Friday, September 27, 2013

29. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Spár spekinganna komnar á sinn stað og menn bíða spenntir eftir úrslitum helgarinnar. Annars er Tumi enn efstur með 33 stig, Helgi hefur 25 og Garðar er með 24.
 
TOTTENHAM – CHELSEA
Tumi: 1-1
Garðar: 2-1 Þetta hlýtur að enda með sigri okkar manna og Soldado skorar.
Helgi: 1-1 Lundúnajafnteflisfnykur af þessu.
 
MAN UTD – WBA
Tumi: 2-0
Garðar: 2-0 Man jú má alveg vinna einn og einn leik.
Helgi: 3-0 Ég skil ekki að júnæted ætti að geta tapað svona leik.
 
ASTON VILLA – MAN CITY
Tumi: 0-3
Garðar: 0-2 Lundúnaslagur af bestu gerð.
Helgi: 1-3 Bentekelausir Villa tapa fyrir liðinu sem van júnæted um daginn.
 
SWANSEA – ARSENAL
Tumi: 0-3
Garðar: 3-2 Þetta er pottþétt svanasöngur Wengers og hriplekrar varnar hans.
Helgi: 1-2 Michu skorar fyrir svanina en Özil leggur upp tvö fyrir Arsn'l.

SUNDERLAND – LIVERPOOL
Tumi: 0-2
Garðar: 1-0 Einhver Di bráðabirgði stýrir þeim sunderlandísku til sigurs gegn LSD.
Helgi: 1-2 Leikmenn Sunderland æstir í að sanna sig fyrir verðandi stjóra en allt kemur fyrir ekki neitt og Sturridge og Suarez vinna leikinn fyrir LFC.
 
EVERTON - NEWCASTLE
Tumi: 2-1
Garðar: 1-1 Þetta er steindautt jafntefli og Alan Shearer skorar líklega ekki.
Helgi: 1-1 alls konar læti og rauð spjöld, Jelavic skorar fyrst og Cabayayayayayaa jabbnar.

Sunday, September 22, 2013

28. DINAMO KIEV Á MELAVELLINUM OG HJÓLKOPPARNIR HANS OLEG BLOKHIN

Árið 1975 léku Skagamenn í Evrópukeppni meistaraliða, sem í dag er reyndar sjálf Meistaradeildin, og öttu þar kappi gegn kýpverska meistaraliðinu Omonia Nicosia. Fyrri leikur liðanna fór fram á grjóthörðum leirvelli, á Kýpur, í um 40° hita og töpuðu ÍA þar með tveimur mörkum gegn einu eftir að hafa verið yfir í frímínútunum. Seinni leikurinn fór svo fram á Laugardalsvellinum að viðstöddum tæplega 6000 áhorfendum og þar lék enginn vafi á hvort liðið væri betra. Skagamenn sigruðu með fjórum mörkum gegn engu og strax í kjölfar leiksins fóru af stað bollaleggingar um andstæðinga 2. umferðar.


Menn létu sig dreyma um stórlið þessa tíma; Bayern Munchen, Real Madrid  eða Juventus en þegar Dinamo Kiev, sem þá tilheyrði auðvitað gömlu Sovétríkjunm, kom upp úr pottinum varð ljóst að draumurinn var orðinn að risastórri martröð. Auðvitað var Dinamo Kiev algjört yfirburðarlið í heimsklassa og með einn besta knattspyrnumann Evrópu, Oleg Blokhin, í sínum röðum en í rauninni var Kiev liðið nánast landslið Sovétríkjanna á þessum árum. Aðal martröð Skagamanna fólst hins vegar í því að fjárhagslega yrði þetta 5000 km ferðalag afskaplega erfiður baggi.
 
 
Fyrri leikurinn, sem fram fór í Kiev, var auðvitað eitt risastórt ævintýri fyrir leikmenn Akranes en heimamenn sigruðu með þremur mörkum gegn engu að viðstöddum um 55.000 áhorfendum og þótti bara nokkuð vel sloppið. Leikmenn ÍA voru allir sammála um að aldrei hefðu þeir nokkurn tímann áður leikið gegn öðru eins liði.


