Saturday, February 15, 2014

68. BOLASÖFN HEIMILISINS

Það er víst kominn tími til að minnast hér aðeins á knattspyrnubúningaeign aðstandenda Boltabulls en samkvæmt fljótfærnislegri skynditalningu undirritaðra, reiknast okkur svo til, að samanlagður treyjufjöldi boltabullaranna tveggja sé eitthvað vel á áttunda tug talsins! Það er víst ansi mikið.

Það er til að mynda eiginlega töluvert erfitt að finna mynd af Tuma þar sem hann er ekki klæddur í einhvern fótboltabol.
 
 
Samkvæmt fataskápum heimilisins telst Tumi, í fljótu bragði, eiga nálægt 25 boli en í eigu Garðars eru líklega hátt í 35 eintök. Auðvitað verður að taka tillit til u.þ.b. 33ja ára forskots Garðars en svo má heldur alls ekki gleyma þeim búningum sem Tumi hefur vaxið upp úr og eru því ekki lengur inni í skáp. Einhverjir þeirra búninga (mamma segir 10-15 stykki) eru enn til í kössum niðri í geymslu en fáeinir af bolunum hafa verið gefnir til frekari nýtingar á öðrum fótboltaheimilum og svo hefur einnig eitthvað af treyjunum hans Garðars glatast í gegnum tíðina. Auðvitað verður svo líka að taka með í reikninginn að þeir kapparnir er ekkert hættir að versla boli.

 
Bolasöfn þeirra kappa eru ansi fjölbreytileg og líklega skiptast þau nokkuð jafnt eftir félags- og landsliðum. Báðir eiga þeir þýskar og franskar landsliðstreyjur en þar með er þær líklega upptaldar landsliðstreyjurnar sem þeir eiga sameiginlegar. Annars á Tumi að auki ítalskan, hollenskan, spænskan, rússneskan, argentískan og grískan búning svo eitthvað sé nefnt á meðan Garðar á enskan, portúgalskan, króatískan, tékkneskan, japanskan, færeyskan (!) og a.m.k. tvo danska landsliðbúninga. Og það er athyglisverð staðreynd að hvorugur þeirra á íslenskan landsliðsbúning í safni sínu.


Af félagsliðum má nefna búninga Barcelona, Bayern München, Man City, Dortmund og Hertha Berlin í eigu Tuma en Garðar á til dæmis Ajax, Werder Bremen, Juventus og Inter. Hans treyjusafn samanstendur einnig af svolítið torkennilegum bolum þar sem finna má til dæmis búninga Fortuna Düsseldorf, Vals og Ungmannafélagsins Heklu! Tumi er meira í þessum hefðbundu og vinsælu bolum.

Báðir eiga þeir búning Basel og Tottenham en reyndar verður að taka það fram að Garðar á níu Tottenham treyjur, frá hinum ýmsu tímum, og minnist auk a.m.k. þriggja þannig bola sem hafa glatast í gegnum tíðina.


Chelsea er hins vegar aðallið Tuma á Englandi og þrátt fyrir ungan aldur má finna þrjár treyjur þess liðs í hans eigu. Hann hefur einnig átt þrjá Barcelona búninga og tvo Basel þannig að augljóslega á hann nokkur uppáhaldslið.

Við eigum örugglega eftir að fjalla meira um búninga hér á síðunni seinna.

No comments:

Post a Comment