Saturday, June 21, 2014

92. LEIKMENN TOTTENHAM Á HM

Nú eru liðnar fyrstu tvær vikurnar af HM 2014 og langt liðið á aðra umferð riðlakeppninnar, þannig að mótið er búið að fá að rúlla vel af stað. Keppnin fer stórvel í gang og töluvert meira hefur verið skorað af mörkum þessa fyrstu daga heldur en á fyrri mótum. Mótið er í raun og veru alveg stórskemmtilegt og hefur upp á að bjóða allt það sem knattspyrnuáhugamenn vilja sjá.


Tók eftir því þegar enski landsliðshópurinn var valinn fyrir Heimsmeistarakeppnina að ekki einn einasti leikmaður Tottenham var í hópnum og hugsaði reyndar með mér að ég minntist þess ekki að hafa upplifað slíkt áður. Enskir leikmenn Spurs hafa að jafnaði verið þetta 2-4 í hverri stórkeppni á undanförnum áratugum en þeir aðilar sem helst komu til greina fyrir þetta mót voru ýmist meiddir eða þóttu ekki hafa sýnt nægilega góða frammistöðu undanfarna mánuði. Það er líka bara fínt. Enska liðið er engan veginn sannfærandi og þessir tilteknu leikmenn Tottenham fá því kærkomið og gott sumarfrí í staðinn.


En það eru fleiri landsliðsmenn Tottenham á ferðinni heldur en bara hjá því enska. Okkur reiknast svo til að í heildina séu þeir líklega sjö talsins en einnig eru þó nokkrir fyrrverandi leikmenn liðsins á mótinu. Belgíska liðið á flesta fulltrúa Spurs á HM að þessu sinni eða þrjá talsins. Þetta eru þeir Jan Vertonghen, Mousa Dembele og Nacer Chadli, Paulinho er fulltrúi liðsins hjá Brasilíumönnum, Benoit Assou-Ekotto er hjá Kamerún, Hugo Lloris Frakklandi og Nabil Bentaleb spilar fyrir Alsír.

Af fyrrverandi leikmönnum liðsins má nefna að misjafnlega gengur þeim nú á HM. Cliff Dempsey og Giovani dos Santos hafa staðið sig vel með sínum landsliðum á meðan að Wilson Palacios hefur verið að sýna frekar lítið þroskuð tilþrif. Króatarnir og Íslandsvinirnir Modric, Corluca og Pletikosa hafa allir spilað lygnan sjó með sínu landsliði. Kevin-Prince Boateng er þarna einhvers staðar, Hélder Postiga og meira að segja Didier Zokora er enn að spila. Alls eru þetta 16 núverandi og fyrrverandi leikmenn Tottenham sem eru að spila á HM. Það gæti alveg verið verra.

Saturday, June 14, 2014

91. MEIRA AF FLOTTUM AUGLÝSINGUM

Veislan er byrjuð og frábærar fótboltatengdar auglýsingar streyma fram á sjónarsviðið. Hér er ein ansi flott frá Nike, í anda teiknimyndarinnar um Ratatouille, þar sem margir kunnir knattspyrnumenn sjást í nýju formi. Sumir þeirra eru einmitt í eldlínunni á HM en aðrir því miður ekki. Sjón er sögu ríkari...
 

Tuesday, June 10, 2014

90. HM BOLTINN 2014

Það er fastur liður fyrir hverja Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu að nýr bolti er kynntur til sögunnar. Boltinn í fyrstu 8 keppnunum var valinn á handahófskenndan hátt en á HM 1970 var þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas fenginn til að annast framleiðslu á keppnisboltunum og þeir hafa séð um það síðan. En hér má einmitt sjá alla opinberlega HM bolta Adidas frá upphafi.
 
 
Þess má til gamans geta að fyrir úrslitaleik fyrstu Heimsmeistarakeppninnar, árið 1930, settu bæði liðin í úrslitunum, Argentína og Uruguay, kröfu um að leikið skyldi með sinn bolta. Deilan var leyst á þann hátt að dómarinn ákvað að leikið skyldi með argentíska boltann í fyrri hálfleiknum en hinum uruguayska í þeim seinni. Argentína var yfir 2-1 í leikhléi eftir að þeirra bolti hafði verið notaður fyrri hlutann en í seinni hálfleiknum snerist dæmið við og Uruguay kláraði leikinn 4-2 með sínum bolta. Augljóslega skipti boltinn því máli.
 
HM boltinn árið 2014 heitir Brazuca og er framleiddur hjá fyrirtæki í Pakistan eins og svo mikið af þeim vörum sem Adidas kemur að framleiðslu að. Nafnið, Brazuca, var valið af yfir milljón fótboltaáhugamönnum frá Brasilíu en kosið var á milli þriggja tillagna. Hinar tillögurnar voru Bossa Nova og Carnavalesca en Brazuca hlaut tæplega 78% atkvæða.