Sovétmennirnir tóku einkar vel á móti Skagamönnum og fóru að öllu leyti með íslensku áhugamennina eins og þjóðhöfðingja. Aðbúnaðurinn var til fyrirmyndar og eftir leikinn vildu heimamenn allt fyrir litla Akranes gera. Þegar liðin gengu af velli ætluðu leikmenn Skagamanna ekki að trúa sínum eigin eyrum þegar Haukur Morthens hóf allt í einu að óma um hátalarakerfi vallarins með lagið um Simba sjómann! Forráðamenn Kiev liðsins langaði svo að gera eitthvað eftirminnilegt fyrir gestina að þeir grófu einhvers staðar upp gamlar upptökur af Hauki sem hafði slegið í gegn í Sovétríkjum mörgum árum áður.

 
Seinni leikur liðanna fór síðan fram í Reykjavík þann 5. nóvember. Eðlilega var auðvitað enginn knattspyrnuvöllur á landinu leikfær á þessum tíma árs, enda um tveir mánuðir síðan íslenska keppnistímabilinum lauk. Því var ekki um annað að ræða en að spila á gamla Melavellinum, auk þess sem hann var líka eini nothæfi völlurinn sem hafði yfir flóðljósum, að vísu frekar frumstæðum, að ráða.

 
Forráðamönnum Dinamo Kiev var boðið upp á Akranes í skoðunarferð, enda voru þeir með eindæmum forvitnir um sementsbæinn eftir að þeir heyrðu að þar byggju aðeins tæplega 5000 íbúar. Einn þeirra átti mjög erfitt með að trúa því og á að hafa sagt í forundran; "Ha, aðeins fimm þúsund!? Það eru álíka margir og búa í blokkinni minni!"
 

Rúmlega 4000 áhorfendur borguðu sig inn á Melavöllinn þetta eftirminnilega nóvemberkvöld og þrátt fyrir 0-2 tap ÍA fyrir sovésku meisturunum, þar sem þeir brenndu meðal annars af vítaspyrnu, þá stóðu Skagamenn sig vonum framar. Byrjun leiksins þótti reyndar göldrum líkust, af hálfu Sovétmannanna, því þeir dunduðu sér við það fyrstu tvær mínúturnar að láta leikmenn Akranes eltast við boltann án þess að snerta hann. Íslenskir áhorfendur höfðu aldrei séð annað eins.


Flestir voru sammála um að Skagamenn hefðu verið landi og þjóð til sóma í leiknum og Sovétmennirnir hrósuðu heimamönnum fyrir góðan leik af áhugamannaliði að vera. Það var helst að gestunum þætti lítt til gamla Melavallarins koma og fannst aðstæðurnar á pollablautum malarvellinum jafnvel draga eilítið úr gæðum knattspyrnunnar.


Leikmenn Dinamo Kiev voru á þessum árum miklar stjörnur í sínu heimalandi en lífsgæði þeirra voru, eins og kannski gefur að skilja, engan veginn sambærileg við stjörnulíf íþróttafólks í dag. Litlum sögum fer af þeim forréttindum sem afreksfólk gömlu Sovétríkjanna nutu á tímum kalda stríðsins en þó má reikna með að helstu stjörnum kommúnistaríkisins hafi verið umbunað á einhvern hátt fyrir afrek sín. Sjálfsagt lifðu leikmenn Dinamo Kiev engu kóngalífi en ólíklegt er þó að þeir hafi þurft að lifa í sárri fátækt líkt og margir samlanda þeirra.


