Nú styttist heldur betur í stærstu leiki íslenskrar knattspyrnusögu og almenningur skiptist annars vegar í pirring yfir meintu miðasölusamsæri KSÍ (reyndar fullkomlega réttlætanlega) og hins vegar í djúpstæðar vangaveltur um veður- og vallaraðstæður á Laugardalsvelli þann 15. nóvember næstkomandi. Við Tumi höfum ákveðið að láta KSÍ mafíuna ekki skemma fyrir okkur stemmninguna í kringum leikinn og því ætlum við að skella okkur í veðrið að þessu sinni.
Fjölmiðlar voru augljóslega búnir að vera að bíða eftir fyrstu spám, frá þeim norsku veðurvefum sem mest er mark takandi á hér á landi, því strax snemma í síðustu viku voru komnar vangaveltur um stórhríð og Íslandsmet í frosthörkum á leikdag. DV greindi frá því í fyrirsögn að leikurinn væri í uppnámi og fengu jafnvel alvöru veðurfræðing til að rýna í óljósar gervitunglaspár og segja frá því versta sem í boði væri. Notuð voru framandi orð eins og "snjóstormur" og hótanir um 10 stiga frost áttu að vera vísbending um að ísöld hæfist á leikdag. Þetta var að morgni 5. nóvember og því enn heilir tíu dagar í leikinn! Svartsýni Íslendinga er greinilega engum takmörkum sett.
Í dag er hins vegar kominn mánudagur og því aðeins fjórir dagar til stefnu. Það er búið að breiða risastóran tjalddúk yfir Laugardalsvöllinn en dúkurinn var sóttur alla leið til útlanda og með honum fylgdu fjórir starfsmenn sem skiptast á vöktum við að blása heitu lofti undir hann. Þetta á allt saman að vera alveg ægilega fínt og framandi og ekki minnkaði metnaðurinn við það að umsjónarmenn vallarins vítamínbættu grasið og báru við járnskorti. Dúkurinn byrjaði reyndar að blakta eitthvað í rokinu um helgina en hann fór ekki langt. Þökk sé vakthafandi blástursmönnum. Og snefilefnin gerðu Laugardalsvöllinn fagurgrænan um íslenskan hávetur.
Veðurspár eru heldur að skýrast og í augnablikinu má gera ráð fyrir frekar eðlilegu vetrarveðri á leikdag á milli lægða en það hljóðar eitthvað á þá leið að reiknað er með vestan éljagangi, með hita í kringum frostmark. Ekkert sem ætti að koma á óvart þar miðað við árstíma.
En til gamans er ekki svo vitlaust að rýna í lokin aðeins í veður í Reykjavík þann 15. nóvember á undanförnum árum. Myndin hér fyrir neðan er til dæmis frá 15. nóvember árið 2004 og er tekin á Gróttuvellinum á Seltjarnarnesi. Guttarnir þarna virðast ekki vera í miklum erfiðleikum með að spila fótbolta í smá snjó en líklega gerir FIFA aðeins meiri kröfur um vallaraðstæður á föstudaginn.
Veðurspár eru heldur að skýrast og í augnablikinu má gera ráð fyrir frekar eðlilegu vetrarveðri á leikdag á milli lægða en það hljóðar eitthvað á þá leið að reiknað er með vestan éljagangi, með hita í kringum frostmark. Ekkert sem ætti að koma á óvart þar miðað við árstíma.
En til gamans er ekki svo vitlaust að rýna í lokin aðeins í veður í Reykjavík þann 15. nóvember á undanförnum árum. Myndin hér fyrir neðan er til dæmis frá 15. nóvember árið 2004 og er tekin á Gróttuvellinum á Seltjarnarnesi. Guttarnir þarna virðast ekki vera í miklum erfiðleikum með að spila fótbolta í smá snjó en líklega gerir FIFA aðeins meiri kröfur um vallaraðstæður á föstudaginn.
ÁFRAM ÍSLAND!
No comments:
Post a Comment