Hann er að miklu leyti handgerður og er árangur tveggja ára hugmyndavinnu, rannsókna og prófa framleiðandans en blaðran og innvolsið kemur þó að grunninum til úr Adidas Tango 12 boltanum sem margir muna eftir frá EM 12. Brazuca boltinn er 437 grömm og 69 cm að ummáli og hér má sjá nokkrar myndir frá framleiðslu hans.





Og svo auðvitað líka bráðnauðsynlegt myndband fyrir þá sem vilja vera með þetta allt á hreinu.


Sunday, June 8, 2014

89. FLOTT ADIDAS AUGLÝSING

Enn styttist í HM og nú eru aðeins fjórir ómerkilegir dagar í að veislan hefjist. Við Tumi höldum upp á það með snilldar auglýsingu frá Adidas þar sem nokkrir kunnir kappar koma við sögu heima hjá David Beckham. Það er líklegt að Victoria hafi verið úti að versla!
 


Monday, June 2, 2014

88. ÁLITSGJAFAR SKOÐA BÚNINGANA Á HM

 
Nú eru ekki nema tíu dagar þar til sjálf Heimsmeistarakeppnin í fótbolta, stærsta veisla allra sannra knattspyrnuunnenda, hefst en að sjálfsögðu ætlum við Boltabulls-aðilar að fylgjast með henni eftir bestu getu.

Í þessari færslu ætlum við að skoða búninga liðanna í keppninni og rýna aðeins í möguleika landsliðanna með tilliti til smekkvísi, hönnun og litasamsetninga þeirra. 10 af liðunum 32, sem spila í lokakeppni HM, leika í Nike búningum, 9 eru í Adidas og 7 í Puma en hin 6 liðin deila jafnt með sér öðrum merkjum.
 
Faglegir álitsgjafar síðunnar eru að sjálfsögðu þeir Tumi og Garðar en sérstakt ráðgjafa- og sérfræðiálit, auk kvenlegs innsæis, var í höndum móður Tuma og eiginkonu Garðars, Silke Waelti.
 
Í A-riðlinum eru búningarnir heilt yfir frekar skrautlegir þó græni liturinn sé þar svolítið áberandi. Silke nefndi einmitt sérstaklega hve treyjurnar væru litríkar og ljótar hver á sinn hátt en almennt er hún hvorki hrifin af gulum eða grænum búningum. Og sá króatíski fannst henni eiginlega bara alveg vonlaus eins og reyndar þeim Tuma og Garðari fannst líka báðum. Tuma finnst hann eiginlega minna alltaf svolítið á dúk úr lautarferð! Annars var hann hrifinn af öllum hinum á meðan Garðari fannst bara sá brasilíski flottur þó hann hafi ekki verið hrifinn af hálsmálinu. Þeim síðarnefnda var líka alveg sérstaklega í nöp við þann kamerúmska, sem Tumi var hins vegar mjög hrifinn af.


B-riðillinn var greinilega auðveldari í meðförum og heilt yfir voru þar fleiri búningar sem álitsgjafarnir voru hrifnir af. Litirnir á búningunum í riðlinum eru allir frekar líkir þannig að líklega munu varabúningar liðanna vera notaðir í öllum leikjum riðilsins. Öll voru þau hrifin af hollenska búningnum og Silke finnst sá spænski aldrei klikka, enda Spánn það landslið sem hún heldur með í öllum keppnum. Hún var hvorki hrifin af þeim chileska né ástralska á meðan bæði Tumi og Garðar voru báðir hrifnir af þeim síðarnefnda. Garðari fannst reyndar allir búningarnir í riðlinu flottir og þá helst vegna einfaldleika síns og þar fannst honum sá ástralski bera af.


Fjölbreytileikinn í litavalinu er áberandi þarna og allir voru með búning Fílabeinsstrandarinnar efst á blaði í C-riðlinum en Tumi var einnig jafn hrifinn af Kólumbíu og Grikklandi. Reyndar fannst Silke sá fílabeinski ekki alveg jafn flottur og á HM 2010 og á sama máli var hún um þann gríska, sem henni fannst hálsmálið skemma svolítið núna. Garðar var ekki hrifinn af þeim gríska. Silke fannst sá guli, kólumbíski ljótur, eins og reyndar líka Garðari, en öllum álitsgjöfum fannst sá japanski ágætur.