Sagan segir að þeirra helsta stjarna, Oleg Blokhin, hafi notað tækifærið í heimsókn liðsins til Íslands, að biðla til forráðamanna Akranes liðsins um verða sér innan handar um að útvega sér hjólkoppa undir hina sovésku Volgu bifreið sína. Það eitt gefur vísbendingu um að Blokhin hafi, í það minnsta, notið þeirra forréttinda að eiga bíl en það er meira en stærsti hluti almúgans í Sovétríkjunum áttu kost á í kalda stríðinu.


Skagamennirnir brugðust vel við beiðni "Knattspyrnumanns Evrópu" og hópur manna lagði út í leiðangur í leit að hjólkoppum fyrir kappann en einhverra hluta vegna voru slíkir dýrgripir ófáanlegir í heimalandi Volgunnar. Heimamönnum tókst þó að hafa upp á koppunum áður en lið Dinamo Kiev hélt af landi brott og Oleg Blokhin var glaður í bragði er hann steig um borð í einkaþotu liðsins sem flaug með þá beina leið heim til Sovétríkjanna. Ekki fylgir reyndar sögunni í hvers konar ástandi hjólkoppar Olegs Blokhins voru en sagan er í það minnsta góð.

Friday, September 20, 2013

27. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Föstudagur í dag og þá er auðvitað komið að vitringunum þremur. Eftir síðustu umferð er Tumi enn efstur með 27 stig, Helgi er kominn  upp í annað sætið með 19 stig en Garðar er í því þriðja með 18.

Og þá er komið að næstu leikjum sérfræðinganna úr 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en leikirnir sex að þessu sinni eru eftirfarandi;

LIVERPOOL - SOUTHAMPTON
Tumi: 2-0
Garðar: 1-1 Það er bara ekki forsvaranlegt að Liverpul geti verið svona ofarlega.
Helgi: 2-1 Sturridge og Enrique með mörkin en Lambert skorar fyrsta mark leiksins fyrir þá dýrlingsku.

WEST HAM - EVERTON
Tumi: 1-1
Garðar: 1-2 West Ham og Everton eru í hatrammri baráttu, um 9.-10. sætin í deildinni, sem sér ekki fyrir endann á. Efratúnungar hafa þó betur að þessu sinni.
Helgi: 0-1 Carroll og Colelausir Hammarar tapa heima fyrir Jelavic, Gareth Barry fær rautt.

CHELSEA - FULHAM
Tumi: 3-0
Garðar: 3-1 Chelsea hlýtur að fara að vakna til lífsins en Berbi skorar pottþétt fyrir þá fúlklæddu.
Helgi: 4-0 Lundúnaslagur þar sem Chel$ea er mikið í mun að bæta fyrir tapið í meistaradeildinni. Eto' skorar ekki.

ARSENAL - STOKE
Tumi: 3-0
Garðar: 2-1 Alltaf leiðinlegt þegar Arsenik vinnur en Stoke er bara ekki gott fótboltalið.
Helgi: 2-1 Þrjú rauð spjöld og fjögur sjálfsmörk í þriggja marka leik.

CARDIFF - TOTTENHAM
Tumi: 0-2
Garðar: 0-2 Sigur hjá mínum mönnum og líklega skorar hann Soldado.
Helgi: 1-1 Erfiður útileikur eftir Evrópuleik hjá Spurs, skrautfjaðrirnar farnar að tínast í meiðsli.

MAN CITY - MAN UTD
Tumi: 1-1
Garðar: 1-1 Hundleiðinlegt jafntefli alveg.
Helgi: 3-2 Manchester liðið vinnur og borgin verður blá á næstunni.

Tuesday, September 17, 2013

26. DÝRALÍF Á KNATTSPYRNUVELLINUM

Það kemur stundum fyrir að utanaðkomandi aðdáendur, í formi ferfætlinga, laumi sér inn á yfirstandandi knattspyrnuleiki og reyni að ná sér í sæti á besta stað. Oftar en ekki eru þessir bestu staðir reyndar því miður niðri á vellinum sjálfum og því ekki alveg með æskilegustu staðsetningunum til að fylgjast með leiknum. Í flestum þessa tilfella er um að ræða hunda eða ketti og einhvern tímann höfum við einmitt minnst á það, er hundskvikindi eitt heimsótti leik í 8 liða úrslitum HM í Chile árið 1962 en það atvik má sjá hér.

