Thursday, March 27, 2014

77. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Þá er víst komið að enn einni helgarspánni og sérfræðingar síðunnar hafa sett sig í startholurnar fyrir leiki umferðarinnar. Fyrst er þó vert að geta þriggja frestaðra leikja sem fræðingarnir voru búnir að spá um, fyrir þremur vikum, en tveir þessara leikja voru spilaðir nú í vikunni. Þetta voru leikir Newcastle og Everton annars vegar og hins vegar Arsenal og Swansea. Garðar fékk tvö stig úr þessum tveimur leikjum en Tumi og Helgi fengu sitthvort eitt stigið á kjaft. Úr leikjum síðustu helgar fékk Tumi hins vegar 9 stig (+1), Garðar fékk 8 (+2) en Helgi fékk 5 stig (+1). Enn er Tumi því efstur í heildarkeppninni og er nú kominn með 186 stig, Garðar hefur nú 169 og Helgi er með 149 stig.

En hér koma næstu spár sérfræðinganna:

MAN UTD - ASTON VILLA
Tumi: 2-0
Helgi: 2-0 Manutd er að gera góða hluti og á eflaust eftir að tryggja sér endanlega hið eftirsótta sjöunda sæti, gera verður tólf mínútna hlé á leiknum á meðan leitað er að boltanum í hári Fellaininini.
Garðar: 2-1 Það væri virkilega freistandi að spá mu tapi en þar sem liðið er á heimavelli ættu þeir hugsanlega að geta unnið Villa & félaga.

CRYSTAL PALACE - CHELSEA
Tumi: 0-3
Helgi: 0-4 Oscar og Hazard skipta þessu bróðurlega á milli sín.
Garðar: 0-3 Auðveldur strumpasigur.

SOUTHAMPTON - NEWCASTLE
Tumi: 1-1
Helgi: 2-1 Lallana með bæði fyrir dýrlingana.
Garðar: 1-1 Örugglega í fyrsta skipti í vetur sem ég spái jafntefli einhvers staðar.

ARSENAL - MAN CITY
Tumi: 0-3
Helgi: 1-0 Þetta er meira óskhyggja en spá.
Garðar: 1-3 Á ekki von á að Arsenal sé að fara gera eitthvað gegn Cittý.

FULHAM - EVERTON
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Lágstúkuliðið á ekki sjens í bláverjana.
Garðar: 0-2 Felix hinn þýski gæti hugsanlega reynt að hanga eitthvað í Evertonnum en því miður hef ég ansi litla trú á því.

LIVERPOOL - TOTTENHAM
Tumi: 2-1 Súares og Störreds með sitthvort markið.
Helgi: 4-2 Eftir bókinni.
Garðar: 2-1 Þetta verður einn af dómarasköndölum sögunnar en því miður mun það bitna illilega á mínum mönnum.

Tuesday, March 25, 2014

76. HELSTU STJÓRARNIR Á SÍNUM YNGRI ÁRUM

Vorum aðeins að skoða í vetur hvernig gamlar knattspyrnuhetjur geta breyst úr grannvöxnum og myndarlegum leikmönnum í gamla og tuskulega kalla á aðeins "fáeinum" árum. En í dag er kannski ekki úr vegi að snúa dæminu aðeins við og sjá hvernig helstu knattspyrnustjórarnir litu út í gamla daga.
 
Fyrstan skal nefna Alex Ferguson, fyrrverandi Man U stjóra. Hann hefur svolítið elst síðan hann spilaði sem framherji hjá Glasgow Rangers, um tveggja ára skeið, seint á sjöunda áratug síðustu aldar en er samt eiginlega alveg auðþekkjanlegur.
 

Næstur á blaði er David Moyes sem tók við af Ferguson í sumar. Maðurinn er reyndar ekki nema fimmtugur að aldri og eldri myndin frá því upp úr 1990, er hann spilaði með skoska liðinu Dunfermline, en samt er bara eiginlega ekki hjá því komist að birta þessa mynd. Hann lítur þarna svolítið út eins og 14 ára geimvera.
 
 
Þá er komið að Manuel Pellegrini. Á gömlu myndinni sést hann í búningi liðs síns Universidad Chile sem hann spilaði með allan sinn feril og það verður að segjast að maðurinn hefur lítið breyst. Myndin er frá miðjum áttunda áratugnum og þess má til gamans geta að Pellegrini lék 451 leik með félaginu og skoraði í þeim 1 mark. 
 
