Friday, February 28, 2014

71. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Það er alltaf jafnspennandi þegar helgin nálgast og sérfræðingar síðunnar leggja höfuðin í bleyti við spámennsku sína. Svolítið voru spekingarnir duglegri, í stigasöfnun sinni núna, heldur en helgina á undan og þeir Tumi og Garðar fengu sitthvor 8 stigin á meðan Helgi lét sér duga 7 stig. Enn er Tumi efstur og hefur nú 155 stig, Garðar er með 142 og Helgi hefur 128.
 
En hér eru leikir helgarinnar komnir...
 
HULL - NEWCASTLE
Tumi: 1-1
Helgi: 1-2 Þeir svarthvítu aðeins að rétta aftur úr kútnum.
Garðar: 2-1 The Tigers hljóta að taka Newcastle heima - Mirandinha tekur fram skóinn og skorar fyrir New.
 
STOKE - ARSENAL
Tumi: 0-3
Helgi: 0-1 Skallamark frá Giroud í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Garðar: 1-3 Ég veit ekki af hverju en Stók hefur alltaf verið leiðinlegt lið.
 
FULHAM - CHELSEA
Tumi: 0-3
Helgi: 0-3 Tiltölulega létt, Torres með tvö, Hazard með eitt.
Garðar: 1-2 Felix er byrjaður í viðgerðum á CC en það dugar bara ekki gegn bláfótungum.
 
EVERTON - WEST HAM
Tumi: 2-0 Lukaku með bæði mörkin.
Helgi: 1-0 Mirallas með sigurmarkið á 88. mínútu.
Garðar: 2-1 Svona fer þessi leikur en ég veit ekkert af hverju!
 
SOUTHAMPTON - LIVERPOOL
Tumi: 1-3
Helgi: 1-1 Vonbrigði helgarinnar.
Garðar: 2-3 Vonbrigði helgarinnar.
 
TOTTENHAM - CARDIFF
Tumi: 2-0
Helgi: 4-0 Og það er ekki af því að Tottnam séu svona góðir.
Garðar: 2-0 Kominn tími á sunnudagssigur í kjölfar Evrópuleiks. Adebayor skorar í dag.

Tuesday, February 25, 2014

70. EM RIÐILL ÍSLANDS

Þá er orðið á hreinu hvernig riðill íslenska landsliðsins í knattspyrnu verður skipaður í undankeppni Evrópumóts landsliða 2016. Holland, Tékkland, Tyrkland, Lettland og Kasakstan eru í A-riðlinum auk Íslands og það er ljóst að þessi dráttur var ekki sá allra besti sem í boði var. Þetta segir okkur kannski að drátturinn fyrir HM 2018 gæti aldrei orðið annað en auðveldari og því kannski ágætt muna eftir að vera bjartsýnn þegar að honum kemur.

 
Allir vita auðvitað hvað Hollendingar geta í fótbolta og hvaða mannskap þeir hafa yfir að ráða. Liðið er í 10. sæti heimslistans í augnablikinu og leikmenn eins og Arjen Robben, Robin van Persie, Wesley Sneijder og Klaas-Jan Huntelaar þekkja allir. Og svo ekki má heldur gleyma Rafael van der Vaart. Liðið verður að sjálfsögðu á HM í sumar og sigraði sinn undanriðil með miklum yfirburðum þar sem þeir unnu alla sína leiki, utan eins þar sem þeir gerðu óvænt 2-2 jafntefli við Eistland. Holland var einnig með Tyrkjum í riðli fyrir HM og unnu báða leikina við þá 2-0.

 
Tékkland virðist ekki vera eins sterkt og það hefur stundum verið. Þeir verða ekki með á HM í sumar, þar sem þeir enduðu í 3. sæti í sínum undanriðli á eftir Ítalíu og Danmörku, en komust hins vegar í 8 liða úrslit Evrópukeppninnar 2012. Þeir eru samt með góðan hóp og líklega alltaf með betra lið en Ísland þó að við gætum eflaust eitthvað strítt þeim á góðum degi og vel stemndir. Þeir eru núna í 31. sæti á heimslistanum og hafa fallið um þrjú sæti síðan síðast. Petr Cech og Tomás Rosický eru líklega þeirra þekktustu menn en við þökkum fyrir að Jan Koller er orðinn fertugur og löngu hættur í landsliðinu.