Mörgum er sjálfsagt enn í fersku minni, í júní árið 2012, þegar köttur einn gerði sig heimakominn á Akranesvelli, í leik gegn ÍBV, en sá lét reyndar bara duga að heimsækja varamannabekkinn hjá ÍA. Þórður Guðjónsson formaður knattspyrnudeildar bjargaði kisa áður en hann færi sér alvarlega að voða inn á vellinum sjálfum.


Í febrúar sama ár kíkti grábröndóttur kisi á Anfield Road í Liverpool en þar voru Tottenham í heimsókn að yfirspila heimamenn að venju. Sá bröndótti rölti eilítið um grænar grundir Anfield áður en hann sá þann kostinn skynsamastan að koma sér sjálfur í öruggt skjól.


Þessi köttur varð á svipstundu gríðarlega vinsæll um heim allan og varð á fljótlega þekktur undir nafninu Anfield kötturinn. Seinna kom reyndar í ljós að kisi átti heima í nærliggjandi götu og var víst fastagestur á vallarsvæðinu, þótt ekki væri vitað til að hann hefði áður heimsótt leikvanginn sjálfan. Í dag á hann yfir 60.000 fylgjendur á Tvitter.


Og auðvitað er þetta allt til á vídeói...


Í úrslitaleik Evrópudeildarinnar árið 2009 áttust við Shakhtar Donetsk og Werder Bremen í Istanbul en þar fékk tyrkneskur kisi heilmikla athygli hjá viðstöddum. Sá var reyndar ekkert að trufla leikinn neitt sérstaklega en rölti forvitnislega meðfram hliðarlínunni áður en hann ákvað að njóta leiksins frekar úr stúkunni.

 
 
Næst er upplagt að kíkja aðeins á Upton Park í Lundúnum en þar kom hundkvikindi eitt við sögu í leik West Ham gegn Liverpool veturinn 1972. Ray Clemence, markvörður Liverpool og enska landsliðsins, var ekkert að æsa sig mikið yfir viðveru hundsins á vellinum, þannig að sá notfærði sér aðstöðuna og merkti sér svæði eins og hunda er auðvitað siður.
 
 
Og í dýrahorni dagsins er að lokum upplagt að kíkja aðeins á sígilt vídeó af 4. deildar leik Colchester og Brentford frá því í febrúar 1969. Hundurinn sem lék aðalhlutverkið í þessu tilfelli hafði það reyndar á samviskunni að stórskaða hinn skoska markvörð Brentford, sem hét Chic Brodie, með því að mölbrjóta á honum hnéskelina.


Brodie lauk atvinnumannaferli sínum þarna á dýrkeyptan og hundleiðinlegan hátt, spilaði ekki alvöru fótbolta framar og fór að keyra leigubíl eftir að ferlinum lauk.


Hann lést árið 2000, 63ja ára að aldri og varð, þrátt fyrir að hafa spilað í kringum 400 leiki á ferlinum, þekktastur fyrir að hafa orðið fyrir þessari frægu hundatæklingu.

Það má kannski geta þess, í framhjáhlaupi, að tæplega 45 árum seinna réðist annar hundur á leikmann (að þessu sinni varnarmann hjá Chelsea) og beit hann. Sá bitvargur fékk reyndar tíu leikja bann fyrir athæfið en það er önnur saga...

Friday, September 13, 2013

25. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Loksins komið aftur að enska boltanum eftir landsleikjahlé síðustu helgar en að venju ætlum við sérfræðingar Boltabulls að spá og spekúlera aðeins um 6 leiki Úrvalsdeildarinnar. Tumi er enn efstur, með 20 stig, eftir fyrstu þrjár umferðirnar en næstur Garðar með 14 og svo Helgi með 12.
 
