Friday, April 25, 2014

83. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Nú er farið að sjá fyrir endann á enska boltanum í vetur og spennan hjá sérfræðingum Boltabulls að ná efstu hæðum. Garðar varð efstur i síðustu umferð og fékk 10 stig, Helgi var með  8 og Tumi fékk 6 stig. Eitthvað virðist Tumi því vera farinn að gefa eftir í lokaumferðunum og hann verður að hafa sig allan við ef hann ætlar ekki að missa niður þá forystu sem hann hefur haft frá 1. umferð. Hann er þó enn efstur og hefur 206 stig, Garðar hefur 199 og Helgi er með 177 stig.
 
En ekki má gleyma leikjum næstu helgar:
 
SOUTHAMPTON - EVERTON
Tumi: 1-2
Helgi: 1-3 Bláliðar gefa ekkert eftir í baráttunni um Meistaradeildarsætið.
Garðar: 1-2 Prumpuleikur...
 
STOKE - TOTTENHAM
Tumi: 0-1
Helgi: 1-2 Soldado skorar enn og aftur ekki.
Garðar: 1-3 Að sjálfsögðu sigur hjá mínum mönnum.
 
MAN UTD - NORWICH
Tumi: 1-0
Helgi: 4-0 Nýtt og ferskt júnæted.
Garðar: 2-1 Mu vinnur Norwich en það hefur ekkert með brottrekstur Moy að gera.
 
LIVERPOOL - CHELSEA
Tumi: 1-1
Helgi: 3-0 Létt og löðurmannlegt, hvað sem löðurmannlegt nú þýðir.
Garðar: 2-1 Heppnissigur heimamanna gegn þeim bláklæddu.
 
CRYSTAL PALACE - MAN CITY
Tumi: 0-2
Helgi: 1-0 Skrifað í skýin.
Garðar: 1-2 Athyglisverður leikur en City slefar sigur.
 
ARSENAL - NEWCASTLE
Tumi: 2-0
Helgi: 5-1 Rendlingar geta ekki blautan.
Garðar: 4-0 Njúv er búið að tapa fimm leikjum í röð og fer ekki að taka upp á því að vinna Ars á útivelli núna.


Friday, April 18, 2014

82. GARETH BALE

Gareth Bale er allur að koma til, í veru sinni hjá stórveldinu Real Madrid, eftir að hafa tekið því rólega vegna meiðsla og almennra aðlögunar á sínum fyrstu mánuðum á Spáni. Í vikunni tók hann sig til og skoraði sigurmark liðsins gegn Barcelona í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins og það mark var ekki beint af ódýrari gerðinni. 
 
 
En þetta er ekki fyrsta markið sem hann skorar með þessum sama hætti. Í æfingaleik gegn Íslendingum í vetur skoraði kappinn keimlíkt mark, þar sem hann brunaði upp kantinn á sambærilegan hátt og skoraði næsta auðveldlega. Eini munurinn er sá að gegn Íslandi óð hann upp hinn kantinn.
 
 
Í báðum þessum mörkum fær Bale boltann utan við miðlínu og brunar af stað upp kantinn með varnarmenn utan í sér sem reyna að þvinga hann út af vellinum. Gegn Barcelona er það miðvörðurinn Marc Barta sem hann á í höggi við en gegn Íslendingum er það Sölvi Geir Ottesen sem reynir að stöðva hann. Í báðum tilfellunum eru varnarmennirnir búnir að bola Bale a.m.k. 2 metra út fyrir hliðarlínuna en hann hristir þá næsta auðveldlega af sér að tekur sprettinn upp restina af vellinum. Ótrúlegur leikmaður...

81. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Þá er komið að páskaumferðinni hjá sérfræðingum BOLTABULLS en um síðustu helgi tók Helgi sig til og varð efstur með 6 stig, Garðar fékk 5 en Tumi rak lestina að þessu sinni. Hann er þó enn efstur í heildarkeppninni og hefur nú náð 200 stigum. Garðar er með 189 og Helgi er með 169 stig.
 
En hér koma leikir helgarinnar:
 
TOTTENHAM - FULHAM
Tumi: 1-0
Helgi: 3-2 Á maður ekki að segja að Eriksen skori öll þrjú tott, hann er sá eini sem getur eitthvað í þessu liði.
Garðar: 3-1 Mínir menn eiga að taka þetta í hádeginu en ég er samt pínu hræddur við Felix.
 
