Wednesday, November 6, 2013

40. FYRSTA BRESKA LIÐIÐ TIL AÐ VINNA EVRÓPUTITIL

Árið 1954 var Evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) stofnað og strax haustið eftir var Evrópukeppni meistaraliða sett á laggirnar en hugmyndin að þeirri keppni var sú að meistaralið hvers lands í Evrópu kepptu sín á milli ár hvert. Þessi keppni er í dag kunn sem sjálf Meistaradeildin eins og allir vita. Sama ár fór einnig af stað keppni sem nefndist á íslensku Borgarkeppni Evrópu (Inter-Cities Fairs Cup) en árið 1971 var nafninu á henni breytt í Evrópukeppni félagsliða. Árið 1960 hófst hins vegar Evrópukeppni bikarhafa og lengi vel voru þessar þrjár keppnir í gangi í Evrópu en árið 1999 voru þær tvær síðast töldu sameinaðar í eina og sú keppni er í dag þekkt sem Evrópudeildin. Fyrstu árin einokuðu spænsk, ítölsk og portúgölsk lið þessar þrjár keppnir og var það helst Real Madrid sem var yfirburðarlið í Evrópu á þessum árum.
 
Tottenham Hotspur varð fyrsta breska liðið til að vinna einhverja af þessum þremur Evrópukeppnum sem voru í gangi en það gerðist þó ekki fyrr en árið 1963. Þá unnu þeir Evrópukeppni bikarhafa en sú keppni var þá haldin í þriðja sinn. West Ham sigraði síðan sömu keppni árið 1965 og ensku liðin voru þarna smán saman að koma sér fyrir sem sigurvegarar í Evrópu. Það var hins vegar ekki fyrr en Glasgow Celtic vann Evrópukeppni meistaraliða árið 1967 sem breskt lið vann fyrst stóru keppnina og árið eftir sigraði Man Utd sömu keppni eins og frægt er.


En það var sem sagt Tottenham sem reið á vaðið. Liðið sat hjá í fyrstu umferð keppninnar en síðan var komið að því að slá Glasgow Rangers út úr keppninni. Fyrst 5-2 á White Hart Lane með um 60.000 áhorfendum og síðan 3-2 á Ibrox að viðstöddum tæplega 80.000 manns. Í næstu umferð mætti Spurs tékkneska liðinu Slovan Bratislava og töpuðu fyrri leiknum úti 2-0 en slátruðu Tékkunum í London með sex mörkum gegn engu. Í undanúrslitum keppninnar mætti liðið OFK Beograd frá Júgóslavíu og hafði betur í báðum leikjunum, 2-1 á útivelli og svo 3-1 heima.


Úrslitaleikur Evrópukeppnar bikarhafa veturinn 1962-3 fór fram á Feyenoord Stadion í Rotterdam, miðvikudaginn 15. maí 1963 að viðstöddum um 50.000 áhorfendum, á milli Tottenham Hotspur og Atletico Madrid. Madridar liðið hafði rústað Fiorentina í úrslitaleik árið áður og þóttu ekki óáræðilegir andstæðingar. En spænska liðið var ekki mikil fyrirstaða fyrir Spurs í þessum leik. Það voru ekki nema kortér búið af leiknum þegar Jimmy Greaves var búinn að skora fyrir Tottenham eftir hraða sókn upp hægri kantinn.

 
John White bætti við öðru marki á 35. mínútu en White þessi var skoskur landsliðsmaður sem hlaut frekar dapurleg örlög. Sumarið 1964 varð hann fyrir eldingu á golfvelli í London og lést af völdum hennar aðeins 27 ára að aldri.


Staðan í leikhléi var 2-0 Spurs í vil en snemma í seinni hálfleiknum minnkaði spænski landsliðsmaðurinn Enrique Collar muninn úr vítaspyrnu og allt í einu var leikurinn opinn upp á gátt. Tuttugu mínútum seinna skoraði síðan Terry Dyson með skoti utan af kanti sem markmaður spænska liðsins missti ansi klaufalega yfir sig. Tíu mínútum fyrir leikslok skoraði Greaves aftur og staðan því orðin 4-1 en Dyson innsiglaði sigurinn með glæsilegu marki fimm mínútum seinna. Lokatölur urðu því 5-1 fyrir Spurs og félagið varð því, eins og áður segir, fyrsta breska liðið til að sigra í Evrópukeppni. 

Fyrirliðinn og goðsögnin Danny Blanchflower tók við bikarnum í leikslok og enn ein skrautfjöðrin bættist í titlasafn Tottenham á þessum árum en liðið hafði einnig unnið deildina og Bikarinn árin á undan.


Og auðvitað var líka tekinn sigurhringur með bikarinn eins og venjan er.


Hér er svo hægt að sjá myndband með helstu atriðum úr úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa árið 1963 á milli Tottenham Hotspur og Atletico Madrid.

 


No comments:

Post a Comment