Annars eru sérfræðingaspárnar um leiki helgarinnar eftirfarandi:
 
MAN UTD - CRYSTAL PALACE
Tumi: 2-0
Garðar: 3-0 Palace er bara ekki nógu sterkt fyrir úrvalsdeildina. Rain Wooney skorar með skalla.
Helgi: 2-1 Ég man reyndar ekki eftir því að júnæted hafi unnið Crystal Palace en það er komið að því núna 2-1
 
TOTTENHAM - NORWICH
Tumi: 2-0
Garðar: 3-1 Léttur sigur minna manna - Soldado með eitt.
Helgi: 1-0 Spurs rústa þessu 8-0 og Bale skorar öll mörkin, neeeeiiii hann er víst farinn, þá fer leikurinn 1-0 og bakvörðurinn sem hefur engan áhuga á fótbolta (Asfalt Assaidi eða hvað hann heitir) skorar þegar hann er að lesa bók í markteignum.
 
SUNDERLAND - ARSENAL
Tumi: 0-1
Garðar: 0-2 DiCaprio veit ekkert um fótbolta og Wenger skorar eitt úr svefnpokanum sínum.
Helgi: 0-3 Sunderlandino tapar 0-3 fyrir le Arsenalles.
 
STOKE - MAN CITY
Tumi: 0-2
Garðar: 0-4 City er því miður allt of sterkt fyrir Stók.
Helgi: 3-3 Stoke og Sjittí gera 3-3 jafntefli, varnir hjá þessum liðum eru liðin tíð.
 
EVERTON - CHELSEA
Tumi: 0-2
Garðar: 1-2 Chelsea vinnur þetta og Torres skorar þrennu.
Helgi: 1-3 Móri og co. vinna öruggan 1-3 sigur á hárlausu Everton liðinu.
 
SWANSEA - LIVERPOOL
Tumi: 0-2
Garðar: 1-2 Swanirnir fljóta ekki vel á Lifrapolli á mánudögum.
Helgi: 0-1 Toppliðið heldur áfram að vinna 0-1 með marki frá Daniel Sturridge.

Sunday, September 8, 2013

24. IAN RUSH OG MAMMA HANS

Stundum er auðvitað alveg bráðnauðsynlegt að grafa upp gamlar og rykugar myndir af löngu gleymdum fótboltamönnum. Hér er til dæmis Walesverji einn sem gerðist atvinnumaður með Juventus á Ítalíu á 9. áratug síðustu aldar. Hann heitir Ian Rush (líka oft nefndur Lan Pus) og þótti ansi hreint markheppinn á köflum en ekki náði hann þó að festa rækilega sína fótboltarætur (hvað þá fætur) á Ítalíu. Til þess voru Ítalskir fótboltamenn líklega of varnarsinnaðir en algengustu markatölurnar í Seríu A á þessum árum voru 0-0.

 
Á myndinni hér fyrir ofan sést Rush ásamt móður sinni en hún náði líklega betri árangri við búningaþvott á Ítalíu en sonurinn á knattspyrnuvellinum. Þó þau móðginin séu þarna að hjálpast við að hengja Juve treyjuna upp á snúru þá var augljóslega ekki búið að þvo búninginn þegar myndin var tekin. Alla vega virðast svörtu rendurnar enn vera fastar í treyjunni!

Friday, September 6, 2013

23. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Það var frekar róleg stigasöfnunin hjá sérfræðingum Boltabulls um síðustu helgi því samtals fengu þeir aðeins tíu stig úr leikjum helgarinnar. Helgi náði fimm, Tumi þremur og Garðar tveimur. Tumi er þó enn efstur með 20 stig, Garðar hefur 14 og Helgi rekur lestina með aðeins 12 stig.
 
Það verður ekkert spilað í úrvalsdeildinni um þessa helgi, vegna einnar hinnar alræmdu landsleikjahelgar en spár næstu helgar birtast hér vonandi næsta fimmtudag.