HULL - ARSENAL
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Seiglusigur Arsenalla.
Garðar: 1-2 Ars slefar Húllarana í generalprufunni fyrir bikarúrslitin.
 
NORWICH - LIVERPOOL
Tumi: 0-3
Helgi: 1-4 Gerrard, Coutihno, Skrtel og Flanagan skora mörk Liverpool.
Garðar: 1-3 Kanaríkvikindin eru því miður ekki að fara að gera neitt af viti hér.
 
CHELSEA - SUNDERLAND
Tumi: 2-0
Helgi: 1-0 Týpískt.
Garðar: 4-0 Sundararnir kláruðu sig alveg gegn City í vikunni og hafa enga orku gegn the Strumps á útivelli.
 
EVERTON - MAN UTD
Tumi: 1-1
Helgi: 2-1 Sir David tapar fyrir gamla liðinu sínu, Mirallas og Baines skora fyrir bláa en Mata fyrir rauða.
Garðar: 2-1 Svo einfalt er það...
 
MAN CITY - WBA
Tumi: 2-0
Helgi: 3-2 Olían á undanhaldi. Ef þeir kaupa leikmenn fyrir 300 milljónir punda í viðbót gæti þetta skánað.
Garðar: 5-1 City lætur sig enn dreyma um titilinn en það er of seint eftir hökt síðustu umferða.

Wednesday, April 16, 2014

80. HMMMMM... HM Á NÆSTA LEYTI

Nú er vorið aðeins byrjað að banka á dyrnar á Íslandi og aprílmánuður langt kominn með allar sínar vonir og væntingar. Páskarnir með kærkomnu fríi eru framundan og möguleikarnir á meiri útiveru (og þar með meiri fótbolta) í mildara veðri aukast til muna en þó er reyndar ekkert sérlega vorlegt um að litast í augnablikinu. En það á eftir að breytast. Og svo eru líka stórskemmtilegir tímar framundan fyrir okkur Tuma. Ekki einungis vegna þess að hann kemur til með að eignast litla systur um miðjan næsta mánuð, heldur er N1-mótið á Akureyri í byrjun júlí og svo er auðvitað HM sumar í sumar.


 
Heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2014 hefst fimmtudaginn 12. júní, nánar tiltekið eftir aðeins tæplega 60 daga, með opnunarleik heimamanna í Brasilíu og góðkunningja okkar Íslendinga frá Króatíu. Að jafnaði verður boðið upp á þrjá til fjóra leiki á dag, á meðan á riðlakeppninni stendur, en þann 28. júní hefjast síðan 16 liða úrslitin. 4. og 5. júlí verður spilað í 8 liða úrslitum, undanúrslit verða 8. og 9. júlí og sjálfur úrslitaleikurinn fer fram þann 13. Algjör veisla í heilan mánuð fyrir okkur Tuma og auðvitað alla aðra alvöru knattspyrnuunnendur. Næstu vikur fara eflaust í það hjá manni að lesa og skoða gamlar og nýjar heimildir um HM í gegnum tíðina. Aldrei að vita nema einhverju af því verði deilt á BOLTABULLI. Annars er ekki úr vegi að byrja á því að rifja upp mínar fyrstu HM.

Mín fyrsta minning um Heimsmeistaramótið í knattspyrnu var um mótið í Argentínu árið 1978. Ég man þó ekkert eftir mótinu sjálfu, enda nánast ekkert byrjaður að sparka bolta sjálfur, en man þó vel þegar Argentínumenn urðu heimsmeistarar.


Næstu keppni man ég þó ágætlega eftir. Sumarið '82 horfðum við bræðurnir fullir áhuga á þá fáu leiki sem í boði voru en reyndar var afskaplega takmarkað úrval sem Ríkissjónvarpið bauð upp á í þeirri keppni og fékk Útvarpsráð bágt fyrir meint skilningsleysi gagnvart áhugamönnum um fótbolta. Flestir leikjanna voru sýndir sólarhring seinna (af vídeóspólum sem fengust sendar hingað frá danska ríkissjónvarpinu) og aðeins opnunar- og úrslitaleikurinn fengust sýndir í beinni útsendingu hér uppi á Íslandi - og sá síðarnefndi reyndar aðeins í svart/hvítu! Venju samkvæmt var Ríkissjónvarpið reyndar í sumarfríi í júlí á þessum árum en RUV braut odd af örlæti sínu og gaf tæknimönnum sínum tækifæri á að græja úrslitaleikinn þannig að íslenskir áhorfendur fengju notið hans. Aðra leiki Heimsmeistaramótsins í júlímánuði fengu Íslendingar ekki að sjá. Ítalía vann Þýskaland í úrslitunum og mér finnst enn eins og vitlaust lið hafi unnið HM '82. Samt var Ítalía betri á öllum sviðum.


