hinni. Seinna í veislunni fékk Pickles besta kjötbein sem nokkrum hundi í Englandi hafði verið gefið.


Einhver bófi fékk dóm fyrir aðild sína að ráninu en aldrei fékkst úr því skorið hvort hann hefði verið einn að verki eða hefði aðeins haft það hlutverk að sækja lausnargjaldið fyrir aðra, eins og hann sjálfur hélt alltaf fram. Pickles dó hins vegar, af slysförum, árið 1967 þegar hann hengdi sig óvart og kafnaði þegar hann var að eltast við kött.

Árið 1983 var Jules Rimet styttunni hins vegar stolið aftur og var í það skiptið brædd niður, þannig að upprunalega styttan er glötuð. Ári seinna var þó gerð eftirlíking af styttunni, sem Brasilíumenn varðveita sem upprunaleg væri.

Friday, January 17, 2014

62. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Og enn er komið að meintum sérfræðingunum okkar að spá um leiki helgarinnar í ensku Úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Síðasta umferð var í jafnara lagi og stigahlutfall sérfræðinga Boltabulls var í hærri kantinum að þessu sinni en þeir Tumi og Garðar deildu efsta sætinu með 12 stig hvor. Helgi fékk 11. Það má kannski geta þess að 12 stig (af 18 mögulegum) er jöfnun á stigameti í einni umferð en Garðar fékk núna 12 stig aðra umferðina í röð. Hann er reyndar á feikna flugi þessa dagana og hefur fengið stig úr 18 leikjum í röð en fyrra metið átti Tumi með 10 leiki í röð. Staðan er því þannig núna að Tumi er enn efstur með 132 stig, Garðar hefur 121 og Helgi 109.
 
En hér koma leikir og spár helgarinnar...
 
ARSENAL - FULHAM
Tumi: 3-0
Helgi: 3-0 Stærstu Lundúnaliðin mætast en spennan er engin, Giroud (2) og Cazorla með mörkin.
Garðar: 3-1 Svefnpokagengið vinna öruggan sigur á sultuslökum Fúlverjum.
 
MAN CITY - CARDIFF
Tumi: 2-0
Helgi: 5-0 Negredo og Aguero með tvö hvor, aðrir minna.
Garðar: 6-0 Solskjær & félagar ráða ekkert við þá ljósbláu og þetta gæti endað einhvers staðar á milli 3 og 68 - 0.
 
LIVERPOOL - ASTON VILLA
Tumi: 2-0
Helgi: 5-0 Suarez (3), Sturridge, Hendo.
Garðar: 2-1 Alltaf leiðinlegt að spá þessu heimaliði sigri en það má alltaf spá því ósanngjörnu.
 
SWANSEA - TOTTENHAM
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Klaus Bendtleke kemur Swansea yfir en Theo Dolphin og Mark McSchlubert svara fyrir tott'n.
Garðar: 1-2 Skyldusigur hjá mínum mönnum og Adebayor skorar a.m.k. fjögur.
 
CHELSEA - MAN UTD
Tumi: 2-0
Helgi: 1-1 Ég spái að allir spái 1-1.
Garðar: 2-1 Auðveldur sigur hjá Móra gegn Mójs.
 
WBA - EVERTON
Tumi: 0-1
Helgi: 1-2 Marseilles og Charles Barkley skora fyrir Neverton en Analka skorar fyrir heimaliðið.
Garðar: 1-2 Everton tekur þetta í hundleiðinlegum fótboltaleik en ég held með þeim röndóttu.

Tuesday, January 14, 2014

61. GAMLAR KEMPUR Í DAG

Það þarf enga sérfræðinga til að sjá að Internetið er snilldarfyrirbæri. Eitt af því sem BOLTABULL hefur uppgötvað á þeim vettvangi, eru ógrynni gamalla og nýrra mynda af fótboltahetjum fyrri tíma en sú staðreynd gefur alveg kjörið tækifæri til að kanna hve hetjurnar hafa breyst í aldanna rás. Hallærisheitin geta verið yfirþyrmandi og auðvitað er mest freistandi að skoða þær kempur sem voru áberandi fyrir um 35 árum, þegar maður var að byrja að fylgjast með enska boltanum. Það er í rauninni ótrúlegt hvað grannir og spengilegir íþróttamenn, í sínu besta formi, geta breyst í feita, sköllótta, gráa og eiginlega bara gamla kalla á ekki lengri tíma.