Wednesday, September 4, 2013

22. LEIKIR GEGN SVISS Í FORTÍÐ OG NÚTÍÐ

Nú fer spennan, fyrir áframhaldandi góðri frammistöðu íslenska landsliðsins, að ná hámarki en tveir mikilvægir leikir liðsins í E-riðli HM í knattspyrnu eru framundan á næstu dögum. Á föstudagskvöldið leikum við gegn Svisslendingum í Bern og á þriðjudaginn í næstu viku koma Albanir og spila við okkur á Laugardalsvellinum. Því fer spennan núna verulega að magnast og línur að skýrast um hvort litla Ísland eigi virkilega möguleika á umspilssæti fyrir HM í fótbolta. Þessir tveir leikir geta ráðið miklu um það og góð frammistaða hjálpar mikið til í baráttunni en um leið geta slæm úrslit úr leikjunum tveimur gert þann draum að engu.

 
Það er vel við hæfi að fjalla aðeins um leiki Ísland og Sviss í gegnum tíðina, enda Tumi svissneskur í aðra höndina, en hann er merkilega fróður um svissneska knattspyrnu þótt hann sé aðeins 11 ára að aldri. Við mættum auðvitað báðir á fyrri leikinn sl. haust á Laugardalsvellinum ásamt Elísi Antoni, sérlegum knattspyrnulegum ráðunauti Boltabulls um svissneska knattspyrnu, og Silke Waelti eiginkonu Garðars og móður Tuma en hún er auðvitað svissnesk frá rótum og tók myndina af hinum sérfræðingunum hér fyrir neðan.
 
 
Sá leikur endaði, eins og almennt er kunnugt, með 0-2 ósigri Íslendinga en þau úrslit gerðu það að verkum að nánast útiloka möguleika á sigri Íslands í riðlinum og koma í veg fyrir liðið kæmist beint á HM.
 
 
Ísland hefur fimm sinnum mætt Svisslendingum á knattspyrnuvellinum og aldrei haft sigur. Síðast mættust liðin í október á síðasta ári, eins og áður hefur verið getið, en í undankeppni EM 96 lentu liðin einnig saman í riðli. Fyrri leikur liðanna fór þá fram þann 16. nóvember árið 1994 í Lausanne í Sviss og þar sigruðu heimamenn með einu marki gegn engu að viðstöddum um 16.000 áhorfendum. Seinni leikurinn fór svo fram á Laugardalsvellinum um miðjan ágúst árið 1995 og aftur unnu Svisslendingar en nú með tveimur mörkum gegn engu. Rúmlega 9000 áhorfendur sáu sér þá fært um að mæta í Laugardalinn, enda hafði íslenska liðið náð ágætum úrslitum í næstu leikjum sínum á undan í riðlinum gegn Ungverjum og Svíum. Ísland endaði þó í neðsta sæti riðilsins með fimm stig en léleg nýting á færum gerði það að verkum að liðið skoraði aðeins þrjú mörk í átta leikjum í keppninni. Landsliðsþjálfari Íslands á þessum árum var Ásgeir heitinn Elíasson.
 
Fyrstu leikir þjóðanna fóru hins vegar fram í undankeppninni fyrir EM 80 en Holland, Pólland og Austur Þýskaland voru einnig með liðunum tveimur í riðli. Fyrri leikurinn fór þá fram í Bern þann 22. maí árið 1979 en margir voru ósáttir við þá vanvirðingu sem liðunum var sýnd í kringum leikinn. Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) hélt þá upp á 75 ára afmæli sitt en höfuðstöðvar sambandsins eru staðsettar í Sviss. Í tilefni tímamótanna var ákveðið að liðin sem leikið höfðu til úrslita á HM tveimur árum áður, Holland og Argentína, skildu leika sýningaleik á Wankdorf vellinum í Bern og átti EM leikur Sviss og Íslands að vera forleikur að þeim leik. Rúmlega 50.000 áhorfendur sáu afmælisleikinn en um 20.000 voru sagðir hafa verið á "forleiknum" þar sem áhorfendur voru meira og minna að týnast inn á leikvanginn allan leikinn. Þeir höfðu auðvitað mestan áhuga á sýningaleiknum. Með liði Argentínu spilaði 19 ára efnilegur strákur, sem margir líktu við sjálfan Pelé, en sá gutti hét Diego Maradona! Hér er hann einmitt í leiknum.