 
Tyrkland kemur úr 3. styrkleikaflokknum og þeim hefur oft gengið betur í fyrri undankeppnum. Þeir lentu 4. sæti síns riðils á eftir einmitt Hollendingum, Rúmenum og Ungverjum og hafa eflaust ekki verið mjög sáttir við það. Tyrkirnir eru nú í 42. sæti heimslistans (Ísland er í 48.) og hafa aðeins verið að hækka sig að undanförnu en þeir hafa staðið sig bara nokkuð vel á undanförnum áratugum. Leikmenn Tyrkja leika flestir í heimalandinu en þó má nefna að fyrirliðinn Arda Turam leikur með Atletico Madrid og Sercan Sararer er hjá Stuttgart. Annars má nefna að flestir leikmanna liðsins eru frekar ungir og reynslulitlir og þar ætti jafnvel að liggja smá möguleiki.

 
Úr 4. styrkleikaflokknum kemur Lettland sem er eiginlega svolítið undarlegt þar sem liðið er í 111. sæti heimslistans! Fæstir leikmanna liðsins eru kunnir utan heimalandsins en fyrirliðinn Kaspars Gorkss leikur þó með Reading í Englandi og hefur reyndar ekki slegið meira í gegn þar en svo að hann er í láni hjá Wolves. Lettlandi gekk ekki vel í undankeppninni og endaði í 5. sæti riðilsins en þeir máttu m.a. sætta sig við tvö stór töp gegn Bosníu-Herzegovinu og jafntefli við Liechtenstein.


Það lið sem kemur úr neðsta styrkleikaflokknum er hið nafntogaða Kasakstan sem flestir bendla reyndar ranglega við sjónvarpsmanninn stórvinsæla Borat. Íbúar Kasakstan vilja hins vegar ekkert af honum vita. Liðið er sýnd veiði en ekki gefin og þrátt fyrir að hafa lent í næstneðsta sæti síns undanriðils stóðu þeir sig alls ekki illa. Unnu til dæmis Færeyjar og fengu samtals fimm stig í riðlinum. Liðið er í 128. sæti heimslistans og langflestir leikmenn Kasakstana spila í heimalandinu en Konstantin Engel spilar þó með Ingolstadt 04 í 2. Bundesligu.

Líklega á Ísland ekki mikla möguleika á að komast á EM, gegn þessum löndum, en með venjulegri óraunhæfri, íslenskri bjartsýni má alveg spá liðinu þriðja sætinu í riðlinum. En það verður erfitt.


Ef við gerum ráð fyrir að liðið haldi áfram, þar sem frá var horfið úr undankeppni HM, og spili nokkuð vel mætti alveg krefjast sigur í öllum leikjunum gegn Kasakstan og Lettlandi. Gegn Hollendingum eigum við afskaplega litla möguleika en þrjú til sex stig í viðbót úr leikjunum gegn Tyrkjum og Tékkum gætu fleytt okkur í þriðja sætið og þar með umspilsleik. En það er langsóttur draumur. Reyndar er Holland eina liðið í riðlinum sem verður á HM í sumar og það má ekki gleyma því að af hinum liðinum var Ísland næst því að komast alla leið. Kannski er smá séns...

ÁFRAM ÍSLAND!

Wednesday, February 19, 2014

69. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Af úrslitum síðustu umferðar (og þá auðvitað um leið spádómum sérfræðinga Boltabulls að dæma) má ráða, að sannarlega sannast hið fornkveðna um að skjótt skipast veður í lofti. Þótt Tumi hafi ekki beint farið hamförum í forystuhlutverki sínu, við stigaöflun umferðarinnar, þá fékk hann samt helmingi fleiri stig en hinir fræðingar síðunnar. Heil 6 stig (af 18 mögulegum) gáfu honum möguleika á forskoti sem hljómar nú upp á 13 stig en það þýðir þá auðvitað að Helgi og Garðar hafi aðeins hlotið 3 stig hvor. Tumi hefur því núna 147 stig, Garðar er með 134 og Helgi 121.

