Monday, December 23, 2013

54. ENN EIN STJÓRASKIPTIN

Tottenham Hotspur er liðið mitt, eins og auðvitað allir vita, og með þeim hef ég haldið síðan keppnistímabilið 1979-80. Þá um haustið áskotnaðist mér eitthvert nammi (pantað upp úr breskum póstlista) þar sem fylgdi með pakki af fótboltamyndum og á einni af þessum myndum var Steve nokkur Archibald, skoskur landsliðsmaður, sem þá var nýgenginn í raðir Tottenham en kappinn var reyndar í búningi Aberdeen á myndinni. Á þessum örlagaríka tímapunkti tók ég þá gæfu- og giftusamlegu ákvörðun að byrja að halda með Spurs. En það er aftur á móti önnur saga.
 
Gott samt ef þetta er hreinlega ekki bara myndin?
 
 
Þetta var sem sagt líklega haustið 1979 og síðan eru liðin rúmlega 34 ár! Líklega var ég í fyrstu ekkert sérstaklega dyggur stuðningsmaður, enda aðeins tíu ára gamall, en lagði það þó á mig að læra nöfnin á helstu hetjum liðsins og fylgdist á hverjum laugardegi með Bjarna Fel tíunda úrslit dagsins í lok Ensku knattspyrnunnar. Steve Archibald og Ricardo Villa voru í uppáhaldi og svo vissi ég auðvitað að "managerinn" hét Keith Burkinshaw. Stundum gekk liðinu vel og stundum ekki. Við bræðurnir fórum fljótlega að versla fótboltablöðin Match og Shoot og ef stórar myndir eða plaggöt af leikmönnum Tottenham eða Liverpool (bróðir minn hélt með þeim sko) voru í blöðunum, deildum við þeim samviskusamlega á milli okkar.

Keith Burkinshaw var fyrsti stjórinn sem ég man eftir og hann gerði frábæra hluti fyrir Spurs. Auk þess að vinna Bikarinn (1981 og 1982), Evrópukeppni bikarhafa (1984) og Góðgerðarskjöldinn (1981) þá tapaði liðið einnig úrslitaleik Mjólkurbikarsins (1982) og einum leik um Góðgerðarskjöldinn (1982). Burkinshaw náði að koma liðinu hæst í þriðja sæti deildarinnar og tvisvar í það fjórða en nær komst Tottenham ekki til að gera atlögu að enska deildartitlinum í hans tíð. Ekki má heldur gleyma þeirri frumkvöðlavinnu sem Spurs stóð fyrir í tíð Burkinshaw en liðið fékk tvo af leikmönnum Argentínska landsliðsins (sem urðu heimsmeistarar árið 1978) til Englands. Þetta voru fyrstu "alvöru" útlendingarnir til að spila í ensku deildinni.

Hér má sjá þá Keith Burkinshaw og Peter Shreeves með gamla góða Evrópubikarinn sem Spurs vann vorið 1984 en Shreeves tók við af Burkinshaw sumarið 1984.


Annars er best að rifja aðeins upp þá knattspyrnustjóra Tottenham sem hafa verið við stjórnvölinn frá því ég hóf að halda með liðinu árið 1979. Þetta er sorglega stór hópur.
 
Þessi mynd segir þó ekki nærri því allan sannleikann því að þónokkrir bráðabirgðastjórar hafa einnig komið við sögu félagsins á þessum tíma og eru ekki taldir upp með þessum hóp. Þeir Trevor Hartley og Doug Livermore sáu um liðið, til bráðabirgða í nokkrar vikur, eftir að David Pleat hætti haustið 1987. Steve Perryman stjórnaði liðinu fáeina leiki eftir að Ossie Ardiles var rekinn í október 1994 og áður en Gerry Francis tók við en svo þegar Francis hætti þremur árum seinna sá Chris Hughton um liðið í nokkra daga áður en svisslendingurinn Christian Gross tók við. Gross entist heilan meðgöngutíma áður en David Pleat tók við liðinu eitt augnablik á meðan verið var að ráða erkióvininn George Graham. Hann (Pleat) tók svo aftur við eftir að Graham var rekinn og áður en Glenn Hoddle var ráðinn! Enn tók Pleat við til bráðabirgða þegar Hoddle hætti en síðan var Frakkinn Santini ráðinn en hætti eftir nokkrar vikur. Næst var komið að Clive Allen að sinna liðinu til bráðabirgða eftir að Martin Jol var rekinn 2007 og nú er það Tim Sherwood sem stjórnar liðinu tímabundið. Fljótt á litið sýnist mér þetta vera 22 stjórar í heildina á 34 árum en reyndar aðeins að því gefnu að mér hafi tekist að telja rétt. Þetta er auðvitað ALLTOF mikið!


Alveg frá því að Burkinshaw hætti hefur maður haft þá trú að komið sé að því að ráða mann sem geti byggt upp alvöru lið og nú hlýtur maður að gera þá kröfu að Spurs fái stjóra sem fær að vinna vinnuna sína í friði. Santini (hann hætti reyndar óvænt sjálfur ef ég man rétt), Jol, Ramos og Villas-Boas voru allt menn sem ég hafði trú á en þolinmæði stjórnarmannsins Daniel Levy virðist vera afskaplega takmörkuð. Þarna eru líklega einungis peningasjónarmið sem gilda.

Það virðist þó litlu máli skipta hvaða nafn verður nefnt í tengslum við nýjan stjóra. Miðað við reynslu Tottenham aðdáenda og þolinmæði stjórnarmannsins þá má ganga að því vísu að sá nýji fái 1-3 tímabil áður en hann verður rekinn. Sjálfur hef ég ákveðnar skoðanir eða hugmyndir á því hvaða menn ætti að ræða við en miðað við fyrri reynslur er alveg eins gott að ráða Mikka mús í starfið.

ÁFRAM TOTTENHAM!


No comments:

Post a Comment