Í D-riðlinum eru liðin með mjög hefðbundnum litum í treyjunum sínum, enda sígild landslið þar á ferðinni. Silke var hrifin af öllum búningunum í þessum riðli en fannst sá úrúgvæski samt bera af. Tuma fannst sá líka mjög flottur en hinum búningunum fannst hann ekkert sérstakir. Garðar var mest hrifinn af þeim enska vegna einfaldleika hans og hann var einnig frekar hrifinn af þeim úrúgvæska en fannst hálsmálið svolítið skemma heildarmyndina. Hann var ekki hrifinn af þeim ítalska. Einnig fannst honum Kosta Ríka búningurinn ljótur, enda svolítið í anda íslenska landsliðsins - líta út eins og eitthvað afgangs dót frá 9. áratug síðustu aldar.


E-riðillinn er mjög fjölbreytilegur í litunum en um leið með mjög einföldum búningum. Silke var einmitt á því máli og fannst allir mjög fínir nema sá ekvadorski. Einnig fannst henni hálsmálið á þeim franska aðeins skemma og því var Garðar líka sammála. Honum fannst sá franski samt svolítið töff og minna jafnvel eilítið á íslenska landsliðsbúninginn árið 1976! Garðar var líka mjög hrifinn af bæði svissneska og þeim hondúríska en ekvadorski búningurinn minnti hann fullmikið á Fjölni, Leiftur eða Grindavík og á því ekkert erindi á HM. Tuma fannst sá franski mjög flottur, svissneski fínn en hinir mjög óspennandi og þá sérstaklega hið risastóra H sem hefði alveg má útfæra eitthvað betur.


Liðin í F-riðlinum eru ekkert að eyða mikilli orku í of sterka eða áberandi litadýrð en þó sker Nígería sig svolítið úr. Allir álitsgjafarnir voru mjög hrifnir af argentíska búningnum og Silke fannst þessi riðill allur nokkuð flottur - meira að segja sá nígeríski þó hann væri grænn. Garðari fannst sá argentínski flottasti búningur keppninnar og hann var einnig nokkuð hrifinn af Bosníu-Hersegóviníu. Nígeríski væri bara alveg þokkalegur í hans augum en sá íranski frekar óspennadi. Tuma fannst sá argentínski mjög flottur en restin alveg hryllileg, svo haft sé eftir honum orðrétt.


Hér eru þrír af fjórum búningum frekar keimlíkir og ljóst að varabúningasettin verða líka mikið notuð í G-riðli. Silke fannst sá portúgalski mjög flottur og er alltaf mjög hrifin þegar tveir mismunandi rauðir litir eru saman í búning. Hún var líka hrifin af þeim þýska og fannst tilbreyting að vera með þennan rauða lit í stað sígildu fánalitina. Garðari fannst sá bandaríski eiginlega skárstur hér. Ghana væri fínn ef draslið við hálsinn væri ekki en Þýskaland og Portúgal fannst honum óvenju ófrumlegir þessa keppnina. Tuma fannst Ghana alveg fáránlega flottur en restin aðeins flott!


Og að lokum er það svo H-riðillinn rauðleyti og enn á ný má reikna með að varabúningurinn verði alls ráðandi í leikjum riðilsins. Silke var á þeirri skoðun að allir búningar riðilsins væru mjög flottir en sá Suður Kóreski kannski sístur. Garðari fannst búnigar Alsír og Rússlands nokkuð smekklegir en hinir tveir ósköp venjulegir og litlausir eitthvað. Tumi var hrifnastur af þeim rússneska og belgíska en þeir alsírsku og suður kóresku frekar óspennandi.

Í heildina voru álitsgjafarnir alræmdu með frekar ólíkar hugmyndir um smekkvísi búninga liðanna á Heimsmeistaramótinu og það má auðveldlega sjá á mati hvers riðils fyrir sig eins og sjá má. En oft voru þeir samt líka með svipaðar hugmyndir um smekk og þá kannski sérstaklega með ljótari búningana. Álitsgjafarnir voru einnig beðnir um að nefna sérstaklega þá búninga sem þeir fannst fallegastir og ljótastir í keppninni en einnig völdu þeir best og verst klædda riðilinn. Og þarna sést berlega hversu mismunandi smekkur þeirra var. Af þessu mætti ráða að erfitt yrði að fá heilstæða niðurstöðu um líklega Heimsmeistara með tilliti til fegurðar búninganna.

SILKE
Flottustu: Fílabeinströndin eða Holland
Ljótustu: Mexíkó
Best klæddi riðillinn: D-riðill
Verst klæddi riðillinn: A-riðill

TUMI
Flottustu: Kamerún eða Ghana
Ljótustu: Íran
Best klæddi riðillinn: A-riðill
Verst klæddi riðillinn: F-riðill

GARÐAR
Flottustu: Argentína eða Ástralía
Ljótustu: Kamerún
Best klæddi riðillinn: B-riðill
Verst klæddi riðillinn: A-riðill