Sunday, November 17, 2013

43. 90 MÍNÚTUR Í VIÐBÓT

Þá er víst kominn hálfleikur í umspilsviðureignum Íslands og Króatíu fyrir laust sæti á HM í Brasilíu í sumar og íslenska liðið getur sko alveg vel við unað með stöðuna. 0-0 eru frábær úrslit og þá sérstaklega með það í huga að Króatarnir léku manni fleiri stóran hluta leiksins en sérstaklega er mikilvægt að þeir náðu ekki að skora mark hjá okkur. Íslenska liðið stóð sig frábærlega miðað við aðstæður og stuðningurinn á vellinum var einstakur. Ég held ég hafi aldrei áður heyrt troðfullan Laugardalsvöllinn syngja áður allan þjóðsönginn. Venjulega heyrast bara örfáar hræður taka undir í lok söngsins þegar Ísland þúsund ár hljómar í einfaldasta hlutanum.
 
 
Nú er það eina, sem getur komið í veg fyrir að Ísland komist á HM, er að Króatía vinni heimaleik sinn. Hmmmmm... og það er reyndar töluverðar líkur. En ef staðan er 0-0 eftir venjulega leiktíma í seinni leiknum í Króatíu, þá er Ísland enn inni og þá verður gripið til framlengingar en önnur jafntefli (með mörkum) tryggja það að Strákarnir okkar komast á HM. Hvert einasta mark sem Ísland skorar í seinni leiknum getur orðið dýrmætt því að þá þurfa Króatarnir alltaf að skora einu meira.


Þá er gaman að velta sér aðeins upp úr þeim vangaveltum, sem í gangi voru fyrir umspilið, um gegn hvaða þjóð væri heppilegast að lenda með tilliti til möguleika á að komast á HM. Flestir voru á þeirri skoðun að Íslendingar ættu skárstu möguleikana gegn Grikkjum og einhverjir nefndu einnig Úkraínu sem heppilegan mótherja. Báðar þessar þjóðir unnu hins vegar sína fyrri leiki í umspilinu nokkuð örugglega á heimavelli. Grikkland sigraði Rúmeníu 3-1 á meðan Úkraína vann Frakkland 2-0. Menn voru almennt sáttir við að mæta Króatíu og fegnir að þurfa ekki að mæta Portúgölum en hins vegar er spurning hvort ekki hefði bara verið hentugast að spila við Frakka ef það hefði verið í boði? En eins og staðan er núna í einvíginu getur Ísland vel við unað.
 
 
Fyrirfram hefur verið talað um umspilsleikina sem stærstu og mikilvægustu leiki íslenskrar knattspyrnu til þessa en eftir fyrri leikinn hefur eiginlega alveg gleymst að minnast á að úrslitin séu einnig einhver þau stærstu og bestu sem landsliðið hefur náð. Sigrar gegn Austur Þýskalandi 1975, Wales 1984, Spánverjum 1991, Tékkum 2001, Ítölum 2004 og jafntefli við Wales 1981, Þýskaland 2003 og heimsmeistara Frakka árið 1998 hafa oft verið nefnd sem þau úrslit sem staðið hafa upp úr hjá liðinu í gegnum tíðina. Þetta jafntefli við Króatíu má einnig tvímælalaust setja í sama flokk og ekki síst með mikilvægi hans sem úrslitaleiks í huga. Síðari leikurinn á þriðjudaginn verður mikilvægasti leikur Íslands frá upphafi og vonandi verða úrslit hans einnig þau stærstu í knattspyrnusögu Íslands.

ÁFRAM ÍSLAND!

No comments:

Post a Comment