Skoðum nokkra þessara kappa í tilefni áramótanna en það er kannski rétt að taka það fram að sumar af þessum yngri myndum eru nú þegar orðnar nokkurra ára gamlar.

Kíkjum fyrst á Neville Southall (55) sem var markvörður hjá Everton eins og margir eflaust muna. Hann var afskaplega sérstakur náungi, svo ekki sé meira sagt, og var á köflum einnig nokkuð mikið fyrir góðan mat. Á efri árum hefur hann bætt á sig nokkra tugi kílóa og á síðustu árum atvinnumennsku sinnar þurfti til dæmis að sérsauma á hann stuttbuxurnar. Í dag er hann einfaldlega spikfeitur.


Peter Shilton (64) spilaði fyrir enska landsliðið þar til hann var tæplega 41s árs og verður að segjast eins og er að hann var orðinn ansi þungur og hægur undir það síðasta. Síðustu leiki sína á ferlinum spilaði hann með Leyton Orient (48 ára) og ég er voða feginn að þeir leikir fóru alveg fram hjá mér. Í dag lítur hann út fyrir að vera orðinn nokkuð gamall maður en hann leit reyndar líka út fyrir það á HM 1990.


Paul Mariner (60) var einn af hetjum spútnikk liðs Ipswich Town í kringum 1980 en starfar nú sem þjálfari hjá kanadíska félaginu Toronto sem Jermain Defoe er að ganga til liðs við. Mariner lék hátt í 40 leiki fyrir enska landsliðið og mig rámar í að hann hafi einmitt spilað hér á Laugardalsvellinum vorið 1982. Ef svo var þá hefur sú stutta íslenska dvöl haft þau áhrif að í dag lítur hann út eins og Willum Þór Þórsson alþingismaður. Sumir virðast alla vega hafa haldið sér í sæmilegu formi.


Alan Brazil (54) var, eins og Mariner, líka einn af Ipswich strákunum en auk þeirra mætti líka nefna Eric Gates og Arnold Mühren svo einhverjir séu nefndir. Brazil spilaði seinna með bæði Tottenham og Man Utd og er í dag ekkert svo gamall en á myndum að dæma gæti hann alveg hæglega verið að nálgast áttrætt.


Alan Sunderland (60) var helst þekktur fyrir svakalega afró hárgreiðslu (það eru til miklu verri myndir af honum en þessi) og yfirvaraskeggið sitt en þessar tegundir hormotta voru afar vinsælar seint á áttunda áratug síðustu aldar. Í því sambandi er nóg að nefna Greame Souness, Mick Mills, Phil Parkes og Terry McDermott. Sunderland hefur ekki enn fórnað mottunni en er samt orðinn gamall. Hann er örugglega að vinna á einhverri sveitakrá í Yorkshire.

 
David Johnson (62) var nokkuð lengi hjá Liverpool og þótti ófríður - reyndar eins og stór hluti Liverpool liðsins. Hann hefur eiginlega ósköp lítið breyst utan þess að hafa gránað töluvert og glatað hárdræsunum sem uxu fyrir ofan efrivörina en þar fyrir utan er hann aðallega ekki lengur í fókus.


Norman Whiteside (48) er eiginlega alltof ungur í þennan hóp en hann verður samt að fá að fylgja með. Hann varð yngsti leikmaður veraldar, á sínum tíma, til að spila á HM en hann var aðeins 17 ára og 41ns dags þegar hann lék fyrir N-Íra á HM 82. Hann spilaði fyrir Man Utd og þótti mikið efni en samt varð eiginlega ekkert úr honum. Whiteside hefur átt við áfengisvandamál að stríða og fyrir fáum árum komu fram hjá honum hjartavandamál.