Athugulir lesendur hafa væntanlega tekið eftir því að ekkert var leikið í Úrvalsdeildinni um liðna helgi en næsta umferð er eitthvað á þessa leið:

CHELSEA - EVERTON
Tumi: 2-0
Helgi: 2-1 Naumur sigur plastfánanna, framherjar Chelsea skora bæði mörk þeirra - ónei... þeir spila ekki með framherja.
Garðar: 2-1 Þetta er því miður bara raunhæf spá en draumaúrslitin fyrir mitt lið væri jafntefli eða tap hjá Chelsea.

MAN CITY - STOKE
Tumi: 3-0
Helgi: 5-0 Frekar öruggt, Navas, Dzeko (2),Zabaletta og sjálfsmark Stoke.
Garðar: 5-0 Stók er ekki að fara að vinna sittí neitt. Joe Corrigan ver víti.

ARSENAL - SUNDERLAND
Tumi: 2-0
Helgi: 2-1 Arsenal í basli með eitt af botnliðunum, Cazorla og Podolski með mörk Arsenal og Borini fyrir Sunderland. Giroud kemst einn í gegn en heldur framhjá markinu og upp í stúku.
Garðar: 3-1 Þessi efstu lið eru voða lítið að misstíga sig og ars tapar ekki tveimur leikjum í röð í deildinni.

CRYSTAL PALACE - MAN UTD
Tumi: 1-2
Helgi: 1-1 Jafnteflisbotnslagur.
Garðar: 1-2 Hmmm... það væri ansi freistandi að spá mu tapi en ég þori því ekki vegna stigakeppninnar.

LIVERPOOL - SWANSEA
Tumi: 3-1
Helgi: 4-0 Coutinho, Suarez (2) og Sturridge með mörkin.
Garðar: 2-1 Líf er púl rétt mer þetta með mútum og dómarasandölum.

NORWICH - TOTTENHAM
Tumi: 0-3
Helgi: 1-2 Soldado getur ekki hætt að skora fyrir Tottenham og hættir ekki heldur að geta skorað, þótt hann haldi að hann geti skorað.
Garðar: 0-2 Frekar auðveldur sigur hjá mínum mönnum og Adebayor getur ekki hætt að skora.

Saturday, February 15, 2014

68. BOLASÖFN HEIMILISINS

Það er víst kominn tími til að minnast hér aðeins á knattspyrnubúningaeign aðstandenda Boltabulls en samkvæmt fljótfærnislegri skynditalningu undirritaðra, reiknast okkur svo til, að samanlagður treyjufjöldi boltabullaranna tveggja sé eitthvað vel á áttunda tug talsins! Það er víst ansi mikið.

Það er til að mynda eiginlega töluvert erfitt að finna mynd af Tuma þar sem hann er ekki klæddur í einhvern fótboltabol.
 
 
Samkvæmt fataskápum heimilisins telst Tumi, í fljótu bragði, eiga nálægt 25 boli en í eigu Garðars eru líklega hátt í 35 eintök. Auðvitað verður að taka tillit til u.þ.b. 33ja ára forskots Garðars en svo má heldur alls ekki gleyma þeim búningum sem Tumi hefur vaxið upp úr og eru því ekki lengur inni í skáp. Einhverjir þeirra búninga (mamma segir 10-15 stykki) eru enn til í kössum niðri í geymslu en fáeinir af bolunum hafa verið gefnir til frekari nýtingar á öðrum fótboltaheimilum og svo hefur einnig eitthvað af treyjunum hans Garðars glatast í gegnum tíðina. Auðvitað verður svo líka að taka með í reikninginn að þeir kapparnir er ekkert hættir að versla boli.

 
Bolasöfn þeirra kappa eru ansi fjölbreytileg og líklega skiptast þau nokkuð jafnt eftir félags- og landsliðum. Báðir eiga þeir þýskar og franskar landsliðstreyjur en þar með er þær líklega upptaldar landsliðstreyjurnar sem þeir eiga sameiginlegar. Annars á Tumi að auki ítalskan, hollenskan, spænskan, rússneskan, argentískan og grískan búning svo eitthvað sé nefnt á meðan Garðar á enskan, portúgalskan, króatískan, tékkneskan, japanskan, færeyskan (!) og a.m.k. tvo danska landsliðbúninga. Og það er athyglisverð staðreynd að hvorugur þeirra á íslenskan landsliðsbúning í safni sínu.


