Tuesday, June 10, 2014

90. HM BOLTINN 2014

Það er fastur liður fyrir hverja Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu að nýr bolti er kynntur til sögunnar. Boltinn í fyrstu 8 keppnunum var valinn á handahófskenndan hátt en á HM 1970 var þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas fenginn til að annast framleiðslu á keppnisboltunum og þeir hafa séð um það síðan. En hér má einmitt sjá alla opinberlega HM bolta Adidas frá upphafi.
 
 
Þess má til gamans geta að fyrir úrslitaleik fyrstu Heimsmeistarakeppninnar, árið 1930, settu bæði liðin í úrslitunum, Argentína og Uruguay, kröfu um að leikið skyldi með sinn bolta. Deilan var leyst á þann hátt að dómarinn ákvað að leikið skyldi með argentíska boltann í fyrri hálfleiknum en hinum uruguayska í þeim seinni. Argentína var yfir 2-1 í leikhléi eftir að þeirra bolti hafði verið notaður fyrri hlutann en í seinni hálfleiknum snerist dæmið við og Uruguay kláraði leikinn 4-2 með sínum bolta. Augljóslega skipti boltinn því máli.
 
HM boltinn árið 2014 heitir Brazuca og er framleiddur hjá fyrirtæki í Pakistan eins og svo mikið af þeim vörum sem Adidas kemur að framleiðslu að. Nafnið, Brazuca, var valið af yfir milljón fótboltaáhugamönnum frá Brasilíu en kosið var á milli þriggja tillagna. Hinar tillögurnar voru Bossa Nova og Carnavalesca en Brazuca hlaut tæplega 78% atkvæða.

Hann er að miklu leyti handgerður og er árangur tveggja ára hugmyndavinnu, rannsókna og prófa framleiðandans en blaðran og innvolsið kemur þó að grunninum til úr Adidas Tango 12 boltanum sem margir muna eftir frá EM 12. Brazuca boltinn er 437 grömm og 69 cm að ummáli og hér má sjá nokkrar myndir frá framleiðslu hans.





Og svo auðvitað líka bráðnauðsynlegt myndband fyrir þá sem vilja vera með þetta allt á hreinu.


No comments:

Post a Comment