Heimsmeistarakeppninni '86 var gerð öllu betri skil gagnvart íslenskum skattgreiðendum. Langflestir leikir keppninnar voru í boði Ríkissjónvarpsins og við bræðurnir drukkum í okkur allar þær kræsingar sem boðið var upp á úr þeirri veislu. Seinna átti ég meira að segja Azteka bolta eins og notaður var í keppninni en gleymdi honum einhvern tímann úti á velli og sá hann auðvitað aldrei framar. Leikur Brasilíu og Frakklands var þá líklega besti leikur sem ég hafði séð um ævina og Maradona át náttúrulega þessa keppni með húð og hár. Hann vann hana nánast upp á sitt einsdæmi og mörkin hans gegn Englandi og Belgíu verða náttúrulega sígild til eilífðar. Svo man ég alltaf eftir markinu hans Manuel Negrete hjá Mexíkó gegn Búlgaríu.


Úr keppnunum '82 og '86 getum við bræðurnir líklega enn þann dag í dag þulið upp riðla og milliriðla mótanna, sem og einstök úrslit leikja og jafnvel markaskorara.


Árið 1990 fór keppnin fram á Ítalíu og þar sigruðu Þjóðverjar Argentínumenn, með einu marki gegn engu, í næstleiðinlegasta HM úrslitaleik sem ég man eftir. Mér fannst keppnin reyndar eiginlega ónýt strax í byrjun en þar tóku Kamerún upp á þeirri vitleysu að fara að vinna Argentínu í opnunarleiknum - 1-0! Annað eins hafði aldrei og átt aldrei að geta gerst. Ég horfði á undanúrslitaleik Englands og Þýskalands á risaskjá, í grenjandi rigningu, með systur minni á tjaldsvæði einhvers staðar í Danmörku en þar klikkuðu Chris Waddle og Stuart Pearce báðir á vítum í vítakeppni. Úrslitaleikinn horfði ég síðan á á einhverju torgi í Þýskalandi (líklega Kiel?) og fylgdist með heimamönnum fagna heimsmeistaratitlinum með bjór og Bratwurst. Fannst þetta aldrei spennandi keppni, einhverra hluta vegna, en líklega var það vegna þess að ég missti af stórum hluta seinni parts hennar.


Bandaríkin voru vettvangur HM '94 og einmitt af þeirri sömu ástæðu voru væntingar mínar til keppninnar frekar hóflegar. Heimamenn stóðu sig þó vel í allri framkvæmd og mótið var, ef ég man rétt, bara nokkuð skemmtilegt og með mikið af dramatískum atvikum. Ég man eftir Rússanum Salenko skora fimm mörk á móti Kamerún en þann mann hafði ég aldrei á ævi minni heyrt minnst á fyrir leikinn. Markið hjá Maradona gegn Grikkjum og fagnið hans, áður en hann var síðan sendur heim með skömm, og sjálfsmarkið hans Escobar sem kostaði hann lífið. Enginn velti því marki neitt fyrir sér fyrr en hann var drepinn heima í Kólumbíu nokkrum dögum seinna og HM var þá ennþá í fullum gangi. Endalaus dramtík í gangi en úrslitaleikurinn var samt svo leiðinlegur að Roberto Baggio ákvað að þruma boltanum lengst út fyrir leikvanginn, í vítakeppni eftir leikinn, til að lina þjáningar áhorfenda og ljúka leiknum. Og þar með unnu Brasilíumenn HM loksins aftur í fyrsta sinn síðan 1970.


Eigum örugglega eftir að minnast eitthvað meira á HM á næstu mánuðum...

Friday, April 11, 2014

79. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Og enn er komið að sérfræðingum BOLTABULLS sem ætla að spá í leiki helgarinnar. Annars var Garðar efstur um síðustu helgi og fékk heil 11 stig en Tumi og Helgi fengu báðir 7. Tumi er enn efstur með 196 stig, Garðar hefur 184 og Helgi hefur 163.
 