Af félagsliðum má nefna búninga Barcelona, Bayern München, Man City, Dortmund og Hertha Berlin í eigu Tuma en Garðar á til dæmis Ajax, Werder Bremen, Juventus og Inter. Hans treyjusafn samanstendur einnig af svolítið torkennilegum bolum þar sem finna má til dæmis búninga Fortuna Düsseldorf, Vals og Ungmannafélagsins Heklu! Tumi er meira í þessum hefðbundu og vinsælu bolum.

Báðir eiga þeir búning Basel og Tottenham en reyndar verður að taka það fram að Garðar á níu Tottenham treyjur, frá hinum ýmsu tímum, og minnist auk a.m.k. þriggja þannig bola sem hafa glatast í gegnum tíðina.


Chelsea er hins vegar aðallið Tuma á Englandi og þrátt fyrir ungan aldur má finna þrjár treyjur þess liðs í hans eigu. Hann hefur einnig átt þrjá Barcelona búninga og tvo Basel þannig að augljóslega á hann nokkur uppáhaldslið.

Við eigum örugglega eftir að fjalla meira um búninga hér á síðunni seinna.

Sunday, February 9, 2014

67. VALUR - SELFOSS 1975

Alltaf gaman að róta í gömlum dagblöðum og grafa upp löngu gleymdar heimildir um fótbolta sem spilaður var fyrir hreint ansi mörgum áratugum.
 
Þann 1. ágúst árið 1975 léku Valur og Selfoss, í 16 liða úrslitum Bikarkeppnar KSÍ á Laugardalsvellinum, þar sem Hermann Gunnarsson fór á kostum í liði Valsmanna en Selfoss var á þessum tíma miðlungslið í 2. deild. Í umfjöllun Vísis um leikinn mátti sjá þessa risa fyrirsögn!
 
 
Og fréttin sjálf hljómaði þannig; "Ég er búinn að bíða eftir þessu lengi," sagði Hermann Gunnarsson, eftir að hann hafði skorað fimm mörk í leik Vals og Selfoss í 16 liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ í gærkvöldi. Leikurinn var að mestu einstefna að marki Selfyssinga og áður en lauk voru Valsmenn búnir að skora 8 mörk.
 
"Fyrir leikinn var Hermanni bannað að skjóta á markið, því að honum hefur gengið svo illa að skora með fótunum í sumar. Nú átti hann bara að skalla," sagði Joe Gilroy þjálfari Vals. "Þetta gekk betur en við bjuggumst við og nú verður Hermann ekkert kallaður annað en "Super Mac Hermann" héðan í frá."

Selfyssingum tókst lengi vel að verjast í leiknum í gærkvöldi og það var ekki fyrr en á 30. mínútu að Atli Eðvaldsson braut múrinn og skoraði 1:0 fyrir Val.

Þá hófst Hermanns "þáttur" Gunnarssonar og á næstu 20 mínútum skoraði hann 5 mörk, öll með "skalla", sem ekki hefur verið hans sérgrein til þessa. Naut Hermann góðrar aðstoðar samherja sinna sem hvað eftir annað drógu vörn Selfyssinga sundur og komu síðan með góðar fyrirgjafir fyrir markið - þar sem Hermann var eins og kóngur í ríki sínu.

Eftir þessar hamfarir Hermanns, sem átti alla möguleika á að skora fleiri mörk, brotnaði lið Selfyssinga. Það var því aðeins spurning hve mörg mörkin yrðu, en Valsmenn tóku lífinu með ró og létu sér nægja að skora tvö mörk í viðbót, svona rétt til að sýna hver hefði valdið. Fyrst Alexander Jóhannesson og svo Guðmundur Þorbjörnsson.