Fyrirfram gætti nokkurrar bjartsýni hjá aðstandendum íslenska liðsins en aldrei áður hafði Ísland getað teflt fram jafn sterku liði á pappírnum og í þessum leik. Reyndar var svissneska liðið ekki hátt skrifað á þessum árum og hafði til að mynda ekki unnið leik síðan þeir unnu Bandaríkjamenn í september 1978. Í dag er Sviss í 15. sæti á heimslistanum góða. Annars var Íslands þannig skipað í leiknum: Þorsteinn Ólafsson, Jón Pétursson, Jóhannes Eðvaldsson, Marteinn Geirsson, Árni Sveinsson, Janus Guðlaugsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Atli Eðvaldsson, Arnór Guðjohnsen, Ásgeir Sigurvinsson og Pétur Pétursson. Karl Þórðarson og Ottó Guðmundsson komu síðan inn á sem varamenn.
Hér má sjá nokkra kappa íslenska landsliðsins í Bern daginn fyrir leikinn; Marteinn, Pétur, Ásgeir, Arnór, Árni og Ottó.
 
 
Landsliðið stóð sig nokkuð vel á köflum í leiknum og fékk mikið hrós fyrir góða frammistöðu sína stóran hluta leiksins en liðið var sterkara en hið svissneska í fyrri hálfleiknum og spilaði oft ágæta knattspyrnu. Úthaldið brást síðan þegar leið á leikinn enda voru nokkrir leikmanna liðsins að spila í fyrsta sinn á grasi þetta vorið. Eftir leikinn fullyrti Valsarinn Guðmundur Þorbjörnsson að Ísland hefði rassskellt Sviss ef leikurinn hefði verið nokkrum vikum seinna. Sviss sigraði að vísu með tveimur mörkum gegn engu en bæði mörkin þóttu slysaleg þar sem boltinn breytti um stefnu af Jóhannesi Eðvaldssyni - Búbba. Hér má einmitt sjá fyrra markið...


Og frá öðru sjónarhorni...


Vörn Íslands var reyndar í óöruggara lagi og heimamenn óðu í færum en í tvígang áttu þeir til að mynda skot sem reyndu á tréverkið í marki Íslendinga. Ásgeir Sigurvinsson skaut einnig í stöngina hjá heimamönnum undir lok leiksins. Þá áttu Svisslendingar líka skot á markið sem Þorsteinn markvörður varði innan línu en línuvörðurinn var ekki nógu vel staðsettur til að geta dæmt um mark. Í það minnsta var markvarslan rosaleg.


Einhverjir leikmanna Íslands viðurkenndu eftir leikinn að boltinn hefði verið inni og þar sluppu okkar menn fyrir horn. Hér sést atvikið frá annari hlið.


Þorsteinn og Ásgeir Sigurvinsson báru af leikmönnum Íslands í leiknum og þrátt fyrir tap þá gengu leikmenn liðsins sáttir af velli í leikslok. Þetta var fyrsti landsleikur Arnórs Guðjohnsen og varamaðurinn Ottó Guðmundsson var líka að spila sinn fyrsta leik.