 
Arsene Wenger er næstur og á gömlu myndinni sést hann í búningi franska félagsins RC Strasbourg þar sem hann var leikmaður um skeið. Wenger átti litlu gengi að fagna sem atvinnumaður en samkvæmt myndinni hefur hann alla vega haft tíma til að safna hári þarna í kringum 1980. Þetta hefur verið töluvert löngu áður en hann komst í kynni við rennilásavandamálin í svefnpokaúlpunni sinni. 
 
 
José Mourinho spilaði fáein ár í portúgölsku deildinni og hans fyrsta lið var Rio Ave sem hann lék með upp úr 1980. Hér er hann í búningi liðsins og hefur ósköp lítið breyst utan þess að hárið hefur eitthvað aðeins gránað.
 
 
Síðastan, en ekki sístan, verðum við að sýna Harry nokkurn Redknapp sem ungan mann. Hann hefur líklega aldrei talist neitt sérstaklega fríður maður en á gömlu myndinni sést hann í búningi West Ham tímabilið 1970-71. Ekki beint ægifagur á að líta.
 

Friday, March 21, 2014

75. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Tippfótbolti eins og venjulega um helgar og sérfræðingar síðunnar setja sig í ísmeygilegar knattspyrnuspáastellingar. Tumilumi fékk 7 stig um síðustu helgi, Garðar 6 og Helgi 2. Annars hefur Tumi óvænt tekið forystuna, eftir leiki síðustu umferðar, og hefur nú 176 stig á toppnum, Garðar er með 159 en Helgi lekur restina og hefur 143 stig.
 
Og svo er það næsta umferð:
 
CHELSEA - ARSENAL
Tumi: 2-0
Helgi: 1-1 Eins stigs sex stiga leikur.
Garðar: 2-1 Þetta er gríðarleg mikilvægur leikur í fallbaráttunni en heimamenn hafa sigur í leik þar sem 12 rauð spjöld fara á loft. Frakkinn með skrítna nafnið skorar fyrir ars.
 
CARDIFF - LIVERPOOL
Tumi: 1-3
Helgi: 0-4 SAS.
Garðar: 1-2 Óli & félagar eiga víst frekar lítið erindi í Ensku Úrvalsdeildina og fara fljótlega hraðferð heim í tjampíónsjipp.
 
MAN CITY - FULHAM
Tumi: 3-0
Helgi: 6-1 Fúlhamringar komast samt yfir fljótlega í leiknum.
Garðar: 3-1 Felix er að rétta þá Fúlu aðeins úr kútnum en á ekki erfiði sem erindi gegn heimamönnum.
 
EVERTON - SWANSEA
Tumi: 1-1
Helgi: 2-0 Strumparnir enn í baráttu um fimmta sætið.
Garðar: 2-1 Steindautt á Gúddí.
 
WEST HAM - MAN UTD
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Slef.
Garðar: 0-2 Moyes er augljóslega að slá í gegn þessa dagana og van Gefin skorar svakalega Meistaradeildarþrennu af sjúkrabekknum.
 
TOTTENHAM - SOUTHAMPTON
Tumi: 2-1 Held að Ricky Lambert skori fyrir Southampton.
Helgi: 1-1 Var Spurs ekki að spila í Evrópukeppni skítaliða?
Garðar: 2-1 Mínir menn hafa mikla yfirburði í þessum leik eins og venjulega en láta 2 mörk duga að þessu sinni. Ade með bæði.

Friday, March 14, 2014

74. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Enn og aftur eru sérfræðingar Boltabulls búnir að setja sig í startholurnar og ætla að kryfja valda leiki helgarinnar til hinnar ítrustu mergjar. Einhver handvömm hafði orðið á uppfærslu leikjaniðurröðunar síðustu umferðar sem gerði það að verkum að þrír leikir sem fara áttu fram, um síðustu helgi, fóru alls ekki fram! Þessum þremur leikjum var frestað vegna Bikarkeppnarinnar en spár sérfærðinganna munu þó gilda áfram og vera til staðar þegar að leikjunum kemur. Þrátt fyrir skort á leikjum um síðustu helgi þótti stigaöflun sérfræðinganna takast með miklum ágætum og Tumi fékk heil 6 stig úr leikjunum þremur en þeir Helgi og Garðar náðu sér í 4. Enn er því Tumi efstur í heildarkeppninni og er nú kominn með 169 stig, Garðar hefur 141 og Helgi er með 153 stig.

