Tuesday, January 14, 2014

61. GAMLAR KEMPUR Í DAG

Það þarf enga sérfræðinga til að sjá að Internetið er snilldarfyrirbæri. Eitt af því sem BOLTABULL hefur uppgötvað á þeim vettvangi, eru ógrynni gamalla og nýrra mynda af fótboltahetjum fyrri tíma en sú staðreynd gefur alveg kjörið tækifæri til að kanna hve hetjurnar hafa breyst í aldanna rás. Hallærisheitin geta verið yfirþyrmandi og auðvitað er mest freistandi að skoða þær kempur sem voru áberandi fyrir um 35 árum, þegar maður var að byrja að fylgjast með enska boltanum. Það er í rauninni ótrúlegt hvað grannir og spengilegir íþróttamenn, í sínu besta formi, geta breyst í feita, sköllótta, gráa og eiginlega bara gamla kalla á ekki lengri tíma.

Skoðum nokkra þessara kappa í tilefni áramótanna en það er kannski rétt að taka það fram að sumar af þessum yngri myndum eru nú þegar orðnar nokkurra ára gamlar.

Kíkjum fyrst á Neville Southall (55) sem var markvörður hjá Everton eins og margir eflaust muna. Hann var afskaplega sérstakur náungi, svo ekki sé meira sagt, og var á köflum einnig nokkuð mikið fyrir góðan mat. Á efri árum hefur hann bætt á sig nokkra tugi kílóa og á síðustu árum atvinnumennsku sinnar þurfti til dæmis að sérsauma á hann stuttbuxurnar. Í dag er hann einfaldlega spikfeitur.


Peter Shilton (64) spilaði fyrir enska landsliðið þar til hann var tæplega 41s árs og verður að segjast eins og er að hann var orðinn ansi þungur og hægur undir það síðasta. Síðustu leiki sína á ferlinum spilaði hann með Leyton Orient (48 ára) og ég er voða feginn að þeir leikir fóru alveg fram hjá mér. Í dag lítur hann út fyrir að vera orðinn nokkuð gamall maður en hann leit reyndar líka út fyrir það á HM 1990.


Paul Mariner (60) var einn af hetjum spútnikk liðs Ipswich Town í kringum 1980 en starfar nú sem þjálfari hjá kanadíska félaginu Toronto sem Jermain Defoe er að ganga til liðs við. Mariner lék hátt í 40 leiki fyrir enska landsliðið og mig rámar í að hann hafi einmitt spilað hér á Laugardalsvellinum vorið 1982. Ef svo var þá hefur sú stutta íslenska dvöl haft þau áhrif að í dag lítur hann út eins og Willum Þór Þórsson alþingismaður. Sumir virðast alla vega hafa haldið sér í sæmilegu formi.


Alan Brazil (54) var, eins og Mariner, líka einn af Ipswich strákunum en auk þeirra mætti líka nefna Eric Gates og Arnold Mühren svo einhverjir séu nefndir. Brazil spilaði seinna með bæði Tottenham og Man Utd og er í dag ekkert svo gamall en á myndum að dæma gæti hann alveg hæglega verið að nálgast áttrætt.


Alan Sunderland (60) var helst þekktur fyrir svakalega afró hárgreiðslu (það eru til miklu verri myndir af honum en þessi) og yfirvaraskeggið sitt en þessar tegundir hormotta voru afar vinsælar seint á áttunda áratug síðustu aldar. Í því sambandi er nóg að nefna Greame Souness, Mick Mills, Phil Parkes og Terry McDermott. Sunderland hefur ekki enn fórnað mottunni en er samt orðinn gamall. Hann er örugglega að vinna á einhverri sveitakrá í Yorkshire.

 
David Johnson (62) var nokkuð lengi hjá Liverpool og þótti ófríður - reyndar eins og stór hluti Liverpool liðsins. Hann hefur eiginlega ósköp lítið breyst utan þess að hafa gránað töluvert og glatað hárdræsunum sem uxu fyrir ofan efrivörina en þar fyrir utan er hann aðallega ekki lengur í fókus.


Norman Whiteside (48) er eiginlega alltof ungur í þennan hóp en hann verður samt að fá að fylgja með. Hann varð yngsti leikmaður veraldar, á sínum tíma, til að spila á HM en hann var aðeins 17 ára og 41ns dags þegar hann lék fyrir N-Íra á HM 82. Hann spilaði fyrir Man Utd og þótti mikið efni en samt varð eiginlega ekkert úr honum. Whiteside hefur átt við áfengisvandamál að stríða og fyrir fáum árum komu fram hjá honum hjartavandamál.


Luther Blisset (55) sem var áberandi hjá Watford (spilaði m.a. með þeim í vígsluleik gervigrassins í Laugardal í janúar 1985) er bara ótrúlega flottur í dag. Hann er núna 55 ára gamall og lítur út fyrir að vera yngri í dag en á myndinni til vinstri. Gaman að sjá að menn geta líka haldið sér í formi eftir að ferlinum lýkur.


Pat Nevin (50) heitir reyndar fullu nafni Patrich Kevin Francis Michael Nevin og ég man alltaf eftir honum sem litla og leikna kantmanninum hjá Chelsea sem var svo í uppáhaldi hjá mörgum. Hann var að vísu ekkert svo rosalega lítill (1,68) en Aaron Lennon er til dæmis 1,65 á hæð. Í dag lítur Pat Nevin út eins og Óskar Bjarni handboltaþjálfari mun líta út eftir 10 ár.


Andy Gray (58) er einn af þeim sem hafa elst alveg hræðilega og eiginlega alveg ótrúlegt hvað maðurinn hefur breyst mikið síðan hann var upp á sitt besta í kringum '85. Kennslubókardæmi um mann sem hafa búið í Liverpool borg.

 

No comments:

Post a Comment