Luther Blisset (55) sem var áberandi hjá Watford (spilaði m.a. með þeim í vígsluleik gervigrassins í Laugardal í janúar 1985) er bara ótrúlega flottur í dag. Hann er núna 55 ára gamall og lítur út fyrir að vera yngri í dag en á myndinni til vinstri. Gaman að sjá að menn geta líka haldið sér í formi eftir að ferlinum lýkur.


Pat Nevin (50) heitir reyndar fullu nafni Patrich Kevin Francis Michael Nevin og ég man alltaf eftir honum sem litla og leikna kantmanninum hjá Chelsea sem var svo í uppáhaldi hjá mörgum. Hann var að vísu ekkert svo rosalega lítill (1,68) en Aaron Lennon er til dæmis 1,65 á hæð. Í dag lítur Pat Nevin út eins og Óskar Bjarni handboltaþjálfari mun líta út eftir 10 ár.


Andy Gray (58) er einn af þeim sem hafa elst alveg hræðilega og eiginlega alveg ótrúlegt hvað maðurinn hefur breyst mikið síðan hann var upp á sitt besta í kringum '85. Kennslubókardæmi um mann sem hafa búið í Liverpool borg.

 

Friday, January 10, 2014

60. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Komið að sérfræðingum Boltabulls, að spá í leiki helgarinnar, eftir tveggja vikna frí og vonandi kemur eitthvað virkilega gáfulegt frá spekingunum núna. Garðar fer hamförum um þessar mundir, við að safna inn stigum í leiknum, og aðra umferðina í röð sigrar hann með nokkrum yfirburðum. Hann varð efstur í síðustu umferð og fékk 12 stig, Tumi var með 8 og Helgi fékk 7. Tumi er enn nokkuð örugglega efstur, með 120 stig, en eitthvað hefur forystan minnkað því Garðar er kominn með 109. Helgi er hins vegar neðstur með 98.
 
En hér koma spár fræðimannanna...
 
HULL - CHELSEA
Tumi: 0-3
Helgi: 0-3
Garðar: 1-2 Frekar auðvelt hjá Edrú & félögum.
 
TOTTENHAM - CRYSTAL PALACE
Tumi: 3-0
Helgi: 4-1
Garðar: 2-1 Skyldusigur hjá mínum mönnum en hann verður svona mátulega stór.
 
EVERTON - NORWICH
Tumi: 2-0
Helgi: 2-0
Garðar: 3-0 Stóra liðið í Bítlaborginni á frekar auðveldan dag og Andy Gray, Peter Reid og Adrian Heath sjá um Kanarífuglana.
 
NEWCASTLE - MAN CITY
Tumi: 0-3
Helgi: 1-2
Garðar: 0-3 Þetta gerist ekki auðveldara á útivelli.
 
STOKE - LIVERPOOL
Tumi: 0-3
Helgi: 1-3
Garðar: 1-2 Stók er bara svo arfaleiðinlegt - meira að segja þó að Alfreð komi til þeirra.
 
ASTON VILLA - ARSENAL
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3
Garðar: 1-2 Nú fer Arsenalið eitthvað að hiksta en Villi og félagar geta bara ekkert.

Sunday, January 5, 2014

59. EUSÉBIO FALLINN FRÁ

 
Portúgalinn Eusébio (Eusébio da Silva Ferreira) er látinn, 71ns árs að aldri. Hann var einn af hetjunum í gamla daga ásamt Pelé, Best og Cruyff og verður ávallt minnst sem eins af hinum bestu. Mæli með ævisögu hans sem kom út á íslensku árið 1968 eftir að Valur spilaði gegn Benfica á Evrópukepnninni. 

Thursday, January 2, 2014

58. PONDUS

Fótboltatengdur Pondus í Fréttablaðinu undanfarna daga er eiginlega búinn að vera of góður til að láta hann fara fram hjá sér.

Hann byrjaði á einhvers konar tognun í hálsi sem rekja mátti til of stórs nefs.
 
 
Og tveimur Pondusum seinna kom þessi brandari...