En hér eru leikir næstu umferðar:

HULL - MAN CITY
Tumi: 0-4
Helgi: 1-5 Sjittingar hrista af sér slefið eftir skelfilega viku þar sem þeir duttu út úr bikarnum og meistaradeildum fyrir minni spámönnum.
Garðar: 0-3 Hull er ekki að fara að vinna City.

EVERTON - CARDIFF
Tumi: 2-0
Helgi: 5-0 Óli Gunnar frændi er bara ekki með þetta þótt þeir hafi slysast til að vinna síðasta leik.
Garðar: 3-1 Best að skrifa bara þetta um þennan leik.

FULHAM - NEWCASTLE
Tumi: 1-1
Helgi: 1-2 Berbatov skorar ekki fyrir Fulham og hvorki Asprilla né Keegan fyrir Newcastle.
Garðar: 1-3 Leiðinlegur leikur - afgreitt...

ASTON VILLA - CHELSEA
Tumi: 0-3
Helgi: 1-1 Óvænt jafntebbli, Ivanovic og Ogútumalltmeðhor skora.
Garðar: 1-3 Lið Villa fer ekki að vinna lið sem svindlar endalaust. Ekki einu sinni á heimavelli.

MAN UTD - LIVERPOOL
Tumi: 0-2
Helgi: 1-1 Smá hikst á Bítlavélinni...
Garðar: 1-2 Vantar allt bit í mu í vetur en liverpul hefur alltaf nóg að bíta og brenna.

TOTTENHAM - ARSENAL
Tumi: 1-2
Helgi: 1-1 ...en það er allt í lagi því það eru fleiri sem hiksta.
Garðar: 1-2 Mínir menn eru ekki að gera góða hluti þessa dagana en tapa samt auðvitað óverðskuldað fyrir hinu liðinu.

Friday, March 7, 2014

73. VIÐUREIGNIR WALES OG ÍSLANDS Í GEGNUM ÁRIN

Æfingaleikur gegn Wales, í Cardiff, í fyrrakvöld þar sem Gareth Bale sýndi af hverju hann er af mörgum talinn einn af bestu fótboltamönnum í heiminum í dag. Eins og flestir sjálfsagt vita lauk leiknum með 3-1 tapi Íslands gegn heimamönnum og Bale var auðvitað aðalmunurinn á milli liðanna. En þjóðirnar voru ekki að mætast í fyrsta sinn á knattspyrnuvellinum.


Landsleikjum við Wales í fótbolta fylgir alltaf svolítil sæluvíma fyrir íslenska knattspyrnuunnendur, þótt ekki sé víst að yngri kynslóðir átti sig á þeirri ánægju sem leikjunum fylgir. Welska liðið hefur reyndar aldrei þótt neitt sérstaklega sterkt á heimsmælikvarða og hefur til að mynda aðeins einu sinni komist á lokakeppni HM (1958) en engu að síður hafa viðureignir þjóðanna úr fyrndinni skilið eftir sig fáeinar góðar minningar sem eru löngu orðnar hluti af íslensku knattspyrnusögunni. Og hmmmm... reyndar líka alveg verri minningar.

Fyrsti landsleikur Íslands og Wales fór fram á Laugardalsvellinum, mánudagskvöldið 15. ágúst árið 1966 en þá kom áhugamannalið Wales í heimsókn og spilaði vináttuleik við okkar menn. Í byrjunarliði Íslands voru aðeins þrír leikmenn sem áttu landsleik að baki og til að mynda lék hinn 19 ára Hermann Gunnarsson þarna sinn fyrsta leik fyrir þjóðina. Það voru því átta nýliðar í byrjunarliði Íslands í þessum leik.

 
Val liðsins var nokkuð gagnrýnt af fjölmiðlum en menn voru þrátt fyrir það, sumir hverjir, nokkuð bjartsýnir á góð úrslit. Enda fór svo að um 5-6000 áhorfendur fóru nokkuð sáttir heim eftir 3-3 jafntefli við Bretana. Þeir Jón Jóhannsson, Ellert B. Schram (víti) og Hemmi Gunn skoruðu mörk Íslands en leikmaður sem er ýmist nefndur Regan, Ragan, Rigan, Rogan eða Ralan, af íslensku blöðunum, skoraði hins vegar öll mörk Walesverjanna.


