Wednesday, April 16, 2014

80. HMMMMM... HM Á NÆSTA LEYTI

Nú er vorið aðeins byrjað að banka á dyrnar á Íslandi og aprílmánuður langt kominn með allar sínar vonir og væntingar. Páskarnir með kærkomnu fríi eru framundan og möguleikarnir á meiri útiveru (og þar með meiri fótbolta) í mildara veðri aukast til muna en þó er reyndar ekkert sérlega vorlegt um að litast í augnablikinu. En það á eftir að breytast. Og svo eru líka stórskemmtilegir tímar framundan fyrir okkur Tuma. Ekki einungis vegna þess að hann kemur til með að eignast litla systur um miðjan næsta mánuð, heldur er N1-mótið á Akureyri í byrjun júlí og svo er auðvitað HM sumar í sumar.


 
Heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2014 hefst fimmtudaginn 12. júní, nánar tiltekið eftir aðeins tæplega 60 daga, með opnunarleik heimamanna í Brasilíu og góðkunningja okkar Íslendinga frá Króatíu. Að jafnaði verður boðið upp á þrjá til fjóra leiki á dag, á meðan á riðlakeppninni stendur, en þann 28. júní hefjast síðan 16 liða úrslitin. 4. og 5. júlí verður spilað í 8 liða úrslitum, undanúrslit verða 8. og 9. júlí og sjálfur úrslitaleikurinn fer fram þann 13. Algjör veisla í heilan mánuð fyrir okkur Tuma og auðvitað alla aðra alvöru knattspyrnuunnendur. Næstu vikur fara eflaust í það hjá manni að lesa og skoða gamlar og nýjar heimildir um HM í gegnum tíðina. Aldrei að vita nema einhverju af því verði deilt á BOLTABULLI. Annars er ekki úr vegi að byrja á því að rifja upp mínar fyrstu HM.

Mín fyrsta minning um Heimsmeistaramótið í knattspyrnu var um mótið í Argentínu árið 1978. Ég man þó ekkert eftir mótinu sjálfu, enda nánast ekkert byrjaður að sparka bolta sjálfur, en man þó vel þegar Argentínumenn urðu heimsmeistarar.


Næstu keppni man ég þó ágætlega eftir. Sumarið '82 horfðum við bræðurnir fullir áhuga á þá fáu leiki sem í boði voru en reyndar var afskaplega takmarkað úrval sem Ríkissjónvarpið bauð upp á í þeirri keppni og fékk Útvarpsráð bágt fyrir meint skilningsleysi gagnvart áhugamönnum um fótbolta. Flestir leikjanna voru sýndir sólarhring seinna (af vídeóspólum sem fengust sendar hingað frá danska ríkissjónvarpinu) og aðeins opnunar- og úrslitaleikurinn fengust sýndir í beinni útsendingu hér uppi á Íslandi - og sá síðarnefndi reyndar aðeins í svart/hvítu! Venju samkvæmt var Ríkissjónvarpið reyndar í sumarfríi í júlí á þessum árum en RUV braut odd af örlæti sínu og gaf tæknimönnum sínum tækifæri á að græja úrslitaleikinn þannig að íslenskir áhorfendur fengju notið hans. Aðra leiki Heimsmeistaramótsins í júlímánuði fengu Íslendingar ekki að sjá. Ítalía vann Þýskaland í úrslitunum og mér finnst enn eins og vitlaust lið hafi unnið HM '82. Samt var Ítalía betri á öllum sviðum.


Heimsmeistarakeppninni '86 var gerð öllu betri skil gagnvart íslenskum skattgreiðendum. Langflestir leikir keppninnar voru í boði Ríkissjónvarpsins og við bræðurnir drukkum í okkur allar þær kræsingar sem boðið var upp á úr þeirri veislu. Seinna átti ég meira að segja Azteka bolta eins og notaður var í keppninni en gleymdi honum einhvern tímann úti á velli og sá hann auðvitað aldrei framar. Leikur Brasilíu og Frakklands var þá líklega besti leikur sem ég hafði séð um ævina og Maradona át náttúrulega þessa keppni með húð og hár. Hann vann hana nánast upp á sitt einsdæmi og mörkin hans gegn Englandi og Belgíu verða náttúrulega sígild til eilífðar. Svo man ég alltaf eftir markinu hans Manuel Negrete hjá Mexíkó gegn Búlgaríu.


Úr keppnunum '82 og '86 getum við bræðurnir líklega enn þann dag í dag þulið upp riðla og milliriðla mótanna, sem og einstök úrslit leikja og jafnvel markaskorara.


Árið 1990 fór keppnin fram á Ítalíu og þar sigruðu Þjóðverjar Argentínumenn, með einu marki gegn engu, í næstleiðinlegasta HM úrslitaleik sem ég man eftir. Mér fannst keppnin reyndar eiginlega ónýt strax í byrjun en þar tóku Kamerún upp á þeirri vitleysu að fara að vinna Argentínu í opnunarleiknum - 1-0! Annað eins hafði aldrei og átt aldrei að geta gerst. Ég horfði á undanúrslitaleik Englands og Þýskalands á risaskjá, í grenjandi rigningu, með systur minni á tjaldsvæði einhvers staðar í Danmörku en þar klikkuðu Chris Waddle og Stuart Pearce báðir á vítum í vítakeppni. Úrslitaleikinn horfði ég síðan á á einhverju torgi í Þýskalandi (líklega Kiel?) og fylgdist með heimamönnum fagna heimsmeistaratitlinum með bjór og Bratwurst. Fannst þetta aldrei spennandi keppni, einhverra hluta vegna, en líklega var það vegna þess að ég missti af stórum hluta seinni parts hennar.


Bandaríkin voru vettvangur HM '94 og einmitt af þeirri sömu ástæðu voru væntingar mínar til keppninnar frekar hóflegar. Heimamenn stóðu sig þó vel í allri framkvæmd og mótið var, ef ég man rétt, bara nokkuð skemmtilegt og með mikið af dramatískum atvikum. Ég man eftir Rússanum Salenko skora fimm mörk á móti Kamerún en þann mann hafði ég aldrei á ævi minni heyrt minnst á fyrir leikinn. Markið hjá Maradona gegn Grikkjum og fagnið hans, áður en hann var síðan sendur heim með skömm, og sjálfsmarkið hans Escobar sem kostaði hann lífið. Enginn velti því marki neitt fyrir sér fyrr en hann var drepinn heima í Kólumbíu nokkrum dögum seinna og HM var þá ennþá í fullum gangi. Endalaus dramtík í gangi en úrslitaleikurinn var samt svo leiðinlegur að Roberto Baggio ákvað að þruma boltanum lengst út fyrir leikvanginn, í vítakeppni eftir leikinn, til að lina þjáningar áhorfenda og ljúka leiknum. Og þar með unnu Brasilíumenn HM loksins aftur í fyrsta sinn síðan 1970.


Eigum örugglega eftir að minnast eitthvað meira á HM á næstu mánuðum...

No comments:

Post a Comment