En hér er komið að leikjum helgarinnar:
 
SUNDERLAND - EVERTON
Tumi: 0-3
Helgi: 1-2 Þetta er einfalt, Sunderland er fallið.
Garðar: 0-2 Leiðinlegur leikur eins og svo margir í þessari umferð.
 
STOKE - NEWCASTLE
Tumi: 1-1
Helgi: 2-0 Rauðrendlingar sigra með mörkum Charlie Adam og Svartrendlingar fikra sig örugglega niður töfluna.
Garðar: 2-1 Þennan leik er Newcastle aldrei að fara að vinna enda hafa þeir ekki skorað mark í deildinni síðan 22. mars þegar þeir drulluðust til að vinna Crystal Palace 1-0. Þeir skora þó eitt á móti Stók.
 
SOUTHAMPTON - CARDIFF
Tumi: 2-0
Helgi: 6-0 Óli Gunnar og norskir meðbræður hans eru hættir.
Garðar: 2-1 Því miður er sá indverski (eða hvað sem hann er?) ekki að fara að eiga Úrvalsdeildarlið á næstunni. Eins gott fyrir Aron Einar að fara að finna sér eitthvað skárra lið.
 
WBA - TOTTENHAM
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Tottenham í baráttu um fyrsta meistaratitilinn síðan 1970.
Garðar: 1-2 Erfiður útisigur hjá mínum mönnum. Ade heldur áfram að skora.
 
LIVERPOOL - MAN CITY
Tumi: 2-3
Helgi: 4-2 Martin Skrtel skorar tvö mörk í þessum leik.
Garðar: 1-3 Besta liðið á Englandi vinnur næstskársta liðið í Everton borg.
 
SWANSEA - CHELSEA
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Mórinjó þarf ekkert að draga að sér athyglina eftir þennan leik.
Garðar: 0-3 Auðveldur strumpasigur á álftunum.

Friday, April 4, 2014

78. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Sérfræðingar BOLTABULLS voru almennt fremur hógværir í stigasöfnun sinni um síðustu helgi en í þetta skiptið tók Helgi þó að sér það hlutverk að fá flest stig umferðarinnar. Hann var sem sagt efstur og fékk 7 stig, Garðar var með 4 en Tumi rak lestina og fékk aðeins 3 stig. Tumi er samt enn efstur og hefur nú 189 stig, Garðar hefur 173 og Helgi er með 156.
 
En svona er næsta umferð:
 
MAN CITY - SOUTHAMPTON
Tumi: 2-0
Helgi: 4-0 Shitty svarar hressilega fyrir stigaskortinn um síðustu helgi.
Garðar: 4-1 Næstbesta liðið á Englandi vinnur þennan leik af því að Southampton getur ekki neitt.
 
NEWCASTLE - MAN UTD
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Það er sama hversu manjú eru lélegir, rendlingarnir eru í frjálsu falli.
Garðar: 1-2 Markatalan hjá New er 0-7 úr síðustu tveimur leikjum og liðið er á hraðri leið niður í að gulltryggja sér 9. sæti deildarinnar.
 
CHELSEA - STOKE
Tumi: 1-0
Helgi: 1-0 John Terry skorar með skalla á lokamínútunum.
Garðar: 3-0 Móri er búinn að mæra Púlis of mikið á síðustu dögum en eins og allir vita þá mun Púlis-andi svífa yfir Stoke vötnum um ókomna tíð. 
 
EVERTON - ARSENAL
Tumi: 1-2
Helgi: 1-1 Arsenal stimplar sig endanlega úr titilbaráttunni.
Garðar: 1-2 Ars aðeins að rétta úr kútnum eftir afleitt gengi að undanförnu.
 
WEST HAM - LIVERPOOL
Tumi: 0-3
Helgi: 0-1 Múrveggur fyrir framan markið en mínir menn klára með marki Skrtels.
Garðar: 1-3 Ömurlegt að vera með leik hérna úr neðri hlutanum...
 
TOTTENHAM - SUNDERLAND
Tumi: 1-0
Helgi: 2-0 Fallslagur og Spurs nær að snúa mínusmarkatölunni í plús - eða næstum því.
Garðar: 2-1 Auðvelt hjá mínum mönnum.