Mark Jóns kom með hörkuskoti af um 25 metra færi en Hermann skoraði jöfnunarmark Íslands á lokasekúndunum með fallegu vinstri fótar skoti eftir einleik.


Næst mættust þjóðirnar í undankeppni HM '82 og fór fyrri leikurinn fram á Laugardalsvellinum þann 2. júní 1980. Íslenskir knattspyrnuáhugamenn voru mjög bjartsýnir fyrir þennan fyrsta leik sinn í riðlinum og voru margir búnir að bóka sigur fyrirfram en það fór heldur betur á aðra leið. Walesverjarnir, sem flestir voru þekktir leikmenn í ensku 1. deildinni (þeirri efstu þá) léku sér að íslenska liðinu eins og köttur að mús, að viðstöddum rúmlega 10.000 áhorfendum, og sigruðu með fjórum mörkum gegn engu. Ian Walsh 2, David Giles og Brian Flynn skoruðu mörk Wales.


Seinni leikur liðanna fór fram á Wetch Field í Wales, að viðstöddum um 20.000 áhorfendum, þann 14. október 1981 og segjast verður eins og er að lengi vel var sá leikur einn af hápunktum íslenskrar knattspyrnusögu. Ekki gætti mikillar bjartsýni hjá íslenska liðinu fyrir leikinn en Walesverjarnir léku hins vegar á alls oddi og Micky Thomas og Joey Jones létu mynda sig með apagrímur í dagblaðinu Daily Star - þar sem þeir sögðust ætla að gera Íslendinga að öpum. Þessi hrokafulla framkoma fór ekki vel í íslenska liðið og Atli Eðvaldsson lét reyndar hafa eftir sér að Micky Thomas þyrfti ekki grímu - hann væri svo ljótur fyrir!


Og ekki stóð heldur á bjartsýninni hjá öðrum welskum fjölmiðlum sem kepptust við að gera lítið úr íslenska liðinu.


Welska liðið komst yfir á 20. mínútu, með marki Robbie James, eftir að hafa sótt linnulaust frá byrjun  leiksins en rétt fyrir lok fyrri hálfleiks biluðu flóðljósin á vellinum tvisvar sinnum og leikmenn þurftu að bíða, í niðamyrkri inni í klefa, á meðan reynt var að lappa upp á þau. Í seinna skiptið í rúmlega 40 mínútur og Walesversk lúðrasveit hafði ofan af fyrir áhorfendum í myrkrinu á meðan.


Strax í byrjun seinni hálfleiks jafnaði hins vegar Ásgeir Sigurvinsson með laglegri hælspyrnu sem sló Walesverjana illilega út af laginu. Þeir hófu stórsókn og Alan Curtis skoraði annað mark þeirra á 53. mínútu og nú átti svo sannarlega að valta yfir litla liðið. Íslensku strákarnir tvíefldist hins vegar við mótlætið og aftur skoraði Ásgeir Sigurvinsson og nú með þrumuskoti á 61. mínútu. Hann fagnaði ekki einu sinni markinu almennilega en lét andstæðingana heyra það með því að minna þá á hverjir væru nú apar. Þannig lauk leiknum og Ásgeir þótti algjör yfirburðarmaður á vellinum.

 
Jafnteflið við litla Ísland varð þess valdandi að Wales komst ekki á HM og mörkin tvö voru þau einu sem Wales fékk á sig á heimavelli í keppninni. Þeir enduðu í riðlinum með 10 stig eins og Tékkar en með lélegra markahlutfall. Eitt sig í viðbót hefði því dugað.

Ekki var langt að bíða næstu viðureigna Íslendinga við Walesverja því strax í næstu undankeppni, fyrir HM '86, lentu þjóðirnar aftur saman í riðli. Íslenska þjóðin var alls ekki búin að gleyma því virðingaleysi sem sumir leikmenn welska liðsins höfðu sýnt tæpum þremur árum áður og ekki lágu íslensku leikmennirnir sjálfir heldur á liði sínu í hefndarhug sínum. Þann 12. september árið 1984 mættust þjóðirnar, í fyrri leik liðanna í riðlinum, á Laugardalsvellinum að viðstöddum um 11.000 áhorfendum. Fimm af þeim leikmönnum sem voru í byrjunarliðinu í leiknum fræga árið 1981 léku einnig þennan leik og enn fór Ásgeir Sigurvinsson þar fremstur í flokki.