Hörður Hilmarsson átti stórleik með Valsliðinu ásamt Hermanni Gunnarssyni, en auk þeirra léku ungu mennirnir: Atli Eðvaldsson, Albert Guðmundsson og Guðmundur Þorbjörnsson vel að vanda. Var Guðmundur vörn Selfyssinga oft erfiður í leiknum og voru þær ekki ófáar fyrirgjafirnar, sem komu frá honum.

Lið Selfyssinga náði aldrei að sýna neitt afgerandi í leiknum, enda völlurinn blautur og mjög erfiður, og þeir ekki vanir að leika við þannig aðstæður.

Gaman að lesa þessa gömlu grein (nema náttúrulega "ekki ófáar fyrirgjafirnar"!) en það var nú samt helst myndin sem fylgdi fréttinni sem greip helst athyglina.


Á henni má sjá Hemma Gunn umkringdan sunnlenskum varnarmönnum kirfilega merktum Glerverksmiðjunni Samverk á Hellu.


Sjálfur er ég auðvitað fæddur og uppalinn á Hellu og gömlu Selfoss búningarnir með Samverks auglýsingunum vöktu því upp minningar um löngu gleymda tíma. Þetta var reyndar svolítið áður en ég sjálfur byrjaði að sparka.

Hjá okkur félögunum voru hins vegar einhvern tímann dregnir fram eldgamlar og níðþröngar treyjur, með Samverks auglýsingum, frá Ungmannafélaginu Heklu til að spila í (þetta var í kringum 1994) og fyrir vikið máttum við flestir bíta í það súra epli að líta út eins og skærgulir Michelin kallar á vellinum! Þetta búningahallæri kostaði okkur líka óskiljanlegan kláða en það stafaði líklega af torkennilegu nælonefninu sem treyjurnar voru saumaðar úr. Næsta mál á dagskrá hlýtur að snúa að því að koma eintaki af þessu búningasetti á byggðarsafnið að Skógum!

Thursday, February 6, 2014

66. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Helgin framundan og sérfræðingar Boltabulls hafa sett sig í rétta gírinn fyrir Enska boltann. Síðustu tvær helgar hafa ekki gefið mikið af sér hjá spekingunum, enda úrslitin að undanförnu afskaplega óhagstæð fyrir góða tippara, en allir fengu fræðingarnir þó 4 stig fyrir síðustu umferð. Tumi hefur því 141 stig, Garðar 131 og Helgi 118.
 
En hér kemur næsta tipp...
 
LIVERPOOL - ARSENAL
Tumi: 1-2
Helgi: 3-1 Öruggur sigur á upprúlluðum svefnpokum, Suares, Henderson og Skrtel með mörkin fyrir heimamenn en Cazorla fyrir ars.
Garðar: 1-1 Þetta getur ekki endað öðruvísi. Skrölt og Ösel skora þetta.
 
SOUTHAMPTON - STOKE
Tumi: 2-2
Helgi: 2-1 Miðjumoð.
Garðar: 2-1 Hreint ansi óáhugaverð viðureign - örugglega allt sjálfsmörk.
 
CHELSEA - NEWCASTLE
Tumi: 2-0
Helgi: 2-1 Lyndínar rétt merja strípurnar, þar sem bláliðar hafa enga framherja verða Hazard og Ivanovic að skora mörkin.
Garðar: 2-0 Strumpaliðið fer frekar auðveldlega með þá káerrsku.
 
NORWICH - MAN CITY
Tumi: 0-3
Helgi: 0-7 Sjittarnir æfir eftir tapið á mánudaginn, klúðra samt víti.
Garðar: 0-4 Kanarífuglarnir eiga lítinn séns í þessa ljósbláu.
 
TOTTENHAM - EVERTON
Tumi: 2-1
Helgi: 1-1 Óskaúrslit allra innbyrðisleikja þessara liða - ef lið skyldu kalla.
Garðar: 2-1 Engin spurning um heimasigur hjá mínum mönnum.
 
MAN UTD - FULHAM
Tumi: 1-0
Helgi: 2-1 Djöblarnir hnoðast um miðja deild og eiga það skilið.
Garðar: 2-1 Mu vinnur þetta en ekki vegna þess hve góðir þeir eru.