Árið 1975 léku Skagamenn í Evrópukeppni meistaraliða, sem í dag er reyndar sjálf Meistaradeildin, og öttu þar kappi gegn kýpverska meistaraliðinu Omonia Nicosia. Fyrri leikur liðanna fór fram á grjóthörðum leirvelli, á Kýpur, í um 40° hita og töpuðu ÍA þar með tveimur mörkum gegn einu eftir að hafa verið yfir í frímínútunum. Seinni leikurinn fór svo fram á Laugardalsvellinum að viðstöddum tæplega 6000 áhorfendum og þar lék enginn vafi á hvort liðið væri betra. Skagamenn sigruðu með fjórum mörkum gegn engu og strax í kjölfar leiksins fóru af stað bollaleggingar um andstæðinga 2. umferðar.
Menn létu sig dreyma um stórlið þessa tíma; Bayern Munchen, Real Madrid eða Juventus en þegar Dinamo Kiev, sem þá tilheyrði auðvitað gömlu Sovétríkjunm, kom upp úr pottinum varð ljóst að draumurinn var orðinn að risastórri martröð. Auðvitað var Dinamo Kiev algjört yfirburðarlið í heimsklassa og með einn besta knattspyrnumann Evrópu, Oleg Blokhin, í sínum röðum en í rauninni var Kiev liðið nánast landslið Sovétríkjanna á þessum árum. Aðal martröð Skagamanna fólst hins vegar í því að fjárhagslega yrði þetta 5000 km ferðalag afskaplega erfiður baggi.
Fyrri leikurinn, sem fram fór í Kiev, var auðvitað eitt risastórt ævintýri fyrir leikmenn Akranes en heimamenn sigruðu með þremur mörkum gegn engu að viðstöddum um 55.000 áhorfendum og þótti bara nokkuð vel sloppið. Leikmenn ÍA voru allir sammála um að aldrei hefðu þeir nokkurn tímann áður leikið gegn öðru eins liði.
Sovétmennirnir tóku einkar vel á móti Skagamönnum og fóru að öllu leyti með íslensku áhugamennina eins og þjóðhöfðingja. Aðbúnaðurinn var til fyrirmyndar og eftir leikinn vildu heimamenn allt fyrir litla Akranes gera. Þegar liðin gengu af velli ætluðu leikmenn Skagamanna ekki að trúa sínum eigin eyrum þegar Haukur Morthens hóf allt í einu að óma um hátalarakerfi vallarins með lagið um Simba sjómann! Forráðamenn Kiev liðsins langaði svo að gera eitthvað eftirminnilegt fyrir gestina að þeir grófu einhvers staðar upp gamlar upptökur af Hauki sem hafði slegið í gegn í Sovétríkjum mörgum árum áður.
Sovétmennirnir tóku einkar vel á móti Skagamönnum og fóru að öllu leyti með íslensku áhugamennina eins og þjóðhöfðingja. Aðbúnaðurinn var til fyrirmyndar og eftir leikinn vildu heimamenn allt fyrir litla Akranes gera. Þegar liðin gengu af velli ætluðu leikmenn Skagamanna ekki að trúa sínum eigin eyrum þegar Haukur Morthens hóf allt í einu að óma um hátalarakerfi vallarins með lagið um Simba sjómann! Forráðamenn Kiev liðsins langaði svo að gera eitthvað eftirminnilegt fyrir gestina að þeir grófu einhvers staðar upp gamlar upptökur af Hauki sem hafði slegið í gegn í Sovétríkjum mörgum árum áður.
Seinni leikur liðanna fór síðan fram í Reykjavík þann 5. nóvember. Eðlilega var auðvitað enginn knattspyrnuvöllur á landinu leikfær á þessum tíma árs, enda um tveir mánuðir síðan íslenska keppnistímabilinum lauk. Því var ekki um annað að ræða en að spila á gamla Melavellinum, auk þess sem hann var líka eini nothæfi völlurinn sem hafði yfir flóðljósum, að vísu frekar frumstæðum, að ráða.
Forráðamönnum Dinamo Kiev var boðið upp á Akranes í skoðunarferð, enda voru þeir með eindæmum forvitnir um sementsbæinn eftir að þeir heyrðu að þar byggju aðeins tæplega 5000 íbúar. Einn þeirra átti mjög erfitt með að trúa því og á að hafa sagt í forundran; "Ha, aðeins fimm þúsund!? Það eru álíka margir og búa í blokkinni minni!"
Rúmlega 4000 áhorfendur borguðu sig inn á Melavöllinn þetta eftirminnilega nóvemberkvöld og þrátt fyrir 0-2 tap ÍA fyrir sovésku meisturunum, þar sem þeir brenndu meðal annars af vítaspyrnu, þá stóðu Skagamenn sig vonum framar. Byrjun leiksins þótti reyndar göldrum líkust, af hálfu Sovétmannanna, því þeir dunduðu sér við það fyrstu tvær mínúturnar að láta leikmenn Akranes eltast við boltann án þess að snerta hann. Íslenskir áhorfendur höfðu aldrei séð annað eins.
Flestir voru sammála um að Skagamenn hefðu verið landi og þjóð til sóma í leiknum og Sovétmennirnir hrósuðu heimamönnum fyrir góðan leik af áhugamannaliði að vera. Það var helst að gestunum þætti lítt til gamla Melavallarins koma og fannst aðstæðurnar á pollablautum malarvellinum jafnvel draga eilítið úr gæðum knattspyrnunnar.
Leikmenn Dinamo Kiev voru á þessum árum miklar stjörnur í sínu heimalandi en lífsgæði þeirra voru, eins og kannski gefur að skilja, engan veginn sambærileg við stjörnulíf íþróttafólks í dag. Litlum sögum fer af þeim forréttindum sem afreksfólk gömlu Sovétríkjanna nutu á tímum kalda stríðsins en þó má reikna með að helstu stjörnum kommúnistaríkisins hafi verið umbunað á einhvern hátt fyrir afrek sín. Sjálfsagt lifðu leikmenn Dinamo Kiev engu kóngalífi en ólíklegt er þó að þeir hafi þurft að lifa í sárri fátækt líkt og margir samlanda þeirra.
Sagan segir að þeirra helsta stjarna, Oleg Blokhin, hafi notað tækifærið í heimsókn liðsins til Íslands, að biðla til forráðamanna Akranes liðsins um verða sér innan handar um að útvega sér hjólkoppa undir hina sovésku Volgu bifreið sína. Það eitt gefur vísbendingu um að Blokhin hafi, í það minnsta, notið þeirra forréttinda að eiga bíl en það er meira en stærsti hluti almúgans í Sovétríkjunum áttu kost á í kalda stríðinu.
Skagamennirnir brugðust vel við beiðni "Knattspyrnumanns Evrópu" og hópur manna lagði út í leiðangur í leit að hjólkoppum fyrir kappann en einhverra hluta vegna voru slíkir dýrgripir ófáanlegir í heimalandi Volgunnar. Heimamönnum tókst þó að hafa upp á koppunum áður en lið Dinamo Kiev hélt af landi brott og Oleg Blokhin var glaður í bragði er hann steig um borð í einkaþotu liðsins sem flaug með þá beina leið heim til Sovétríkjanna. Ekki fylgir reyndar sögunni í hvers konar ástandi hjólkoppar Olegs Blokhins voru en sagan er í það minnsta góð.
No comments:
Post a Comment