 
Þessi landsleikur var reyndar spilaður við svolítið framandi aðstæður, þar sem lítill eða jafnvel enginn fréttaflutningur af leiknum eða aðdraganda hans var í boði hjá stærstum hluta fjölmiðla. Bókagerðarmenn og prentarar höfðu farið  í verkfall, þann 10. september, sem gerði það að verkum að engin dagblöð komu út og það blaðaleysi stóð yfir í heilar 6 vikur.

Þrátt fyrir takmarkaðar fréttir að undirbúningi leiksins var mæting hjá áhorfendum góð og mikil stemmning. Menn, jafnt áhorfendur sem leikmenn íslenska liðsins, voru augljóslega tilbúnir að leggja sig alla fram gegn Walesverjunum og ljóst að apagrímuskandallinn var fólki enn í fersku minni. Micky Thomas var í byrjunarliði gestanna og áhorfendur sungu hástöfum,"Moooooonkey, go hooome..."


Fyrri hálfleikur var markalaus en á 50. mínútu skoraði Magnús Bergs gullfallegt skallamark eftir hornspyrnu Árna Sveinssonar og það mark tryggði Íslendingum sætan sigur 1-0.


Mikill fögnuður braust út hjá leikmönnum og áhorfendum eftir að dómarinn flautaði til leiksloka og hundruðir áhorfenda hlupu inn á völlinn til að fagna glæstum sigri, með hetjunum sínum, sem hlupu sigurhring um völlinn í tilefni dagsins. Aftur varð því leikur gegn Wales tilefni til tímamóta í íslenskri knattspyrnusögu.


Þann 14. nóvember sama ár mættust þjóðirnar svo aftur á Ninian Park í Wales í seinni leik liðanna og þar höfðu heimamenn betur 2-1. Pétur Pétursson jafnaði metin 1-1 eftir að títtnefndur Mickey Thomas hafði komið heimamönnum yfir en Mark Hughes skoraði sigurmarkið þegar um hálftími var eftir af leiknum.


Hvorki Ásgeir Sigurvinsson né Atli Eðvaldsson gátu spilað þennan leik og munaði auðvitað um minna.

Auk leiksins á miðvikudaginn hafa þjóðirnar mættst tvisvar sinnum í vináttuleikjum (1991 og 2008) og í bæði skiptin höfðu Walesverjar sigur 1-0.

Thursday, March 6, 2014

72. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Komið að enska bolta helgarinnar og sérfræðingar síðunnar eru búnir að liggja undir feldi alla vikuna. Annars er heildarstaðan sú að Tumi er enn efstur og nú með 163 stig, Garðar hefur 149 og Helgi er kominn með 137.
 
Hinir hefðbundnu 6 leikir umferðarinnar eru eftirfarandi að þessu sinni...
 
WBA - MAN UTD
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Týpískur drullusigur, Fellaini heldur uppteknum hætti og skorar.
Garðar: 1-2 Lið sem gerir jafntefli við Fulham og tapar fyrir Crystal Palce fer því miður ekki að vinna mu.
 
MAN CITY - ASTON VILLA
Tumi: 4-0
Helgi: 4-1 Dzeko með tvö, Jæja & company með hin tvö.
Garðar: 3-1 City er bara ríkasta liðið...
 
NEWCASTLE - EVERTON
Tumi: 1-2 Lukaku með eitt eða fleiri.
Helgi: 1-2 Einhver everton maður skorar sigurmarkið á 97. mínútu.
Garðar: 1-3 Mjög svipuð lið en Everton vinnur úti.
 
CRYSTAL PALACE - SOUTHAMPTON
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Trallallalllallana og Lambert með dýrlísku mörkin.
Garðar: 0-3 Palace er voðalega lélegt lið.
 
ARSENAL - SWANSEA
Tumi: 3-0
Helgi: 2-0 Giroud og Carzorla.
Garðar: 2-1 Svanirnir sigla í kaf að þessu sinni.
 
CHELSEA - TOTTENHAM
Tumi: 2-0
Helgi: 1-0 Torres kominn á skotskóna.
Garðar: 2-1 Chelsea vinnur þetta EN mjög ósanngjarnt.