Tuesday, February 25, 2014

70. EM RIÐILL ÍSLANDS

Þá er orðið á hreinu hvernig riðill íslenska landsliðsins í knattspyrnu verður skipaður í undankeppni Evrópumóts landsliða 2016. Holland, Tékkland, Tyrkland, Lettland og Kasakstan eru í A-riðlinum auk Íslands og það er ljóst að þessi dráttur var ekki sá allra besti sem í boði var. Þetta segir okkur kannski að drátturinn fyrir HM 2018 gæti aldrei orðið annað en auðveldari og því kannski ágætt muna eftir að vera bjartsýnn þegar að honum kemur.

 
Allir vita auðvitað hvað Hollendingar geta í fótbolta og hvaða mannskap þeir hafa yfir að ráða. Liðið er í 10. sæti heimslistans í augnablikinu og leikmenn eins og Arjen Robben, Robin van Persie, Wesley Sneijder og Klaas-Jan Huntelaar þekkja allir. Og svo ekki má heldur gleyma Rafael van der Vaart. Liðið verður að sjálfsögðu á HM í sumar og sigraði sinn undanriðil með miklum yfirburðum þar sem þeir unnu alla sína leiki, utan eins þar sem þeir gerðu óvænt 2-2 jafntefli við Eistland. Holland var einnig með Tyrkjum í riðli fyrir HM og unnu báða leikina við þá 2-0.

 
Tékkland virðist ekki vera eins sterkt og það hefur stundum verið. Þeir verða ekki með á HM í sumar, þar sem þeir enduðu í 3. sæti í sínum undanriðli á eftir Ítalíu og Danmörku, en komust hins vegar í 8 liða úrslit Evrópukeppninnar 2012. Þeir eru samt með góðan hóp og líklega alltaf með betra lið en Ísland þó að við gætum eflaust eitthvað strítt þeim á góðum degi og vel stemndir. Þeir eru núna í 31. sæti á heimslistanum og hafa fallið um þrjú sæti síðan síðast. Petr Cech og Tomás Rosický eru líklega þeirra þekktustu menn en við þökkum fyrir að Jan Koller er orðinn fertugur og löngu hættur í landsliðinu.

 
Tyrkland kemur úr 3. styrkleikaflokknum og þeim hefur oft gengið betur í fyrri undankeppnum. Þeir lentu 4. sæti síns riðils á eftir einmitt Hollendingum, Rúmenum og Ungverjum og hafa eflaust ekki verið mjög sáttir við það. Tyrkirnir eru nú í 42. sæti heimslistans (Ísland er í 48.) og hafa aðeins verið að hækka sig að undanförnu en þeir hafa staðið sig bara nokkuð vel á undanförnum áratugum. Leikmenn Tyrkja leika flestir í heimalandinu en þó má nefna að fyrirliðinn Arda Turam leikur með Atletico Madrid og Sercan Sararer er hjá Stuttgart. Annars má nefna að flestir leikmanna liðsins eru frekar ungir og reynslulitlir og þar ætti jafnvel að liggja smá möguleiki.

 
Úr 4. styrkleikaflokknum kemur Lettland sem er eiginlega svolítið undarlegt þar sem liðið er í 111. sæti heimslistans! Fæstir leikmanna liðsins eru kunnir utan heimalandsins en fyrirliðinn Kaspars Gorkss leikur þó með Reading í Englandi og hefur reyndar ekki slegið meira í gegn þar en svo að hann er í láni hjá Wolves. Lettlandi gekk ekki vel í undankeppninni og endaði í 5. sæti riðilsins en þeir máttu m.a. sætta sig við tvö stór töp gegn Bosníu-Herzegovinu og jafntefli við Liechtenstein.


Það lið sem kemur úr neðsta styrkleikaflokknum er hið nafntogaða Kasakstan sem flestir bendla reyndar ranglega við sjónvarpsmanninn stórvinsæla Borat. Íbúar Kasakstan vilja hins vegar ekkert af honum vita. Liðið er sýnd veiði en ekki gefin og þrátt fyrir að hafa lent í næstneðsta sæti síns undanriðils stóðu þeir sig alls ekki illa. Unnu til dæmis Færeyjar og fengu samtals fimm stig í riðlinum. Liðið er í 128. sæti heimslistans og langflestir leikmenn Kasakstana spila í heimalandinu en Konstantin Engel spilar þó með Ingolstadt 04 í 2. Bundesligu.

Líklega á Ísland ekki mikla möguleika á að komast á EM, gegn þessum löndum, en með venjulegri óraunhæfri, íslenskri bjartsýni má alveg spá liðinu þriðja sætinu í riðlinum. En það verður erfitt.


Ef við gerum ráð fyrir að liðið haldi áfram, þar sem frá var horfið úr undankeppni HM, og spili nokkuð vel mætti alveg krefjast sigur í öllum leikjunum gegn Kasakstan og Lettlandi. Gegn Hollendingum eigum við afskaplega litla möguleika en þrjú til sex stig í viðbót úr leikjunum gegn Tyrkjum og Tékkum gætu fleytt okkur í þriðja sætið og þar með umspilsleik. En það er langsóttur draumur. Reyndar er Holland eina liðið í riðlinum sem verður á HM í sumar og það má ekki gleyma því að af hinum liðinum var Ísland næst því að komast alla leið. Kannski er smá séns...

ÁFRAM ÍSLAND!

No comments:

Post a Comment