Tuesday, September 17, 2013

26. DÝRALÍF Á KNATTSPYRNUVELLINUM

Það kemur stundum fyrir að utanaðkomandi aðdáendur, í formi ferfætlinga, laumi sér inn á yfirstandandi knattspyrnuleiki og reyni að ná sér í sæti á besta stað. Oftar en ekki eru þessir bestu staðir reyndar því miður niðri á vellinum sjálfum og því ekki alveg með æskilegustu staðsetningunum til að fylgjast með leiknum. Í flestum þessa tilfella er um að ræða hunda eða ketti og einhvern tímann höfum við einmitt minnst á það, er hundskvikindi eitt heimsótti leik í 8 liða úrslitum HM í Chile árið 1962 en það atvik má sjá hér.

Mörgum er sjálfsagt enn í fersku minni, í júní árið 2012, þegar köttur einn gerði sig heimakominn á Akranesvelli, í leik gegn ÍBV, en sá lét reyndar bara duga að heimsækja varamannabekkinn hjá ÍA. Þórður Guðjónsson formaður knattspyrnudeildar bjargaði kisa áður en hann færi sér alvarlega að voða inn á vellinum sjálfum.


Í febrúar sama ár kíkti grábröndóttur kisi á Anfield Road í Liverpool en þar voru Tottenham í heimsókn að yfirspila heimamenn að venju. Sá bröndótti rölti eilítið um grænar grundir Anfield áður en hann sá þann kostinn skynsamastan að koma sér sjálfur í öruggt skjól.


Þessi köttur varð á svipstundu gríðarlega vinsæll um heim allan og varð á fljótlega þekktur undir nafninu Anfield kötturinn. Seinna kom reyndar í ljós að kisi átti heima í nærliggjandi götu og var víst fastagestur á vallarsvæðinu, þótt ekki væri vitað til að hann hefði áður heimsótt leikvanginn sjálfan. Í dag á hann yfir 60.000 fylgjendur á Tvitter.


Og auðvitað er þetta allt til á vídeói...


Í úrslitaleik Evrópudeildarinnar árið 2009 áttust við Shakhtar Donetsk og Werder Bremen í Istanbul en þar fékk tyrkneskur kisi heilmikla athygli hjá viðstöddum. Sá var reyndar ekkert að trufla leikinn neitt sérstaklega en rölti forvitnislega meðfram hliðarlínunni áður en hann ákvað að njóta leiksins frekar úr stúkunni.

 
 
Næst er upplagt að kíkja aðeins á Upton Park í Lundúnum en þar kom hundkvikindi eitt við sögu í leik West Ham gegn Liverpool veturinn 1972. Ray Clemence, markvörður Liverpool og enska landsliðsins, var ekkert að æsa sig mikið yfir viðveru hundsins á vellinum, þannig að sá notfærði sér aðstöðuna og merkti sér svæði eins og hunda er auðvitað siður.
 
 
Og í dýrahorni dagsins er að lokum upplagt að kíkja aðeins á sígilt vídeó af 4. deildar leik Colchester og Brentford frá því í febrúar 1969. Hundurinn sem lék aðalhlutverkið í þessu tilfelli hafði það reyndar á samviskunni að stórskaða hinn skoska markvörð Brentford, sem hét Chic Brodie, með því að mölbrjóta á honum hnéskelina.


Brodie lauk atvinnumannaferli sínum þarna á dýrkeyptan og hundleiðinlegan hátt, spilaði ekki alvöru fótbolta framar og fór að keyra leigubíl eftir að ferlinum lauk.


Hann lést árið 2000, 63ja ára að aldri og varð, þrátt fyrir að hafa spilað í kringum 400 leiki á ferlinum, þekktastur fyrir að hafa orðið fyrir þessari frægu hundatæklingu.

Það má kannski geta þess, í framhjáhlaupi, að tæplega 45 árum seinna réðist annar hundur á leikmann (að þessu sinni varnarmann hjá Chelsea) og beit hann. Sá bitvargur fékk reyndar tíu leikja bann fyrir athæfið en það er önnur saga...

No comments:

Post a Comment