Aðeins tæpum þremur vikum seinna áttust liðin síðan aftur við og í þetta skiptið á Laugardalsvellinum að viðstöddum hátt í 200 Svisslendingum sem fylgdust með. Það vantaði ekki bjartsýnina í forráðamenn knattspyrnusambandsins. Þeir voru duglegir í fjölmiðlum með  nokkuð digurbarkalegar yfirlýsingar um fyrirfram auðveldan sigur og skýrt kom fram að leikin skyldi sóknarknattspyrna að þessu sinni. Bjartsýni landsmanna var að mörgu leyti réttmæt. Svissneska liðið var alls ekki sterkt á þessum árum og ef íslenska landsliðið næði að sýna sínar bestu hliðar þá væru möguleikarnir allmiklir. Annars var íslenska liðið þannig skipað: Þorsteinn Ólafsson, Janus Guðlaugsson, Marteinn Geirsson, Jóhannes Eðvaldsson, Trausti Haraldsson, Guðmundur Þorbjörnsson (Árni Sveinsson), Ásgeir Sigurvinsson, Atli Eðvaldsson, Arnór Guðjohnsen, Teitur Þórðarson (Karl Þórðarson) og Pétur Pétursson. 

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð góður af hálfu íslenska liðsins. Þeir réðu að mestu gangi leiksins og Svisslendingarnir áttu ekki eitt einasta skot á markið í hálfleiknum. Snemma í leiknum skrúfaði Arnór Guðjohnsen boltanum í þverslána, úr hornspyrnu, með aðstoð svissneska markvarðarins og á einhvern einstaklega óheppilega hátt tókst varnarmönnum andstæðinganna ekki að reka tuðruna í netið, þar sem þeir þvældust um hann þvers og kruss á marklínunni. Fáum mínútum seinna skoraði Pétur Pétursson mark en dómari leiksins ákvað að Teitur Þórðarson hefði verið helst til of aðgangsharður við markvörðinn. Auðvitað voru allir Íslendingar á Laugardalsvellinum ósammála þeim dómi.


Myndaröðin hér fyrir neðan sýnir þetta enn betur. Smellið á myndirnar til að stækka þær.


Íslenska liðið átti nokkur ágæt skot að marki andstæðinganna í viðbót en staðan var samt enn 0-0 þegar liðin fengu sér kaffidreitil í hlénu. Heldur hresstust Svisslendingarnir í seinni hálfleiknum og að sama skapi dofnaði mikið yfir leik Íslendinga. Á 50. mínútu dró þó til tíðinda þegar Janus Guðlaugsson skoraði fínt mark eftir gott samspil við Arnór. Hér skýtur hann á markið...


Og samherjar hans fagna...


Þarna voru margir hinna 11.000 áhorfenda á Laugardalsvellinum farnir að gæla við sigur á Svisslendingum en íslensku leikmönnunum fataðist hins vegar eitthvað flugið við þá ábyrgð að vera allt í einu komnir yfir. Alla vega gleymdu þeir alveg að spila leikinn á fullu skriði eftir að þeir komust yfir. Sviss gekk á lagið og skoruðu tvö falleg mörk á fjögurra mínútna kafla þegar um hálftími var enn eftir. Seinna mark Svisslendinganna var sérlega glæsilegt en Heinz Hermann sendi þá boltann í netið með viðkomu í bæði stöng og slá. Aftur hresstust leikmenn Íslands og þeir fóru að sækja á ný en þrátt fyrir þokkaleg færi tókst liðinu ekki að jafna. Pétur skoraði aftur mark sem dæmt var af og einhverjir vildu fá vítaspyrnu undir lokin en leiknum lauk með sigri Svisslendinga 1-2. Þetta var fyrsti útisigur Sviss í 6 ár.


Ísland og Sviss hafa því mættst fimm sinnum á knattspyrnuvellinum og þeir síðarnefndu hafa alltaf haft sigur. Íslenska liðið hefur aðeins náð að skora eitt mark gegn þeim og vonandi er núna komið að því að bæta úr þeim markaskorti. Það væri vel til fundið, hjá íslenska liðinu, að láta slíkt tækifæri nýtast til að vinna þennan leik. ÁFRAM ÍSLAND!